28 feb 2020

Setning Sólrisuhátíðar

Sólrisuhátíð NMÍ var sett kl. 12 í dag.

Setningin hófst á skrúðgöngu um bæinn að Edinborgarhúsi þar sem brot úr sólrisuverki ársins, Mamma Mía, var sýnt. 

Fjölbreytt dagskrá stendur síðan alla næstu vikuna.

Dagskrá Sólrisuhátíðar má finna

hér


Gleðilega Sólrisuhátíð!

28 feb 2020

Gróskudagar 2020

Gróskudagar MÍ verða haldnir 3. og 4. mars. 
 
Dagskráin hefst í Gryfjunni kl. 8:10 á þriðjudaginn. Þann dag er kennt til 14.30 og á miðvikudeginum er kennt frá 8.30 til 12.00. 
 
Hér fyrir neðan er dagskrá Gróskudaganna.
 
Nemendur þurfa að skrá sig í eina smiðju í hverjum tíma (stokki), alls fimm smiðjur. Hver og einn þarf að ská sig í smiðjur og er takmarkaður fjöldi í hverri smiðju. Skráning er hafin, fyrstur kemur fyrstur fær. 
 
Skyldumæting er á Gróskudögum og sérstök mætingarblöð verða afhent við upphaf Gróskudaga. 
 
 
 
26 feb 2020

Ráðherrar í heimsókn

Í dag komu þrír ráðherrar í heimsókn í MÍ en það voru þau Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag aðgerðir í starfs- og tæknimenntamálum, en ráðherra telur það eitt af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar að efla verk- og tækninám í landinu. 

Ráðherrarnir kynntu sér skólastarfið í MÍ og sérstaklega það fjölbreytta verknám sem fer fram innan veggja skólans auk þess að ræða við stjórnendur. Það var ánægjulegt að fá ráðherrana í heimsókn og þökkum við þeim kærlega fyrir. 

25 feb 2020

Nýtt valnámskeið - Yoga nidra

 

Fyrirhugað er að fara af stað með nýtt 6 vikna valnámskeið í Yoga nidra. Kennt verður tvisvar sinnum í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum eftir skóla.

 

Yoga nidra er liggjandi, leidd hugleiðsla og djúpslökun. Áhyggjur, streita og spenna líða burt þegar djúpri slökun er náð. Hver sem er getur stundað Yoga nidra, það þarf bara að mæta á dýnuna í þægilegum fötum. Kennt í MÍ.

 

Skráning fer fram hjá Heiðrúnu Tryggvadóttur aðstoðarskólameistara (heidrun@misa.is) í síðasta lagi 26. febrúar.

24 feb 2020

Þátttöku MÍ í Gettu betur lokið

Spennandi Gettu betur viðureign Menntaskólans á Ísafirði og Verzlunarskóla Íslands fór fram föstudagskvöldið 21. febrúar og lauk með sigri Verzlunarskólans með 32 stigum gegn 25.  

Við óskum báðum liðum til hamingju með góða frammistöðu í keppninni.  

Ekkert ferðaveður var frá Ísafirði fimmtudag og föstudag, hvorki með bíl né flugi. Sem betur fer fór Gettu betur lið MÍ suður á miðvikudeginum þegar sá í hvað stefndi samkvæmt veðurspá. Við þökkum kærlega öllum þeim áhorfendum sem svöruðu kallinu og mættu í sjónvarpssal til að styðja MÍ þegar í ljós kom að stuðningslið MÍ kæmist ekki suður með rútu á föstudeginum eins og til stóð vegna veðurs. Vel gert velunnarar MÍ!  

19 feb 2020

Frumsýning sólrisuleikrits 2020

Undanfarnar vikur hafa menntskælingar sem koma að sólrisuleikriti NMÍ æft stíft.

Sólrisuleikritið í ár er söngleikurinn víðförli Mamma Mía og verður verkið frumsýnt í Edinborgarhúsinu föstudaginn 28. febrúar kl. 20.

Leikstjóri sýningarinnar er Skúli Gautason og formaður leikfélagsins er Ásrós Helga Guðmundsdóttir.

 

Nánari upplýsingar um dagskrá og miðapantanir á Facebook síðu leikritisins:

MAMMA MIA 

17 feb 2020

RÚV heimsótti Gettu betur lið MÍ

Undirbúningur fyrir 8 liða úrslit Gettu betur er í fullum gangi og spennan orðin mikil í Menntaskólanum á Ísafirði.  

Í dag heimsótti RÚV skólann og fylgdi Gettu betur liði MÍ í undirbúningi sínum fyrir keppnina í sjónvarpssal næsta föstudag. 

Þórarinn Bjartur Breiðfjörð Gunnarsson kennari í menntaskólanum og forstöðumaður FabLabsins á Ísafirði, sem staðsett er í menntaskólanum, aðstoðaði liðið í dag meðal annars við skiltagerð fyrir liðið.   

MÍ keppir gegn Verzlunarskóla Íslands í 8 liða úrslitum og fer viðureignin fram föstudaginn 21. febrúar nk. í sjónvarpssal. Bein útsending hefst á RÚV kl. 19.45.  

Lið MÍ skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir. 

Áfram MÍ!  

16 feb 2020

Háskóladagurinn á Ísafirði

Háskóladagurinn heimsækir Ísafjörð fimmtudaginn 12. mars nk. kl. 11:30-13:00.

Kynningin verður í Gryfju Menntaskólans á Ísafirði. 

Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt, sem telur yfir 500 námsleiðir, nemendur, kennarar og námsráðgjafar verða á staðnum.

Langar þig í háskólanám? Ef svarið er já, þá viltu ekki missa af þessu einstaka tækifæri.

Allir eru velkomnir á kynninguna. 

Takið daginn frá!

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu og samfélagsmiðlum:

www.haskoladagurinn.is
www.facebook.com/haskoladagurinn
www.instagram.com/haskoladagurinn

13 feb 2020

Tilkynning vegna væntanlegs óveðurs 14. febrúar

Ágætu nemendur og starfsfólk

Vegna slæmrar veðurspár fyrir föstudaginn 14febrúar hefur verið ákveðið að loka skólahúsnæði Menntaskólans á Ísafirði. Staðbundin kennsla fellur niður en nemendur og starfsfólk sinna vinnu og námi í gegnum námsumsjónarkerfið Moodle. Kennarar verða í sambandi við nemendur í tölvupósti ef breytingar verða á fyrirkomulagi kennslu.

Fyrirhugaðri árshátíð nemenda sem halda átti annað kvöld er frestað um óákveðinn tíma.

Með góðri kveðju,

stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði

12 feb 2020

Gettu betur lið MÍ gegn kennurum MÍ

Gettu betur lið Menntaskólans á Ísafirði skoraði á kennara skólans í spurningakeppni sem liður í undirbúningi fyrir viðureignina gegn Verzlunarskóla Íslands í sjónvarpssal RÚV föstudaginn 21. febrúar nk. 

Kennarar tóku að sjálfsögðu áskoruninni og fór viðureignin fram í Gryfjunni í dag.

Gettu betur lið MÍ hafði tveggja stiga forskot eftir hraðaspurningar og hélt þeirri forystu eftir bjölluspurningar. Gettu betur lið MÍ náði svo að svara lokaspurningunni með glæsibrag og vann lið kennara því nokkuð örugglega með fjögurra stiga mun. 

Við óskum Gettu betur liði MÍ til hamingju með sigurinn og áframhaldandi velgengni í undirbúningi fyrir viðureignina gegn Verzlunarskóla Íslands.