5 okt 2020

Hertar aðgerðir vegna Covid-19 frá og með 5.okt.

Vegna nýrrar reglugerðar um samkomutakmarkanir sem birt voru sunnudaginn 4. október verður engin kennsla í Menntaskólanum á Ísafirði mánudaginn 5. október. Dagurinn verður starfsdagur kennara og stjórnenda til að undirbúa nýtt fyrirkomulag og stundatöflur fyrir næstu daga og vikur samkvæmt breyttum reglum og hafa áhrif á skólahald. 

Nemendur hafa fengið tölvupóst með þessum upplýsingum. Upplýsingar um fyrirkomulag stundatöflu frá og með þriðjudeginum 6. október verða sendar út mánudaginn 5. október. 

 

Tilkynning frá Mennta- og menningarmálaráðneyti 4. október 2020:

Sóttvarnir í framhalds- og háskólum:

Tímabundnar hertar aðgerðir

2 okt 2020

Ávarp skólameistara í tilefni 50 ára afmælis

Kæru nemendur, starfsfólk og aðrir velunnarar 

Menntaskólinn á Ísafirði hóf starfsemi sína haustið 1970 og fagnar þann 3. október 50 ára afmæli. Stofnun skólans má þakka ötulli baráttu heimamanna fyrir stofnun framhaldsskóla. Sú barátta verður ekki rakin frekar hér enda var henni og starfi skólans gerð ítarleg skil í Sögu Menntaskólans á Ísafirði til 2008 sem gefin var út í tilefni af 40 ára afmæli skólans þann 2010. 

Í tilefni af 50 ára afmæli skólans voru fyrirhuguð mikil hátíðarhöld en í ljósi aðstæðna í samfélaginu urðu þau smærri í sniðum. Ákveðið var að gera afmælismyndband og var samið við þrjá fyrrverandi nemendur skólans, Ásgeir Helga Þrastarson, Hauk Sigurðsson og Snævar Sölvason um framleiðslu á því. Myndbandið er nú tilbúið til sýningar og frumsýning er í dag, föstudaginn 2. október, sem er vel við hæfi því þann dag fyrir 50 árum mættu fyrstu nemendur skólans til að taka á móti stundatöflum. 

Það er engan veginn hægt að gera hálfrar aldar sögu skóla skil í stuttu myndbandi. Myndbandinu var því ekki ætlað að gera sögu skólans skil heldur að gefa góða innsýn í þann skólabrag sem einkennir Menntaskólann á Ísafirði. Það tekst kvikmyndagerðarmönnunum afar vel og hafa þeir frá því í vor fylgst með skólastarfinu og myndað það fjölbreytta starf sem fram fer í skólanum. Auk þess hafa þeir tekið viðtöl við starfsfólk og nemendur, gamla sem nýja og safnað gömlu myndefni.  

Skóli sem hefur starfað í hálfa öld er í stöðugri þróun. Innan skólans er lögð áhersla á fjölbreytt námsframboð, bæði í bók- og verknámi. Á síðustu árum hefur námsfyrirkomulagið breyst mikið frá því að vera kennsla á staðnum yfir í dreif- og fjarnám.  Kennarar hafa í auknum mæli tileinkað sér ýmsa tækni til að sinna breyttu námsfyrirkomulagi og kom það sér vel þegar skólanum var lokað um miðjan mars vegna COVID-19 og allt bóknám færðist í fjarnám. Í rúman áratug hefur skólinn síðan lagt áherslu á að breyta kennsluháttum og námsmati með þeim hætti að nám nemenda skili betri árangri.  

Nú þegar skólinn fagnar 50 ára afmæli hafa aldrei fleiri nemendur verið skráðir í nám við skólann en þeir voru við upphaf haustannar 489.  Mikill eldmóður, hæfni og góður skólabragur er einkennandi innan skólans. Framtíð MÍ er björt. 

 

Til hamingju með 50 ára afmælið, 

 

Jón Reynir Sigurvinsson 

skólameistari

 

Afmælismyndband Menntaskólans á Ísafirði

30 sep 2020

Menntakvika 2020

Hin árlega Menntakvika Menntavísindasviðs Háskóla Íslands verður haldin 1. og 2. október næstkomandi. 

 

Við viljum vekja sérstaka athygli á málstofunni Framhaldsskólinn á tímamótum, rannsóknarstofu um þróun skólastarfs þann 1. október kl. 10.45 - 12.15. Þar mun Hildur Halldórsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Ísafirði, kynna niðurstöður rannsóknar sinnar og meistaraverkefni frá Menntavísindasviði HÍ. Erindið heitir Fagleg forysta víkur fyrir tæknilegum úrlausnarefnum úr ytra umhverfi framhaldskóla: Sýn og reynsla aðstoðarskólameistara.  

Menntakvika er rafræn að þessu sinni og hægt að mæta á allar málstofur og erindi í gegnum tengla í dagskrá. Nánari upplýsingar um Menntakviku og dagskrá má finna hér. 

Slóð á málstofuna Framhaldsskólinn á tímamótum er hér.

25 sep 2020

Birkitré gróðursett við MÍ

Hluti nemenda í áfanganum Umhverfis- og átthagafræði, sem kenndur er í Menntaskólanum á Ísafirði, gróðursetti tvö birkitré á lóð menntaskólans í tilefni af degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn. 

Í vikunni á undan heimsótti nemendahópurinn sýninguna Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur í Edinborgarhúsinu. Hópurinn fékk leiðsögn um sýninguna frá Auði Önnu Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Landverndar og Tryggva Felixsyni formanni Landverndar. Sýningin var samsýning Landverndar og Ólafs Sveinssonar og var sett upp á Ísafirði í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Vestfjarða. Í lok leiðsagnar fékk hópurinn þessar tvær birkiplöntur að gjöf. 

Á degi íslenskrar náttúru hófst landsátak í endurheimt birkiskóga og var því viðeigandi og skemmtilegt að nemendur í áfanganum fengju tækifæri til að taka þátt í átakinu með þessum hætti. 

24 sep 2020

Vandræði með Moodle

Eins og nemendur og starfsfólk MÍ hafa orðið varir við í dag og í gær hafa verið vandræði með skólanetið og Moodle. 

Skólanetið, heimasíðan og Moodle lágu niðri mestan part dags í gær.

Í dag, fimmtudaginn 24. sept., er Moodle hægvirkt en unnið er að viðgerð hjá Snerpu þjónustuaðila MÍ. Vonir eru bundnar við að Moodle verði komið í lag á morgun. 

Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægindum.

Vonandi leysist þetta hratt og örugglega. 

Nánari upplýsingar verða birtar um leið og þær berast. 

 

21 sep 2020

Hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu vegna Covid 19

Í ljósi hertra aðgerða í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu er vert að taka fram að við í MÍ byrjum þessa viku á sömu nótum og við höfum verið síðustu vikur.
 
Við vitum að vegna Covid geta hlutirnir breyst hratt og við erum viðbúin að gera breytingar ef á þarf að halda.
 
Munum að huga vel að okkar persónubundnu sóttvörnum, nauðsynlegt er að spritta sig þegar komið er inn í nýtt rými, maska þarf að nota ef ekki er hægt að virða 1 m fjarlægðarmörk og engar hópamyndanir eru leyfðar.
 
Verum heima ef við erum með einhver flensulík einkenni, öll veikindi þarf að tilkynna á netfangið misa@misa.is eða í gegnum www.inna.is
 
Nú þurfum við öll að standa saman og virða þær reglur sem eru í gildi í skólanum.
Markmiðið okkar er sameiginlegt, að halda skólanum opnum.
20 sep 2020

Áfram veginn

Enn er í gildi reglugerð um takmörkun á samkomum sem kveður á um 200 manna fjöldatakmörk, 1 metra fjarlægðarreglu og maskanotkun ef ekki er hægt að virða 1 m bil. Regluegerðin gildir til 27. september n.k.

Við erum jafn ánægð og fyrr með hversu vel skólahald hefur gengið fyrstu vikurnar, þökk sé nemendum og starfsfólki skólans.

Mikilvægt er að við höldum áfram að sinna sótt- og smitvörnum og áfram er okkar sameiginlega markmið að halda skólanum opnum.

Í næstu viku höldum við áfram á sömu braut. Virðum 1 metra regluna, sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði og munum að í stigum í bóknámshúsi er einstefna. Við förum upp hjá sjoppunni eða milli stofu 16 og 17. Við förum niður hjá kennarastofunni og stofu 8 eða milli stofu 3 og 4

Upplýsingar eru sendar með tölvupósti á hverjum föstudegi til nemenda og starfsfólks með helstu upplýsingum í lok vikunnar og fyrirkomulagi næstu viku. 

17 sep 2020

Undirbúningur fyrir 50 ára afmæli MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði fagnar 50 ára afmæli þann 3. október næstkomandi. 

Til stóð að halda uppá afmælið með veglegum hætti, veislu og dagskrá, en af því verður ekki sökum aðstæðna í samfélaginu. 

Þessum tímamótum í sögu skólans verður engu að síður fagnað á ýmsan hátt. 

Afmælismyndband um skólann er í vinnslu og er það unnið af starfandi leikstjóra og kvikmyndagerðarmönnum á Ísafirði, þeim Snævari Sölvasyni, Ásgeiri Helga Þrastarsyni og Hauki Sigurðssyni. Allir eru þeir fyrrum nemendur MÍ. 

Undanfarið hafa þeir fylgst með skólastarfinu og myndað fjölbreytta starfið sem fram fer í skólanum á afmælisárinu. 

Fyrirkomulag afmælisins verður auglýst nánar síðar. 

13 sep 2020

Vikan 14. - 18. sept.

Á þriðjudaginn var opnað milli hæða í bóknámshúsi þegar ný reglugerð um takmörkun á samkomum var birt og fjöldatakmörk voru hækkuð í 200 manns. Nýja reglugerðin gildir til 27. september n.k.

Enn og aftur þökkum við ykkur nemendum og svo frábæru starfsfólki okkar hversu vel skólahald hefur gengið fyrstu vikurnar. Mikilvægt er að við sofnum ekki á verðinum þegar kemur að sótt- og smitvörnum og áfram er okkar sameiginlega markmið að halda skólanum opnum.

Í þessari viku höldum við áfram á sömu braut. Virðum 1 metra regluna, sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði og munum að í stigum í bóknámshúsi er einstefna. Við förum upp hjá sjoppunni eða milli stofu 16 og 17. Við förum niður hjá kennarastofunni og stofu 8 eða milli stofu 3 og 4.

Allir nemendur hafa fengið sendan tölvupóst með upplýsingum fyrir næstu viku, sjá  hér.  

 

 

8 sep 2020

Lestur er bestur - bókasafnsdagurinn

Í dag, þriðjudaginn 8. september, var bókasafnsdagurinn haldinn hátíðlegur um land allt.  

Í Menntaskólinn á Ísafirði er stórt og vel búið bókasafn í hjarta skólans. Bókasafnið er mikið notað af nemendum skólans í skólastarfinu. 

Í dag fékk hluti nýnema skólans fékk kynningu á bókasafninu og þjálfun í að nota safnið við upplýsingaleit. 

Markmið með bókasafnsdeginum er að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu.