19 jún 2008

Skólaslit 2008

Menntaskólanum á Ísafirði var slitið í 38 sinn við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 24. maí sl. Útskrifaðir voru 47 nemendur; 3 með 1. stig vélstjórnar, 2 með 2. stig vélstjórnar, 2 sjúkraliðar, 5 húsasmiðir, 7 stálsmiðir, 24 stúdentar, 1 meistari í matreiðslu og 3 meistarar í hársnyrtiiðn. Útskriftarnemarnir Bryndís Guðmundsdóttir og Halldór Sveinsson léku á hljóðfæri, fulltrúar afmælisárganga fluttu ávörp og verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur. Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Gísli Kristjánsson stúdent af náttúrufræðbraut. Hann hlaut 1. ágætiseinkunn 9,29 og fékk peningaverðlaun sem Aldarafmælissjóður Ísafjarðarbæjar gefur.

Meira

23 maí 2008

Brautskráning og skólaslit

Brautskráning nemenda og skólaslit verða í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 24. maí 2008 kl. 13:00. Þangað eru fjölskyldur útskriftarnema, starfsmenn, afmælisárgangar og velunnarar skólans velkomnir. Útskrifaðir verða 47 nemendur; 3 með 1. stig vélstjórnar, 2 með 2. stig vélstjórnar, 2 sjúkraliðar, 5 húsasmiðir, 7 stálsmiðir, 24 stúdentar, 1 meistari í matreiðslu og 3 meistarar í hársnyrtiiðn. Einnig munu nokkrir nemendur sem eru að útskrifast úr öðrum skólum fá afhent prófskírteini við athöfnina. Þetta eru 5 leikskólaliðar frá Verkmenntaskóla Austurlands, 1 nemandi af sjúkraliðabrú Fjölbrautaskólans í Breiðholti og 1 stúdent frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Að venju standa útskriftarnemendur fyrir sérstakri hátíð að kvöldi útskriftardags ásamt fjölskyldum sínum, starfsfólki skólans og afmælisárgöngum. Haldinn er sameiginlegur kvöldverður með dansleik á eftir og að þessu sinni verður útskriftarhátíðin í Edinborgarhúsinu. Húsið verður opnað gestum kl. 20:00 og borðhald hefst kl. 20:30.
15 maí 2008

Umsóknir um skólavist í Menntaskólanum á Ísafirði

Innritun í framhaldsskóla fer fram dagana 14. maí til og með 11. júní 2008. Innritunin er rafræn á Menntagátt. Nemendur 10. bekkjar fá sendar leiðbeiningar um innritun og veflykil að innskráningunni, sem fer fram á menntagatt.is/innritun Innritunin hófst eins og fyrr segir 14. maí. Eldri nemendur geta einnig sótt um skólavist á þennan hátt en verða þá fyrst að sækja um veflykil á Menntagátt.
1 maí 2008

Íslandsmót iðngreina

Íslandsmót iðgreina fór fram 18-19 apríl sl. Í málmsuðu kepptu sex keppendur og af þeim voru þrír nemendur í MÍ, þeir Hafþór Ingi Haraldsson, Óskar Ágúst Albertsson og Yngvi Snorrason. Keppt var í þremur mismunandi suðuaðferðum Tig-suðu, Mag- og pinnasuðu. Þeir stóðu sig með ágætum og voru skólanum til mikils sóma þótt ekki tækist að sigra að þessu sinni. Myndir frá keppninni eru komnar á myndasíðuna.
26 apr 2008

Dimission 2008

Útskriftarefni skólans tóku daginn snemma s.l. föstudag og máluðu bæinn rauðan. Árbítur var grillaður við skólann milli kl. 4 og 5 og svo voru kennarar og starfsmenn vaktir hver af öðrum uns komið var heim til skólameistara þar sem nemendum var boðið upp á staðgóðan morgunverð. Eftir hefðbundna kveðjustund við skólann voru nemendur fluttir á gámabíl um bæinn. Myndir eru komnar inn á myndasíðuna.

 

14 apr 2008

Söngkeppni framhaldsskólanna 2008

Nemendur MÍ fjölmenntu til Akureyrar um helgina til að fylgjast með Söngkeppninni og styðja við bakið á Helgu Margréti sem tók þátt fyrir hönd skólans. Helga Margrét og bakraddirnar stóðu sig mjög vel en alls tóku 32 skólar þátt í keppninni og stóð flytjandi Verslunarskólans uppi sem sigurvegari í lok kvöldsins. Það fór þó ekkert á milli mála að MÍ var með öflugasta stuðningsliðið í salnum sem var skrautlegt og lét vel í sér heyra. Ferðin norður tókst vel og allir skemmtu sér hið besta. Myndir frá keppninni er að finna á myndasíðunni.
10 apr 2008

Forvarnardagur SÍF

Miðvikudaginn 9. apríl s.l. var sameiginlegur forvarnardagur SÍF í skólanum. Af því tilefni var nemendum boðið upp á hollustu í löngu frímínútunum. Gamla bakaríið og Samkaup buðu upp á veitingarnar.
6 mar 2008

Veisluhlaðborð í Mötuneyti

Í dag heimsóttu skólann góðir gestir í tilefni Sólrisu. Félagar úr "Ungkokkar Íslands" mættu á svæðið og töfruðu fram gómsætar kræsingar fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Áhugasömum gafst þar kostur á margrétta veisluhlaðborði fyrir aðeins 500 krónur. Augljóslega vildu margir nýta sér þetta hagstæða boð því fyrir skömmu fyrir hádegi hafði myndast löng biðröð framan við innganginn inn í mötuneytið. Myndir eru komnar inn á myndasíðuna.
6 mar 2008

Háskólakynning

Í gær fór fram háskólakynning hér í skólanum þar sem fulltrúar frá 8 háskólum kynntu námsframboð skóla sinna fyrir menntskælingum. Yfir 500 námsleiðir sem háskólarnir bjóða upp á voru kynntar. Þess má geta að tveir af fyrrum nemendum MÍ mættu á kynninguna fyrir hönd sinna skóla, þau Aðalbjörg Sigurjónsdóttir frá HR og Leifur Skarphéðinsson frá HÍ.
4 mar 2008

Trommusólókeppni

Einn af viðburðum Sólrisuvikunnar var trommusólókeppni sem haldin var á Sal skólans í morgun. Margir trommusnillingar komu þar fram og lömdu húðirnar. Til þess að dæma í keppninni voru fengnir Önfirðingarnir og frændurnir Önundur Hafsteinn Pálsson og Barði Önundarson. Mikil tilþrif heyrðust og sáust á sviðinu og tóku dómarar m.a. tillit til svipbrigða og "tungutaks" auk leikni með kjuðana. Það var Björn Hjálmarsson sem sigraði keppnina en í öðru og þriðja sæti höfnuðu Önfirðingarnir og frændurnir Brynjólfur Óli Árnason og Jóhann Ingi Þorsteinsson. Myndir frá keppninni eru inni á myndasíðunni.