6 nóv 2020

Dagbjört Ósk nemandi MÍ er sigurvegari smásagnasamkeppni KÍ 2020

Úrslit í Smásagnasamkeppni KÍ 2020 hafa verið birtar og þær gleðifréttir borist Menntaskólanum á Ísafirði að sigurvegarinn í flokki framhaldsskólanema er nemandi á 3. ári í MÍ, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir.
 
Dagbjört Ósk hlýtur verðlaunin fyrir smásögu sína Hver er ég eiginlega? Í umsögn dómnefndar um söguna kemur fram að „Þessi saga er yfirveguð og hörð árás á heimskulegar staðalímyndir sem oft eru framhaldsskólanemum erfiðar''.
 
Við óskum Dagbjörtu Ósk innilega til hamingju með verðlaunin.
 
Sagan verður birt í næsta tölublaði Skólavörðunnar, tímariti KÍ.
 
 
Nánar um úrslit Smásagnasamkeppni KÍ 2020 er að finna HÉR 
 
3 nóv 2020

Veforðabókin Snara

Kæru nemendur, 

veforðabókin Snara er gott hjálpartæki í náminu og hafa margir nemendur nýtt sér hana á skólaneti MÍ. 

Í fjarnáminu (á öðru neti en skólanetinu) býðst nemendum MÍ ársáskrift að Snöru á 990 kr. 

Hægt er að fá áskriftina á þessu tilboði með innskráningu í gegnum Microsoft office 365 og MÍ netfangi. 

Við hvetjum nemendur til að nýta sér þetta tilboð til að hafa aðgang að góðri veforðabók heimavið.

Leiðbeiningar um innskráningu í áskrift er að finna

HÉR

 

2 nóv 2020

RÚV fjallar um 50 ára afmæli MÍ

Halla Ólafsdóttir dagskrárgerðarkona á RÚV heimsótti MÍ í tilefni af 50 ára afmæli skólans og ræddi við Heiðrúnu Tryggvadóttur áfangastjóra. RÚV birti einnig afmælismyndband skólans af því tilefni á vefsíðu RÚV.

Fréttina og innslagið má skoða hér á vef RÚV.

 

1 nóv 2020

Fyrirkomulag kennslu vikuna 2. - 6.nóv.

Kæru nemendur,

nú er ljóst að hertar sóttvarnaraðgerðir munu gilda til og með 17. nóvember.

Við munum halda áfram með allt bóknám á Teams. Eina breytingin verður sú að frá og með morgundeginum, 2. nóv., verður NÁSS einnig eingöngu kennt á TEAMS.


Kennsla í verknámi helst óbreytt að mestu en nemendur munu fá upplýsingar frá kennurum þar sem um breytt fyrirkomulag verður að ræða vegna hópastærða.

Kennsla á starfsbraut helst óbreytt.


Einstaka nemendur þurfa að mæta skv. stundatöflu nema annað komi fram frá kennurum á Moodle. Það eru nemendur í eftirtöldum áföngum:

• EFNA3EJ05 stofa 7, kennari: Jónas Þór Birgisson
• KVMG1IK05 stofa 10-12, kennari: Einar Þór Gunnlaugsson
• TÓNL1HS05 stofa 8, kennari: Andri Pétur Þrastarson

Nú sem áður er mikilvægt að sinna persónubundnum sóttvörnum. Alls staðar þarf að halda 2 metra fjarlægð og grímuskylda er áfram í skólanum.

Nú er ljóst að um langhlaup er að ræða. Við getum þetta öll saman, förum varlega, og hugsum vel um okkur og alla í kringum okkur.

Ef þið hafið einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við skólann.

Gangi ykkur öllum vel í komandi kennsluviku.

30 okt 2020

Hertar aðgerðir frá og með 31. október

Í ljósi nýjustu frétta verða nánari upplýsingar veittar um leið og ný reglugerð um skólahald kemur út um helgina. Hertar aðgerðir gætu haft einhver áhrif á skólahald næstu viku. Fylgist vel með tölvupóstum og heimasíðu skólans. 

28 okt 2020

Stofnun menntaskóla á Ísafirði

#MÍ50ára

Í dag eru 62 ár síðan fyrsti formlegi fundur um stofnun menntaskóla á Ísafirði var haldinn, 12 árum áður en skólinn var stofnaður. 


Úr skjalasafninu - fundargerð fyrsta fundar um stofnun menntaskóla á Ísafirði frá 28. október 1958. 


1. fundur
(af Oddfellowstúkunni Gesti, Ísafirði)

nefndar, sem kosin var til þess að vinna að stofnun menntaskóla á Ísafirði var haldinn á skrifstofu Jóhanns Gunnars Ólafssonar, bæjarfógeta, þriðjudaginn 28. október 1958.

Mættir voru allir nefndarmennirnir.

Samþykkt var að leita eftir samvinnu eftirtalinna félaga á Ísafirði, til þess að gangast fyrir stofnun menntanskóla á Ísafirði fyrir Vestfirðingafjórðung: Frímúrarastúkunnar, Iðnaðarmannafélags Ísafjarðar, Kvenfélagsins ,,Ósk”, Kvenfélagsins ,,Hlíf”, Lionsklúbbsins og Rótarýklúbbsins. Ákveðið var, að fyrirgreindum félögum yrði send greinargerð um málið.

Fleira ekki gert.

Guðjón Kristinsson
Jóh. Gunnar Ólafsson
Rögnv. Jónsson

24 okt 2020

Vikan 26. - 30.okt.

Kæru nemendur,

takk fyrir góða mætingu á skólafundinn á fimmtudaginn þar sem umræðuefnin voru valið framundan og nám á tímum Covid.

Vikan framundan verður óbreytt frá síðustu viku. Núverandi sóttvarnaraðgerðir um skólahald gilda til 10. nóvember og fram er grímuskylda fyrir alla sem koma í skólahúsnæðið.

Við vekjum athygli á að valtímabil stendur nú yfir en því lýkur miðvikudaginn 28. okt. Þið getið nálgast allar upplýsingar um valið hér. Hægt er að fá aðstoð við valið hjá áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa. Aðstoðin getur verið í gegnum tölvupóst, síma, á skrifstofu eða á Teams, allt eftir hvað hentar ykkur. Hægt er að panta tíma hjá ritara eða með því að smella hér 

Ekki vinna of mikið

Margir nemendur vinna með námi. Mikilvægt er að nemendur fari ekki að vinna meira á meðan þetta Covid-skólaástand stendur. Námið þarf að ganga fyrir og það er jafnmikil mætingaskylda í kennslustundir á Teams eins og kennslu í skólastofu.

Vikulega upplýsingapóstinn til nemenda er að finna hér.

22 okt 2020

Valtímabil fyrir vorönn 2021 er hafið

Kæru nemendur

nú er komið að vali fyrir vorönn 2021.

Valið en valið sjálft fer fram í gegnum INNU.

Allir nemendur í dagskóla sem ætla að halda áfram námi þurfa að velja áfanga fyrir næstu önn. Ekkert val þýðir engin stundatafla! Nemendur þurfa að velja 1 áfanga í varaval.

Fjarnemendur sem ætla að halda áfram fjarnámi við skólann og borga fyrir fjarnámið geta líka valið áfanga.

Kynning á valinu verður í boði í á Teams, í upphafi fundartíma fimmtudaginn 24. október og í framhaldi verður boðið upp á aðstoð við valið. Nýnemar fá aðstoð við valið í NÁSS1NN03. Allir nemendur geta auk þess fengið aðstoð við valið hjá áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjafa. Hægt er að panta tíma hjá ritara eða með því að smella hér.

Væntanleg útskriftarefni: Nemendur sem ætla að útskrifast í maí 2021 þurfa að panta tíma hjá áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjafa til að fara yfir valið. Hægt er að panta tíma hjá ritara eða með því að smella hér.

Dagskólanemendur sem ætla ekki að vera við nám á haustönn þurfa að láta áfangastjóra vita (heidrun@misa.is)

Allar frekari upplýsingar um fyrirkomulag vals og áfanga í boði er að finna hér:

HÉR

19 okt 2020

Fyrirkomulag vikuna 20. - 23. október

Nú er ljóst að búið er að framlengja sóttvarnaraðgerðir hvað varðar skólahald til 10. nóvember.

Það þýðir að fyrirkomulag varðandi kennslu í MÍ verður áfram eins og það var vikuna fyrir haustfrí.

Eina breytingin er sú að í stað 1m reglu gildir nú 2m regla um land allt. Áfram verður grímuskylda fyrir alla sem koma í skólahúsnæðið.

Allar upplýsingar um fyrirkomulag kennslu hafa verið sendar út til nemenda með tölvupósti og er að finna HÉR.

 

HÉR er nýja reglugerðin sem gildir frá og með 20. október til 10. nóvember. 

15 okt 2020

Löng helgi framundan

Kæru nemendur,

við í MÍ erum mjög stolt af því hvað þið hafið tekið breytingum á skólastarfinu af mikilli yfirvegun. Við vitum að fyrir sum ykkar voru þessar breytingar erfiðar og fyrir önnur ekki eins erfiðar.

Langa helgin okkar er að ganga í garð, engin kennsla verður í MÍ á morgun föstudaginn 16. okt. og mánudaginn 19. okt. Vonandi náið þið að njóta þess að vera í fríi og hlaða batteríin. 

Núverandi sóttvarnaráðstafanir gilda til miðnættis mánudaginn 19. október. Við bíðum eftir frekari fyrirmælum frá sóttvarnaryfirvöldum varðandi næstu viku.

Við vonumst að sjálfsögðu til að skólahald komist sem fyrst í eðlilegt horf aftur.

Við munum senda upplýsingar með tölvupósti og setja á heimasíðu MÍ um leið og þær liggja fyrir. Upplýsingar um fyrirkomulag næstu viku verða sendar út í síðasta lagi á mánudaginn.

Gangi ykkur öllum áfram vel.