Fimmtudaginn 26. mars hélt Helena Jónsdóttir, sálfræðingur, fyrirlestur með nemendum MÍ. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina:
Hættum að fresta með aðferðum HAM
Fyrirlesturinn var haldinn á bókasafni skólans og var streymt til nemenda í gegnum Microsoft Teams. Nemendur og kennarar hafa verið duglegir að tileinka sér nýja tækni og aðferðir í námi og kennslu á meðan á skólalokun stendur. Góð mæting var á fyrirlestur Helenu í gegnum netið.
Fyrirlesturinn fjallaði um aðferðir til að takast á við breyttar aðstæður í námi. Nú þegar nemendur í menntaskólum vinna heiman frá sér í fjarnámi reynir á aga og skipulag sem aldrei fyrr. Þá geta kvíði, frestunarárátta eða rík tilhneiging til frestunar verið mikil hindrun í að ná árangri.
Nemendur fengu fræðslu um einkenni og afleiðingar frestunaráráttu og leiðbeiningar um áhrifaríkar leiðir til að takast á við kvíða og frestunaráráttu með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Hugræn atferlismeðferð er áhrifarík og gagnreynd sálfræðinálgun þar sem lært er að takast á við erfiðar tilfinningar á borð við kvíða, reiði og depurð með lausnamiðuðum aðferðum í daglegu lífi.
Helena Jónsdóttir er klínískur sálfræðingur sem sérhæfir sig í meðferð kvíða, streitu, og þunglyndis með aðferðum HAM. Helena starfaði um árabil sem sálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni og á eigin stofu og hefur hún síðasta árið sinnt klínískri vinnu á eigin stofu á Ísafirði ásamt því að halda vinsæl námskeið og fyrirlestra víðsvegar á Vestfjörðum.
Menntaskólinn á Ísafirði þakkar Helenu Jónsdóttur fyrir góðan fyrirlestur og nemendum fyrir þátttökuna. Þessar aðferðir munu án efa nýtast á næstu dögum og vikum í breyttu skólaumhverfi.