6 okt 2021

Forvarnardagurinn 2021

Miðvikudaginn 6. október 2021 verður Forvarnardagurinn  haldinn í  grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna á þeirra aldurshóp og hugmyndir sínar um samveru, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í umræðum þeirra. Þá gefst þeim kostur á að taka þátt í leik þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu. Nánar má lesa um forvarnardaginn á heimasíðu verkefnisins  forvarnardagur.is

18 ágú 2021

56 nýnemar hefja nám við MÍ

Í dag fór fram nýnemakynning í MÍ. Þá hófu 56 nýnemar nám við MÍ. Á kynningunni var farið yfir það helsta í skólastarfinu, farið í skoðunarferð um skólann og endað á súpu í mötuneytinu. Við í MÍ hlökkum til að kynnast nýnemunum betur.

Nýnemarnir skiptast á eftirfarandi hátt á brautir:

Félagsvísindabraut 4

Grunnnám háriðngreina 3

Grunnnám málm- og véltæknigreina 7

Grunnnám rafiðna 2

Lista- og nýsköpunarbraut 8

Náttúruvísindabraut 10

Opin stúdentsbraut 16

Sjúkraliðabraut 3

Starfsbraut 3

21 jún 2021

Sumarleyfi

Skrifstofa skólans verður lokuð frá og með miðvikudeginum 23. júní til miðvikudagsins 4. ágúst. Erindi sem ekki þola bið má senda á Jón Reyni Sigurvinsson skólameistara, jon@misa.is 

11 jún 2021

6 húsasmiðir luku sveinsprófi

Um síðustu helgi þreyttu nýútskrifaðir húsasmiðir sveinspróf í húsnæði MÍ. Sex nemendur luku sveinsprófinu. Á myndinni sem hér fylgir má sjá sveinsstykkið þeirra sem var vinnutrappa. Við óskum húsasmiðunum okkar innilega til hamingju með árangurinn.

10 jún 2021

Úthlutun styrkja úr minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur

Minningarsjóður Gyðu Maríasdóttur var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar á 50 ára afmæli skólans. Stærstur hluti sjóðsins er tilkominn frá Gyðu Maríasdóttur skólastjóra húsmæðraskólans en einnig frá systkinum hennar þeim Jóni, fyrrverandi útibússtjóra Landsbankans á Ísafirði og Hrefnu og Maríu en þau arfleiddu sjóðinn að miklum hluta eigna sinna. Nú er sjóður þessi orðinn digur og ætlunin er að veita úr honum umtalsverða upphæð í ár ef styrkhæfar umsóknir berast. Upphaflega var markmið sjóðsins að styrkja konur ættaðar frá Ísafirði og nágrenni til framhaldsnáms í húsmæðrafræðum. Síðar voru skilyrði sjóðsins rýmkuð vegna breytinga í íslensku samfélagi. Stjórn sjóðsins skipa: Útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og fulltrúi frá Þóreyjarsystrum í Oddfellowstúkunni á Ísafirði.

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár. 

Umsóknir skulu berast til Jóns Reynis Sigurvinssonar skólameistara Menntaskólans á Ísafirði netfang: jon@misa.is.  Umsóknarfrestur er til 30. júní 2021.

 Stjórn Styrktarsjóðs  Gyðu Maríasdóttur

7 jún 2021

Vottun á gæðakerfi skólans

Í lok maí bárust þær ánægjulegu fréttir að vottunarnefnd iCert ehf hefði að lokinni úttekt staðfest að Menntaskólinn á Ísafirði starfræki gæðastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015 og nær til reksturs framhaldsskóla á verknáms- og bóknámsbrautum. Staðfestingin fékkst að loknu löngu undirbúinings- og vinnuferli, en það var í lok árs 2017 sem markmið um innleiðingu gæðakerfis og vottun var sett í stefnuskjal skólans. Stjórnendur þakka gæðaráði og öllu starfsfólki skólans fyrir þennan góða árangur.

 

 

27 maí 2021

Tillaga nemenda í UMÁT um nafn á nýjum þjóðgarði

 

Í Menntaskólanum á Ísafirði er áfanginn Umhverfis- og átthagafræði (UMÁT) kenndur á hverju ári. 

Hluti af UMÁT áfanganum á haustönn 2020 fjallaði um þjóðgarða og var ferlið við stofnun þjóðgarðsins á sunnanverðum Vestfjörðum skoðað. 

Í tengslum við efnið var unnið að tillögum að nafni á nýja þjóðgarðinn. Nemendur í áfanganum voru 50 talsins. 19 tillögur að nafni bárust frá nemendum og var síðan kosið í þremur hlutum út frá tillögum nemenda. Í lokin var kosið um sex efstu tillögurnar sem voru. 

Sigurtillaga UMÁT í MÍ var Vesturgarður með þeim rökstuðningi að það væri einfalt, lýsandi og grípandi. 

Sigurtillagan var send fyrir hönd nemenda í samkeppni Umhverfisstofnunar um nafn á þjóðgarðinn, ásamt hinum fimm efstu tillögunum. 

 

Samstarfshópur verkefnisins hjá Umhverfisstofnun hefur nú farið yfir tillögurnar og valið úr þeim fimm nöfn sem hópnum fannst koma best til greina og efnir nú til kosninga um nafnið. Er Vesturgarður ein af þeim tillögum sem nú er kosið um.

 

Tillögurnar sem hægt er að kjósa um nú á vef Umhverfisstofnunar eru eftirfarandi:

  • Vesturgarður - einfalt nafn, lýsandi og grípandi.
  • Þjóðgarðurinn Gláma -  nafnið myndi halda á lofti nafni jökuls sem er horfinn ásamt því að vísa til Glámuhálendis
  • Dynjandisþjóðgarður  - vísar til fossins Dynjanda
  • Arnargarður – vísar til stofns hafarna í þjóðgarðinum
  • Vestfjarðaþjóðgarður

 

Við hvetjum alla til að kjósa um nafn á nýja þjóðgarðinn á sunnanverðum Vestfjörðum HÉR: Kosning um nafn á þjóðgarði

 

24 maí 2021

Brautskráning á vorönn 2021

Laugardaginn 22. maí s.l. voru 76 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Vegna sóttvarnartakmarkana mátti takmarkaður fjöldi vera við athöfnina. Því voru einuningis útskriftarnemar, gestir þeirra og starfsfólk skólans viðstödd, en Viðburðarstofa Vestfjarða sá um beint streymi frá athöfninni. Útskriftarfagnaður sem hefð er fyrir að halda að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum féll því miður niður annað árið í röð.

Nemendur voru brautskráðir af 15 námsbrautum. Tíu nemendur úr húsasmíði, 2 nemendur af lista-og nýsköpunarbraut, 7 nemendur af sjúkraliðabraut, 8 úr skipstjórnarnámi A, 4 úr skipstjórnarnámi B, 1 úr stálsmíði og 2 úr vélstjórnarnámi A. 4 nemendur útskrifuðust með diplómu í förðun. Alls útskrifuðust 47 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: 4 af félagsvísindabraut, 5 nemendur af náttúruvísindabraut, 2 nemendur af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 18 nemendur af opinni stúdentsbraut, 8 nemendur af opinni stúdentsbraut – afreksíþróttasviði, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut með áherslu á háriðngreinar og 7 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf af fagbraut.

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlist flutt af útskriftarnemum stóran svip á athöfnina. Dux scholae 2021 er Karólína Mist Stefándóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,53. Semidux er Egill Fjölnisson stúdent af félagsvísindabraut með meðaleinkunnina 9,05.  Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

 

21 maí 2021

Brautskráning og skólaslit

Á morgun, laugardaginn 22. maí kl. 13:00, fer fram brautskráning og skólaslit í Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju.

Brauskráðir verða 76 nemendur af 15 námsbrautum. Af útskriftarnemun eru 33 dagskólanemendur, 32 dreifnámsnemendur og 17 nemendur í fjarnámi.

10 nemendur útskrifast úr húsasmíði, 2 nemendur af lista-og nýsköpunarbraut, 7 nemendur af sjúkraliðabraut, 8 úr skipstjórnarnámi A, 4 úr skipstjórnarnámi B, 1 úr stálsmíði og 2 úr vélstjórnarnámi A. 4 nemendur útskrifast með diplómu í förðun. 47 nemendur útskrifast með stúdentspróf, 4 af félagsvísindabraut, 5 nemendur af náttúruvísindabraut, 2 nemendur af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 18 nemendur af opinni stúdentsbraut, 8 nemendur af opinni stúdentsbraut – afreksíþróttasviði, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut með áherslu á háriðngreinar og 8 nemendur útskrifast með stúdentspróf af fagbraut.

Vegna samkomutakmarkana eru eingöngu boðsgestir velkomnir í athöfnina. Hægt verður að hofa á athöfnina í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða með því að smella hér

 

20 maí 2021

Vorverkin í skólanum

Þegar líða fer að lokum vorannar er einn af árvissum vorboðum þegar útskriftarefni kveðja skólann. Hér í MÍ bjóða útskriftarefni starfsfólki í veglega veislu sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu. Útskriftarefni og starfsfólk eiga saman góða stund yfir veitingum sem að þessu sinni voru bornar fram í mötuneyti skólans, svo fylgt væri takmörkunum vegna sóttvarna. Daginn eftir taka útskriftarefni daginn snemma og fara um bæinn í skemmtilegum búningum, vekja starfsfólk og flesta aðra í leiðinn. Síðan mæta þeir i mötuneyti skólans í staðgóðan morgunverð áður en haldið er út í daginn í meira sprell.