Á morgun og fimmtudag, 29.-30. nóvember fara fram Vísindadagar en það eru óhefðbundnir skóladagar með þátttöku nemenda. Á Vísindadögum sýna nemendur hver öðrum og gestum þekkingarnám sitt. Allir nemendur eru vísindamenn en þeir eru mislangt komnir í öguðum vinnubrögðum við að afla sér þekkingar og svara knýjandi spurningum, t.d. með því að raða saman þekkingu á hugvitsamlegan hátt. Mikilvægur þáttur í sköpun nýrrar þekkingar er að deila henni hvert með öðru. Þessir dagar eru fyrir nemendur og þá þekkingu sem þeir vilja setja saman til að gera okkur öll vísari.
Dagskrá Vísindadaga er án skráningar í viðburði. Dagskráin er hér á heimasíðunni en hún hangir líka uppi víða um skólann og verður á tjaldi í Gryfjunni þegar engir viðburðir eru þar. Alls eru 48 þekkingarviðburðir í Vísindastofum sem hægt er að velja um.
Hleypt er inn í Vísindastofur á meðan húsrúm leyfir þannig að gott er að mæta tímanlega. Nemendurí 100% námi mæta í alla 9 stokka (9 mismunandi Vísindastofur) á miðvikudegi og fimmtudegi. Nýjung Vísindadaga 2017 eru 14 gestafyrirlesarar í stofu 17 báða dagana sem fræða okkur um rannsóknir sínar sem flestar tengjast Vestfjörðum.
Dómnefnd verður að störfum báða dagana sem velur bestu sýninguna og bestu kynninguna á Vísindadögum. Einnig verður Vísindagetraun í gangi. Tilkynnt verður um hverjir sigurvegararnir eru í lokaathöfninni á fimmtudaginn.
Við hvetjum foreldra, forráðamenn og aðra áhugasama til að taka þátt í dagskrá Vísindadaganna. Gleðileg vísindi.