9 jan 2020

Lið MÍ áfram í Gettu betur

Gettu betur lið MÍ sem þau Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir skipa keppti miðvikudagskvöldið 8. janúar við lið Fjölbrautaskólans í Ármúla. FÁ hafði betur í keppninni en MÍ komst áfram í næstu umferð sem stigahæsta taplið umferðarinnar. Mun lið MÍ keppa á móti Verkmenntaskóla Austurlands n.k. þriðjudag, 14. janúar.

Hægt er að fylgjast með Gettu betur á vef RÚV Núll:  www.ruv.is/null 

8 jan 2020

Gettu betur

Menntaskólinn á Ísafirði keppir við Fjölbrautaskólann við Ármúla í Gettu betur í kvöld, miðvikudaginn 8. janúar. Hægt er að fylgjast með keppninni á RÚV Núll kl. 21.00. www.ruv.is/null

Lið Menntaskólans á Ísafirði skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Þjálfari liðsins er Veturliði Snær Gylfason.

Við óskum liði MÍ góðs gengis og hvetjum alla til að fylgjast með í kvöld. Áfram MÍ. 

8 jan 2020

Upphaf vorannar 2020

Skólahald Menntaskólans á Ísafirði hófst mánudaginn 6. janúar með hraðstundatöflu og kennsla hófst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 7. janúar.

Innritun fyrir vorönn er lokið bæði í fjarnám og dagskóla. 

Nemendur Menntaskólans á Ísafirði hafa aldrei verið fleiri en nú. Alls eru 477 nemendur skráðir í skólann.

Fjarnemum fjölgar stöðugt og eru nú 163.  Af fjarnemum eru 54 nemendur með Menntaskólann á Ísafirði sem sinn heimaskóla. Dagnemum fækkar og eru nú 161 dagnemi í skólanum. Í dreifnámi eru 20 nemendur í húsasmíði, 33 nemendur í námi á A-stigi skipstjórnar og 100 nemendur eru í sjúkraliðanámi.

Skólahald fer ánægjulega af stað með metfjölda nemenda í skólanum. 

 

28 des 2019

Undirritun samnings við Ísafjarðarbæ

Þann 18. desember s.l. var undirritaður styrktarsamningur milli Menntaskólans á Ísafirði og Ísafjarðarbæjar vegna afreksíþróttasviðs. Sex íþróttagreinar eru í boði á afreksíþróttasviðinu; blak, dans, handbolti, knattspyrna, körfubolti og skíðaganga. 

Í samninigi MÍ og Ísafjarðarbæjar er kveðið á um að framlag MÍ sé að skipuleggja starfsemi afreksíþróttasviðsins og semja við þjálfara um þjálfun í sínum greinum, Sjúkraþjálfun Vestfjarða um þrekæfingar og að leggja til kennara og húsnæði. Einnig er  rekstrarkostnaður, kynning og utanumhald í höndum MÍ.  Ísafjarðarbær leggur til 1.911.613 kr. sem eru ætlaðar í launagreiðslur til þjálfara þeirra íþróttagreina sem í boði eru auk þess sem sveitarfélagið leggur til tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi sem eru annars ekki í notkun í samráði við forstöðumenn íþróttamannvirkja.

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntakólans á Ísafirði,og Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar undirrituðu samninginn. Um 40 nemendur skólans stunda nám við afreksbrautina og var hluti þeirra viðstaddur undirritunina.

20 des 2019

Brautskráning í desember 2019

Þann 20. desember voru 14 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Einn nemandi var útskrifaður með A-réttindi skipstjórnar og einn nemandi lauk sjúkraliðaprófi. Tólf nemendur útskrifuðust með stúdentspróf. Níu af opinni stúdentsbraut, þar af einn af afreksíþróttasviði. Tveir af félagsvísindabraut og einn lauk stúdentsprófi af fagbraut. Í athöfninni voru skírteini afhent, auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur og framfarir í námi. Oliver Rähni nemandi á fyrsta ári lék á píanó í athöfninni. Skólinn óskar öllum útskriftarnemum góðs gengis í framtíðinni og þakkar þeim samstarf og samveru undanfarin ár.

20 des 2019

Brautskráning haustannar 2019

Föstudaginn 20. desember verða 14 nemendur brautskráðir frá skólanum. Einn nemandi útskrifast af skipstjórnarbraut A og einn útskrifast sem sjúkraliði. Alls ljúka tólf nemendur stúdentsprófi, níu af opinni stúdentsbraut, tveir af félagsvísindabraut og einn lýkur stúdentsprófi af fagbraut. Brautskráningarathöfnin mun fara fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 15. Flutt verður tónlist og verðlaun veitt fyrir góðan námsárangur. Allir eru velkomnir.

11 des 2019

Kynningar á lokaverkefnum

Nemendur í áfanganum LOKA3VE02 - Lokaverkefni, munu kynna verkefni sín í fyrirlestrarsal skólans föstudaginn 13. desember. Kynningarnar standa yfir frá kl. 8.10 og eru mjög fjölbreyttar. Nánari upplýsingar eru á meðfylgjandi mynd. Allir eru velkomnir.

11 des 2019

Skóli í dag

Í dag 11. desember er veður farið að ganga niður og viðvaranir almannavarna og Veðurstofu verða fallnar úr gildi hér á svæðinu kl. 9. Skólinn er því opinn í dag og starf í gangi. Í dag er fyrsti námsmatsdagurinn í desember og það setur mark sitt á skólastarfið. Nemendur eiga að hafa fengið upplýsingar um það hjá kennurum sínum ef þeir eiga að mæta í próf eða önnur verkefni í skólanum á námsmatsdögum. Ef veður eða færð koma í veg fyrir að þið getið mætt í skólann þá þurfa nemendur (eða forráðamaður sé nemandi yngri en 18 ára) að tilkynna það með tölvupósti á misa@misa.is.

 

10 des 2019

Vegna óveðurs í dag

Vegna ört versnandi veðurs fellur kennsla niður í skólanum í dag. Skrifstofa skólans er einnig lokuð. Vinsamlegast sendið fyrirspurnir ef einhverjar eru á netfangið misa@misa.is  

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur, í samráði við lögreglustjóra allra umdæma landsins, lýst yfir óvissustigi vegna óhagstæðrar veðurspár.

Auk þess mælist almannavarnarnefnd Ísafjarðarbæjar til þess að börn verði heima þriðjudaginn 10. desember. 

Eins hvetur lögreglan til þess að fólk sé ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Ef veðurspáin gengur eftir verður ekkert ferðaveður á þriðjudag, hvorki innanbæjar né utan.

9 des 2019

Viðbrögð við slæmri veðurspá

Til nemenda, forráðamanna og starfsfólks MÍ
 
Mjög slæm veðurspá er nú fyrir næstu tvo sólarhringa. Stjórnendur skólans munu ekki senda út tilkynningu um að skólahald falli niður vegna óveðurs eða ófærðar enda er það ekki í þeirra verkahring að meta slíkt. Mikilvægt er að nemendur og forráðamenn þeirra og starfsfólk skólans fylgist með veðurspá og viðvörun frá Veðurstofu Íslands og jafnframt að kanna færð á vegum hjá Vegagerðinni. Einnig er mikilvægt að fylgjast með tilkynningum frá lögreglu og almannavörnum á samfélagsmiðlum þegar óveður geisar. Ef nemendur treysta sér ekki í skólann vegna veðurs þá þurfa þeir að tilkynna það á skrifstofu skólans, eða forráðamenn þeirra, séu nemendur yngri en 18 ára. 
 
Skólameistari