13 nóv 2015

Frábær söngkeppni!

Mikið erum við í MÍ stolt af hæfileikaríkum nemendum okkar sem stóðu sig frábærlega öll með tölu í kvöld, keppendur, húshljómsveitin og aðrir sem gerðu söngkeppnina að veruleika. Söngatriðin voru alls 10 og stóðu flytjendur sig með miklum sóma.

Flytjendur voru Kristín Harpa Jónsdóttir, Erna Kristín Elíasdóttir, Sigríður Elma Björnsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Þórður Alexander Úlfur Júlíusson, Þórhildur Bergljót Jónasdóttir, Anton Líni Hreiðarsson og Vilhelm Stanley Steinþórsson, Daníel Snær Viðarsson, Heiðdís Birta Jónsdóttir Thompson, Hafdís Katla Jónsdóttir Thompson og Melkorka Ýr Magnúsdóttir.

Sérstök húshljómsveit sá um undirleik en hana skipuðu Þormóður Eiríksson, Björn Dagur Eiríksson, Magnús Ingi Traustason, Slavyan Yordanov Yordanov og Kristín Harpa Jónsdóttir. Kynnir var fyrrum nemandi MÍ, Einar Viðar Guðmundsson.

Dómnefnd skipuðu Guðmundur Hjaltason, Dagný Hermannsdóttir, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir.

Úrslit keppninnar urðu þau að í 3. sæti varð Erna Kristín Elíasdóttir sem söng lagið One call away með Charlie Puth. Í 2. sæti varð Þórður Alexander Úlfur Júlíusson sem söng lagið Frome Eden með Hozier. Í 1. sæti varð Sigríður Elma Björnsdóttir sem söng lagið One and only með Adele. Hlutu þau margs konar verðlaun frá hinum ýmsu fyrirtækjum hér í bæ. Sigurvegarinn, Sigríður Elma, mun verða fulltrúi MÍ í Söngkeppni framhaldsskólanna 2016 og verður spennandi að fylgjast með henni stíga þar á svið.

Til hamingju öll sem eitt sem tókuð þátt og til hamingju Sigríður Elma með sigurinn. Nemendafélagi MÍ, öllum styrktaraðilum, hljóðmönnum, ljósamönnum og öðrum sem gerðu þessa keppni að veruleika þökkum við kærlega fyrir þeirra framlag.

Myndir frá keppninni má finna í myndaalbúmi hér á síðunni, myndasmiður var Hjalti Heimir Jónsson.
13 nóv 2015

Söngkeppni NMÍ er í kvöld

Söngkeppni Nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði verður haldi í Edinborgarhúsinu í kvöld, föstudaginn 13. nóvember. Húsið opnar kl. 19:30 og keppnin byrjar kl 20:00. Aðgangseyrir er 1.000 kr. fyrir NMÍ og eldri borgara en 1.500 kr. fyrir ÓNMÍ og aðra gesti. Frítt er fyrir 12 ára og yngri. Allir eru velkomnir.
10 nóv 2015

Danskir nemar í heimsókn

Í síðustu viku komu þrír málmiðnnemar frá EUC Lillebælt-skólanum í Danmörku til þriggja vikna dvalar á Ísafirði. Nemarnir þrír, Jonas, Morten og Rasmus, voru fyrstu vikuna hér í skólanum en seinni tvær vikurnar munu þeir vinna í ísfirskum málmiðnfyrirtækjum. Á meðan á dvölinni í skólanum stóð sóttu þeir ýmsa tíma sem tengjast málmiðngreinum undir leiðsögn Tryggva Sigtrygssonar málmiðnkennara, en einnig sóttu þeir ýmsa aðra tíma og fóru m.a. í dönskutíma sem nokkurs konar aðstoðarkennarar. Þetta er fimmta árið í röð sem MÍ fær danska málmiðnnema í heimsókn. Eftir páska munu svo fjórir MÍ-ingar í málmiðngreinum halda til Danmerkur og dvelja þar við nám og störf í nokkrar vikur. Er þetta gott dæmi um vel heppnað samstarf bæði milli skóla og landa sem stækkar svo um munar sjóndeildarhring þeirra sem að koma.
5 nóv 2015

Moodle fyrir snjallsíma

Mjög mikilvægt er að nemendur fari reglulega inn á Moodle og fylgist með því sem þar er að gerast. Við viljum benda nemendum okkar á að hægt er að nálgast Moodle í snjallsímavænu umhverfi og má fá alla leiðbeiningar um það hér.
22 okt 2015

í kjölfar Bríetar-hópurinn í góðri heimsókn

Í morgun fengum við góða heimsókn frá þremur fulltrúum Í kjölfar Bríetar-hópsins, Dóru Hlín Gísladóttur, Dögg Árnadóttur og Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur. Í kjölfar Bríetar er hópur sem stendur um helgina fyrir ráðstefnu hér á Ísafirði um stöðu jafnréttismála í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Bauð hópurinn nemendum MÍ upp á áhugaverða dagskrá á sal sem tengdist á einn eða annan hátt jafnrétti. Horfðu nemendur á myndina The Startup Kids um unga veffrumkvöðla en áður en myndasýningin hófst fengu nemendur að heyra nokkur orð frá öðrum leikstjóra myndarinnar, Sesselju Vilhjálmsdóttur, í gegnum Skype. Að lokinni sýningu myndarinnar hófust umræður um jafnréttismál og því næst tók við skemmtileg spurningakeppni á netinu um ýmislegt sem tengist jafnrétti. Að lokum buðu Í kjölfar Bríetar-hópurinn og Hamraborg upp á pizzuveislu. Heimsóknin var í alla staði ánægjuleg og vakti vonandi nemendur MÍ til umhugsunar um stöðu jafnréttismála. Þökkum við í MÍ Í kjölfar Bríetar-hópnum kærlega fyrir okkur.
21 okt 2015

Skemmtileg heimsókn á morgun

Fimmtudaginn 22. október fáum við heimsókn frá hópnum Í kjölfar Bríetar en hópurinn stendur fyrir ráðstefnu um stöðu jafnréttismála hér á Ísafirði 23.- 24. október í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

 

Dagskrá heimsóknarinnar:

10:30-11:25 The Startup Kids Heimildamynd um unga veffrumkvöðla. Leikstjórar myndarinnar eru Sesselja Vilhjálmsdóttir og Vala Halldórsdóttir.
11:30-11:40 Skype með Sesselju leikstjóra myndarinnar 
11:40-12:30 Umræður um jafnréttismál og Kahoot

Pizza í boði 

14 okt 2015

Vel heppnað styrktarhlaup

Við erum ótrúlega stolt af nemendafélaginu okkar sem hét í dag, í samvinnu við verkefnastjórn Heilsueflandi framhaldsskóla í MÍ, styrktarhlaup NMÍ. Hlaupið var til styrktar átakinu Bleika slaufan og alls tóku 59 manns þátt. Þátttakendur ýmist gengu eða hlupu og gátu valið um þrjár vegalengdir; 2,5 km, 5 km og 10 km. Alls söfnuðust hátt í 90.000 kr. og þökkum við öllum þátttakendum fyrir stuðninginn. Er þetta í fyrsta skipti sem svona styrktarhlaup er haldið í MÍ og er það von þeirra sem að hlaupinu stóðu að um árvissan viðburð geti verið að ræða. 
13 okt 2015

Viðburðir í tilefni af bleikum október

Á morgun er bleikur dagur í skólanum í tilefni af bleikum október. Kl. 17:00 stendur síðan nemendafélag skólans fyrir styrktarhlaupi. Í boði eru þrjár vegalengdir: 2,5 km, 5 km og 10 km. Í boði er bæði að ganga og hlaupa. Mætum sem flest!
8 okt 2015

Vel heppnuð róðrakeppni

Í morgun fór hin árlega róðrakeppni MÍ fram í einmuna veðurblíðu. Hin ýmsu lið, skipuð nemendum, foreldrum og kennurum, tóku þátt og voru vel hvött áfram af áhorfendum á bryggjunni. Stjórn nemendafélagsins grillaði síðan ofan í mannsskapinn á bryggjukantinum. Eftir æsispennandi keppni kom í ljós að tvö lið voru nánast jöfn og kom því til bráðabana. Þar höfðu Málmhausarnir, nemendur á 2. ári í grunndeild málmiðna, betur gegn karlkyns kennurum MÍ. Á myndasíðunni má sjá myndir frá keppninni. #MÍRÓ
8 okt 2015

Valtímabil fyrir vorönn 2016 byrjað

Valtímabil fyrir vorönn 2016 stendur nú yfir og þarf ali að vera lokið í síðasta lagi miðvikudaginn 14. október. Ef nemandi hefur ekki gengið frá valinu þá, verður litið svo á að hann ætli ekki að koma í skólann á vorönn = enginn gíróseðill = engin stundatafla. 

Nemendur geta leitað aðstoðar hjá námsráðgjafa eða aðstoðarskólameistara við valið. Allar helstu upplýsingar um valið má finna hér hægra megin á heimasíðunni.