1 jún 2020

Brautskráning vorannar 2020

Brautskráning vorannar fer fram frá Ísafjarðarkirkju laugardaginn 6. júní kl. 13:00.

Alls útskrifast 39 nemendur af 40 brautum frá Menntaskólanum á Ísafirði vorönn 2020. 

Þar sem fjöldatakmarkanir eru enn í gildi verður gestafjöldi takmarkaður í athöfninni og hafa útskriftarefni fengið upplýsingar og leiðbeiningar varðandi gestafjölda og fyrirkomulag. 

Streymt verður frá athöfninni.

Streymið er hér.

Æfing útskriftarefna fyrir útskriftarathöfnina fer fram föstudaginn 5. júní kl. 17:00.  

31 maí 2020

Nemendasýningin Spólað til baka

Sýningin Spólað til baka - játningar, vonbrigði, eyða og minni á tímum Covid-19, opnaði í dag.

Á sýningunni er að finna verk nemenda sem unnin voru í nýjum áfanga í Menntaskólanum á Ísafirði, List og fræði - töfrar hversdagsins, sem Björg Elínar- Sveinbjörnsdóttir kennir. Í áfanganum er skoðað hvernig aðferðir félagsvísindanna geta verið notaðar í listsköpun og sýningagerð.

Nemendur þróuðu hugmyndir að sýningu sem átti að opna á Hversdagssafninu á Ísafirði í Skíðavikunni en vegna skólalokunar fór það á annan veg og nú opnar starfræn sýning hér.

Við óskum nemendum til hamingju með sýninguna.

Hér er slóð á stafrænu sýninguna: Spólað til baka

14 maí 2020

Vorönn að klárast

Vorönn í Menntaskólanum á Ísafirði fer nú að ljúka. Verknámsnemendur hafa mætt í skólann undanfarnar tvær vikur og bóknám hefur að mestu verið klárað í fjarnámi en þó hafa einstaka verklegir tímar farið fram í skólahúsnæðinu.

Nemendur eru með mikilli vinnu og skipulagi að ná að klára sín verkefni og fög í skólanum við þessar sérstöku aðstæður.

Samstaða, jákvæðni og þrautseigja má segja að hafi einkennt nám og kennslu undanfarnar vikur.

Framundan eru námsmatsdagar og annarlok. Dimmisjón útskriftarnema verður á morgun, föstudaginn 15. maí, og útskriftarathöfn mun fara fram í Ísafjarðarkirkju þann 6. júní kl. 13.00. 

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er aftur komið líf í skólahúsnæðið og einbeittir nemendur leggja lokahönd á sín verkefni. 

12 maí 2020

Brautskráning vorannar 2020

Eins og kunnugt er hefur ríkt óvissa undanfarið um fyrirkomulag útskriftar fyrir vorönn 2020. Um nokkurt skeið hefur þó legið fyrir að nemendur verða útskrifaðir rafrænt úr Innu þann 23. maí og mun það því engin áhrif hafa á fyrirhugað framhaldsnám. 

Nú hefur verið ákveðið, í samráði við nemendur og út frá fjöldatakmörkunum almannavarna og sóttvarnarlæknis, að útskriftarathöfn verði frestað til laugardagsins 6. júní n.k. Eins og áður var fyrirhugað fer útskriftin fram frá Ísafjarðarkirkju kl. 13:00.

Æfing fyrir útskriftarathöfnina verður daginn áður og verður auglýst frekar þegar nær dregur.

Á þessari stundu er ekki vitað hvaða fjöldatakmarkanir munu gilda og því verður ekki hægt að segja til um fyrr en nær dregur hvernig til háttar með gestafjölda í athöfninni. Streymt verður frá athöfninni. 

Sóttvarnarlæknir Vestfjarða hefur gefið grænt ljós á dimission útskriftarefna með fororðum um varkárni og minni hópa. Dimission fer fram föstudaginn 15. maí. 

2 maí 2020

Skráning í nám fyrir haustönn 2020

Skráning í nám fyrir haustönn 2020 stendur nú yfir.

Fjölbreytt nám er í boði í MÍ, bæði bóknám og verknám sem hægt er að taka í dagskóla eða fjarnámi og dreifnámi með vinnu.

Kynnið ykkur fjölbreytta námið sem er í boði MÍ hér á síðunni undir Námið.

Skráning stendur yfir til 31. maí. 

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá skólanum með því að senda fyrirspurnir með tölvupósti á misa@misa.is.

 

16 apr 2020

Tilkynning frá skólameistara

Kæru nemendur.

 

Velkomnir aftur eftir páskafrí. Við erum ótrúlega ánægð með hvernig nemendur hafa tekist á við breyttan veruleika og umturnun á skólastarfi. Það sér fyrir endann á þessari önn og við hvetjum ykkur til að halda áfram að stunda námið af kostgæfni og hafa það í huga að það birtir upp um síðir. Frekari útfærsla á annarlokum verður kynnt á skólafundi n.k. þriðjudag.

Þriðjudaginn 21. apríl kl. 10:30 verður haldinn skólafundur með nemendum, kennurum og stjórnendum skólans á Teams.  

Á fundinum munu Jón Reynir skólameistari, Heiðrún aðstoðarskólameistari og Stella náms- og starfsráðgjafi fara yfir stöðuna og tilkynna hvernig skipulagið verði á opnun skólans og hvernig námslokum verður háttað.

Nemendur eru hvattir til að mæta á skólafundinn til að fá upplýsingar um framhaldið og leggja fram spurningar og vangaveltur sínar.

Nemendur fá leiðbeiningar, sem og kóða til að komast inn í hópinn á Teams, sendar með tölvupósti mánudaginn 20. apríl. 

Gangi ykkur öllum áfram vel og hafið samband við skólann og kennarana ykkar ef þið hafið einhverjar spurningar.

 

Með góðri kveðju,

Jón Reynir 

Skólameistari MÍ

15 apr 2020

Skráning í nám á haustönn 2020 hafin

Fjölbreytt nám á haustönn 2020 er í boði, í stað-, fjar og dreifnámi. 

Kynntu þér námsframboðið hér á heimasíðunni og hafðu samband ef þú hefur einhverjar spurningar á misa@misa.is

Skráning fer fram í gegnum Innu.

3 apr 2020

Páskafrí og skólinn framundan

Nú eru þrjár vikur liðnar af skólalokun vegna samkomubanns. Þetta hafa verið undarlegir tímar en allt kapp hefur verið lagt á að halda áfram kennslu í fjarnámi þar sem því er viðkomið. Bóknámskennarar skólans eru alvanir fjarnámskennslu sem auðveldaði okkur mikið að takast á við þetta stóra verkefni. 

Nú er páskafrí að skella á. Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 14. apríl.  Samkvæmt því sem sóttvarnarlæknir hefur boðað verður samkomubann framlengt til 4. maí og því munum við halda áfram fjarkennslu eftir páska eins og verið hefur síðustu þrjár vikurnar. 

Okkar allra bíður það sameiginlega verkefni að halda náminu áfram eftir páska. Höfum í huga að það er stutt af önninni og saman munum við klára þessari önn - því önninni mun ljúka! Öllum bóklegum áföngum mun ljúka skv. áætlun en tíminn mun leiða í ljós hvernig lokum á verknámsáföngum verður háttað en þeim mun líka ljúka! Það sama á við um útskrift, hún mun fara fram en við vinnum nú að því að gera varaplön sem við munum grípa til ef á þarf að halda. Allt skýrist þetta betur eftir páska.

Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að njóta þess að komast í smá páskafrí. Reynið að ná nokkrum dögum þar sem þið getið hvílt ykkur á námi og vinnu. Borðið páskaegg, gerið eitthvað skemmtilegt en munið að fara alltaf að fyrirmælum almannavarna. Þannig verðum við öll tilbúin í lokasprett annarinnar eftir páska.

Gleðilega páska!

 

1 apr 2020

Umsóknarfrestur til sveinsprófs framlengdur

Umsóknarfrestur til að sækja um sveinspróf í eftirtöldum iðngreinum hefur verið framlengdur til 1. maí nk. 

Sveinspróf verða haldin í eftirtöldum iðngreinum ef næg þátttaka fæst:

  • Í matvælagreinum
  • Í múraraiðn
  • Í málaraiðn
  • Í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun
  • Í gull og -silfursmíði
  • Í klæðskurði
  • Í kjólasaum
  • Í málmiðngreinum

Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á idan@idan.is eða í bréfpósti. 

Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar um fyrirkomulag og tímasetningar verða auglýstar á heimasíðu Iðunnar fræðsluseturs .