3 jan 2021

Brautskráning á haustönn 2020

Þann 18. desember s.l. voru 20 nemendur brautskráðir við athöfn í Ísafjarðarkirkju. Vegna fjöldatakmarkana voru aðeins útskriftarnemar viðstaddir, ásamt tónlistarfólki og nokkrum úr hópi stjórnenda og starfsfólks, en streymt var frá athöfninni.

Að þessu sinni voru brautskráðir nemendur af 6 brautum. Einn nemandi lauk námi af lista- og nýsköpunarbraut, 3 sjúkraliðar útskrifuðust og 17 nemendur luku námi af stúdentsprófsbrautum. Þrír af félagsvísindabraut, þrír af náttúruvísindabraut, níu af opinni stúdentsbraut og tveir með stúdentspróf af fagbraut. Verðlaun fyrir góðan námsárangur hlaut Ingveldur Hera Magnúsdóttir sem útskrifaðist sem sjúkraliði og stúdent af fagbraut. Glóð Jónsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir einstaka þrautseigju og seiglu í námi.

Við upphaf athafnarinnar lék Oliver Rähni nemandi skólans á 2. ári etýðu Op. 8, No. 11 eftir Alexander Scriabin á píanó. Síðan stýrðu Hildur Halldórsdóttir aðstoðarskólameistari og Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri brautskráningu og afhendingu verðlauna. Þá fluttu nýstúdentarnir Andri Fannar Sóleyjarson og Magni Jóhannes Þrastarson lagið My way og Pétur Ernir Svavarsson lék með þeim á píanó. Að lokum ávarpaði Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari nýstúdenta og sjúkraliða og óskaði þeim heilla í framtíðinni.

 

 

3 jan 2021

Upphaf vorannar

Nú um áramótin tók gildi ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar Reglugerðin felur í sér ánægjulegar breytingar en skv. henni er skólastarf á framhaldsskólastigi heimilt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um sóttvarnir. Ljóst er að reglugerðin mun falla úr gildi ef smitum fjölgar í samfélaginu. Óvissan við upphaf vorannar er því mikil. Það mun því reyna á okkur öll eins og áður að láta skólastarfið ganga - með hvaða hætti sem það verður. Saman munum við geta þetta!

Veigamesta atriðið í reglugerðinni fyrir okkur í MÍ er að blöndun milli hópa er leyfileg sem þýðir að við getum haldið af stað inn í vorönnina með kennslu í skólahúsnæðinu skv. stundatöflu.

Áfram munu ýmsar reglur gilda um smit- og sóttvarnir sem kynntar verða betur þegar skólinn hefst en allir nemendur þurfa að búa sig undir að nota grímur í skólanum því fyrst um sinn a.m.k. verður grímuskylda. Grímur er að finna við alla innganga í skólann.

Ákveðið hefur verið að þriðjudaginn 5. janúar verði ekki kennd hraðstundatafla eins og til stóð. Kennsla mun hefjast skv. stundatöflu miðvikudaginn 6. janúar. Kennsla á afreksíþróttasviði hefst 11. janúar.

 

Stundatafla og töflubreytingar:

Opnað verður fyrir stundatöflur í INNU mánudaginn 4. janúar. Þar má einnig sjá bókalista. Þennan dag verða rafrænar töflubreytingar í boði (nánar kynnt síðar). Töflubreytingar hjá áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa verða í boði þriðjudaginn 5. janúar frá kl. 13:00. Hægt er að panta tíma hér eða hjá ritara skólans. Til að forðast hópamyndun þarf að panta tíma!

 

Mötuneyti opið:

Frá og með miðvikudeginum 6. janúar verður mötuneytið opið. 30 manns mega vera í mötuneytinu í einu og til að koma sem flestum að verður opnunartímanum því skipt í þrennt:

  1. hópur 11:55-12:15, síðan tekur við sóttvarnarhlé
  2. hópur 12:25-12:50, síðan tekur við sóttvarnarhlé
  3. hópur 13:00-13:20

 

Skólastarfið í skólahúsnæðinu:

  • Áhersla er á einstaklingsbundnar sóttvarnir
  • 2 metra reglan er í gildi en þar sem henni verður ekki viðkomið þarf að nota grímur. Þar sem viðbúið er að 2 metra reglan verði víða erfið í framkvæmd er grímuskylda í öllu skólahúsnæðinu. Grímur er að finna við alla innganga í skólann.
  • Þegar komið er inn í skólahúsnæðið er mikilvægt að allir spritti sig Sótthreinsa þarf skólastofur í lok hverrar kennslustundar, nema sami hópur sé að koma aftur í skólastofuna
  • Mikilvægt er að loftræsta vel í skólastofum, s.s. með því að hafa glugga opna eins og hægt er
  • Bókasafnið er opið en þar mega ekki koma saman fleiri en 30
  • Mötuneytið verður opið og verður gert ráð fyrir þremur 30 manna hópum frá kl. 11:55-13:20
  • Gryfjan verður opin
  • Áfram verður verkferill í gildi vegna Covid 19 smits eða gruns um smit

 

17 des 2020

Brautskráning haustannar 2020

Brautskráning haustannar fer fram frá Ísafjarðarkirkju á morgun, 18. desember, kl. 15:00.

Að þessu sinni brautskráum við 20 nemendur af sex brautum; 1 nemandi útskrifast af lista- og nýsköpunarbraut, 3 sjúkraliðar útskrifast og 17 nemendur útskrifast með stúdentspróf; 3 af félagsvísindabraut, 3 af náttúruvísindabraut, 9 af opinni stúdentsbraut og 2 með stúdentspróf af fagbraut.

Vegna gildandi sóttvarnareglna verða því miður engir gestir viðstaddir athöfnina.

Streymt verður frá athöfninni og hefst útsending kl. 14.50.

Streymið er hér.

Æfing útskriftarefna fyrir athöfnina fer fram í dag, fimmtudaginn 17. desember kl. 17:00. 

 

15 des 2020

Gettu betur 1. umferð 2021

Búið er að draga í fyrstu umferð Gettu betur sem hefst eftir áramót. 

Menntaskólinn á Ísafirði mun mæta Menntaskólanum á Laugarvatni í fyrstu umferð sem fram fer miðvikudaginn 6. janúar. 

Lið Menntaskólans á Ísafirði er í ár skipað þeim Einari Geir Jónassyni, Davíð Hjaltasyni og Dagbjörtu Ósk Jóhannsdóttur.

Þjálfari liðsins eins og í fyrra er Veturliði Snær Gylfason. Liðið hefur stundað æfingar á haustönn. 

Liðið náði frábærum árangri í fyrra og komst í 8 liða úrslit og þar með í sjónvarpshluta keppninnar.

Við óskum Gettu betur liði MÍ góðs gengis í fyrstu umferð. 

10 des 2020

Nýnemar í rafiðngreinum

Allir nýnemar í rafiðngreinum í Menntaskólanum á Ísafirði fengu spjaldtölvur að gjöf frá Rafmennt - fræðslusetri rafiðnaðarins og voru þær afhentar í skólanum í gær, miðvikudaginn 10. desember.
Munu spjaldtölvurnar koma að góðum notum því stór hluti námsgagna í rafiðngreinum er nú rafrænn.
Við þökkum fyrir rausnarlega gjöf til nemenda.
4 des 2020

Síðustu kennsludagar og námsmatsdagar

Kæru nemendur,

þá fer þessari undarlegu önn alveg að ljúka. Nú eru bara tveir kennsludagar eftir af önninni og þá taka við sex námsmatsdagar.

Þið hafið staðið ykkur ótrúlega vel að halda þetta út. Við gerum okkur grein fyrir að mörgum hefur reynst þetta erfitt og þetta hafa verið krefjandi aðstæður fyrir alla. Tilkoma bóluefnis gefur okkur tilefni til bjartsýni og vonandi getum við öll mætt í skólann í upphafi vorannar.

Hér fyrir neðan fylgja upplýsingar um síðustu kennslu- og námsmatsdaga, útskrift og upphaf vorannar.

Gangi ykkur öllum vel á lokasprettinum.

Smellið hér til að sjá fréttabréfið sem sent var til allra nemenda. 

 

 

NÝNEMAR Í BÓKNÁMI:

Síðustu vinnustofur nýnema verða þriðjudaginn 8. desember og verða þær með sama fyrirkomulagi og undanfarnar tvær vikur.

 

NEMENDUR Í BÓKNÁMI:

Bóknám verður í fjarkennslu á Teams en kennarar hafa látið nemendur vita ef einhverjir tímar verða í skólahúsnæðinu mánudag og/eða þriðjudag. 

 

NEMENDUR Í VERKNÁMI:

Verknámskennsla verður áfram samkvæmt stundatöflu í skólahúsnæðinu.

 

NEMENDUR Á STARFSBRAUT:

Starfsbrautarkennsla verður áfram samkvæmt stundatöflu í skólahúsnæðinu.

27 nóv 2020

Vikan 30. nóv. - 4. des.

Kæru nemendur,

nú er bara ein og hálf kennsluvika eftir af önninni og þá taka við sex námsmatsdagar. 

Fyrirkomulag skólastarfsins sem kynnt var í síðustu viku gildir til annarloka:

Vinnustofur nýnema í bóknámi og NÁSS verða á þriðjudag og fimmtudag í skólanum. 

NEMENDUR Í BÓKNÁMI: Bóknám verður áfram í fjarkennslu á Teams en kennarar láta nemendur vita með fyrirvara ef einhverjar kennslustundir verða í skólahúsnæðinu.

NEMENDUR Í VERKNÁMI: Verknámskennsla verður áfram samkvæmt stundatöflu í skólahúsnæðinu.

NEMENDUR Á STARFSBRAUT: Starfsbrautarkennsla verður áfram samkvæmt stundatöflu í skólahúsnæðinu.

Bókasafnið í skólanum verður opið út önnina. Geta nemendur nýtt sér þjónustu safnsins í samráði við safnvörð sem verður á staðnum. Fjöldatakmarkanir og reglur um sóttvarnir gilda á bókasafninu eins og í skólanum og er mikilvægt að allir fylgi þeim.

Nemendaþjónusta við nemendur er með sama sniði og verið hefur. Nemendur geta bókað tíma hjá náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóra HÉR. Við hvetjum nemendur til að leita til námsráðgjafa með allt sem snýr að náminu.

SÓTTVARNIR: Allir þurfa að huga að sínum persónubundnu sóttvörnum. Nauðsynlegt er að spritta sig við komuna inn í skólahúsnæðið og grímuskylda er þegar ekki er hægt að tryggja 2 m fjarlægðarmörk.

 

Gangi ykkur öllum áfram vel

og endilega hafið samband við skólann ef það eru einhverjar spurningar.

Þessi skrítna önn er alveg að verða búin! 

 

 

27 nóv 2020

Landskeppni í líffræði

Landskeppni framhaldsskólanna í líffræði var haldinn fyrir skemmstu. 

Nokkrir nemendur MÍ tóku þátt og er þetta í fjórða sinn sem nemendur MÍ taka þátt í keppninni. 

Prófið er samið samkvæmt áherslum ólympíuleikanna í líffræði og byggir á alþjóðlegu námsefni fyrir framhaldsskóla. Keppnin fer fram samtímis um land allt. 

Ragnheiður Fossdal er líffræðikennari Menntaskólans á Ísafirði og hefur hún haldið utan um undirbúning og þátttöku nemenda MÍ í keppninni. 

Af þeim nemendum MÍ sem tóku þátt í ár stóð Karólína Mist Stefánsdóttir sig best og hlaut hún að launum glænýja útgáfu af líffræðibókinni Biology - a global approach eftir Campbell o.fl. 

Hildur Halldórsdóttir aðstoðarskólameistari afhenti Karólínu Mist bókina. 

 

 

20 nóv 2020

Vikan 23. - 27. nóv.

Nú eru tvær og hálf kennsluvika eftir af önninni og þá taka við sex námsmatsdagar. Önnin er sem sagt að verða búin en við þurfum að klára hana! Nú skiptir miklu máli að gefast ekki upp. Ef þú ert í vandræðum ekki hika þá við að leita til okkar í MÍ. Það eru allir, kennararnir þínir, námsráðgjafi og stjórnendur, tilbúnir að aðstoða.

Það fyrirkomulag skólastarfsins sem hér er kynnt gildir til annarloka. 

NÝNEMAR Í BÓKNÁMI:

Það er mat okkar í MÍ að mikilvægt sé að nýnemar hafi tök á að mæta í skólann til að geta sinnt náminu. Næstu þrjá þriðjudaga og tvo fimmtudaga verða vinnustofur fyrir nýnema í bóknámi. Nemendur í verknámi eru velkomnir í slíkar vinnustofur ef þær passa í stundatöfluna þeirra. Kennsla í NÁSS1NN03 fer fram í staðnámi þessa fimm daga. Athugið að kennsla utan þessara tíma verður á Teams eins og verið hefur.

Formið á vinnustofum fyrir nýnemana er þannig að nýnemahópnum er skipt í tvennt og fer skiptingin eftir því hvort þeir eru í hópi 1 eða 2 í áfanganum NÁSS1NN03. Hópur 1 verður með aðstöðu í stofu 4 og hópur 2 verður með aðstöðu í stofum 5 og 6. Nemendur mæta skv. meðfylgjandi töflu og þar má líka sjá í hvaða námsgreinum vinnustofurnar eru og hvenær. Kennarar viðkomandi námsgreina munu mæta í vinnustofurnar og aðstoða nemendur eftir því sem þörf er á. Nemendur sem þurfa að bíða eftir almenningssamgöngum til að komast heim geta verið í sínum stofum.

  

SÓTTVARNIR: Allir þurfa að huga að sínum persónubundnu sóttvörnum. Nauðsynlegt er að spritta sig við komuna inn í skólahúsnæðið og grímuskylda er þegar ekki er hægt að tryggja 2 m fjarlægðarmörk.

 

NEMENDUR Í BÓKNÁMI:

Bóknám verður áfram í fjarkennslu á Teams en kennarar láta nemendur vita með fyrirvara ef einhverjar kennslustundir verða í skólahúsnæðinu.

 

NEMENDUR Í VERKNÁMI:

Verknámskennsla verður áfram samkvæmt stundatöflu í skólahúsnæðinu.

 

NEMENDUR Á STARFSBRAUT:

Starfsbrautarkennsla verður áfram samkvæmt stundatöflu í skólahúsnæðinu.

 

Þessar upplýsingar um fyrirkomulag út önnina er einnig að finna í fréttabréfinu sem sent var út til allra nemenda föstudaginn 20. nóvember:

SJá HÉR 

15 nóv 2020

Vikan 16. - 20. nóv.

Þriðjudaginn 17. nóvember rennur út núgildandi reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Föstudaginn 13. nóvember var kynnt hvaða breytingar eru fyrirhugaðar þann 18. nóvember n.k.

Fyrstu viðbrögð okkar við þeim fréttum eru að líklega verða ekki miklar breytingar á skólastarfi en við vitum það betur þegar reglugerðin hefur verið gefin út. Ef ástæða verður til breytinga fáið þið upplýsingar um það mánudaginn 16. nóv. eða þriðjudaginn 17. nóv.