26 apr 2008

Dimission 2008

Útskriftarefni skólans tóku daginn snemma s.l. föstudag og máluðu bæinn rauðan. Árbítur var grillaður við skólann milli kl. 4 og 5 og svo voru kennarar og starfsmenn vaktir hver af öðrum uns komið var heim til skólameistara þar sem nemendum var boðið upp á staðgóðan morgunverð. Eftir hefðbundna kveðjustund við skólann voru nemendur fluttir á gámabíl um bæinn. Myndir eru komnar inn á myndasíðuna.

 

14 apr 2008

Söngkeppni framhaldsskólanna 2008

Nemendur MÍ fjölmenntu til Akureyrar um helgina til að fylgjast með Söngkeppninni og styðja við bakið á Helgu Margréti sem tók þátt fyrir hönd skólans. Helga Margrét og bakraddirnar stóðu sig mjög vel en alls tóku 32 skólar þátt í keppninni og stóð flytjandi Verslunarskólans uppi sem sigurvegari í lok kvöldsins. Það fór þó ekkert á milli mála að MÍ var með öflugasta stuðningsliðið í salnum sem var skrautlegt og lét vel í sér heyra. Ferðin norður tókst vel og allir skemmtu sér hið besta. Myndir frá keppninni er að finna á myndasíðunni.
10 apr 2008

Forvarnardagur SÍF

Miðvikudaginn 9. apríl s.l. var sameiginlegur forvarnardagur SÍF í skólanum. Af því tilefni var nemendum boðið upp á hollustu í löngu frímínútunum. Gamla bakaríið og Samkaup buðu upp á veitingarnar.
6 mar 2008

Veisluhlaðborð í Mötuneyti

Í dag heimsóttu skólann góðir gestir í tilefni Sólrisu. Félagar úr "Ungkokkar Íslands" mættu á svæðið og töfruðu fram gómsætar kræsingar fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Áhugasömum gafst þar kostur á margrétta veisluhlaðborði fyrir aðeins 500 krónur. Augljóslega vildu margir nýta sér þetta hagstæða boð því fyrir skömmu fyrir hádegi hafði myndast löng biðröð framan við innganginn inn í mötuneytið. Myndir eru komnar inn á myndasíðuna.
6 mar 2008

Háskólakynning

Í gær fór fram háskólakynning hér í skólanum þar sem fulltrúar frá 8 háskólum kynntu námsframboð skóla sinna fyrir menntskælingum. Yfir 500 námsleiðir sem háskólarnir bjóða upp á voru kynntar. Þess má geta að tveir af fyrrum nemendum MÍ mættu á kynninguna fyrir hönd sinna skóla, þau Aðalbjörg Sigurjónsdóttir frá HR og Leifur Skarphéðinsson frá HÍ.
4 mar 2008

Trommusólókeppni

Einn af viðburðum Sólrisuvikunnar var trommusólókeppni sem haldin var á Sal skólans í morgun. Margir trommusnillingar komu þar fram og lömdu húðirnar. Til þess að dæma í keppninni voru fengnir Önfirðingarnir og frændurnir Önundur Hafsteinn Pálsson og Barði Önundarson. Mikil tilþrif heyrðust og sáust á sviðinu og tóku dómarar m.a. tillit til svipbrigða og "tungutaks" auk leikni með kjuðana. Það var Björn Hjálmarsson sem sigraði keppnina en í öðru og þriðja sæti höfnuðu Önfirðingarnir og frændurnir Brynjólfur Óli Árnason og Jóhann Ingi Þorsteinsson. Myndir frá keppninni eru inni á myndasíðunni.
4 mar 2008

Heimsókn frá Verkfræðideild HÍ

Nemendur MÍ fengu góða gesti í heimsókn fyrir skemmstu. Þar voru á ferðinni Tómas Árni Jónasson fyrrum nemandi skólans og Jón Þór Gunnarsson félagi hans úr Verkfræðideild HÍ. Þeir voru að kynna námi við deildina fyrir nemendum MÍ og mætti fjöldi áhugasamra nemenda á kynninguna.
28 feb 2008

Sólrisa

Hin árlega Sólrisuhátíð Menntaskólans á Ísafirði hefst 29. febrúar kl 12:15 með skrúðgöngu frá skólanum að Kaffi Edinborg. Um svipað leiti fer útvarp Mí-flugan í loftið á tíðninni FM 101.0. Dagskrá hátiðarinnar er að vanda mjög vegleg. Meðal þess sem í boði verður er myndlistarsýning Davíðs Arnar Halldórssonar í Slunkaríki, Rokksúpa í Edinborgarhúsi, bíósýningar, trommusólókeppni, uppistand, fyrirlestrar, háskólakynningar, styrktartónleikar, alheimsmeistaramót í víkingaskák og sundlaugapartí. Að ógleymdu sólrisuleikritinu Rocky Horror Picture Show. Ítarlega dagskrá hátíðarinnar er að finna á vefsíðunni solrisa.is
27 feb 2008

Frumsýning á Rocky Horror

Söngleikurinn Rocky Horror Picture Show verður frumsýndur á föstudagskvöld við upphaf Sólrisuvikunnar. Að sögn leiksjtórans Hrafnhildar Hafberg hafa æfingar og undirbúningur gengið vel. Nemendur í trésmíði og stálsmíði hafa unnið hörðum höndum að því að koma upp veglegri leikmynd í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þar sem verkið verður sýnt. Þess má geta að söngleikurinn er færður á svið í samstarfi við Loftkastalann sem á sýningaréttinn að verkinu.

 

Frumsýningin verður sem fyrr segir á föstudaginn og hefst sýningin kl. 20:00. Sex sýningar eru áætlaðar meðan á Sólrisuhátíðinni stendur og þrjár til viðbótar í skíðavikunni. Frekari upplýsingar um sýningartíma má finna á heimasíðu Edinborgarhússins.

 

Miðaverð er 2.200 krónur fyrir félaga í Nemendafélagi skólans, eldri borgara og börn, en 2.500 fyrir óbreytta. Miðapantanir fara fram í síma 450-5555.

 

 

HH

19 feb 2008

Árshátíð NMÍ

Árshátíð skólans var haldin í Edinborgarhúsinu 15. febrúar s.l. Nemendur og kennarar skólans komu saman í sínu fínasta pússi og snæddu veislumat sem framreiddur var af veitingamönnum veitingastaðarins Við Pollinn. Að sögn Helgu Guðrúnar formanns NMÍ voru um 120 manns á borðhaldinu. Að vanda voru ýmis skemmtiatriði á boðstólum m.a. frá kennurum auk þess sem nemendur frumsýndu nýja árshátíðarmynd þar sem litið var 20 ár fram í tímann. Allt fór þetta fram undir styrkri stjórn veislustjórans Kristjáns Freys Halldórssonar bóksala með meiru. Að loknu borðhaldi var haldinn dansleikur þar sem DJ Páll Óskar sá um að halda uppi fjörinu. Myndir af árshátíðinni er að finna á heimasíðu NMÍ