26 ágú 2015

Nýnemaferð

 

Nýnemaferð Menntaskólans á Ísafirði 27. – 28. ágúst 2015

 

 

Náms- og samskiptaferð að Núpi í Dýrafirði

 

Fimmtudagur:

  • Mæting kl. 8:10
  • Keyrt að Núpi
  • Gönguferð
  • Hádegisverður
  • Leiðsögn um svæðið í kringum Núp  
  • Kaffi, nemendum skipt í hópa til að undirbúa kvöldvöku
  • Kvöldmatur kl. 19:00
  • Nemendur undirbúa kvöldvöku kl. 19:30-20:00
  • Kvöldvaka kl. 20:00, fulltrúar NMÍ koma í heimsókn og kynna félagslífið
  • Svefntími kl. 23:30

 

 

 

Föstudagur:

  • Farið á fætur kl. 9:00
  • Morgunverður kl. 9:00 – 9:45
  • Ratleikur hefst kl. 10:00
  • Brottför frá Núpi kl. 12:00

 

 

NAUÐSYNLEG MINNISATRIÐI:

  • Skólareglur gilda í ferðinni
  • Skólinn greiðir rútuferðir
  • Nemendur greiða fyrir gistingu og fæði
  • Inni í fæði er hádegisverður, miðdegissnarl, kvöldverður og kvöldkaffi á fimmtudag og morgunmatur á föstudag
  • Nemendur taka með sér nesti fyrir fimmtudagsmorgun (ef þörf er á)
  • Kostnaður er 7500 kr.  Nemendur greiða ritara fyrir brottför annað hvort miðvikudaginn 26/8 eða fyrir brottför fimmtudaginn 27/8.
  • Nemendur eiga að hafa með sér kodda, svefnpoka/sæng og lak 
  • Takið með ílát undir ber J
  • Nemendur verða að vera vel klæddir og koma með hlý föt og viðeigandi skófatnað í ferðina

 

 

Eftirtaldir starfsmenn fara með í ferðina:

Emil Ingi Emilsson, Jónas Leifur Sigursteinsson,

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir og Kristján Hrafn Bergsveinsson

 

 

 

18 ágú 2015

Skóli samkvæmt stundatöflu

MIðvikudaginn 19. ágúst hefst skólastarf samkvæmt stundatöflu kl. 8:10. Mötuneyti skólans verður opið í hádeginu. Þeir nemendur sem eiga eftir að fara í töflubreytingu þurfa að hafa samband við námsráðgjafa eða aðstoðarskólameistara.
17 ágú 2015

Skólasetning þriðjudaginn 18. ágúst kl. 9:00

Menntaskólinn á Ísafirði verður settur á sal skólans 18. ágúst kl. 9:00. Að skólasetningu lokinni munu umsjónarkennarar afhenda nemendum stundatöflur. Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu miðvikudaginn 19. ágúst kl. 8:10.
11 ágú 2015

Skólasetning

Menntaskólinn á Ísafirði verður settur á sal skólans þriðjudaginn 18. ágúst kl. 9:00. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 19. ágúst. Stundatöflur verða aðgengilegar nemendum í INNU föstudaginn 14. ágúst og nemendur geta nálgast bókalista á sama stað.
23 jún 2015

Lausar stöður framhaldsskólakennara við Menntaskólann á Ísafirði

Málmiðngreinar - 100% staða (málmsmíði, málmsuða og rennismíði)

Sérkennari - 100% staða

Stuðningsfulltrúi-25-50% staða

Tréiðngreinar 100% staða

Vélstjórnargreinar - 100% staða

 

Umsækjendur skulu hafa fullgild kennsluréttindi á framhaldsskólastigi í viðkomandi kennslugreinum sbr. lög nr. 87/2008. Æskilegt er að umsækjandi iðn- og vélstjórnargreina hafi nokkra starfsreynslu í atvinnulífinu. Einnig er æskilegt að umsækjandi um vélstjórnargreinar hafi lokið vélstjórnarnámi D og hafi rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl (skírteini: STCW).

 

Sérkennari þarf að  hafa fullgild kennsluréttindi á framhaldsskólastigi og sérkennsluréttindi sbr. lög nr. 87/2008. Starfið felst í sérkennslu á starfsbraut. Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og Kennarasambands Íslands sem og  stofnanasamningi MÍ. Laun stuðningsfulltrúa eru samkvæmt kjarasamningi SFR og stofnanasamningi MÍ. Starfið felst í stuðningi og aðstoð við nemendur á starfsbraut.

 

Sóst er eftir starfsmönnum sem hafa til að bera góða samskipta- og skipulagshæfni, þjónustulund, frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum, áhuga á að vinna með ungu fólki og taka þátt í þróunarstarfi í kennsluháttum og námsmati og þverfaglegu samstarfi.

 

Ráðið verður í stöðurnar frá 1. ágúst 2015. Í anda jafnréttisstefnu MÍ er hvatt til þess að konur jafnt sem karlar sæki um stöður við skólann. Umsóknum skal skila fyrir 13. júlí 2015 til Jóns Reynis Sigurvinssonar jon@misa.is sem gefur einnig nánari upplýsingar um störfin í síma 896 4636. Sakavottorð skal liggja fyrir við ráðningu.

 

Umsóknir gilda í a.m.k. sex mánuði ef staða losnar á ný. Á heimasíðunni http://.misa.is er að finna upplýsingar um skólann og starfsemi hans.

 

Skólameistari

30 maí 2015

Innritun á haustönn 2015

Innritun á haustönn 2015 í Menntaskólann á Ísafirði stendur yfir. Námsframboð er fjölbreytt en byrjað verður að kenna samkvæmt nýrri námskrá í haust á þriggja ára stúdentsprófsbrautum, náttúruvísindabraut og félagsvísindabraut.  Einnig verða eftirtaldar verknámsbrautir í boði ef næg þátttaka fæst:
  • Grunnnám hár og förðunargreina
  • Grunnnám málmiðngreina
  • Húsasmíði
  • Sjúkraliðanám (kennt að mestu í samstarfi við Fjarmenntaskólann)
  • Vélstjórn A og B nám
Nemendur sækja um skólavist í gegnum menntagatt.is og síðasti dagur innritunar er miðvikudagurinn 10. júní.
27 maí 2015

Brautskráning

Þann 23. maí s.l. voru 54 nemendur brautskráðir frá skólanum. Fjórir nemendur fengu afhent diploma í förðun, fjórir luku A-námi vélstjórnar, fjórir stálsmiðir voru brautskráðir og fimm sjúkraliðar. Þar af voru tveir sjúkraliðar sem einnig luku viðbótarnámi til stúdentsprófs. Af bóknámsbrautum skólans luku 39 nemendur námi, 16 af félagsfræðabraut, 16 af náttúrufræðibraut, fimm luku viðbótarnámi til stúdentsprófs og tveir luku námi af fjögurra ára starfsbraut. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Lára Margrét Gísladóttir stúdent af náttúrufræðibraut. Hún hlaut meðaleinkunnina 9,33. Semidux var Maksymilian Haraldur Frach stúdent af náttúrufræðibraut, með einkunnina 8,96. Hann lauk námi á þremur árum. Að vanda fluttu útskriftarnemendur tónlistaratriði við athöfnina. Maksymilian Frach lék á fiðlu við undirleik Iwonu Frach, Oberek í G-dúr eftir Michal Zarecki. Hálfdán Jónsson lék á gítar og flutti Estudio en La eftir Francisco Tarrega. Einar Viðar Guðmundsson lék á píanó, Prelúdíu í c-moll op. 28 nr. 20 eftir Friedrich Chopin og Salóme Katrín Magnúsdóttir söng við undirleik Iwonu Frach, I´ve got you under my skin eftir Cole Porter. Fjölmargar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum og Dux scholae flutti ræðu. Einnig fluttu afmælisárgangar ávörp og færðu skólanum gjafir. Fulltrúar 40 ára stúdenta þau Agnes Sigurðardóttir og Einar K. Guðfinnsson færðu skólanum gjöf til minningar um Margréti Oddsdóttur samstúdent sinn. Með gjöfinni vilja samstúdentar Margrétar halda minningu hennar á lofti og upplýsa nemendur skólans um þá merku konu sem lagði grunn að framtíð sinni í Menntaskólanum á Ísafirði, en Magrét lést langt um aldur fram þann 9. janúar 2009. Að loknum formlegum skólaslitum risu viðstaddir úr sætum og sungu saman Gaudeamus Igitur, við undileik Huldu Bragadóttur. Að kvöldi laugardagsins var útskriftarfagnaður í Íþróttahúsinu á Torfnesi, þar sem útskriftarnemar fögnuðu áfanganum ásamt fjölskyldum, vinum og afmælisárgöngum.
23 maí 2015

Brautskráning í Ísafjarðarkirkju

Laugardaginn 23. maí verða 54 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Fjórir nemendur ljúka diplómanámi í förðun, fjórir ljúka A námi vélstjórnar, fjórir ljúka prófi í stálsmíði. Þá munu fimm nemendur ljúka sjúkraliðaprófi, þar af eru tveir nemendur sem einnig ljúka viðbótarnámi til stúdentsprófs. Alls verða brautskráðir 39 stúdentar, 16 af félagsfræðabraut, 16 af náttúrufræðibraut, tveir af starfsbraut og fimm með viðbótarnám til stúdentsprófs. Brautskráningarathöfnin verður í Ísafjarðarkirkju og hefst klukkan 13.  
29 apr 2015

Próftafla vorannar 2015

Próftafla vorannar er tilbúin og hefur verið birt á nemendavefnum INNU. Próftöfluna í heild má sjá hér.