Um síðustu helgi þreyttu nýútskrifaðir húsasmiðir sveinspróf í húsnæði MÍ. Sex nemendur luku sveinsprófinu. Á myndinni sem hér fylgir má sjá sveinsstykkið þeirra sem var vinnutrappa. Við óskum húsasmiðunum okkar innilega til hamingju með árangurinn.
Fréttir
Minningarsjóður Gyðu Maríasdóttur var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar á 50 ára afmæli skólans. Stærstur hluti sjóðsins er tilkominn frá Gyðu Maríasdóttur skólastjóra húsmæðraskólans en einnig frá systkinum hennar þeim Jóni, fyrrverandi útibússtjóra Landsbankans á Ísafirði og Hrefnu og Maríu en þau arfleiddu sjóðinn að miklum hluta eigna sinna. Nú er sjóður þessi orðinn digur og ætlunin er að veita úr honum umtalsverða upphæð í ár ef styrkhæfar umsóknir berast. Upphaflega var markmið sjóðsins að styrkja konur ættaðar frá Ísafirði og nágrenni til framhaldsnáms í húsmæðrafræðum. Síðar voru skilyrði sjóðsins rýmkuð vegna breytinga í íslensku samfélagi. Stjórn sjóðsins skipa: Útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og fulltrúi frá Þóreyjarsystrum í Oddfellowstúkunni á Ísafirði.
Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár.
Umsóknir skulu berast til Jóns Reynis Sigurvinssonar skólameistara Menntaskólans á Ísafirði netfang: jon@misa.is. Umsóknarfrestur er til 30. júní 2021.
Stjórn Styrktarsjóðs Gyðu Maríasdóttur
Í lok maí bárust þær ánægjulegu fréttir að vottunarnefnd iCert ehf hefði að lokinni úttekt staðfest að Menntaskólinn á Ísafirði starfræki gæðastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015 og nær til reksturs framhaldsskóla á verknáms- og bóknámsbrautum. Staðfestingin fékkst að loknu löngu undirbúinings- og vinnuferli, en það var í lok árs 2017 sem markmið um innleiðingu gæðakerfis og vottun var sett í stefnuskjal skólans. Stjórnendur þakka gæðaráði og öllu starfsfólki skólans fyrir þennan góða árangur.
Í Menntaskólanum á Ísafirði er áfanginn Umhverfis- og átthagafræði (UMÁT) kenndur á hverju ári.
Hluti af UMÁT áfanganum á haustönn 2020 fjallaði um þjóðgarða og var ferlið við stofnun þjóðgarðsins á sunnanverðum Vestfjörðum skoðað.
Í tengslum við efnið var unnið að tillögum að nafni á nýja þjóðgarðinn. Nemendur í áfanganum voru 50 talsins. 19 tillögur að nafni bárust frá nemendum og var síðan kosið í þremur hlutum út frá tillögum nemenda. Í lokin var kosið um sex efstu tillögurnar sem voru.
Sigurtillaga UMÁT í MÍ var Vesturgarður með þeim rökstuðningi að það væri einfalt, lýsandi og grípandi.
Sigurtillagan var send fyrir hönd nemenda í samkeppni Umhverfisstofnunar um nafn á þjóðgarðinn, ásamt hinum fimm efstu tillögunum.
Samstarfshópur verkefnisins hjá Umhverfisstofnun hefur nú farið yfir tillögurnar og valið úr þeim fimm nöfn sem hópnum fannst koma best til greina og efnir nú til kosninga um nafnið. Er Vesturgarður ein af þeim tillögum sem nú er kosið um.
Tillögurnar sem hægt er að kjósa um nú á vef Umhverfisstofnunar eru eftirfarandi:
- Vesturgarður - einfalt nafn, lýsandi og grípandi.
- Þjóðgarðurinn Gláma - nafnið myndi halda á lofti nafni jökuls sem er horfinn ásamt því að vísa til Glámuhálendis
- Dynjandisþjóðgarður - vísar til fossins Dynjanda
- Arnargarður – vísar til stofns hafarna í þjóðgarðinum
- Vestfjarðaþjóðgarður
Við hvetjum alla til að kjósa um nafn á nýja þjóðgarðinn á sunnanverðum Vestfjörðum HÉR: Kosning um nafn á þjóðgarði
Laugardaginn 22. maí s.l. voru 76 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Vegna sóttvarnartakmarkana mátti takmarkaður fjöldi vera við athöfnina. Því voru einuningis útskriftarnemar, gestir þeirra og starfsfólk skólans viðstödd, en Viðburðarstofa Vestfjarða sá um beint streymi frá athöfninni. Útskriftarfagnaður sem hefð er fyrir að halda að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum féll því miður niður annað árið í röð.
Nemendur voru brautskráðir af 15 námsbrautum. Tíu nemendur úr húsasmíði, 2 nemendur af lista-og nýsköpunarbraut, 7 nemendur af sjúkraliðabraut, 8 úr skipstjórnarnámi A, 4 úr skipstjórnarnámi B, 1 úr stálsmíði og 2 úr vélstjórnarnámi A. 4 nemendur útskrifuðust með diplómu í förðun. Alls útskrifuðust 47 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: 4 af félagsvísindabraut, 5 nemendur af náttúruvísindabraut, 2 nemendur af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 18 nemendur af opinni stúdentsbraut, 8 nemendur af opinni stúdentsbraut – afreksíþróttasviði, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut með áherslu á háriðngreinar og 7 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf af fagbraut.
Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlist flutt af útskriftarnemum stóran svip á athöfnina. Dux scholae 2021 er Karólína Mist Stefándóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,53. Semidux er Egill Fjölnisson stúdent af félagsvísindabraut með meðaleinkunnina 9,05. Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.
Á morgun, laugardaginn 22. maí kl. 13:00, fer fram brautskráning og skólaslit í Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju.
Brauskráðir verða 76 nemendur af 15 námsbrautum. Af útskriftarnemun eru 33 dagskólanemendur, 32 dreifnámsnemendur og 17 nemendur í fjarnámi.
10 nemendur útskrifast úr húsasmíði, 2 nemendur af lista-og nýsköpunarbraut, 7 nemendur af sjúkraliðabraut, 8 úr skipstjórnarnámi A, 4 úr skipstjórnarnámi B, 1 úr stálsmíði og 2 úr vélstjórnarnámi A. 4 nemendur útskrifast með diplómu í förðun. 47 nemendur útskrifast með stúdentspróf, 4 af félagsvísindabraut, 5 nemendur af náttúruvísindabraut, 2 nemendur af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 18 nemendur af opinni stúdentsbraut, 8 nemendur af opinni stúdentsbraut – afreksíþróttasviði, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut með áherslu á háriðngreinar og 8 nemendur útskrifast með stúdentspróf af fagbraut.
Vegna samkomutakmarkana eru eingöngu boðsgestir velkomnir í athöfnina. Hægt verður að hofa á athöfnina í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða með því að smella hér
Þegar líða fer að lokum vorannar er einn af árvissum vorboðum þegar útskriftarefni kveðja skólann. Hér í MÍ bjóða útskriftarefni starfsfólki í veglega veislu sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu. Útskriftarefni og starfsfólk eiga saman góða stund yfir veitingum sem að þessu sinni voru bornar fram í mötuneyti skólans, svo fylgt væri takmörkunum vegna sóttvarna. Daginn eftir taka útskriftarefni daginn snemma og fara um bæinn í skemmtilegum búningum, vekja starfsfólk og flesta aðra í leiðinn. Síðan mæta þeir i mötuneyti skólans í staðgóðan morgunverð áður en haldið er út í daginn í meira sprell.
Starfsáætlun (skóladagatal) skólaársins 2021-2022 var tekin til afgreiðslu og samþykkt, á skólaráðsfundi þann 4. maí s.l. Áður höfðu drög að áætluninni verið kynnt kennurum á sviðsfundum og athugasemdir bárust ekki.
Sýningar á söngleiknum Hárinu hefjast að nýju í kvöld en vegna samkomutakmarkana þurfi að hætta sýningum í mars. Sýnt verður í Edinborgarhúsinu föstudag, laugardag og sunnudag. Sýningar hefjast kl. 20 og miðasala er á Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði
Út er komin ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar og gildir hún til 5. maí. Henni fylgir lítil breyting hvað skólahald varðar:
- Í stað 2 m fjarlægðartakmarkana má nú vera 1 m. Stólum og borðum í mötuneytinu hefur nú verið raðað í samræmi við það.
- Áfram þarf að vanda allar sóttvarnir, spritta sig þegar komið er inn á ný svæði og alls staðar er grímuskylda.
- Nemendur þurfa áfram að sótthreinsa borð og stóla eftir kennslustundir í samstarfi við kennara.
Nú eru aðeins 14 kennsludagar, fyrir utan 6 námsmatsdaga, eftir af önninni. Nú er bara að gefa í á lokametrunum, klára áfangana og halda sóttvarnirnar út. Við getum þetta!