24 ágú 2020

Fyrsti skóladagur þar sem kennt er samkvæmt stundatöflu

Í dag hófst skólahald með kennslu samkvæmt stundatöflu. 

Skólastarf er með breyttum hætti vegna covid 19. Við fylgjum sóttvarnarreglum til þess að gera starfsumhverfi nemenda og starfsmanna eins öruggt og hægt er. Það er meðal annars gert með því að takmarka smitleiðir og samneyti meðal nemenda og starfsmanna. 

Hlutverk nemenda er mikilvægt í sóttvörnum og nauðsynlegt að allir fylgi leiðbeiningum skólans, viðhafa gott hreinlæti og sóttvarnir. Veikir nemendur og starfsmenn koma ekki í skólann. 

Skólinn er aðskildur í fjögur sóttvarnarrými: efri og neðri hæð bóknámshúss, verknámshús og mötuneyti/heimavist.

Í hvert sinn sem farið er inn í nýtt sóttvarnarsvæði skal spritta sig, einnig eru sprittstöðvar fyrir framan hverja kennslustofu og nemendur eru beðnir að spritta sig áður en þeir fara inn í stofuna, sem og að spritta sitt vinnusvæði (borð og stóla) í lok kennslustundar. 

Gangar eru einungis til að ferðast á milli stofa. Búið er að líma örvar á gólf sem sýna gönguleiðir, eftir göngum gildir hægri reglan. Öll hópamyndun á göngum eða í öðrum rýmum skólans eins og Gryfju eða bókasafni er stranglega bönnuð. 

 

Þetta eru óvenjulegar aðstæður og saman gerum við öll okkar besta til að skólastarf geti farið fram með góðum og öruggum hætti. 

 

Slóð á stundatöfluna er HÉR 

 

Almennar leiðbeiningar fyrir vikuna eru HÉR 

 

19 ágú 2020

Dagskrá fyrstu skóladaga (19., 20., og 21. ágúst)

Kæru nemendur 

Skólastarfið þessa dagana er flókið vegna samkomutakmarkana og sóttvarna en við í MÍ hlökkum mikið til skólasamstarfsins í vetur og vonum heitt og innilega að skólastarf geti færst í eðlilegt horf sem allra fyrst.  Mikilvægt er að við séum öll samstíga í þessu stóra verkefni og þess vegna áréttum við hér dagskrá næstu daga. Allir nemendur hafa fengið tölvupóst með nánari upplýsingum. 

Miðvikudaginn 19. ágúst var hraðstundatafla á dagskrá. Hún verður ekki.

  • Nemendur sem eru nýir í skólanum eða að hefja aftur nám geta aftur á móti mætt í Gryfjuna (á neðri hæð bóknámshússins) kl. 11:00 og fengið aðstoð með Innu, Moodle og Office 365.

Fimmtudag 20. ágúst og föstudag 21. ágúst 

  • Öll kennsla eldri bóknámsnemenda í fjarnámi
  • Nýnemar mæta skv. stundatöflu
  • Verknámsnemendur mæta skv. stundatöflu, eldri verknámsnemendur eru í fjarnámi í bóknámsáföngum en mæta í verklega tíma
  • Nemendur á starfsbraut mæta skv. stundatöflu

Nemendur þurfa að virða 1 m regluna og mikilvægt er að huga að sóttvörnum.  

Á föstudaginn verða sendar út upplýsingar um hvernig skipulag næstu viku verður. Allir nemendur munu þá mæta eitthvað í kennslustofur en kennslan verður líka að einhverju leyti í fjarnámi. Hvað það ástand mun vara lengi fer alfarið eftir þeim samkomutakmörkunum sem í gildi eru hverju sinni en við munum gera okkar besta til að skipuleggja skólastarfið þannig að þið getið mætt sem mest.

 

Á heimasíðu skólans er síðan sérstakur flipi sem heitir VIÐBRÖGÐ VEGNA COVID og þar má finna ýmislegt gagnlegt, https://misa.is/vidbrogd_vegna_covid-19/

 

Ef eitthvað er óljóst þá endilega sendið okkur tölvupóst á misa@misa.is eða hafið samband í síma 450 4400.

14 ágú 2020

Upphaf haustannar 2020

Kæru nemendur 

 

Það er ljóst að næstu mánuði munum við þurfa að lifa með mismiklum  samkomutakmörkunum vegna Covid 19. Því þarf að skipuleggja skólastarf miðað við þá staðreynd og í samræmi við þær takmarkanir sem framhaldsskólum eru settar. 

Í þessu ljósi hefur skólabyrjun verið breytt hjá hluta eldri nemenda sem hefja námið fyrstu tvo dagana í fjarnámi. Nemendur í dreif- og fjarnámi fá sérstakar upplýsingar eftir helgi.

 

Skólabyrjun verður sem hér segir: 

 

Þriðjudagurinn 18. ágúst kl. 11:00-13:00 

Sérstök kynning fyrir nýnema á skólastarfinu. Kynningin fer fram í Gryfjunni og í lok hennar verður  nemendum boðið að borða í mötuneyti skólans. 

 

Miðvikudagurinn 19. ágúst kl. 11:00-13:00  

Nýnemar og aðrir nemendur sem eru að hefja nám við skólann fá kynningu á helstu tölvukerfum sem notuð eru í skólastarfinu, s.s. INNU, Moodle og Office 365. Nemendur sem eiga fartölvur eru hvattir til að mæta með þær en einnig er hægt að fá lánaðar fartölvur á skrifstofu skólans. Athugið að mötuneyti skólans er opið. 

 

Fimmtudagurinn 20. ágúst 

Kennsla nýnema, starfsbrautar og verknámsnemenda verður skv. stundaskrá í skólahúsnæðinu.  Nánara fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur. Eldri nemendur í dagskóla hefja námið í fjarnámi. Athugið að mötuneyti skólans er opið. 

 

Föstudagurinn 21. ágúst  

Kennsla nýnema, starfsbrautar og verknámsnemenda verður skv. stundaskrá í skólahúsnæðinu.  Nánara fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur. Eldri nemendur í dagskóla hefja námið í fjarnámi. Athugið að mötuneyti skólans er opið. 

  

Mánudagurinn 24. ágúst 

Kennsla allra dagskólanemenda í í skólahúsnæðinu, nánara fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur. Mötuneytið opið. 

 

Sóttvarnir og umgengni: 

Nemendur í bóknámshúsi nota aðaldyr á neðri hæð skólans sem merktar eru inngangur og útgangur. 

Verknámsnemendur ganga inn um aðalinngang verknámshúss. Allir þurfa að spritta sig við inngöngu í skólahúsnæðið og aftur þegar þeir fara inn í skólastofur.

Mikilvægt er að nemendur sem eru með einhver flensulík einkenni komi ekki í skólann og tilkynni það á misa@misa.is og fari að tilmælum sóttvarnarlæknis þ.e. að halda sig heima og skrá sig í sýnatöku. Nemendur í sóttkví eða einangrun þurfa að tilkynna það strax til skólans. 

 

Vegna mötuneytis:

Mötuneyti skólans verður opið með ákveðnum takmörkunum. Verðskráin er sem hér segir (á ekki við um heimavistarbúa):

Annarkort kr. 68.000, hægt er að skrá sig í annaráskrift hér https://form.jotform.com/202264484981360

10 miða  kort  kr. 9.000, hægt að kaupa hjá ritara á skrifstofu skólans

Stakur miði kr. 1.100, hægt að kaupa hjá ritara á skrifstofu skólans

 

 

Að lokum vekjum við athygli á að nú hefur verið opnað fyrir stundatöflu í INNU og þar má einnig finna bókalista.  

 

 

23 jún 2020

Nýnemar haustönn 2020

Nú hafa alls 48 nýnemar verið innritaðir í Menntaskólann á Ísafirði. Þeir hafa nú fengið send nýnemabréf frá skólanum. Í bréfinu eru upplýsingar um upphaf skólaársins 2020-2021, innritunargjöld o.fl. Sérstök kynning fyrir nýnema verður haldin þriðjudaginn 19. ágúst kl. 11:00.

Kennsla hefst miðvikudaginn 20. ágúst með hraðstundatöflu. Opnað verður fyrir stundatöflur í INNU föstudaginn 14. ágúst og þar er sömuleiðis hægt að finna bókalista.

Nemendur sem innrituðust á afreksíþróttasvið eiga von á tölvupósti þar sem þeir þurfa að skrá sig í sína íþróttagrein.

Við erum full tilhlökkunar að taka á móti nýjum hópi MÍ-inga.

22 jún 2020

Lokað vegna sumarleyfa

Skrifstofa skólans er lokuð frá og með 22. júní og opnar aftur eftir verslunarmannahelgi, 4. ágúst n.k.

Málum sem ekki þola bið má vísa til Jóns Reynis Sigurvinssonar skólameistara (jon@misa.is,  s. 896 4636) eða Heiðrúnar Tryggvadóttur aðstoðarskólameistara (heidrun@misa.is, s. 849 8815).

Skólastarf á haustönn hefst með starfsdegi starfsfólks mánudaginn 17. ágúst. Nýnemakynning fer fram þriðjudaginn 18. ágúst kl. 11:00 og kennsla hefst miðvikudaginn 19. ágúst kl. 9:00.

 

9 jún 2020

Hæsta meðaleinkunn í MÍ frá upphafi

Brautskráning Menntaskólans á Ísafirði fór fram 6. júní sl. Dux Scholae er Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir sem útskrifast með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans eða frá því að fyrstu stúdentarnir útskrifuðust árið 1974.

Þuríður Kristín er stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,74.

Samhliða námi í menntaskólanum hefur Þuríður Kristín verið í framhaldsnámi í píanóleik, söngnámi, tekið þátt í leiksýningum skólans og verið í Gettu betur liðinu. Hún er auk þess í hestamennsku og eignaðist einmitt folald daginn fyrir brautskráningu. Þuríður Kristín stefnir á nám í dýralækningum í haust. 

Við óskum Þuríði Kristínu innilega til hamingju með glæsilegan árangur. 

 

 

8 jún 2020

Brautskráning vorannar 2020

Brautskráning vorannar fór fram frá Ísafjarðarkirkju laugardaginn 6. júní kl. 13:00.

Alls útskrifuðust 39 nemendur frá Menntaskólanum á Ísafirði á vorönn 2020. 

Þar sem fjöldatakmarkanir voru enn í gildi var gestafjöldi takmarkaður í athöfninni en streymt var frá athöfninni og má finna upptökuna hér

Við óskum útskriftarnemum innilega til hamingju með árangurinn og þökkum góð ár saman í Menntaskólanum á Ísafirði. 

6 jún 2020

Streymi á útskrift 6. júní kl. 13

Brautskráning vorannar fer fram frá Ísafjarðarkirkju laugardaginn 6. júní kl. 13:00.

Alls útskrifast 39 nemendur af 40 brautum frá Menntaskólanum á Ísafirði vorönn 2020. 

Þar sem fjöldatakmarkanir eru enn í gildi verður gestafjöldi takmarkaður í athöfninni og hafa útskriftarefni fengið upplýsingar og leiðbeiningar varðandi gestafjölda og fyrirkomulag. 

Streymið er hér.

5 jún 2020

Klóaka 2020 er komin út

Klóaka hefur komið út síðan 1980 í tengslum við dimission nemenda.

Karolina Anikiej, Karolína Sif Benediktsdóttir og Hildur Karen Jónsdóttir sáu um útgáfu Klóöku í ár.

Til hamingju með útgáfuna.

Á morgun, laugardaginn 6. júní kl. 13, verður útskrift frá Ísafjarðarkirkju.

Athöfninni verður streymt og kemur slóð á streymið hingað á síðuna á morgun.