11 maí 2018

Kvikmyndarallý mánudaginn 14. maí

Mánudaginn 14. maí kl. 16 fer fram í Ísafjarðarbíói kvikmyndarallý Menntaskólans. Þar munu nemendur í kvikmyndaáföngum á vorönn sýna verkefni og stuttmyndir og tekur sýningin um 80 mínútur. Nemendur í inngangsáfanga munu allir sýna um einna mínútu langar stuttmyndir og nemendur í framhaldsáfanga munu sýna allt að 10 mínútna lokaverkefni. Við þökkum Ísafjarðarbíói kærlega fyrir velvildina að gera okkur kleift að sýna myndirnar í bíóinu og bjóðum alla áhugasama velkomna í bíó.

8 maí 2018

Nám með vinnu

Menntaskólinn á Ísafirði býður upp á ýmisskonar nám með vinnu. Námið sem er í boði er:

  • fjarnám í bóknámsáföngum
  • félagsliðanám (kennt í samstarfi við Fjarmenntaskólann)
  • húsasmiðanám (kennt í MÍ)
  • sjúkraliðanám (kennt í samstarfi við Fjarmenntaskólann)
  • skipstjórnarnám A (kennt í MÍ)

Umsóknarfrestur er til 31. maí og er sótt um í gegnum www.menntagatt.is

 

Allar frekari upplýsingar um námið gefa Heiðrún Tryggvadóttir aðstoðarskólameistari (heidrun@misa.is) og Andrea Harðardóttir áfangastjóri (andrea@misa.is)

4 maí 2018

Fjölbreytt námsframboð

Nú stendur yfir innritun í Menntaskólann á Ísafirði og fer hún fram á www.menntagatt.is. Námsframboðið í MÍ er fjölbreytt og þar ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

4 maí 2018

Dimission í dag

Væntanlega hafa margir bæjarbúar vaknað snemma í morgun við lúðrablástur útskriftarefna ársins 2018. Dimission er í gangi! Orðið dimmision er leitt af latneskri sögn sem merkir að senda burt, dimmision er þannig brottfararsiður og markar lok náms í framhaldsskóla. Nú taka við nýir tímar og því fagna útskriftarefnin í dag.

Dimission-hópurinn í ár er óvenju fjölmennur enda munu í vor útskrifast tveir árgangar frá MÍ vegna breytinga á námskrá framhaldsskóla og styttingu náms til stúdentsprófs. Nemendur sem útskrifast í vor samkvæmt eldri námskrá klæddu sig upp eldsnemma í morgun sem kötturinn Garfield og nemendur sem útskrifast samkvæmt nýju námskránni leituðu í smiðju Frosen-myndarinnar og klæddu sig upp sem snjókarlinn Ólafur. Hópurinn gekk fylktu liði um bæinn eldsnemma í morgun og vakti starfsmenn skólans. Að því loknu hélt hópurinn í morgunverð til skólameistara og síðan tók við kveðjustund í skólanum áður en haldið var í bílferð um bæinn. Eftir hádegi tekur við skemmtilegur ratleikur og gleðinni lýkur síðan á lokaballi NMÍ í Krúsinni í kvöld.

Við óskum öllum sem eru að dimmitera góðrar skemmtunar í dag og vonum að dagurinn verði þeim eftirminnilegur.

10 apr 2018

Innritun stendur yfir

Nú stendur yfir innritun fyrir haustönn 2018. 

  • Forinnritun 10. bekkinga stendur yfir til 13. apríl. 
  • Lokainnritun 10. bekkinga stendur yfir 7. maí - 8. júní.
  • Innritun eldri nemenda stendur yfir frá 6. apríl - 31. maí.
  • Innritun í fjarnám stendur yfir frá 10. apríl til 17. ágúst.

 

Innritun 10. bekkinga og eldri nemenda fer fram á Menntagátt. Innritun í fjarnám fer fram hér.

Frekari upplýsingar um innritun í MÍ má finna hér. Allar frekari upplýsingar um nám við skólann veitir Stella Hjaltadóttir náms- og starfsráðgjafi, stella@misa.is

16 mar 2018

Verknámsblaðið 20/20 komið út

Á dögunum kom út verknámsblaðið 20/20 sem gefið út af öllum iðn- og verkmenntaskólum á Íslandi, samtals 13 skólar. Nafn blaðsins vísar í sameiginlegt markmið skólanna að 20% grunnskólanemenda skrái sig í iðn- og verknám frá og með árinu 20/20. MÍ á í blaðinu tvær greinar. Annars vegar grein um samstarf skólans við 3X Technology um menntun stálsmiða og hins vegar grein um útskrifaðan stálsmið, Ólaf Njál Jakobsson, sem hefur í gegnum starf sitt ferðast víða og má því segja að stálsmíðin hafi opnað fyrir hann heiminn. Blaðinu er dreift til allra 9. og 10. bekkinga á landinu en það er einnig gefið út í rafrænu formi. Greinar skólans eru á bls. 38-39.

 

 

12 mar 2018

Forinnritun 10. bekkinga stendur yfir

Nú stendur yfir til 13. apríl forinnritun 10. bekkinga. Nemendur í 10. bekk fá bréf frá Menntamálastofnun með veflykli að innritunarvef og leiðbeiningum sem afhent erí grunnskólunum. Foreldrar/forráðamenn nemenda fá bréf í pósti frá Menntamálastofnun með upplýsingum um innritunina. Innritunin fer fram í gegnum Menntagátt.is

 

Innritun annarra en 10. bekkinga stendur yfir frá 6. april til 31. maí. Lokainnritun 10. bekkinga fer fram frá 7. maí til 8. júní.

12 mar 2018

Opið hús 20. mars

Þriðjudaginn 20. mars verður opið hús hér í MÍ. Þá bjóðum við velkomna alla þá sem vilja kynna sér námsframboð og starfsemi skólans. Ýmislegt verður í boði svo sem ratleikur og leiðsögn.

8 mar 2018

Geðheilbrigði, geðsjúkdómar og úrræði

Hugrún er félag sem haldið er uppi af áhugasömum háskólanemum sem brenna fyrir því að bæta vitneskju og umræðu um geðheilbrigði, útrýma fordómum og efla ungmenni. Frá stofnun félagsins hefur vinna þess aðallega falist í því fræða framhaldsskólanema um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði.
 
vefsíða Hugrúnar fór í loftið þann 7. mars en þar má nálgast helstu upplýsingar og fræðsluefni um geðheilbrigði og viðeigandi úrræði. Heimasíðan er sett fram með það að markmiði að vera skýr og aðgengileg fyrir ungt fólk.
 
Samhliða opnun heimasíðunnar fór af stað herferðin #Huguð en í henni fékk Hugrún hóp fólks til að deila reynslu sinni af ólíkum geðsjúkdómum og geðröskunum. Herferðinni er ætlað að vekja athygli á geðheilbrigði, fjölbreytileika geðsjúkdóma og þeim úrræðum sem sem standa til boða. Hér má sjá eina af reynslusögunum.
 
Hugum að geðheilbrigði. Verum #Huguð.