Viðbrögð vegna COVID-19

22 ágú 2020

Stundatafla 24. - 28. ágúst

Stundatafla bóknámshúss, efri og neðri hæð, vikuna 24. - 28. ágúst. 

Skólastarf hefst með breyttum hætti vegna covid 19. Við fylgjum sóttvarnarreglum til þess að gera starfsumhverfi nemenda og starfsmanna eins öruggt og hægt er. Það er meðal annars gert með því að takmarka smitleiðir og samneyti meðal nemenda og starfsmanna. 

Hlutverk nemenda er mikilvægt í sóttvörnum og nauðsynlegt að allir fylgi leiðbeiningum skólans, viðhafa gott hreinlæti og sóttvarnir. Veikir nemendur og starfsmenn koma ekki í skólann. 

Skólinn er aðskildur í fjögur sóttvarnarrými: efri og neðri hæð bóknámshúss, verknámshús og mötuneyti/heimavist.

Í hvert sinn sem farið er inn í nýtt sóttvarnarsvæði skal spritta sig, einnig eru sprittstöðvar fyrir framan hverja kennslustofu og nemendur eru beðnir að spritta sig áður en þeir fara inn í stofuna, sem og að spritta sitt vinnusvæði (borð og stóla) í lok kennslustundar. 

Gangar eru einungis til að ferðast á milli stofa. Búið er að líma örvar á gólf sem sýna gönguleiðir, eftir göngum gildir hægri reglan.

Öll hópamyndun á göngum eða í öðrum rýmum skólans eins og Gryfju eða bókasafni er stranglega bönnuð. 

Þetta eru óvenjulegar aðstæður og saman gerum við öll okkar besta til að skólastarf geti farið fram með góðum og öruggum hætti. 

 

Slóð á stundatöfluna er hér 

 

Almennar leiðbeiningar fyrir vikuna eru hér 

 

21 ágú 2020

Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar

Auglýsingin var gefin út 20. ágúst 2020 og gildir til miðnættis 29. september 2020. 

5. gr. fjallar um framhaldsskóla:

5. gr.

Framhaldsskólar.

Í öllum byggingum framhaldsskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfs­fólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándar­reglunni, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, skal nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Við þær aðstæður skal leitast við að bæði kennari og nemendur beri grímu.

Skipuleggja skal staðnám í framhaldsskólum þannig að hver nemandi umgangist sem fæsta ein­stak­linga. Dreifa skal nemendum á fasta innganga í skólabyggingu eftir því sem kostur er og skulu gangar vera ferðarými. Fastir hópar og bekkir skulu forðast svo sem framast er unnt blöndun við aðra nemendur.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu skulu ekki fara fram í skólabyggingum, svo sem málþing.

Við íþróttakennslu eru snertingar heimilar milli nemenda á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan æfingasvæðis og keppnissvæðis.

Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum framhaldsskóla skulu sótthreinsaðir milli nemenda­hópa. Jafn­framt skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og þar skal jafn­framt lögð áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

 

Auglýsinguna í heild má lesa hér.

19 ágú 2020

Dagskrá fyrstu skóladaga (19., 20., og 21. ágúst)

Kæru nemendur

 

Skólastarfið þessa dagana er flókið vegna samkomutakmarkana og sóttvarna en við í MÍ hlökkum mikið til skólasamstarfsins í vetur og vonum heitt og innilega að skólastarf geti færst í eðlilegt horf sem allra fyrst.  Mikilvægt er að við séum öll samstíga í þessu stóra verkefni og þess vegna áréttum við hér dagskrá næstu daga. Allir nemendur hafa fengið tölvupóst með frekari upplýsingum.

 

Miðvikudaginn 19. ágúst var hraðstundatafla á dagskrá. Hún verður ekki.

  • Nemendur sem eru nýir í skólanum eða að hefja aftur nám geta aftur á móti mætt í Gryfjuna (á neðri hæð bóknámshússins) kl. 11:00 og fengið aðstoð með Innu, Moodle og Office 365.

 

Fimmtudag 20. ágúst og föstudag 21. ágúst 

  • Öll kennsla eldri bóknámsnemenda í fjarnámi
  • Nýnemar mæta skv. stundatöflu
  • Verknámsnemendur mæta skv. stundatöflu, eldri verknámsnemendur eru í fjarnámi í bóknámsáföngum en mæta í verklega tíma
  • Nemendur á starfsbraut mæta skv. stundatöflu

 

Nemendur þurfa að virða 1 m regluna og mikilvægt er að huga að sóttvörnum. 

Á föstudaginn verða sendar út upplýsingar um hvernig skipulag næstu viku verður. Allir nemendur munu þá mæta eitthvað í kennslustofur en kennslan verður líka að einhverju leyti í fjarnámi. Hvað það ástand mun vara lengi fer alfarið eftir þeim samkomutakmörkunum sem í gildi eru hverju sinni en við munum gera okkar besta til að skipuleggja skólastarfið þannig að þið getið mætt sem mest.

 

Á heimasíðu skólans er síðan sérstakur flipi sem heitir VIÐBRÖGÐ VEGNA COVID og þar má finna ýmislegt gagnlegt, https://misa.is/vidbrogd_vegna_covid-19/

 

Ef eitthvað er óljóst þá endilega sendið okkur tölvupóst á misa@misa.is eða hafið samband í síma 450 4400.

 

14 ágú 2020

Upphaf haustannar 2020

Kæru nemendur 

Það er ljóst að næstu mánuði munum við þurfa að lifa með mismiklum  samkomutakmörkunum vegna Covid 19. 

Því þarf að skipuleggja skólastarf miðað við þá staðreynd og í samræmi við þær takmarkanir sem framhaldsskólum eru settar. 

Í  þessu ljósi hefur skólabyrjun verið breytt hjá hluta eldri nemenda sem hefja námið fyrstu tvo dagana í fjarnámi. Nemendur í dreif- og fjarnámi fá sérstakar upplýsingar eftir helgi.

 

Skólabyrjun verður sem hér segir: 

 

Þriðjudagurinn 18. ágúst kl. 11:00-13:00 

Sérstök kynning fyrir nýnema á skólastarfinu. Kynningin fer fram í Gryfjunni og í lok hennar verður  nemendum boðið að borða í mötuneyti skólans. 

 

Miðvikudagurinn 19. ágúst kl. 11:00-13:00 

Nýnemar og aðrir nemendur sem eru að hefja nám við skólann fá kynningu á helstu tölvukerfum sem notuð eru í skólastarfinu, s.s. INNU, Moodle og Office 365. Nemendur sem eiga fartölvur eru hvattir til að mæta með þær en einnig er hægt að fá lánaðar fartölvur á skrifstofu skólans. Athugið að mötuneyti skólans er opið. 

 

Fimmtudagurinn 20. ágúst 

Kennsla nýnema, starfsbrautar og verknámsnemenda verður skv. stundaskrá í skólahúsnæðinu.  Nánara fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur. Eldri nemendur í dagskóla hefja námið í fjarnámi. Athugið að mötuneyti skólans er opið. 

  

Föstudagurinn 21. ágúst  

Kennsla nýnema, starfsbrautar og verknámsnemenda verður skv. stundaskrá í skólahúsnæðinu.  Nánara fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur. Eldri nemendur í dagskóla hefja námið í fjarnámi. Athugið að mötuneyti skólans er opið. 

  

Mánudagurinn 24. ágúst 

Kennsla allra dagskólanemenda í skólahúsnæðinu, nánara fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur.  Mötuneytið opið. 

 

 

Sóttvarnir og umgengni: 

Nemendur í bóknámshúsi nota aðaldyr á neðri hæð skólans sem merktar eru inngangur og útgangur.  

Verknámsnemendur ganga inn um aðalinngang verknámshúss. Allir þurfa að spritta sig við inngöngu í skólahúsnæðið og aftur þegar þeir fara inn í skólastofur.

Mikilvægt er að nemendur sem eru með einhver flensulík einkenni komi ekki í skólann og tilkynni það á misa@misa.is og fari að tilmælum sóttvarnarlæknis þ.e. að halda sig heima og skrá sig í sýnatöku. Nemendur  í sóttkví eða einangrun þurfa að tilkynna það strax til skólans. 

 

Vegna mötuneytis:

Mötuneyti skólans verður opið með ákveðnum takmörkunum. Verðskráin er sem hér segir (á ekki við um heimavistarbúa):

Annarkort kr. 68.000, hægt er að skrá sig í annaráskrift hér https://form.jotform.com/202264484981360

10 miða  kort  kr. 9.000, hægt að kaupa hjá ritara á skrifstofu skólans

Stakur miði kr. 1.100, hægt að kaupa hjá ritara á skrifstofu skólans

  

 

Við vekjum athygli á að nú hefur verið opnað fyrir stundatöflu í INNU og þar má einnig finna bókalista.

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------

Auglýsing stjórnarráðs um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Nándarregla hefur verið útfærð fyrir skólastarf en hún felur í sér að nemendum og starfsfólki í framhalds- og háskólum ber að tryggja að minnsta kosti eins metra bil sín í milli í skólastarfi í stað tveggja metra reglunnar. Hið sama á við um kennara og annað starfsfólk í leik- og grunnskólum. Hins vegar líkt og áður eru engin fjarlægðarmörk í gildi fyrir nemendur á leik- og grunnskólaaldri.

Eftir sem áður þurfa stjórnendur skóla að tryggja að hámarksfjöldi fullorðinna einstaklinga í sama rými fari ekki yfir 100. Einnig þarf starfsfólk og nemendur skóla að fylgja almennum sóttvarnarreglum og er lögð áhersla á að sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti minnst einu sinni á dag.

9 mar 2020

Viðbrögð við ógnunum, náttúruvá, smitsjúkdómum, efnaslysum ofl.

Hér fyrir neðan er að finna upplýsingar um viðbrögð við smitsjúkdómum. 

Frekari upplýsingar veita Heiðrún Tryggadóttir, aðstoðarskólameistari í gegnum síma: 450-4400 eða tölvupóst heidrun@misa.is , eða Stella Hjaltadóttir náms- og starfsráðgjafa stella@misa.is 

 

Viðbragðsáætlun MÍ 

 

Bréf almannavarna til nemenda, foreldra og forráðamanna 

 

To students and guardians 

 

Drodzy Uczniowie, Rodzice i Opiekunowie 

 

Forvarnir vegna smithættu

 

Heimasíða Landlæknis

 

Heimasíða Almannavarna (also information in English)

 

Handþvottur 

 

Mötuneyti

 

Áhrif óvissu á andlega líðan og hjálpleg viðbrögð (uppl. frá MH) 

 

Tilkynning vegna COVID-19 Veirunnar

Kæru nemendur og forráðamenn sem og starfsfólk

Eins og kunnugt er hafa almannavarnir lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19 veirunnar. Áfram er mikilvægt að við öll fylgjumst vel með upplýsingum frá almannavarnarnefnd ríkislögreglustjóra og fylgjum fyrirmælum frá þeim. Á heimasíðu skólans, www.misa.is/vidbragdsaaetlun/, má kynna sér viðbragðsáætlun og ýmsar leiðbeiningar.

Nemendur og starfsfólk sem hafa kvef eða inflúensueinkenni eiga að vera heima. Slík veikindi skal tilkynna á netfangið misa@misa.is eða í gegnum INNU. Fái fólk slík einkenni getur það haft samband í símanúmerið 1700 fyrir frekari upplýsingar.

Minnt er á að forðast heimsóknir til aldraðra og þeirra sem veikir eru fyrir til að hindra smit. Ef á heimili ykkar eru slíkir einstaklingar er heimilt að sinna skólanum að heiman, vinsamlegast tilkynnið slíkt til  aðstoðarskólameistara Heiðrúnar Tryggvadóttur, heidrun@misa.is  Það sama á við um nemendur með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu COVID-19 (sjá frekari upplýsingar á vef landlæknis, www.landlaeknir.is)

Allar tilkynningar um sóttkví eða einangrun nemenda og starfsfólks þurfa að berast á skrifstofu skólans, s. 450 4400 eða misa@misa.is Þær verða síðan skoðaðar sem einstök tilfelli undir stjórn aðstoðarskólameistara.

Allir þurfa að gæta einstaklega vel að öllu hreinlæti, handþvotti og sprittun. Hreinlæti er mikilvægast í viðbrögðum okkar: Handþvottur með sápu, sprittnotkun og að halda fyrir munn og nef þegar við hnerrum.

Skólinn hefur gripið til ýmissa aðgerða vegna neyðarstigsins. Afgreiðsla í mötuneyti mun frá og með deginum í dag breytast. Starfsfólk mötuneytis mun setja mat á diska fyrir nemendur og starfsfólk. Ótímabundið bann hefur verið sett við nemendaferðum til og frá landinu á vegum skólans en enn er ótímabært að segja til um hvort það bann eigi við um fyrirhugaða Frakklandsferð nemenda í lok apríl. Til viðbótar við þetta hefur verið ákveðið að fresta opnu húsi sem vera átti 17. mars n.k.

Það er gríðarlega mikilvægt við þessar óvenjulegu aðstæður að við stöndum öll saman í skólasamfélaginu. Nú skiptir meginmáli að við tökum á málum út frá ráðleggingum almannavarna og heilbrigðis- og menntayfirvalda og mikilvægt að við höldum ró okkar og yfirvegun og styðjum hvert annað. Stefna skólans er sú að koma til móts við alla nemendur eins og frekast er kostur í þessu óvenjulega ástandi sem nú ríkir.

Þetta er verkefni okkar allra, við þurfum fyrst og fremst að standa saman, sýna ábyrgð til að tryggja að þau sem eru í samfélagi okkar og veikir fyrir séu verndaðir eins og kostur er. Ekki er talið líklegt að ungt og hraust fólk lendi í vanda þó það fái veiruna.

Ef nauðsyn ber að ná í skólann utan vinnutíma hringið í Jón Reyni Sigurvinsson skólameistara, s. 896 4636 eða Heiðrúnu Tryggvadóttur aðstoðarskólameistara s. 849 8815.

Með góðri kveðju,

 

Heiðrún Tryggvadóttir                         

Aðstoðarskólameistari

Menntaskólinn á Ísafirði

Sími  450 4400

 

------------------------------------------------------------------------------------

Bréf til nemenda, foreldra og forráðamanna föstudaginn 3. apríl fyrir páskafrí:

Nú eru þrjár vikur liðnar af skólalokun vegna samkomubanns. Þetta hafa verið undarlegir tímar en allt kapp hefur verið lagt á að halda áfram kennslu í fjarnámi þar sem því er viðkomið. Bóknámskennarar skólans eru alvanir fjarnámskennslu sem auðveldaði okkur mikið að takast á við þetta stóra verkefni. 

Nú er páskafrí að skella á. Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 14. apríl.  Samkvæmt því sem sóttvarnarlæknir hefur boðað verður samkomubann framlengt til 4. maí og því munum við halda áfram fjarkennslu eftir páska eins og verið hefur síðustu þrjár vikurnar. 

Okkar allra bíður það sameiginlega verkefni að halda náminu áfram eftir páska. Höfum í huga að það er stutt af önninni og saman munum við klára þessari önn - því önninni mun ljúka! Öllum bóklegum áföngum mun ljúka skv. áætlun en tíminn mun leiða í ljós hvernig lokum á verknámsáföngum verður háttað en þeim mun líka ljúka! Það sama á við um útskrift, hún mun fara fram en við vinnum nú að því að gera varaplön sem við munum grípa til ef á þarf að halda. Allt skýrist þetta betur eftir páska.

Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að njóta þess að komast í smá páskafrí. Reynið að ná nokkrum dögum þar sem þið getið hvílt ykkur á námi og vinnu. Borðið páskaegg, gerið eitthvað skemmtilegt en munið að fara alltaf að fyrirmælum almannavarna. Þannig verðum við öll tilbúin í lokasprett annarinnar eftir páska.

Gleðilega páska!