22 mar 2021

Vel heppnuð frumsýning

Á föstudaginn frumsýndi leikfélag MÍ söngleikinn Hárið í Edinborgarhúsinu í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar. Frumsýningin heppnaðist afar vel og var sýningunni klappað lof í lófa í lokin. 

Söngleikurinn Hárið er eftir þá Gerome Ragni og James Rado í íslenskri þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar. Um útsetningu á tónlist sá Madis Mäekalle,og hljómsveitastjórn er í höndum Beötu Joó. Henna-Rikka Nurmi samdi dansana. Um hljóð sér Ásgeir Helgi Þrastarson, Friðþjófur Þorsteinsson sá um ljósahönnun, Helga Guðrún Gunnarsdóttir um hár, Unnur Conette Bjarnadóttir sá um búninga og málari var Steff Hilty. Formaður leikfélags MÍ er Dagný Björg Snorradóttir.

Framundan eru fleiri sýningar og hvetjum við áhugasama til að tryggja sér miða sem fyrst. Miðapantanir fara fram í gegnum vefsíðuna https://leikfelaglmi.is/

  • Sýning 4, þriðjudaginn 23. mars kl. 20.
  • Sýning 5, miðvikudaginn 24. mars kl. 20.
  • Sýning 6 föstudaginn 26. mars kl. 20
  • Sýning 7 laugardaginn 27. mars kl. 20
  • Sýning 8 sunnudaginn 28. mars kl. 20

 

16 mar 2021

Leikfélag MÍ frumsýnir söngleikinn Hárið

Það styttist heldur betur í að sýningar hefjist á söngleiknum Hárinu en verkið verður frumsýnt í Edinborgarhúsinu föstudaginn 19. mars kl. 20. Söngleikurinn er eftir þá Gerome Ragni og James Rado og er í þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar. Tónlistin er eftir Galt MacDermont og leikstjóri er Gunnar Gunnsteinsson.

Fjölmargir nemendur koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Það er fjölmennt lið leikara og hljóðfæraleikara ásamt þeim sem sinna tæknimálum, hárgreiðslu og förðun ásamt ýmsum þáttum sýningarstjórnar.

Alls eru átta sýningar áætlaðar til að byrja með en mögulega verður hægt að bæta við auka sýningum ef aðsókn verður góð. Miðasala fer fram á netinu þar sem gestir kaupa miða í ákveðin sæti þannig að hægt sé að fara eftir sóttvarnarreglum. Allar sýningarnar hefjast kl. 20. 

Miðasala á Hárið

 

 

1 mar 2021

Tilslakanir í skólastarfi vegna nýrrar reglugerðar

reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar hefur tekið gildi. Í henni felast nokkrar tilslakanir sem taka gildi frá og með mánudeginum 1. mars. Reglugerðin gildir til 30. apríl n.k. Nemendur fá kynningu á þessum breytingum á mánudagsmorgun.

 1. Grímunotkun

Skv. reglugerðinni þarf að nota grímur ef ekki er hægt að halda 1 m fjarlægð. Þetta þýðir að í skólastofum þar sem aðstæður eru þannig að hægt er að hafa meira en 1 m á milli nemenda þarf ekki að nota grímur. Þetta er auðvitað mjög misjafnt milli hópa en við biðjum kennara um að leggja línurnar með þetta í sínum skólastofum eftir aðstæðum hverju sinni. Utan skólastofa er grímuskylda.

 

 2. Sótthreinsun

Skv. reglugerðinni þarf eins og áður að sótthreinsa sameiginlega snertifleti í skólastofum eftir hvern nemendahóp. Áfram gildir að við þrif á skólahúsnæðinu fer fram sótthreinsun.

 

 3. Einstaklingsbundnar sóttvarnir

Áfram er lögð áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir eins og sprittun við innkomu á ný svæði.

 

4. Breyttur opnunartími mötuneytis

Mötuneytið verður opið eins og fyrir Covid í 1 klst á dag. Mötuneytið verður opið frá 12:20-13:20 alla virka daga.

 

5. Félagslíf nemenda

Nemendur mega koma saman utan hefðbundins skólatíma til kl. 23:00 í húsnæði skólans.

 

6. Heimavistin

Gestakomur verða leyfilegar á heimavistinni.

 

28 feb 2021

Sólrisuhátíð 2021

Sólrisuhátíð 2021 var sett sl. föstudag með stuttri skrúðgöngu og síðan var boðið upp á möffins í Gryfjunni. Framundan er sólrisuvikan og þar sem talsvert hefur verið létt á samkomutakmörkunum með nýrri reglugerð um skólahald sem tók gildi í síðustu viku, þá verður hægt að bjóða upp á skemmtilega dagskrá alla vikuna. Gróskudagar verða svo á sínum stað á þriðjudag og miðvikudag þar sem gert er uppbrot á hefðbundinni kennslu og nemendur geta valið sér smiður af ýmsu tagi.

 

  

22 feb 2021

Háskóladagurinn 2021

Háskóladagurinn 2021 verður haldinn laugardaginn 27. febrúar n.k. Að þessu sinni verður dagurinn og viðburðir honum tengdir alfarið á netinu vegna samkomutakmarkana af völdum Covid-19. Í síðustu viku var opnaður ný vefur Háskóladagsins, haskoladagurinn.is sem mun einfalda aðgengi allra að upplýsingum um það háskólanám sem er í boði á landinu. 

Á laugardaginn kemur munu um 300 fjarfundir tengjast vefnum þar sem hægt verður að fá upplýsingar um allar námsbrautir en á fjarfundunum geta áhugasamir spurt spurninga um námið og spjallað við fulltrúa háskólanna, nemendur og kennara. Á vefnum er afar öflug og einföld leitarvél sem auðveldar verðandi nemendum að finna draumanámið.

9 feb 2021

Nýr yfirmaður bókasafns og skjalastjóri

Um síðustu mánaðamót hóf Pernilla Rein MS í bókasafns- og upplýsingafræði störf við skólann. Pernilla hefur verið ráðin sem yfirmaður bókasafns skólans og skjalavörður. Hún tekur þar með við af Júlíu Björnsdóttur sem sinnt hefur þessum störfum s.l. þrjú og hálft ár. Viðvera Pernillu á bókasafninu er á milli kl. 9 og 12 alla virka daga og nemendur og kennarar eru hvött til þess að nýta sér þjónustuna sem í boði er. Við hlökkum til samstarfsins við Pernillu er bjóðum hana velkomna til starfa við MÍ.

4 feb 2021

Nám til iðnmeistara hafið í MÍ

Í gær settust um 20 nemar í iðnmeistaranámi á skólabekk í MÍ. Nokkuð er um liðið síðan nám til iðnmeistara var kennt við skólann síðast og góð þátttaka í náminu er sérstaklega ánægjuleg. Kennt verður nokkra miðvikudaga og flesta fimmtudaga frá kl. 18-21 og áætlað er að kennslu á önninni ljúki í lok apríl. Námið tekur þrjár annir og eru um 11 einingar kenndar á hverri önn. Á kynningarfundi og fyrstu kennslustund í gær var góð mæting og eftirvænting í loftinu. Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri og Þröstur Jóhannesson húsasmíðakennari munu sjá um kennslu í áfanganum Kennsla og leiðsögn sem kenndur verður í hverri viku en aðrir kennarar eru Una Þóra Magnúsdóttir sem kennir Almenna lögfræði og reglugerðir, Heiða Jónsdóttir sem kennir Grunn að gæðahandbók og Ísól Fanney Ómarsdóttir sem kennir Aðferðir verkefnastjórnunar. Þær munu kenna í styttri lotum. Námið mun einnig fram á Teams en einn nemandi er í fjarnámi frá Reykhólum. 

8 jan 2021

Fyrstu kennsluviku lokið

Þá er fyrstu kennsluviku vorannar lokið. Við í MÍ erum mjög glöð og ánægð að hafa getað hitt nemendur í skólahúsnæðinu og að skólastarfið geti farið af stað í staðkennslu. Við erum líka stolt og þakklát fyrir hversu vel nemendur hafa farið að öllum tilmælum um sóttvarnir og grímunotkun. Þeir eruð til fyrirmyndar! 

Skólastarf næstu viku verður með sama sniði og þessa vikuna nema við gerum örlitlar breytingar á opnunartíma mötuneytisins. Við minnum síðan á að kennsla á afreksíþróttasviði hefst í næstu viku.

Hér má lesa nánar um skólastarfið í næstu viku.

 

8 jan 2021

MÍ áfram í Gettu betur

Nú er fyrstu umferð í Gettu betur lokið og ljóst hvaða lið komast áfram í 16 liða úrslit. Lið MÍ var annað stigahæsta tapliðið og mun mæta liði Fjölbrautarskólans í Garðabæ í næstu viðureign. Önnur umferð keppninnar fer fram í næstu viku á Rás 2 og MÍ og FG eigast við í beinni útsendingu þriðjudaginn 12. janúar kl. 20.10. 

Til hamingju með árangurinn og áfram MÍ!