8 maí 2023

Pylsur settar í samband...

Já - það er hægt :)

Nú þegar önnin er að líða undir lok, var ákveðið að fara í smá tilraunastarfsemi í rafmagnsfræði.

Nemendur mættu með pylsur og meðlæti í tíma og ákváðu að prófa að stinga pylsunum í samband við innstungu og virkaði þetta bara nokkuð vel.

Nemendur voru ánægðir með árangurinn og gæddu sér á veitingum.

4 maí 2023

Strandhreinsun

Menntaskólinn á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða tóku þátt í skemmtilegu samstarfsverkefni nú á sumardaginn fyrsta.

Nokkrir MÍ nemendur fóru í strandhreinsunarferð undir stjórn nemenda Háskólasetursins. Rusl var tínt bæði í Bolungarvík og á Ísafirði, það flokkað og verkefni unnin. Nemendur MÍ unnu sér verkefni sem mun nýtast þeim í námi við skólann á komandi haustönn.

Háskólasetrið birti þessa skemmtilegu frétt

28 apr 2023

Skóladagatal 2023-2024

Skóladagatal fyrir skólaárið 2023-2024 hefur verið samþykkt af skólaráði.  

26 apr 2023

Hárgreiðslunemar á ferð og flugi - Erasmus+

Alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera hjá nemendum MÍ!

Nú fyrir páska fóru þrjár stúlkur í grunnnámi háriðngreina, þær Arndís, Ásgerður og Védís, til Spánar ásamt Margréti kennara sínum. Um er að ræða Erasmus+ verkefni sem Menntaskólinn á Ísafirði er aðili að.  

Ferðinni var heitið til Bilbao þar sem heimsóttur var hár- og snyrtiskólinn Hermanos Larrinaga. Ferðin var alls 10 dagar þar sem nemendur sóttu tíma í skólanum sem er einkarekinn en styrktur af basknesku ríkisstjórnninni. Ásamt nemendum MÍ voru einnig 4 nemendur frá finnska skólanum Omnia. Heilmikið prógram var í gangi hjá nemendum sem sóttu tíma í Hermanos frá kl. 9:00 - 14:00 og stóðu MÍ stúlkurnar sig með prýði í náminu. 

Eftir skóla höfðu nemendur frjálsan tíma sem var nýttur í að skoða borgina, fara á söfn og fleira. 

Dvölin gekk virkilega vel, skemmtileg upplifun og komust stúlkurnar að því að þær kunnu allt sem sett var fyrir þær í náminu og gengu stoltar og sáttar frá borði.

25 apr 2023

Nemendur MÍ í úrslit Ungra frumkvöðla

Við í MÍ erum ótrúlega stolt af öllum verkefnum/fyrirtækjum nemenda okkar í keppninni Ungir frumkvöðlar.

Sérstakt gleðiefni er að af þeim 30 verkefnum á landsvísu sem komust í úrslit í keppninni í ár, eru tvö þeirra frá nemendum MÍ.

Þau verkefni frá MÍ sem keppa til úrslita í ár eru: 

Árís og Alma.

Á bak við verkefnið Árís eru þær Agnes Þóra Snorradóttir, Katrín Bára Albertsdóttir og Sigrún Betanía Kristjánsdóttir. Stúlkurnar voru í samstarfi við mjólkurframleiðsluna Örnu og hönnuðu laktósafrían ís.

Á bak við verkefnið Ölmu eru þau Anja Karen Traustadóttir, Embla Kleópatra Atladóttir, Guðrún Dagbjört Sigurðardóttir og Guðmundur Atli Kristinsson. Þau hönnuðu náttúrulega sápu úr þara sem er einstaklega góð fyrir viðkvæma og þurra húð, sem og að pokann utan um sápuna má nota sem skrúbb.

Nú halda nemendurnir suður á leið þar sem þau mæta í viðtöl við dómara miðvikudaginn 26. apríl í Arionbanka. Því næst kynna þau vöru sína á sviði þann 27. apríl n.k. og í kjölfar verður verðlaunaafhending.

Óskum við nemendum okkar góðs gengis á lokaspretti keppninnar. 

24 apr 2023

Nemendur í rafmagnsfræði í heimsókn

Nemendur í áfanganum RAFM1HL05 (rafmagnsfræði) fóru í heimsókn til Landsnets og Orkubús Vestfjarða á föstudaginn var. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna sér starfsemi og starfsstöðvar fyrirtækjanna á svæðinu.

Nemendur fengu að skoða varaaflvélar, rafspennistöðvar og háspennubúnað, auk þess skoðuðu þau Kyndistöðina og hvernig rafmagn er leitt frá raforkukerfinu til heimahúsa.

Menntaskólinn þakkar gestgjöfunum fyrir frábærar móttökur og voru nemendur hæstánægðir með góðan og skemmtilegan dag.

11 apr 2023

Vörumessur nemenda í Hugmyndir og nýsköpun

Nemendur í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun, brugðu sér af bæ og tóku þátt í Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind. Vel tókst til og voru nemendur sjálfum sér og skólanum til sóma.

Einnig fékk Lista- og nýsköpunarbraut MÍ styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að halda eigin Vörumessu Ungra frumkvöðla og var hún haldin í Vestrahúsinu á Ísafirði. Þar sýndu nemendur einnig afurðir sínar og var aðsókn framar vonum.

Vörumessurnar eru hluti af þátttöku nemenda í keppninni Ungir frumkvöðlar á Íslandi, en þess má geta að nemendur MÍ hafa náð langt í keppninni. Dómarar í keppninni hér fyrir vestan voru Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Jóhannes Konrad  Weber vélaverkfræðingur, Víðir Ingþórsson frá Nora Seafood og Guðfinna Helgadóttir sem var fulltrúi dómnefndar Ungra frumkvöðla á landsvísu.

Nemendur hafa unnið að hinum ýmsu verkefnum í janúar og febrúar, t.d. samfélagslegri nýsköpun, verk- og viðskiptaáætlun og ýmislegri hugmyndavinnu. Einnig hafa þau heimsótt Kertahúsið, Hverdagssafnið, Kalksalt, Nora Seafood og fengu heimsókn frá Bláma.
Allir nemendurnir eru skráðir í Ungir frumkvöðlar sem tilheyrir alþjóðlegu samtökunum Junior Achievement (JA).

Um miðjan apríl kemur í ljós hvort nemendur MÍ hafi komist í úrslit keppninnar og munu þá í kjölfarið halda suður á leið og kynna afurðir sínar.

Þau verkefni sem tóku þátt í ár eru eftirfarandi:

ALMA
Árís
Fjörður
Skipti hjálp
Fructus aroma
ISL ljós
JGG clothing
Poddi
Muslim Community
Slétt og brugðið
Skurðarbretti
Rafræn kynning
Dósateus
Gervigreindar bloggið
Lilja útgáfa
Máttur ehf.
MommyPot
Svanlind 

Sérstakar þakkir sendum við Vestfjarðastofu og mentorum nemenda í verkefninu:
Albert Högnason
Björg Sveinbjarnardóttir
Gunnar Ingi Hrafnsson
Sædís Ólöf Þórsdóttir

31 mar 2023

Gleðilega páska

Kæru nemendur

Nú erum við komin í páskafrí og hlökkum til að sjá ykkur endurnærð þriðjudaginn 11. apríl.

Með kveðju,
Stjórnendur MÍ

31 mar 2023

Innritun í dagskóla og dreifnám (eldri nemar)

Innritun eldri nema í dagskóla og dreifnám stendur yfir frá 27. apríl til 1. júní 2023.

Innritunin fer fram í gegnum Menntagátt.

Öllum nemendum, í námi eða á leið í nám, stendur til boða að panta viðtal hjá áfanga- og fjarnámsstjóra eða námsráðgjafa og fá aðstoð við áfanga- og námsval.

Hægt er að panta tíma í viðtal hér.