6 maí 2021

Starfsáætlun 2021-2022

Starfsáætlun (skóladagatal) skólaársins 2021-2022 var tekin til afgreiðslu og samþykkt, á skólaráðsfundi þann 4. maí s.l. Áður höfðu drög að áætluninni verið kynnt kennurum á sviðsfundum og athugasemdir bárust ekki.

Skóladagatal 2021-2022

16 apr 2021

Ný reglugerð komin út

Út er komin ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar og gildir hún til 5. maí. Henni fylgir lítil breyting hvað skólahald varðar:

  • Í stað 2 m fjarlægðartakmarkana má nú vera 1 m. Stólum og borðum í mötuneytinu hefur nú verið raðað í samræmi við það.
  • Áfram þarf að vanda allar sóttvarnir, spritta sig þegar komið er inn á ný svæði og alls staðar er grímuskylda.
  • Nemendur þurfa áfram að sótthreinsa borð og stóla eftir kennslustundir í samstarfi við kennara.

Nú eru aðeins 14 kennsludagar, fyrir utan 6 námsmatsdaga, eftir af önninni. Nú er bara að gefa í á lokametrunum, klára áfangana og halda sóttvarnirnar út. Við getum þetta!

31 mar 2021

Skólastarf eftir páskafrí

Í dag var gefin út ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttarÍ henni felast ekki miklar breytingar fyrir okkur í MÍ. Við getum haft staðnám eftir páskafrí en tökum aftur upp grímuskyldu um allan skólann, líka í Gryfjunni.

Fyrirkomulagið í skólanum verður með eftirfarandi hætti, en frekari upplýsingar er að finna hér:

Fjarlægðartakmörk:

Í skólanum þurfa að vera 2 m á milli allra. Það er ekki raunhæft í skólastarfi og því verður grímuskylda í öllum skólanum, innan og utan kennslustofa.

Nauðsynlegt að spritta:

Þegar komið er inn í skólann eða inn á ný svæði þurfa allir að spritta sig. Allar kennslustofur þarf að sótthreinsa eftir hverja kennslustund.

Einstefna á sumum stöðum í skólanum:

Í stigum í bóknámshúsi er einstefna. Við förum upp hjá sjoppunni eða milli stofu 16 og 17. Við förum niður hjá kennarastofunni og stofu 8 eða milli stofu 3 og 4.

Veikindi/sóttkví/eingangrun:

Ef þú ert með flensulík einkenni vertu heima og farðu í sýnatöku. Nauðsynlegt er að láta vita af sóttkví eða einangrun á netfangið misa@misa.is

Mötuneyti:

Alla daga er mötuneytið opið frá kl. 12:20-13:20. Við hvetjum alla sem hafa tök á að mæta á fyrri hluta opnunartímans um að gera það, m.a. til að forðast raðir.

Heimavist:

Heimavistin verður opin og gestakomur leyfðar eins og segir til um í heimavistarreglum.

25 mar 2021

Skólalokun og páskafrí

Vegna hertra sóttvarnaraðgerða sem tóku gildi á miðnætti þá hefur verið tekin sú ákvörðun að loka skólanum þessa tvo daga sem eftir eru fram að páskafríi. Nemendur og forráðafólk fengu sendar eftirfarandi upplýsingar í gær:

Engin kennsla verður í Menntaskólanum á Ísafirði fimmtudaginn 25. mars og föstudaginn 26. mars. Skiladagar verkefna þessa tvo daga gilda. Staðan varðandi skólahald verður tekin aftur að loknu páskafríi.

Vegna heimavistar: Nemendur á heimavist sem geta farið heim eru hvattir til að gera það sem allra fyrst. Heimavistinni verður formlega lokað frá og með miðnætti og það á við um mötuneytið líka.

Vegna leiksýningar: Í kvöld (24/3) verður sýning á Hárinu sem verður því miður lokasýning í bili.

Þessar hamlandi aðgerðir geta haft mismunandi áhrif á okkur og okkar líðan. Því er mikilvægt að við reynum að hugsa jákvætt og vel um okkur sjálf í páskafríinu. Fylgjum tilmælum Almannavarna og pössum upp á eigin sóttvarnir. Við höfum því miður verið í þessum sporum áður og enn og aftur þurfum að gera okkar besta í baráttunni við veiruna.

Gleðilega páska!

22 mar 2021

Vel heppnuð frumsýning

Á föstudaginn frumsýndi leikfélag MÍ söngleikinn Hárið í Edinborgarhúsinu í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar. Frumsýningin heppnaðist afar vel og var sýningunni klappað lof í lófa í lokin. 

Söngleikurinn Hárið er eftir þá Gerome Ragni og James Rado í íslenskri þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar. Um útsetningu á tónlist sá Madis Mäekalle,og hljómsveitastjórn er í höndum Beötu Joó. Henna-Rikka Nurmi samdi dansana. Um hljóð sér Ásgeir Helgi Þrastarson, Friðþjófur Þorsteinsson sá um ljósahönnun, Helga Guðrún Gunnarsdóttir um hár, Unnur Conette Bjarnadóttir sá um búninga og málari var Steff Hilty. Formaður leikfélags MÍ er Dagný Björg Snorradóttir.

Framundan eru fleiri sýningar og hvetjum við áhugasama til að tryggja sér miða sem fyrst. Miðapantanir fara fram í gegnum vefsíðuna https://leikfelaglmi.is/

  • Sýning 4, þriðjudaginn 23. mars kl. 20.
  • Sýning 5, miðvikudaginn 24. mars kl. 20.
  • Sýning 6 föstudaginn 26. mars kl. 20
  • Sýning 7 laugardaginn 27. mars kl. 20
  • Sýning 8 sunnudaginn 28. mars kl. 20

 

16 mar 2021

Leikfélag MÍ frumsýnir söngleikinn Hárið

Það styttist heldur betur í að sýningar hefjist á söngleiknum Hárinu en verkið verður frumsýnt í Edinborgarhúsinu föstudaginn 19. mars kl. 20. Söngleikurinn er eftir þá Gerome Ragni og James Rado og er í þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar. Tónlistin er eftir Galt MacDermont og leikstjóri er Gunnar Gunnsteinsson.

Fjölmargir nemendur koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Það er fjölmennt lið leikara og hljóðfæraleikara ásamt þeim sem sinna tæknimálum, hárgreiðslu og förðun ásamt ýmsum þáttum sýningarstjórnar.

Alls eru átta sýningar áætlaðar til að byrja með en mögulega verður hægt að bæta við auka sýningum ef aðsókn verður góð. Miðasala fer fram á netinu þar sem gestir kaupa miða í ákveðin sæti þannig að hægt sé að fara eftir sóttvarnarreglum. Allar sýningarnar hefjast kl. 20. 

Miðasala á Hárið

 

 

1 mar 2021

Tilslakanir í skólastarfi vegna nýrrar reglugerðar

reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar hefur tekið gildi. Í henni felast nokkrar tilslakanir sem taka gildi frá og með mánudeginum 1. mars. Reglugerðin gildir til 30. apríl n.k. Nemendur fá kynningu á þessum breytingum á mánudagsmorgun.

 1. Grímunotkun

Skv. reglugerðinni þarf að nota grímur ef ekki er hægt að halda 1 m fjarlægð. Þetta þýðir að í skólastofum þar sem aðstæður eru þannig að hægt er að hafa meira en 1 m á milli nemenda þarf ekki að nota grímur. Þetta er auðvitað mjög misjafnt milli hópa en við biðjum kennara um að leggja línurnar með þetta í sínum skólastofum eftir aðstæðum hverju sinni. Utan skólastofa er grímuskylda.

 

 2. Sótthreinsun

Skv. reglugerðinni þarf eins og áður að sótthreinsa sameiginlega snertifleti í skólastofum eftir hvern nemendahóp. Áfram gildir að við þrif á skólahúsnæðinu fer fram sótthreinsun.

 

 3. Einstaklingsbundnar sóttvarnir

Áfram er lögð áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir eins og sprittun við innkomu á ný svæði.

 

4. Breyttur opnunartími mötuneytis

Mötuneytið verður opið eins og fyrir Covid í 1 klst á dag. Mötuneytið verður opið frá 12:20-13:20 alla virka daga.

 

5. Félagslíf nemenda

Nemendur mega koma saman utan hefðbundins skólatíma til kl. 23:00 í húsnæði skólans.

 

6. Heimavistin

Gestakomur verða leyfilegar á heimavistinni.

 

28 feb 2021

Sólrisuhátíð 2021

Sólrisuhátíð 2021 var sett sl. föstudag með stuttri skrúðgöngu og síðan var boðið upp á möffins í Gryfjunni. Framundan er sólrisuvikan og þar sem talsvert hefur verið létt á samkomutakmörkunum með nýrri reglugerð um skólahald sem tók gildi í síðustu viku, þá verður hægt að bjóða upp á skemmtilega dagskrá alla vikuna. Gróskudagar verða svo á sínum stað á þriðjudag og miðvikudag þar sem gert er uppbrot á hefðbundinni kennslu og nemendur geta valið sér smiður af ýmsu tagi.