23 feb 2023

Gróskudagar - skráning og kynning

Kæru nemendur

Gróskudagar verða í skólanum í næstu viku, þriðjudaginn 28. febrúar og miðvikudaginn 1. mars.

Þá verður óhefðbundið skólastarf og boðið verður upp á þrjár smiðjur hvorn daginn sem kennarar og starfsfólk skólans hafa umsjón með.

Smiðjur verða á þessum tímum: 

09:00 - 10:15
10:45 - 12:00
13:00 - 14:15

Þið þurfið að velja ykkur 6 smiðjur og farið á meðfylgjandi hlekk á signupgenius.com til þess.

Skráning hér

Athugið að velja aðeins eina smiðju á hverjum tímapunkti. Smiðjurnar geta verið í skólanum, í Stöðinni, í Edinborgarhúsinu og á fleiri stöðum, staðsetning kemur fram á skráningarforminu sem og umsjónarfólk smiðja. Mikilvægt er að vera mætt í smiðjuna á réttum tíma.

Í fyrstu smiðju á þriðjudag munuð þið fá afhent skráningarblað til að hægt sé að merkja við mætingu í smiðjunum. Þið þurfið að passa vel upp á skráningarblaðið, gæta þess að fá mætingu merkta í í hverri smiðju (fá stimpil) og skila til Ellu ritara ekki seinna en mánudaginn 6. mars. Mætingarskylda er á Gróskudaga. Það getur verið að síðasta smiðja dagsins verði eitthvað lengri en til 14:15, þá biðjum við ykkur um að taka fullan þátt þar til hún endar.

Ef þið viljið breyta skráningu, afskrá ykkur og slíkt, þá getið þið gert það ef þið búið til notendareikning á signupgenius.com. Ef þið lendið í vandræðum með skráningu getið þið sent póst á Kristján enskukennara kristjans@misa.is

Með von um frábæra Gróskudaga

Nefndin

21 feb 2023

Hljóð-, ljósa- og myndanámskeið

Langar þig að læra betur á hljóð-, ljósa- og myndakerfi?
Þá er hér kjörið tækifæri til að fara á námskeið.

Námskeiðið er 20klst og fyrir það fæst 1 eining.

Áhugasamir hafi samband við:
Mörthu Kristínu 
áfanga- og fjarnámsstjóra
marthakp@misa.is

 

21 feb 2023

Hugmyndir og nýsköpun

Ýmislegt skemmtilegt er gert í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun, sem er skylduáfangi á stúdentsbrautum og á lista- og nýsköpunarbraut hér í MÍ.

Í áfanganum læra nemendur sjálfstæð vinnubrögð og hvernig hægt er að koma hugmyndum sínum á framfæri og jafnvel í framleiðslu.

Á dögunum fóru nemendur m.a. í heimsókn í tvö fyrirtæki hér á Ísafirði.

Í Nora Seafood fengu nemendur kynningu á nýsköpun í tínslu á sjávarfangi og vinnslu þess, en Nora Seafood framleiðir ýmiskonar fiskafurðir úr fersku sjávarfangi sem veitt er á Vestfjarðarmiðum.

Í Kertahúsinu fengu nemendur kynningu á tilurð fyrirtækisins sem stofnað var í Covid í kjölfar skorts á ferðamönnum. Einnig bjuggu allir nemendur til ilmkerti þar sem þau völdu lit, ilm og bolla/krukku sem eru endurvinnsla á bollum, krukkum og kertastjökum úr Vesturafli – nytjamarkaði í svæðinu.

16 feb 2023

Hástökkvari ársins í Stofnun ársins

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í fyrsta sinn viðurkenningu í Stofnun ársins fyrir að vera sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best árið 2022. Fékk skólinn af því tilefni titilinn hástökkvari ársins. Hoppaði skólinn upp um 64 sæti frá 2021. Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn fyrr í dag.

Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar um styrkleika og áskoranir í starfsumhverfi stofnana eins og MÍ, starfsfólki til hagsbóta. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni sem fer þannig fram að spurningalisti er lagður fyrir starfsfólk á netinu. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Þeir níu þættir sem eru mældir eru: stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti.

„Þetta eru mjög gleðilegar fréttir og staðfestir það sem komið hefur fram í mánaðarlegum starfsmannakönnunum skólans og HR Monitor, að starfsandi innan skólans  góður og starfsánægja mikil. Það er gott að fá samanburðinn við aðrar ríkisstofnanir og sjá að við erum á réttri leið. Að fá þessa viðurkenningu er rós í hnappagat skólans og eflir starfsmannahópinn og okkur stjórnendur enn frekar í að bæta starfsumhverfið. Góður starfsandi skilar sér svo sannarlega út í skólastarfið og hefur mikið að segja. Það er grundvallaratriði að starfsfólkinu okkar líði vel og við erum ótrúlega stolt í dag, en hógvær, því á sama tíma megum við ekki gleyma því að þetta er áfangasigur og því mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

15 feb 2023

Vetrarfrí

Vetrarfrí er í skólanum 16. og 17. febrúar og því engin kennsla.

Hlökkum til að sjá alla endurnærða aftur mánudaginn 20. febrúar.

 

 

14 feb 2023

Stöðupróf í pólsku

Stöðupróf í pólsku verður haldið á vegum Kvennaskólans 1. mars n.k.

Skráningarfrestur er til 19. febrúar hér

Nánari upplýsingar veitir Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri

10 feb 2023

Landskeppni framhaldsskólanna í líffræði

Menntaskólinn á Ísafirði hefur skráð nemendur í Landskeppni framhaldsskólanna frá 2018. Landskeppnin er forpróf með 50 krossaspurningum á ensku úr ýmsum greinum líffræðinnar. Mest hafa 29% af menntaskólum landsins tekið þátt frá 2017 en keppnin er flott framtak MR. Með því að leiða þessa keppni er MR að veita íslenskum framhaldsskólanemum möguleika á að taka þátt í árlegri alþjóðalegri líffræðikeppni „International Biology Olympiad e.V." (IBO)“. Tuttugu efstu nemendum í hverri keppni býðst að fara í undirbúningskeppni í Reykjavík fyrir loka valið í Ólýmpíukeppnina sem er haldin að sumri til og alltaf í nýju landi.

Það er ánægjulegt að okkar nemendur hafi sýnt djörfung og dug og keppt 4 sinnum af 5 skiptum sem áttu sér stað frá 2018. Árið 2020 gátu MÍ-ingar sem höfðu skráð sig til keppni ekki verið með vegna ófærðar. Tuttugu MÍ-ingar hafa tekið þátt í Landskeppninni frá upphafi og tveir hafa keppt tvisvar sinnum. Meðal fjöldi keppenda frá skólanum í hvert skipti er fjórir. Hópurinn 2018 var afar öflugur og einn af okkar þátttakendum náði að vera í hópi 5 efstu keppenda á landsvísu, með 30 af 50 mögulegum stigum.

Í ár tóku 3 nemendur þátt, þau Daði Hrafn Þorvarðarson, Lilja Jóna Júlíusdóttir og Viktoría Rós Þórðardóttir, og eru MÍ-ingar afar stoltir af framlagi þeirra. Þeim tveimur sem gekk best í prófinu í ár voru nemendur í MR og voru þeir með 31/50 svörum rétt í prófinu. Einn af okkar nemendum nú var í 21. – 27. sæti af 202 þátttakendum frá 9 skólum sem er afar vel af sér vikið.

Það er gaman þegar okkar fólki gengur vel en það er líka mikilvægt að sýna vilja og getu til að taka þátt í svona viðburði til að fá þekkingu og reynslu í reynslubankann okkar. Takk fyrir þátttökuna unga öfluga fólk.

 

 

6 feb 2023

Gul viðvörun

Gul viðvörun er í gangi þriðjudaginn 7. febrúar frá 7:00 - 9:30.

Kennt verður samkvæmt stundaskrá en hvetjum alla til að fylgjast vel með veðri og færð.

4 feb 2023

Matartæknibrautin komin af stað

Matartæknibrautin er komin af stað í nýrri og glæsilegri kennsluaðstöðu MÍ.

Matartækninámið er 204 eininga nám, bæði bóklegt og verklegt og lýkur því með fagprófi matartæknis á 3. námsþrepi.

Á brautina eru skráðir 14 nemendur  sem er mikið fagnaðarefni og greinilegt að þörf var á að endurvekja brautina við MÍ.