11 mar 2016

Góð aðsókn að opnu húsi í MÍ

Góð aðsókn var að opnu húsi í skólanum í gær. Fjölmargir sóttu skólann heim og kynntu sér það nám sem hér er í boði og skoðuðu húsakynnin. Nemendum í 10. bekk á norðanverðum Vestfjörðum og forráðamönnum þeirra hafði verið boðið sérstaklega á viðburðinn. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir þeirra sáu sér fært að mæta þrátt fyrir vetrarveðrið. Ratleikur var í gangi á meðan á heimsókninni stóð og búið er að draga út vinningshafann sem er Birna Sigurðardóttur. Við óskum Birnu til hamingju og hún getur vitjað vinningsins, páskaeggs nr. 7 frá Nóa Síríus, á skrifstofu skólans í dag.
10 mar 2016

Heimsókn frá Frakklandi

Í þessari viku erum við með góða gesti í skólanum. Þetta er hópur nemenda og 2 kennarar frá vinaskóla okkar Lycée Sainte Marie du Port í strandbænum Les Sables d´Olonne á vesturströnd Frakklands. Samstarfið við þennan skóla hefur nú staðið í bráðum 12 ár en fyrsti hópurinn frá þeim kom í heimsókn til okkar haustið 2004. Nemendurnir sem eru 18 talsins dvelja á heimilum gestgjafa sinna í Ísafjarðarbæ og nágrannasveitarfélögum og í haust er ætlunin að íslensku nemendurnir endurgjaldi heimsóknina. Á meðan á dvöl frönsku nemendanna stendur munu þeir vinna að ýmsum verkefnum í tengslum víð íslenska náttrúru, menningu og samfélag, ásamt því að kynnast betur íslensku nemendunum. Á meðfylgjandi myndum má sjá fyrsta fund Frakka og Íslendinga þegar tekið var á móti hópnum í skólanum.
9 mar 2016

Opið hús í MÍ 10. mars frá kl. 17:30-19:00

Á morgun, fimmtudaginn 10. mars frá kl. 17:30-19:00, verður opið hús í Menntaskólanum. Markmið opna hússins er að kynna starfsemi skólans fyrir nemendum í 10. bekk á norðanverðum Vestfjörðum og forráðamönnum þeirra sem og öðrum sem hafa hug á að kynna sér starfsemi skólans.

Á opna húsinu verður sérstök áhersla lögð á að kynna verknámsframboð skólans og geta gestir skoðað verknámsaðstöðu þar sem kennarar og nemendur munu taka á móti þeim og ýmis verkefni verða í gangi. Bóknámskennarar verða í bóknámshúsi og segja frá áherslum í bóknámi og bókasafnið verður opið.  Einnig munnámsráðgjafi veita upplýsingar um nýjar námsbrautir og inntökuskilyrði í skólann. Nemendur verða á staðnum og kynna félagslífið. 

Boðið verður upp á leiðsögn um húsakynni skólans kl. 17:45 og 18:30. Gestir á opnu húsi fá tækifæri til að spreyta sig í ratleik og eru vegleg verðlaun í boði.

Starfsmenn og nemendur MÍ bjóða gesti velkomna á opið hús fimmtudaginn 10. mars.
2 mar 2016

Forinnritun 10. bekkinga fyrir haustið 2016

Dagana 4. mars - 10. apríl fer fram forinnritun 10. bekkinga á síðunni menntagatt.is. Allir 10. bekkingar á Íslandi eiga að hafa fengið upplýsingar um forinntritun afhentar í sínum grunnskólum. Foreldrar og forráðamenn eiga sömuleiðis að hafa fengið sendar upplýsingar heim um innritunina. Lokainnritun 10. bekkinga fer síðan fram 4. maí - 10. júní. Allar upplýsingar um nám í boði við Menntaskólann á Ísafirði sem og inntökuskilyrði má finna hér.
26 feb 2016

Gróskudagar á Sólrisu

Gróskudagar verða síðustu þrjá daga Sólrisuviku eins og verið hefur undanfarin ár. Að vanda verða fjölmargar áhugaverðar smiðjur í boði. Nemendur geta kynnt sér smiðjurnar með því að smella á hlekk hér fyrir neðan. Allir nemendur þurfa að skrá sig í smiðjur öll 8 tímabilin þessa daga, þ.e.a.s. 3 smiðjur á miðvikudegi, 3 á fimmtudegi og 2 á föstudegi.

Gróskusmiðjur 2016

Skráning í smiðjur hefst í dag og fer fram á netinu. Hlekkurinn á skráninguna er hér fyrir neðan. 

ATH! Skráningu í smiðjur er LOKIÐ. Ef einhverjir eiga eftir að skrá sig þurfa þeir að hafa samband við skrifstofu skólans.

ATHUGIÐ! Sumar smiðjur eru þess eðlis að þær standa yfir í fleiri en eitt tímabil. Sem dæmi má nefna Hönnunarkeppnin sem stendur yfir alla Gróskudagana og nemendur sem skrá sig í hana geta ekki skráð sig í aðrar smiðjur. Lesið því vel allar útskýringar á smiðjum og hafið þetta í huga þegar þið veljið. 

Góða skemmtun!
25 feb 2016

Sólrisa 2016

Sólrisuvikan er að skella á og verður sett á morgun, föstudaginn 26. febrúar. Að venju verður farið í skrúðgöngu um bæinn. Við hvetjum þá sem vilja fylgjast með atburðum á Sólrisuvikunni að líka við atburð  á Facebook, Sólrisuhátíð 2016:

21 feb 2016

Leikfélag MÍ setur Litlu hryllingsbúðina á svið

Í Sólrisuvikunni setur Leikfélag MÍ á svið Litlu hryllingsbúðina eftir Alan Menken og Howard Ashman. Laust mál er í þýðingu Einars Kárasonar og söngtextar í þýðingu Megasar. Leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir.

Frumsýning verður föstudaginn 26. febrúar kl. 20:00 í Edinborgarhúsinu og alls verða sýningarnar fimm. Hægt er að panta miða í síma 779-2644 eftir kl. 12:00 á daginn. 

Sýningar verða sem hér segir: 

Frumsýning 26. febrúar klukkan 20:00
2. sýning 28. febrúar klukkan 20:00
3. sýning, 29. febrúar klukkan 20:00
4. sýning 1. mars klukkan 20:00
5. sýning 3. mars klukkan 20:00

Verð:
12 ára og eldri : 3000 kr
6-11 ára : 2500
NMÍ: 2500
Öryrkjar og eldriborgarar: 2500

19 feb 2016

MÍ úr leik í Gettu betur

MÍ keppti við MH í Gettu betur í kvöld. MÍ leiddi keppnina með einu stigi eftir hraðaspurningar en leikar enduðu með sigri MH, 36-26. Keppendur og stuðningsliðið stóðu sig með stakri prýði og voru skólanum sínum til mikils sóma.
19 feb 2016

MÍ keppir í fyrsta sinn í sjónvarpshluta Gettu betur í kvöld

Í kvöld kl. 20 keppir MÍ í fyrsta sinn í sögu skólans í sjónvarpshluta Gettu betur. Mótherjarnir eru MH og fer keppnin fram í sjónvarpssal. Keppendur, liðsstjóri og þjálfari fóru suður í dag og í morgun kl. 8 lagði stuðningsliðið af stað í rútu. Við óskum Gettu betur liðinu Dórótheu Magnúsdóttur, Friðriki Þóri Hjaltasyni og Kolbeini Sæmundi Hrólfssyni og liðsstjóranum Veturliða Snæ Gylfasyni góðs gengis í kvöld. Um leið hvetjum við alla núverandi og fyrrverandi MÍ-inga til að senda liðinu góða strauma og horfa á keppnina sem hefst eins og fyrr segir á RÚV kl. 20. Áfram MÍ.
15 feb 2016

Breytingar á skóladagatali

Skólaráð samþykkti á síðasta fundi sínum smávægilegar breytingar á skóladagatali vorannar. Námsmatsdögum voru færðir framar í maí og þeim fjölgað um tvo og tveir úrvinnsludagar bættust við fyrir aftan námsmatsdaga. Einnig var miðannarmatsdagur sem vera átti 17. febrúar færður til 8. mars. Nýtt skóladagatal er komið inn á heimasíðu skólans og það má einnig sjá hér.