27 mar 2020

Fyrirlestur Helenu Jónsdóttur sálfræðings með nemendum

Fimmtudaginn 26. mars hélt Helena Jónsdóttir, sálfræðingur, fyrirlestur með nemendum MÍ. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina: 

Hættum að fresta með aðferðum HAM

Fyrirlesturinn var haldinn á bókasafni skólans og var streymt til nemenda í gegnum Microsoft Teams. Nemendur og kennarar hafa verið duglegir að tileinka sér nýja tækni og aðferðir í námi og kennslu á meðan á skólalokun stendur. Góð mæting var á fyrirlestur Helenu í gegnum netið. 

Fyrirlesturinn fjallaði um aðferðir til að takast á við breyttar aðstæður í námi. Nú þegar nemendur í menntaskólum vinna heiman frá sér í fjarnámi reynir á aga og skipulag sem aldrei fyrr. Þá geta kvíði, frestunarárátta eða rík tilhneiging til frestunar verið mikil hindrun í að ná árangri.

Nemendur fengu fræðslu um einkenni og afleiðingar frestunaráráttu og leiðbeiningar um áhrifaríkar leiðir til að takast á við kvíða og frestunaráráttu með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Hugræn atferlismeðferð er áhrifarík og gagnreynd sálfræðinálgun þar sem lært er að takast á við erfiðar tilfinningar á borð við kvíða, reiði og depurð með lausnamiðuðum aðferðum í daglegu lífi. 

Helena Jónsdóttir er klínískur sálfræðingur sem sérhæfir sig í meðferð kvíða, streitu, og þunglyndis með aðferðum HAM. Helena starfaði um árabil sem sálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni og á eigin stofu og hefur hún síðasta árið sinnt klínískri vinnu á eigin stofu á Ísafirði ásamt því að halda vinsæl námskeið og fyrirlestra víðsvegar á Vestfjörðum.

Menntaskólinn á Ísafirði þakkar Helenu Jónsdóttur fyrir góðan fyrirlestur og nemendum fyrir þátttökuna. Þessar aðferðir munu án efa nýtast á næstu dögum og vikum í breyttu skólaumhverfi. 

25 mar 2020

Fræðslufyrirlestur fyrir nemendur: Hættum að fresta með aðferðum HAM

Fræðslufyrirlestur Helenu Jónsdóttur sálfræðings fyrir nemendur MÍ:

Hættum að fresta með aðferðum HAM

 

Fyrirlestrinum verður streymt til nemenda fimmtudaginn 26. mars kl. 10.10. Hvetjum nemendur MÍ til að mæta. Nemendur fá sendar frekari upplýsingar í tölvupósti. 

 

Nú þegar nemendur í menntaskólum vinna heiman frá sér í fjarnámi reynir á aga og skipulag sem aldrei fyrr. Og þá geta kvíði, frestunarárátta eða rík tilhneiging til frestunar verið okkur mikil hindrun í að ná árangri. Á þessum fræðslufyrirlestri fá nemendur fræðslu um einkenni og afleiðingar frestunaráráttu auk þess sem þátttakendur fræðast um áhrifaríkar leiðir til að takast á við kvíða og frestunaráráttu með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM).

Hugræn atferlismeðferð er áhrifarík og gagnreynd sálfræðinálgun þar sem við lærum að takast á við erfiðar tilfinningar á borð við kvíða, reiði og depurð með lausnamiðuðum aðferðum sem allir geta lært að nota í daglegu lífi. 

Helena Jónsdóttir er klínískur sálfræðingur sem sérhæfir sig í meðferð kvíða, streitu, og þunglyndis með aðferðum HAM. Helena starfaði um árabil sem sálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni og á eigin stofu og hefur hún síðasta árið sinnt klínískri vinnu á eigin stofu á Ísafirði ásamt því að halda vinsæl námskeið og fyrirlestra víðsvegar á Vestfjörðum.

17 mar 2020

Leiðbeiningar við uppsetningu OFFICE 365 og Teams

Kæru nemendur,

allir nemendur skólans hafa aðgang að Microsoft Office 365 pakkanum sem í eru til dæmis Word, Excel, Power Point, Teams, Outlook og fleiri forrit sem nemendur þurfa að nota við námið, ekki síst núna þegar nemendur þurfa að sinna sínu námi í fjarnámi. 

Nemendur sem ekki eru búnir að fá eða setja upp Office 365 pakkann þurfa að gera það sem fyrst. 

Smellið á bláa takkann hér fyrir neðan til að fá leiðbeiningar um uppsetningu Office 365 í tölvurnar ykkar. 

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða lendið í vandræðum með uppsetninguna hafið samband við Guðjón Torfa, tölvuumsjónarmann skólans, gudjonts@misa.is 

 

 Leiðbeiningar við uppsetningu Office 365 

 

 

Hvernig mæti ég í tíma í teymi (Teams) í gegnum appið:

Hvernig fer ég inn í teymi (Team) með kóða:

15 mar 2020

Námið framundan

Skólalokun og samkomubann hefst á miðnætti. Þá flytjum við í MÍ námið okkar alfarið á netið í þeim áföngum þar sem það er hægt og höldum ótrauð áfram. Moodle verður aðalverkfæri nemenda og markmið skólans er að nemendur verði fyrir sem minnstum töfum í námi. Fyrirkomulag verknámsáfanga í framhaldi af skólalokun er verið að skoða.

Þó skólahúsnæðið sé lokað verður hægt að ná sambandi við starfsfólk eins og áður í gegnum síma eða með tölvupósti. Hægt er að hringja í síma 450 4400 eða senda tölvupóst á misa@misa.is Netföng starfsfólks má finna hér.

Frekari upplýsingar um námið framundan má finna hér.

 
13 mar 2020

Fyrstu viðbrögð vegna skólalokunar

Í dag var tilkynnt um samkomubann og lokun framhaldsskóla í 4 vikur. 

Mikilvægt er að bæði nemendur og foreldrar og forráðamenn séu meðvitaðir um að nám og kennsla heldur áfram þótt skólanum verði lokað. Nám og kennsla mun nú alfarið færast inn á kennsluvefinn Moodle, sem bæði dagskólanemendur og fjarnemendur eru vanir að nota. Þangað fer allt efni frá kennurum. Kennarar verða í sambandi við sína nemendur í gegnum Moodle. Nemendur mega eiga von á því að kennarar óski eftir að þeir séu tiltækir, t.d. á fjarfund eða í umræður, eftir því sem stundatafla þeirra segir til um. Því er mikilvægt að nemendur fylgist mjög vel með fyrirmælum kennara á Moodle.  

Verknám: Kennsla í verknámsáföngum fellur niður á meðan á lokun stendur. Ef breytingar verða fá nemendur tölvupóst þar um. Kennsla í fagbóklegum áföngum færist alfarið inn á Moodle. 

Starfsbraut: Haft verður samband við foreldra og forráðamenn símleiðis seinna í dag. 

Heimavist: Málefni heimavistar eru í skoðun og heimavistarbúar munu fá frekari upplýsingar seinna í dag. 

Allar aðgerðir munu miðast við að annarlok verði samkvæmt skóladagatali. 

Nýjar upplýsingar verða settar á heimasíðuna eftir því sem þurfa þykir. 

Frekari upplýsingar gefa Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari, jon@misa.is og Heiðrún Tryggvadóttir aðstoðarskólameistari, heidrun@misa.is 

 

12 mar 2020

Opnu húsi frestað

Vegna neyðarstigs almannavarna í tengslum við kórónaveiruna (COVID-19) hafa stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði ákveðið að opnu húsi, sem halda átti þriðjudaginn 17. mars, skuli frestað um óákveðinn tíma.  Önnur tímasetning verður auglýst síðar. 

10 mar 2020

Tilkynning vegna COVID-19 veirunnar

Kæru nemendur og forráðamenn sem og starfsfólk

Eins og kunnugt er hafa almannavarnir lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19 veirunnar. Áfram er mikilvægt að við öll fylgjumst vel með upplýsingum frá almannavarnarnefnd ríkislögreglustjóra og fylgjum fyrirmælum frá þeim. Á heimasíðu skólans, www.misa.is/vidbragdsaaetlun/, má kynna sér viðbragðsáætlun og ýmsar leiðbeiningar.

Nemendur og starfsfólk sem hafa kvef eða inflúensueinkenni eiga að vera heima. Slík veikindi skal tilkynna á netfangið misa@misa.is eða í gegnum INNU. Fái fólk slík einkenni getur það haft samband í símanúmerið 1700 fyrir frekari upplýsingar.

Minnt er á að forðast heimsóknir til aldraðra og þeirra sem veikir eru fyrir til að hindra smit. Ef á heimili ykkar eru slíkir einstaklingar er heimilt að sinna skólanum að heiman, vinsamlegast tilkynnið slíkt til  aðstoðarskólameistara Heiðrúnar Tryggvadóttur, heidrun@misa.is  Það sama á við um nemendur með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu COVID-19 (sjá frekari upplýsingar á vef landlæknis, www.landlaeknir.is)

Allar tilkynningar um sóttkví eða einangrun nemenda og starfsfólks þurfa að berast á skrifstofu skólans, s. 450 4400 eða misa@misa.is Þær verða síðan skoðaðar sem einstök tilfelli undir stjórn aðstoðarskólameistara.

Allir þurfa að gæta einstaklega vel að öllu hreinlæti, handþvotti og sprittun. Hreinlæti er mikilvægast í viðbrögðum okkar: Handþvottur með sápu, sprittnotkun og að halda fyrir munn og nef þegar við hnerrum.

Skólinn hefur gripið til ýmissa aðgerða vegna neyðarstigsins. Afgreiðsla í mötuneyti mun frá og með deginum í dag breytast. Starfsfólk mötuneytis mun setja mat á diska fyrir nemendur og starfsfólk. Ótímabundið bann hefur verið sett við nemendaferðum til og frá landinu á vegum skólans en enn er ótímabært að segja til um hvort það bann eigi við um fyrirhugaða Frakklandsferð nemenda í lok apríl. Til viðbótar við þetta hefur verið ákveðið að fresta opnu húsi sem vera átti 17. mars n.k.

Það er gríðarlega mikilvægt við þessar óvenjulegu aðstæður að við stöndum öll saman í skólasamfélaginu. Nú skiptir meginmáli að við tökum á málum út frá ráðleggingum almannavarna og heilbrigðis- og menntayfirvalda og mikilvægt að við höldum ró okkar og yfirvegun og styðjum hvert annað. Stefna skólans er sú að koma til móts við alla nemendur eins og frekast er kostur í þessu óvenjulega ástandi sem nú ríkir.

Þetta er verkefni okkar allra, við þurfum fyrst og fremst að standa saman, sýna ábyrgð til að tryggja að þau sem eru í samfélagi okkar og veikir fyrir séu verndaðir eins og kostur er. Ekki er talið líklegt að ungt og hraust fólk lendi í vanda þó það fái veiruna.

Ef nauðsyn ber að ná í skólann utan vinnutíma hringið í Jón Reyni Sigurvinsson skólameistara, s. 896 4636 eða Heiðrúnu Tryggvadóttur aðstoðarskólameistara s. 849 8815.

Með góðri kveðju,

 

Heiðrún Tryggvadóttir                         

Aðstoðarskólameistari

Menntaskólinn á Ísafirði

Sími  450 4400

9 mar 2020

Háskóladeginum á Ísafirði frestað

Háskóladeginum á Ísafirði sem vera átti í MÍ fimmtudaginn 12. mars kl. 11.30 hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Þar sem hættustig almannavarna hefur nú verið uppfært í neyðarstig vegna kórónaveirunnar (COVID-19) þá hafa rektorar háskóla landsins, tekið sameiginlega ákvörðun um að Háskóladeginum á Akureyri og Ísafirði skuli að svo stöddu frestað, um óákveðinn tíma.

 

4 mar 2020

Gróskudagar 2020

Gróskudagar eru hluti af Sólrisuviku en þá er hefðbundinni kennslu skipt út 

fyrir smiðjur af ýmsum toga, til dæmis fræðslugöngur um bæinn, 

skapandi skrif, fréttaskrif, ýmis borðspil og víkingaskák, 

borðtennismót, spurningakeppnir, eldamennsku og kleinugerð. 

Skíðagöngusmiðja er ávallt vel sótt og eru þátttakendur

bæði byrjendur og lengra komnir. Smiðjunni stýrir Stella Hjaltadóttir náms- og starfsráðgjafi

skólans og skíðakennari.  

Skíðagöngusmiðjan vekur alltaf mikla lukku meðal nemenda,

eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá skíðagöngu dagsins. 

3 mar 2020

Viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómi

Ýmsar upplýsingar vegna alvarlegs smitsjúkdóms (COVID-19 kórónaveirunnar) sem mikilvægt er að allir kynnir sér:

Við viljum vekja athygli á sprittstöndum og upplýsingaplakötum um forvarnir í tengslum við smitsjúkdóma sem búið er að setja upp víðs vegar um skólabyggingarnar. Nemendur og starfsfólk eru hvött til að kynna sér forvarnir til að draga úr sýkingarhættu vegna smitsjúkdóma og nýta sér sprittið. Hreinlæti er mikilvægast í viðbrögðum okkar: Handþvottur með sápu, sprittnotkun,  halda fyrir munn og nef þegar við hnerrum og vera heima ef við finnum flensueinkenni og koma þannig í veg fyrir smit.

Ef smellt er á þennan tengil má finna ýmar upplýsingar frá landlæknisembættinu um COVID-19 fyrir börn og unglinga. 

Í ljósi þess að nú hefur hættustigi almannavarna verið lýst yfir vegna COVID-19 kórónaveirunnar áréttar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mikilvægi þess að allir fylgi leiðbeiningum sóttvarnarlæknis. Nýjustu upplýsingar eru ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins.

Foreldrar og starfsfólk er beðin um að fylgjast reglulega með nýjustu upplýsingum um þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Ef nemendur/starfsfólk eða fjölskyldur þeirra ferðast um þau svæði, þurfa þau fara í sóttkví skv. leiðbeiningum Landlæknis. Foreldrum barna og starfsfólki með skert ónæmiskerfi eða undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt af heilbrigðisyfirvöldum að ráðfæra sig við viðkomandi sérfræðing eða heimilislækni.

Einstaklingar sem finna fyrir einkennum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga eru hvattir til að hringja í síma 1700 og fá leiðbeiningar. Þeir sem verið hafa í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra hættusvæða.