5 apr 2019

Hópur danskra nemenda í heimsókn

Þessa viku og næstu munu 9 nemendur frá samstarfsskóla okkar í Danmörku, EUC Lillebælt, ásamt kennara og deildarstjóra vera við nám í skólanum. Hópurinn gistir á heimavistinni og vinnur hér að skólaverkefnum undir leiðsögn kennarans síns. Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum heimsókn af þessu tagi og vonum við að þær eigi eftir að verða fleiri í framtíðinni.

Fyrir utan námið hefur hópurinn farið í heimsóknir í 3X og Vélsmiðjuna Þrist sem og skoðað gömlu vélsmiðjuna á Þingeyri. Danirnir halda heim á leið föstudaginn 12. apríl. 

20 mar 2019

Heimsleikar Special Olympics í Abu Dhabi - Þorsteinn Goði keppir í badminton

Þorsteinn Goði Einarsson nemandi á 1. ári í MÍ er núna staddur í mikilli ævintýraferð í Abu Dhabi þar sem hann tekur þátt í heimsleikum Special Olympics. Þorsteinn Goði keppir fyrir hönd íþróttafélagsins Ívars ásamt félaga sínum úr Bolungarvík Guðmundi Kristni Jónassyni. Þeir keppa í tvíliðaleik í badminton og þjálfari þeirra er Jónas L. Sigursteinsson er með þeim í Abu Dhabi. Keppni er hafin og hafa drengirnir mátt þola töp en einnig unnið sigra. Þeim er óskað innilega til hamingju með árangurinn. Öll ferðin er mikil upplifun og má fylgjast með ævintýrum þeirra í myndum á instagram síðunni: itr_ivar_abu_dhabi

Íslenski hópurinn á heimsleikunum hefur nú dvalið ytra í nær tvær vikur við undirbúning og keppni. Íþróttasamband fatlaðra er með fréttir af hópnum inn á sínum síðum: Snapchat (ifsport) og Instagram (npciceland) sem og á Facebook-síðu sambandsins.

11 mar 2019

Nordjobb – Sumarstörf á Norðurlöndunum

Vilt þú vinna erlendis í sumar?

Nordjobb hjálpar þér að finna sumarstarf og húsnæði í öðru norrænu landi. Alls konar störf eru í boði svo sem í garðyrkju, þjónustu, fiskvinnslu, á hótelum og á veitingastöðum.

Allir eru hvattir til að sækja um, einu skilyrðin fyrir þátttöku eru að vera á aldrinum 18-30 ára og að hafa viðunandi vald á dönsku, sænsku eða norsku.

Þetta er tilvalið tækifæri til að eyða sumrinu erlendis, öðlast starfsreynslu og auka færni sína í erlendu tungumáli.

Áhugasamir geta fyllt út umsókn til að gerast Nordjobbarar á eftirfarandi slóð: https://semla.nordjobb.org/Registration.aspx?&lc=sv&cc=is

Hægt er að sjá laus störf hér: https://www.nordjobb.org/is/saekja-um-vinnu

 

ATH! Það kostar ekkert að taka þátt í Nordjobb verkefninu!

 

Nánari upplýsingar veitir Hannes, verkefnisstjóri Nordjobb á Íslandi, á island@nordjobb.org eða í síma 680-7477.

6 mar 2019

Ávaxtakarfan - sólrisuleikrit 2019

Sólrisuleikritið Ávaxtakarfan í leikstjórn Ingridar Jónsdóttur var frumsýnt við mikinn fögnuð áhorfenda s.l. föstudag. Sýning er fjörug og skemmtileg og hæfileikar nemenda hvort sem er í leik, söng eða dansi njóta sín vel. Sýningin er unnin af mikilli fagmennsku, leikmynd, búningar og umgjörðin öll hin glæsilegasta. Það er augljóst að þetta unga fólk á framtíðina fyrir sér. Það er því sannarlega þess virði að skella sér í leikhús eina kvöldstund, eða eftirmiðdag. 

Miðasala er í síma 450-5555 

5.sýning - 6.mars klukkan 20:00
6.sýning - 8.mars klukkan 20:00
7.sýning - 9.mars klukkan 17:00

5 mar 2019

Sólrisuhátíð - Dagskrá

Sólrisuhátíð Nemendafélags MÍ stendur nú sem hæst, en hátíðin var sett s.l. föstudag. Sama kvöld var leikritið Ávaxtakarfan í leikstjórn Ingridar Jónsdóttur frumsýnt við mikinn fögnuð áhorfenda.

Dagskrá Sólrisuhátíðarinnar er afar fjölbreytt í ár og áhugasamir geta kynnt sér hana á meðfylgjandi mynd. Sérstök athygli er vakin á Útvarpi MÍ-flugunni, en margir skemmtilegir og áhugaverðir þættir eru í boði.

Sólrisunefnd, menningarvita Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur og stjórn NMÍ er óskað innilega til hamingju með flotta Sólrisuhátið með ósk um að allir njóti hátíðarinnar og skemmti sér hið besta.

28 feb 2019

Gróskudagar - dagskrá og val í smiðjur

Gróskudagar verða í skólanum þriðjudaginn 5. og miðvikudaginn 6. mars n.k. Þá mun hefðbundin kennsla falla niður en nemendur velja sér smiðjur allt eftir áhuga hvers og eins. Nemendur þurfa að skrá sig í smiðjurnar fyrirfram og því mikilvægt að kynna sér vel dagskrána og lýsingu á smiðjunum. 

Smellið hér til að sjá dagskrá gróskudaganna

Smellið hér til að sjá lýsingu á smiðjum

 

Meðfylgjandi er vefsíðan sem þið notið til að skrá ykkur og stutt kennslumyndband um hvernig hún virkar. Fyrstur kemur, fyrstur fær þannig að það er best að þið skráið ykkur sem fyrst

https://www.signupgenius.com/go/5080c4dacaf22a7fc1-grskudagar 

Kennslumyndband

https://www.youtube.com/watch?v=RcyBSCXz8C8 

26 feb 2019

Jarðrask við heimavist

Vegna framkvæmda við suðurenda heimavistar verður mikið jarðrask á svæðinu þar í kring á næstunni. Efra bílastæðið verður því lokað frá og með 26.febrúar um óákveðinn tíma. Einnig getur verið að göngustígurinn ofan af Seljalandsvegi lokist tímabundið. 

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

25 feb 2019

Reisugildi timburhúss

Því var fagnað á dögunum að búið væri að reisa þakgrind hússins sem nemendur á 2. ári í húsasmíði vinna að um þessar mundir. Húsið er unnið eftir teikningu Hallvarðar Aspelund hjá Tækniþjónustu Vestfjarða og undir styrkri stjórn kennaranna Þrastar Jóhannessonar og Bergsteins Gunnarssonar. Blásið var til reisugildis í verknámshúsi skólans og Fossavatnsgangan sem er þegar búin að festa kaup á húsinu, bauð nemendum og starfsfólki upp á veitingar í tilefni dagsins. Fossavatnsgangan hyggst nota húsið sem brautarskýli í Fossavatnsbrautinni en samskonar hús var reist af nemendum skólans fyrir tveimur árum síðan. Það hús var einnig keypt af Fossavatnsgöngunni og hefur þjónað tilgangi sínum vel. Á meðfylgjandi myndum má sjá hið reisulega hús sem og nemendur, kennara og gesti gæða sér á kræsingunum. Nemendum á 2. ári í húsasmíði og kennurum þeirra er óskað innilega til hamingju með vel unnið verk!

5 feb 2019

Timburhús í byggingu

Eins og þeir sem leið eiga um lóð Menntaskólans á Ísafirði hafa eflaust tekið eftir, þá hefur nýlega risið þar nýtt timburhús. Þetta er brautarskýli sem nemendur á fjórðu önn í húsasmíðanámi eru að smíða fyrir Fossavatnsgönguna, en þeir stunda námið í helgarlotum og kvöldskóla. Sambærilegt hús var smíðað í fyrra og reyndist svo vel að falast var eftir öðru húsi þetta árið. Eins sjá má á meðfylgjandi myndum hafa húsasmíðanemar og kennarar þeirra, þeir Þröstur Jóhannesson og Bergsteinn Gunnarsson verið heppin með veður og smíði hússins því vel á áætlun, enda unnið myrkranna á milli í helgarlotunum.

Mikið aðsókn hefur verið í húsasmíðanámið og nú eru hópar í lotubundnu dreifnámi bæði á fyrsta og öðru ári. Allmargir nemendur eru þegar skráðir á biðlista fyrir námið næsta haust.

24 jan 2019

Sólarkaffi

Sólarkomunni þetta árið var að vanda vel fagnað af nemendum og starfsfólki skólans. Komið var saman í Gryfjunni og allir gæddu sér á pönnukökum, upprúlluðum eða með rjóma og sultu, ásamt fleira góðgæti. Þriðju bekkingar höfðu veg og vanda af bakstri og framreiðslu kræsinganna en þetta er árviss fjáröflun hjá þeim árgangi fyrir útskriftarferð sem farin verður í sumar.