2 sep 2022

Við upphaf haustannar 2022

Haustönn 2022 fer vel af stað, bæði í dagskóla og hjá fjarnemum og lotubundið dreifnám verður að fullu komið í gang nú í byrjun septemer. Nýnemahópurinn sem telur 50 nemendur fór í nýnemaferð á suðursvæði Vestfjarða í síðustu viku ásamt kennurum og námsráðgjafa. Hópurinn fór að Dynjanda í Arnarfirði, heimsótti m.a. Skrímslasetrið á Bíldudal og svo var farið í sund á Tálknafirði. Ferðinni lauk svo í MÍ þar sem boðið var upp á kvöldmat og kvöldvöku, þar sem stjórn Nemendafélags MÍ kynnti það sem verður á döfinni í félagslífi nemenda í vetur. Allt bendir til þess að félagslífið í MÍ verði öflugt í vetur sem er langþráð eftir samkomutakmarkanir síðustu tvö árin. Fyrsti stóri viðburðurinn, nýnemaballið var einmitt haldinn í gær í Gryfjunni og DJ Eysi sá um tónlistina. Ballið var vel heppnað og vel sótt, það eru því spennandi tímar framundan! Nokkrar myndir úr nýnemaferðinni fylgja hér með.

30 ágú 2022

Fyrrum nemandi MÍ hlaut styrk úr Afreks- og hvatningasjóði HÍ

Í gær var úthlutað 40 styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands. Ein styrkhafa er Rán Kjartansdóttir en Rán útskrifaðist frá MÍ í desember 2021 og var dúx skólans. Styrkir úr sjóðnum eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentspróf og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum. Meðfram námi í MÍ stundaði Rán dansnám hjá Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði og tók þá m.a. þátt í norrænum og evrópskum dansverkefnum. Í MÍ tók hún enn fremur þátt í leiklistarstarfi nemendafélagsins og þá á Rán að baki bæði þverflautu- og píanónám. Rán hefur innritast í nám í líffræði við Háskóla Íslands og MÍ óskar henni alls hins besta í framtíðinni. 

14 ágú 2022

Skólinn byrjar

Nú styttist í upphaf haustannar. Starfsfólk skólans mætir til vinnu á starfsdegi mánudaginn 15. ágúst. Stundatafla og bókalisti verða aðgegileg í INNU þriðjudaginn 16. ágúst.  Miðvikudaginn 17. ágúst verða kynningar fyrir annars vegar nýnema kl. 11:00 og hins vegar nýja eldri nemendur kl. 13:00. Kynningarnar fara báðar fram í stofu 17, fyrirlestrarsalnum. Fimmtudaginn 17. ágúst verður skólasetning kl. 9:00 og kennsla hefst síðan skv. stundatöflu kl. 9:15.

Með því að smella HÉR má finna frekari upplýsingar um skólabyrjunina.

23 jún 2022

Lokun skrifstofu vegna sumarleyfa

Skrifstofa skólans verður lokuð vegna sumarleyfa frá 23. júní til 5. ágúst. Erindum sem þola ekki bið má vísa til skólameistara, Heiðrúnar Tryggvadóttur, í síma 8498815 eða heidrun@misa.is 

 

23 jún 2022

Innritun nýnema lokið

Í dag lauk Menntamálastofnun við að innrita nýnema í framhaldsskóla. Alls voru 49 nýnemar innritaðir í MÍ. Nýnemar skiptast eftir brautum þannig:

Félagsvísindabraut 3
Grunnnám málm- og véltæknigreina 12
Húsasmíði (kennsla hefst um áramót) 4
Lista- og nýsköpunarbraut  6
Náttúruvísindabraut 6
Opin stúdentsbraut 14
Sjúkraliðabraut 3
Starfsbraut 1

 

Innritaðir nemendur eiga von á innritunarbréfi frá skólanum í pósti. Við bjóðum nýnema haustsins 2022 velkomna í MÍ og hlökkum til samstarfsins með þeim.

21 maí 2022

Brautskráning á vorönn 2022

Laugardaginn 21. maí voru 50 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina, en Viðburðarstofa Vestfjarða sá um að streyma henni beint. Útskriftarfagnaður sem hefð er fyrir að halda að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum var haldinn að kvöldi útskriftardags eftir þriggja ára hlé sem var vegna heimsfaraldurs Covid 19.

Nemendur voru brautskráðir af 10 námsbrautum. Tuttugu nemendur úr iðnmeistaranámi,  tveir nemendur af sjúkraliðabrú, tveir úr skipstjórnarnámi B, og einn úr stálsmíði. Þrír nemendur luku diplómu í förðun. Alls útskrifuðust 26 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: Einn af félagsvísindabraut, einn af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 15 af opinni stúdentsprófsbraut og einn af opinni stúdentsprófsbraut - afreksíþróttasviði, einn nemandi útskrifast með stúdentspróf af starfsbraut og sjö með stúdentspróf af fagbraut. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlist flutt af útskriftarnemum stóran svip á athöfnina. Dux scholae 2022 er Oliver Rähni stúdent af opinni stúdentsprófsbraut með meðaleinkunnina 9,11. Semidux er Jelena Rós Valsdóttir stúdent af félagsvísindabraut með meðaleinkunnina 8,99.  Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

19 maí 2022

Brautskráning á vorönn 2022

Laugardaginn 21. maí 2021 verður brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00.

Brautskráðir verða 50 nemendur af 10 námsbrautum. Af útskriftarnemum eru 12 dagskólanemendur, 24 dreifnámsnemendur og 14 nemendur í fjarnámi sem eru með MÍ sem heimaskóla.

20 nemendur útskrifast sem iðnmeistarar, tveir af sjúkraliðabraut, tveir nemendur af skipstjórnarbraut B og einn úr stálsmíðanámi og þrír nemendur útskrifast með diplómu úr förðun. 26 nemendur útskrifast með stúdentspróf. Einn af félagsvísindabraut, einn af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 15 af opinni stúdentsprófsbraut og einn af opinni stúdentsprófsbraut - afreksíþróttasviði, einn nemandi útskrifast með stúdentspróf af starfsbraut og 7 með stúdentspróf af fagbraut. 

Allir eru velkomnir í athöfnina en hún verður einnig í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða. Hér er hlekkur á beint streymi.

 

11 maí 2022

Skóladagatal 2022-2023

Skóladagatal fyrir skólaárið 2022-2023 hefur verið samþykkt í skólaráði. Sjá meðfylgjandi mynd.

 

 

6 maí 2022

Skólinn kvaddur

Árvisst merki um að vorið sé komið, eða að minnsta kosti á næsta leiti, eru útskriftarefni í skrautlegum búningum sem taka daginn snemma einn morgun í byrjun maí. Glaður hópur gríslinga var á ferðinni á Ísafirði við sólarupprás, fóru um bæinn og vöktu kennara sína og annað starfsfólk. Þau komu síðan í skólann til að kveðja samnemendur og kennara með fjörlegum hætti og þá er gott að taka sér hvíld öðru hvoru í tröppunum fyrir utan skólann. Útskriftarefnum er óskað góðs gengis á lokasprettinum í MÍ og alls hins besta í framtíðinni.

Ljósmynd: Martha Kristín Pálmadóttir