24 sep 2020

Vandræði með Moodle

Eins og nemendur og starfsfólk MÍ hafa orðið varir við í dag og í gær hafa verið vandræði með skólanetið og Moodle. 

Skólanetið, heimasíðan og Moodle lágu niðri mestan part dags í gær.

Í dag, fimmtudaginn 24. sept., er Moodle hægvirkt en unnið er að viðgerð hjá Snerpu þjónustuaðila MÍ. Vonir eru bundnar við að Moodle verði komið í lag á morgun. 

Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægindum.

Vonandi leysist þetta hratt og örugglega. 

Nánari upplýsingar verða birtar um leið og þær berast. 

 

21 sep 2020

Hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu vegna Covid 19

Í ljósi hertra aðgerða í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu er vert að taka fram að við í MÍ byrjum þessa viku á sömu nótum og við höfum verið síðustu vikur.
 
Við vitum að vegna Covid geta hlutirnir breyst hratt og við erum viðbúin að gera breytingar ef á þarf að halda.
 
Munum að huga vel að okkar persónubundnu sóttvörnum, nauðsynlegt er að spritta sig þegar komið er inn í nýtt rými, maska þarf að nota ef ekki er hægt að virða 1 m fjarlægðarmörk og engar hópamyndanir eru leyfðar.
 
Verum heima ef við erum með einhver flensulík einkenni, öll veikindi þarf að tilkynna á netfangið misa@misa.is eða í gegnum www.inna.is
 
Nú þurfum við öll að standa saman og virða þær reglur sem eru í gildi í skólanum.
Markmiðið okkar er sameiginlegt, að halda skólanum opnum.
20 sep 2020

Áfram veginn

Enn er í gildi reglugerð um takmörkun á samkomum sem kveður á um 200 manna fjöldatakmörk, 1 metra fjarlægðarreglu og maskanotkun ef ekki er hægt að virða 1 m bil. Regluegerðin gildir til 27. september n.k.

Við erum jafn ánægð og fyrr með hversu vel skólahald hefur gengið fyrstu vikurnar, þökk sé nemendum og starfsfólki skólans.

Mikilvægt er að við höldum áfram að sinna sótt- og smitvörnum og áfram er okkar sameiginlega markmið að halda skólanum opnum.

Í næstu viku höldum við áfram á sömu braut. Virðum 1 metra regluna, sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði og munum að í stigum í bóknámshúsi er einstefna. Við förum upp hjá sjoppunni eða milli stofu 16 og 17. Við förum niður hjá kennarastofunni og stofu 8 eða milli stofu 3 og 4

Upplýsingar eru sendar með tölvupósti á hverjum föstudegi til nemenda og starfsfólks með helstu upplýsingum í lok vikunnar og fyrirkomulagi næstu viku. 

17 sep 2020

Undirbúningur fyrir 50 ára afmæli MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði fagnar 50 ára afmæli þann 3. október næstkomandi. 

Til stóð að halda uppá afmælið með veglegum hætti, veislu og dagskrá, en af því verður ekki sökum aðstæðna í samfélaginu. 

Þessum tímamótum í sögu skólans verður engu að síður fagnað á ýmsan hátt. 

Afmælismyndband um skólann er í vinnslu og er það unnið af starfandi leikstjóra og kvikmyndagerðarmönnum á Ísafirði, þeim Snævari Sölvasyni, Ásgeiri Helga Þrastarsyni og Hauki Sigurðssyni. Allir eru þeir fyrrum nemendur MÍ. 

Undanfarið hafa þeir fylgst með skólastarfinu og myndað fjölbreytta starfið sem fram fer í skólanum á afmælisárinu. 

Fyrirkomulag afmælisins verður auglýst nánar síðar. 

13 sep 2020

Vikan 14. - 18. sept.

Á þriðjudaginn var opnað milli hæða í bóknámshúsi þegar ný reglugerð um takmörkun á samkomum var birt og fjöldatakmörk voru hækkuð í 200 manns. Nýja reglugerðin gildir til 27. september n.k.

Enn og aftur þökkum við ykkur nemendum og svo frábæru starfsfólki okkar hversu vel skólahald hefur gengið fyrstu vikurnar. Mikilvægt er að við sofnum ekki á verðinum þegar kemur að sótt- og smitvörnum og áfram er okkar sameiginlega markmið að halda skólanum opnum.

Í þessari viku höldum við áfram á sömu braut. Virðum 1 metra regluna, sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði og munum að í stigum í bóknámshúsi er einstefna. Við förum upp hjá sjoppunni eða milli stofu 16 og 17. Við förum niður hjá kennarastofunni og stofu 8 eða milli stofu 3 og 4.

Allir nemendur hafa fengið sendan tölvupóst með upplýsingum fyrir næstu viku, sjá  hér.  

 

 

8 sep 2020

Lestur er bestur - bókasafnsdagurinn

Í dag, þriðjudaginn 8. september, var bókasafnsdagurinn haldinn hátíðlegur um land allt.  

Í Menntaskólinn á Ísafirði er stórt og vel búið bókasafn í hjarta skólans. Bókasafnið er mikið notað af nemendum skólans í skólastarfinu. 

Í dag fékk hluti nýnema skólans fékk kynningu á bókasafninu og þjálfun í að nota safnið við upplýsingaleit. 

Markmið með bókasafnsdeginum er að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu. 

 

 

8 sep 2020

Opnun stigaganga í bóknámshúsi

Þriðjudaginn 8. september verður breyting á sóttvarnarreglum í skólanum í kjölfar breytinga á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
 
Nú þarf ekki lengur að skipta bóknámshúsi í tvö sóttvarnarhólf og þess vegna verða stigagangarnir fjórir opnaðir. Til að hægt sé að halda 1 m fjarlægðarmörk verður einstefna í öllum stigum.
 
Til að komast UPP á efri hæðina er hægt að fara upp stiga hjá sjoppunni og milli stofu 16 og 17. Til að komast NIÐUR á neðri hæð er hægt að nota stigann milli stofu 3 og 4 sem og stigann við kennarastofuna. Vinsamlegast reynið að snerta sem minnst í stigagöngunum og áfram gildir að við sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði.
 
Þann 7. september 2020 voru gefnar út nýjar leiðbeiningar um skólastarf í framhaldsskólum m.t.t. auglýsingar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, nr. 811/2020, og reglugerðar nr. 864/2020
 
Leiðbeiningarnar má skoða
 
6 sep 2020

Fyrirkomulag vikuna 7. - 11. september

Síðasta vika í MÍ gekk vel. Því er auðvitað fyrst og fremst að þakka samstilltu átaki nemenda og starfsfólks til að láta skólastarf í skugga Covid 19 ganga upp.

Við byrjum þessa viku eins og síðasta vika endaði; með fjórum sóttvarnarrýmum, áherslu á að spritta sig þegar komið er inn í nýtt rými, 1m fjarlægðarmörk og engar hópamyndanir hvorki í Gryfjunni né annars staðar. Kennt verður samkvæmt stundatöflu og rétt stofunúmer er að finna í stundatöflum í Innu. 

Mögulega verða ný tilmæli um skólahald gefin út til framhaldsskóla á mánudaginn, 7. september. Þá munum við gera ráðstafanir samkvæmt þeim og þið verðið upplýst um það. Áfram er okkar sameiginlega markmið að halda skólanum opnum.

Við vekjum athygli á ferli MÍ vegna Covid-19 smits eða gruns um smit. 

Smellið hér. 

Ef einhverjar spurningar vakna endilega hafið samband við skólann á misa@misa.is eða 450-4400.

30 ágú 2020

Fyrirkomulag vikunnar, 31.ágúst til 4. september

Í þessari viku verður áfram kennt samkvæmt stundatöflu. Allir nemendur hafa fengið tölvupóst um fyrirkomulag vikunnar. 

Rétt stofunúmer er nú að finna í öllum stundatöflum nemenda í Innu og verður því ekki gefin út sérstök stofutafla fyrir vikuna. 

Nú er bara áfram gakk og við þurfum að standa okkur jafn vel í þessari viku og í síðustu viku. Við höldum áfram með sömu viðmið þar sem áhersla er á að spritta sig þegar komið er inn á nýtt svæði, 1 metra fjarlægðartakmörk og engar hópmyndanir, hvorki í Gryfjunni né annars staðar.

Við þökkum öllum nemendum og starfsfólki fyrir góða samvinnu við að halda úti öflugu skólastarfi með öllum þeim sóttvarnarráðstöfunum sem þarf til að halda skólanum opnum.

 

28 ágú 2020

Fyrstu viku í kennslu haustönn 2020 lokið

Nú er fyrstu viku fullrar kennslu á haustönn 2020 að ljúka. 

Skólinn fylgir sóttvarnarreglum og hefur gert þær ráðstafanir sem þarf til að gera starfsumhverfi nemenda og starfsmanna eins örugg og hægt er.

Til dæmis er skólahúsnæði skipt upp í fjögur sóttvarnarrými og þurfa nemendur og starfsmenn að fara út úr einu rými til að komast inn í annað, eins og á milli hæða í bóknámshúsi. 

Allir nemendur og starfsfólk hafa lagt sig fram við að fylgja sóttvarnarreglum og laga sig að breyttum aðstæðum í skólastarfinu, sem fer vel af stað og spennandi haustönn framundan.