Fréttir
Dagana 10. og 11. desember n.k. verða vísindadagar í Menntaskólanum á Ísafirði. Er þetta í annað skiptið sem slíkir dagar fara fram. Á vísindadögunum verður hefðbundið skólastarf brotið upp með sýningum og kynningum nemenda á því fjölbreytta starfi sem fram fer í skólanum. Allir íbúar skólasamfélagsins nær og fjær eru velkomnir í skólann á meðan á Vísindadögum MÍ 2015 stendur.
Vísindadagar MÍ 2015 verða settir í Gryfjunni (sal MÍ) fimmtudaginn 10. desember kl. 8:10. Sérstakur gestur á setningunni verður Hjörtur Traustason nýkrýndur sigurvegari The Voice Ísland sem ætlar að syngja nokkur lög.
Á Vísindadögum verður ýmislegt að sjá. Boðið verður upp á tímaflakk í gegnum hártískuna, verklegar æfingar í náttúrufræði og eðlisfræði, nemendur í málmiðngreinum reyna að láta tónlist hafa áhrif á gas, nemendur sýna nýja snjallsímasmásjá sem búin var til í Fab Lab og hægt verður að skoða erfðaefni með aðferðum erfðatækninnar með rafdráttartækjum sem voru endurhönnuð og smíðuð í Fab Lab. Einnig verða ýmsar sýningar og kynningar um allan skólann á verkefnum nemenda í hinum ýmsu greinum. Er þá aðeins fátt eitt upptalið af því sem nemendur skólans taka sér fyrir hendur á Vísindadögum og erum við ákaflega stolt af hugmyndaauðgi þeirra og áhuga. Dagskrá Vísindadaga má sjá hér.
Á meðan á Vísindadögum stendur geta gestir gætt sér á ávöxtum og grænmeti á sérstöku hlaðborði, skoðað Læðuna, rafbílinn okkar sem Orkubú Vestfjarða gaf okkur og farið í bíó tengt Fab Lab og fengið alvöru bíópopp.
Dagskránni lýkur með verðlaunaafhendingu á föstudeginum. Allir gestir eiga þess kost að leysa vísindaþraut þar sem einn vinningshafi fær vinning. Veitt verða sérstakar viðurkenningar fyrir athyglisverðustu kynninguna og athyglisverðustu sýninguna auk þess sem dregið verður í happdrætti. Nemendafélagið býður nemendum upp á kvikmyndakvöld á fimmtudeginum og afþreyingu á föstudegi.
Kæri nemandi!
Ertu búinn að skila bókum á bókasafnið?
Síðasti skiladagur á haustönn er 11. des. nk.
Bókasafnið verður að sjálfsögðu opið á námsmatsdögum!