12 jan 2022

Gettu betur - MÍ mætir Borgarholtsskóla í kvöld

Í kvöld kl. 21 mun MÍ hefja keppni í Gettu betur 2022. Lið MÍ mun þá mæta liði Borgarholtsskóla en keppnin verður í beinu streymi á ruv.is. Mælt er með að smella á þennan hlekk til að finna leið inn á streymið.

Keppendur MÍ hafa æft af kappi undanfarnar vikur undir stjórn þjálfarans Einars Geirs Jónassonar og Jóns Karls Ngosanthiah Karlssonar sem er Málfinnur NMÍ. Einn liður í æfingaferlinu var æfingakeppni við kennara í síðustu viku. Reynslumikið kennaraliðið marði sigur í keppninni en lið nemenda stóð sig vel og er reynslunni ríkara.

Við óskum þeim Mariann Rähni, Oliver Rähni og Sigurvalda Kára Björnssyni sem skipa lið MÍ, góðs gengis í keppninni í kvöld!

8 jan 2022

Smit í skólanum

Við upphaf skólastarfs á vorönn var ljóst að staðan á kórónuveirufaraldrinum gæti fljótt raskað skólastarfi. Í gær, föstudag, kom upp smit hjá einum kennara skólans. Smitrakningu er lokið og hefur verið haft samband við þá aðila sem þurftu að fara í sóttkví vegna mögulegrar útsetningar. Ljóst er að einhver röskun verður á kennslu vegna þessa. Ef kennslustundir falla niður munu nemendur verða upplýstir um það eins og áður.

Við hvetjum áfram nemendur til að fara í einkennasýnatöku og vera heima ef þeir finna fyrir minnstu flensulíkum einkennum. Einnig að huga vel að persónubundnum sóttvörnum, spritta sig við innkomu á ný svæði og nota grímur. Áfram skal tilkynnt um sóttkví og einangrun á netfangið misa@misa.is

Við getum þetta saman, stjórnendur MÍ

6 jan 2022

Vorönn hafin - ýmsar breytingar

Breytingar hafa orðið á stjórnun skólans en Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari er í veikindaleyfi og leysir Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri hann af á meðan. Heiðrún sinnir áfram hluta af áfangastjórastörfum en Martha Kristín Pálmadóttir fjarnámsstjóri hefur tekið að mestu við áfangastjórastarfinu.

Í samstarfi við kennara var s.l. haust unnið að nýrri stefnu varðandi mætingar og námsmat sem ætlað er að stuðla að betri námsmenningu í MÍ. Í stefnunni felst m.a. eftirfarandi:

  • Nemendur þurfa að vera með að minnsta kosti 85% mætingu til að fá lokamat í áfanga.
  • Kennarar mega gera kröfu í námsáætlun um að nemandi þurfi að ná lágmarkseinkunn í ákveðnum námsþáttum. Útfærslan getur verið ólík hjá hverjum og einum kennara.
  • Varðandi símanotkun minnum við á að símar eru aðeins notaðir í kennslustundum þegar kennari gefur leyfi til þess.

Eins og áður gildir sú regla að kennarar meta ekki verkefni sem berast eftir skilafrest og skulu allar beiðnir um undanþágu berast skólameistara, heidrun@misa.is

Fimmtu önnina í röð hangir Covid yfir okkur en vonandi náum við að halda úti sem eðlilegustu skólastarfi. Grímuskylda er í skólanum þar sem ekki er hægt að halda fjarlægðarmörk. Í skólastofum eru fjarlægðarmörkin 1 m en annars 2 m. 

 

20 des 2021

Brautskráning í desember

Laugardaginn 18. desember voru 29 nemendur af 9 námsbrautum brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirku. Einn nemandi brautskráðist með skipstjórnarnám A, 2 með skipstjórnarnám B, 2 sjúkraliðar, 2 af sjúkraliðabrú og 3 úr stálsmíðanámi. Tuttugu og þrír nemendur brautskráðust með stúdentspróf, 3 af félagsvísindabraut, 1 af náttúruvísindabraut, 14 af opinni stúdentsbraut og 4 með stúdentspróf af fagbraut. Veitt voru verðlaun fyrir þrautseigju og framfararir í námi og þau hlaut Guðmundur Elías Helgason sem lauk námi á stálsmíðabraut. Rán Kjartansdóttir hlaut hæstu einkunn á stúdensprófi með meðaleinkunn 9,37, en hún lauk námi af opinni stúdentsbraut. Við athöfnina lék Oliver Rähni nemandi skólans á 3. ári, tvö einleiksverk á píanó.

Menntaskólinn á Ísafirði þakkar nemendum, starfsfólki og gestum kærlega fyrir samveruna í útskriftarathöfninni og kærar þakkir eru færðar velunnurum skólans sem gáfu verðlaun og aðrar gjafir sem afhent voru við athöfnina. 

18 des 2021

Brautskráning í dag - beint streymi af athöfninni

Í dag, laugardaginn 18. desember, verða brautskráðir 29 nemendur frá skólanum. Fer athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 14:00. Viðburðastofa Vestfjarða mun sýna beint frá athöfninni og má finna tengil á streymið hér

Brautskráðir verða 29 nemendur af 9 námsbrautum. 1 nemandi brautskráist með skipstjórnarnám A, 2 með skipstjórnarnám B, 2 sjúkraliðar, 2 af sjúkraliðabrú og 3 úr stálsmíðanámi. 23 nemendur útskrifast með stúdentspróf, 3 af félagsvísindabraut, 1 af náttúruvísindabraut, 14 af opinni stúdentsbraut og 4 með stúdentspróf af fagbraut.

15 des 2021

MÍ tekur þátt í samstarfsvettvangi um orkuskipti í sjávarútvegi

Vestfirðingar stefna að því markmiði að verða leiðandi í orkuskiptum í sjávarútvegi. Stofnaður hefur verið samstarfsvettvangur þar sem leiddar verða saman stofnanir og fyrirtæki sem vilja taka virkan þátt í að byggja upp og laða að þekkingu til að þróa og nýta græna orku í sjávartengdri starfsemi.

Blámi, Háskólasetur Vestfjarða, Menntaskólinn á Ísafirði, Orkubú Vestfjarða, Vestfjarðastofa, og Þrymur Vélsmiðja hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu um að vinna að þekkingaruppbyggingu á orkuskiptum í sjávartengdri starfsemi. Samstarfið kemur ekki bara til með að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka skila sér í fjölbreyttara og sterkara atvinnulífi, fjárfestingu í nýsköpun og aukinni samkeppnishæfni.

„Orkuskipti í sjávartengdri starfsemi liggja sérstaklega vel að vestfirsku samfélagi þar sem stunduð er fjölbreytt útgerð og öflugt fiskeldi í bland við sjávartengda ferðaþjónustu. Í fjórðungnum eru öflugar menntastofnanir og tæknifyrirtæki sem sinnt hafa sjávarútvegi í áratugi.

Heimsbyggðin er að stíga sín fyrstu skref í orkuskiptum í sjávartengdri starfsemi en Ísland gæti skipað sér meðal fremstu þjóða í þeirri þróun í krafti öflugs sjávarútvegs og aðgengi að grænni orku.

Með samstilltu átaki og samvinnu, gætu Vestfirðir orðið fyrirmynd annara sjávarútvegssamfélaga þegar kemur að orkuskiptum. Það yrði þó ekki í fyrsta sinn sem Vestfirðir leika lykilhlutverk í slíkum umbreytingum en fyrir rúmlega 100 árum settu vestfirskir útgerðarmenn, fyrstir allra á Íslandi vél í fiskibátinn Stanley“

Segir Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma.

Í fyrstu á að kanna möguleika á að nýta rafeldsneyti í sjávartengda starfsemi og skoða tækifæri til að taka í notkun báta sem nýta vistvæna orku að hluta eða öllu leyti. Setja á upp námskeið þar sem nemendur í tæknigreinum og fólk með tæknimenntun fá innsýn í nýtingu á rafeldsneyti og hvernig meðhöndla á grænorku. Mikil þróun er einnig að eiga sér stað í flutningabílum sem nýta vetni eða rafmagn og kanna á hvort hægt sé að nýta slíka bíla í flutninga innan svæðis. Undirbúningur þessara verkefna er þegar kominn vel af stað.

Gert er ráð fyrir að hópurinn muni stækka á næstunni en leita á  til fleiri fyrirtækja, einstaklinga og stofnana svo styrkja megi  samstarfið og auka slagkraft verkefnisins.

 

6 des 2021

Sýning nemenda í áfanganum hönnun og blönduð tækni - HÖNN1BL05

Nú þegar líður að lokum haustannar eru nemendur að leggja lokahönd á ýmis verkefni. Undanfarna daga hefur verið í gangi sýning lokaverkefna nemenda í áfanganum HÖNN1BL05 - hönnun og blönduð tækni. Nemendur undibjuggu lokaverkefni með frjálsri aðferð og völdu sér rými í skólanum til að sýna verkið sitt, í samráði við kennara áfangans. Þau völdu sér miðil til að vinna með en allir miðlar voru leyfilegir í framkvæmdinni, svo sem ljósmyndir, myndbönd, teikningar, gjörningar o.s.frv. Á myndum sem fylgja hér með má sjá dæmi um þau verkefni sem nemendur unnu. 

3 des 2021

Jólavika í Gryfjunni í MÍ

Það er heldur jólalegt um að litast í Gryfjunni í MÍ þessa dagana því nemendur hafa keppst við að skreyta sæti, borð og veggi. Nemendaráð stóð fyrir ýmsum viðburðum í frímímínútum og hádegishléi. Jólakaraoke, jólakahoot og keppni í piparkökuskreytingum var meðal þess sem var í boði, haldið var jólabíómyndakvöld og boðið upp á kakó og piparkökur. Í kvöld verður svo fullveldishátíð (1. des hátíð), matur og ball í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Nokkrar myndir af jólastemmningu í Gryfjunni fylgja hér með. 

21 nóv 2021

Heimsókn frá Rafmennt

Síðastliðinn fimmtudag komu góðir gestir frá Rafmennt í heimsókn í skólann. Þau komu færandi hendi en allir nemendur á fyrsta ári í rafiðngreinum fengu afhenta spjaldtölvu ásamt spjaldtölvuhulstri. Samtök rafiðnaðarmanna hafa staðið að verkefni um afhendingu spjaldtölva til nýnema í rafiðnaði um nokkurt skeið og hafa rúmlega 3000 tölvur verið afhentar síðan verkefnið byrjaði.  Á meðfylgjandi mynd má sjá þau Þór Pálsson, Báru Laxdal Halldórsdóttur og Ingvar Jónsson frá Rafmennt, ásamt hluta nemenda á fyrsta ári í rafiðngreinum og Sigurði Óskarssyni kennara. MÍ þakkar góða gjöf til upprennandi rafiðnaðarfólks í skólanum.

14 nóv 2021

Nýjar sóttvarnarreglur

Á miðnætti þann 12. nóvember tóku gildi hertar sóttvarnarreglur sem meðal annars fela í sér almenna grímuskyldu og 50 manna samkomutakmarkanir. Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri sendi nemendum póst s.l. föstudag þar sem reglurnar voru kynntar og áhrif þeirra á skólastarf í MÍ, sem eru sem betur fer ekki mjög mikil. Eftir sem áður er þó afar mikilvægt að allir séu vakandi varðandi sínar persónulegu sóttvarnir og fylgi þeim reglum sem í gildi eru.

 

Upplýsingarnar sem fram komu í póstinum má lesa hér: Hertar sóttvarnarreglur - skólastarfið framundan.

 

Og hér má lesa reglugerð heilbrigðisráðherra um skólastarf.