23 jún 2022

Lokun skrifstofu vegna sumarleyfa

Skrifstofa skólans verður lokuð vegna sumarleyfa frá 23. júní til 5. ágúst. Erindum sem þola ekki bið má vísa til skólameistara, Heiðrúnar Tryggvadóttur, í síma 8498815 eða heidrun@misa.is 

 

23 jún 2022

Innritun nýnema lokið

Í dag lauk Menntamálastofnun við að innrita nýnema í framhaldsskóla. Alls voru 49 nýnemar innritaðir í MÍ. Nýnemar skiptast eftir brautum þannig:

Félagsvísindabraut 3
Grunnnám málm- og véltæknigreina 12
Húsasmíði (kennsla hefst um áramót) 4
Lista- og nýsköpunarbraut  6
Náttúruvísindabraut 6
Opin stúdentsbraut 14
Sjúkraliðabraut 3
Starfsbraut 1

 

Innritaðir nemendur eiga von á innritunarbréfi frá skólanum í pósti. Við bjóðum nýnema haustsins 2022 velkomna í MÍ og hlökkum til samstarfsins með þeim.

21 maí 2022

Brautskráning á vorönn 2022

Laugardaginn 21. maí voru 50 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina, en Viðburðarstofa Vestfjarða sá um að streyma henni beint. Útskriftarfagnaður sem hefð er fyrir að halda að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum var haldinn að kvöldi útskriftardags eftir þriggja ára hlé sem var vegna heimsfaraldurs Covid 19.

Nemendur voru brautskráðir af 10 námsbrautum. Tuttugu nemendur úr iðnmeistaranámi,  tveir nemendur af sjúkraliðabrú, tveir úr skipstjórnarnámi B, og einn úr stálsmíði. Þrír nemendur luku diplómu í förðun. Alls útskrifuðust 26 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: Einn af félagsvísindabraut, einn af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 15 af opinni stúdentsprófsbraut og einn af opinni stúdentsprófsbraut - afreksíþróttasviði, einn nemandi útskrifast með stúdentspróf af starfsbraut og sjö með stúdentspróf af fagbraut. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlist flutt af útskriftarnemum stóran svip á athöfnina. Dux scholae 2022 er Oliver Rähni stúdent af opinni stúdentsprófsbraut með meðaleinkunnina 9,11. Semidux er Jelena Rós Valsdóttir stúdent af félagsvísindabraut með meðaleinkunnina 8,99.  Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

19 maí 2022

Brautskráning á vorönn 2022

Laugardaginn 21. maí 2021 verður brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00.

Brautskráðir verða 50 nemendur af 10 námsbrautum. Af útskriftarnemum eru 12 dagskólanemendur, 24 dreifnámsnemendur og 14 nemendur í fjarnámi sem eru með MÍ sem heimaskóla.

20 nemendur útskrifast sem iðnmeistarar, tveir af sjúkraliðabraut, tveir nemendur af skipstjórnarbraut B og einn úr stálsmíðanámi og þrír nemendur útskrifast með diplómu úr förðun. 26 nemendur útskrifast með stúdentspróf. Einn af félagsvísindabraut, einn af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 15 af opinni stúdentsprófsbraut og einn af opinni stúdentsprófsbraut - afreksíþróttasviði, einn nemandi útskrifast með stúdentspróf af starfsbraut og 7 með stúdentspróf af fagbraut. 

Allir eru velkomnir í athöfnina en hún verður einnig í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða. Hér er hlekkur á beint streymi.

 

11 maí 2022

Skóladagatal 2022-2023

Skóladagatal fyrir skólaárið 2022-2023 hefur verið samþykkt í skólaráði. Sjá meðfylgjandi mynd.

 

 

6 maí 2022

Skólinn kvaddur

Árvisst merki um að vorið sé komið, eða að minnsta kosti á næsta leiti, eru útskriftarefni í skrautlegum búningum sem taka daginn snemma einn morgun í byrjun maí. Glaður hópur gríslinga var á ferðinni á Ísafirði við sólarupprás, fóru um bæinn og vöktu kennara sína og annað starfsfólk. Þau komu síðan í skólann til að kveðja samnemendur og kennara með fjörlegum hætti og þá er gott að taka sér hvíld öðru hvoru í tröppunum fyrir utan skólann. Útskriftarefnum er óskað góðs gengis á lokasprettinum í MÍ og alls hins besta í framtíðinni.

Ljósmynd: Martha Kristín Pálmadóttir

5 maí 2022

Kaffisamsæti útskriftarnema

Sú ánægjulega hefð er við lýði í MÍ að útskriftarnemar bjóða starfsfólki til kaffisamsætis undir lok síðustu annarinnar í skólanum. Venjulega daginn fyrir dimission. Þá mæta nemendur og starfsfólk í sínu fínasta pússi á kaffistofuna og nemendur bjóða upp á hlaðið borð af kræsingum. Undanfarin tvö ár hefur þetta samsæti verið ýmsum takmörkunum háð og því var ánægjulegt að hitta prúðbúna nemendur í morgun á kaffistofu starfsfólks og eiga með þeim ánægjulega stund. Meðfygljandi myndir voru teknar við þetta tækifæri.

2 maí 2022

Samkomulag við Vinnumálastofnun um fræðslu fyrir nemendur á starfsbraut

Nú á dögunum gerðu Vinnumálastofnun og Menntaskólinn á Ísafirði með sér samning um fræðslu fyrir nemendur á 3. og 4. ári starfsbrautar. Í samningnum felst að Vinnumálastofnun býðst til að koma inn með fræðslu fyrir nemendurna og framkvæmd og útfærsla verkefnisins er samkomulag á milli skólans og Vinnumálastofnunar.

Samningurinn kemur í kjölfar samnings Félagsmálaráðuneytis og Vinnumálastofnunar um verkefnið ráðning með stuðningi. Aðdragandi þessa verkefnis eru tillögur verkefnahóps um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir rnemendur sem hafa lokið starfsbrautum framahaldsskóla og birtar voru í desember 2020.