7 nóv 2016

Nýnemaferð 2016

í lok ágúst fóru nýnemar í árvissa nýnemaferð í Dýrafjörð ásamt þremur starfsmönnum skólans. Farið var að Núpi í Dýrafirði þar sem hópurinn gisti. Síðan var ekið út að eyðibýlinu Arnarnes og farið í góðan göngutúr. Eftir hádegi fór hópurinn og skoðaði sig um í nágrenni Núps og farið var í Skrúð. Þá var farið í leiki á túninu við gamla héraðsskólann og um kvöldið var kvöldvaka þar sem nemendur höfðu sjálfir undirbúið ýmis atriði. Fulltrúar úr stjórn NMÍ komu þá í heimsókn og kynntu félagslíf skólans. Daginn eftir var farið í ratleik, áður en haldið var til baka til Ísafjarðar. Nokkrar myndir eru komnar inn hér á síðuna, en fleiri myndir má finna á facebook síðu skólans.
1 nóv 2016

Val fyrir vorönn 2017

Nemendur sem eiga eftir að velja áfanga fyrir vorönn, geta pantað tíma hjá náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóra og fengið aðstoð við valið. Athugið að ekkert val þýðir engin stundatafla á vorönn.
26 okt 2016

Valdagur 27. október

Á morgun, fimmtudaginn 27. október, er valdagur. Þá þurfa allir nemendur að velja áfanga fyrir vorönn 2017. Alla upplýsingar vegna valdagsins eru á heimasíðu skólans, sjá hér.

Nýnemar munu fá aðstoð við valið í náms- og starfsfræðslutimum. Aðrir nemendur geta leitað til náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóri í stofu 10-11 milli kl. 10:30-11:30 á morgun.

Vali þarf að vera lokið í síðasta lagi mánudaginn 31. október. Þeir nemendur sem ekki velja áfanga fyrir vorönn fá ekki greiðsluseðil og fá þá ekki heldur stundatöflu. Ef nemandi ætlar sér ekki að stunda nám á vorönn við MÍ er nauðsynlegt að láta áfangastjóra vita.

 

24 okt 2016

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna 2016-2017

Forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram þann 4. október 2016 og voru þátttakendur 245 á neðra stigi og 132 á efra stigi frá alls 24 skólum. Þrír nemendur frá MÍ tóku þátt í keppninni að þessu sinni. Þeir Dagur Benediktsson og Einar Óli Guðmundsson á efra stigi og Pétur Ernir Svavarsson á neðra stigi. Pétri Erni gekk ljómandi vel í keppninni en hann lenti í 15 sæti af 245 keppendum. Öllum keppendum er þakkað kærlega fyrir þátttökuna og Pétri Erni er óskað innilega til hamingju með árangurinn, sem fleytir honum áfram í síðari hluta keppninnar sem fer fram í mars á næsta ári. 
19 okt 2016

Styrkarhlaupi NMÍ frestað um viku vegna veðurs

Vegna slæmrar veðurspár hefur styrktarhlaupi NMÍ sem áformað var að halda í dag verið frestað um viku. Hlaupið verður miðvikudaginn 26. október.
18 okt 2016

Skólahjúkrun og heimanámsaðstoð

Skóli er svo margt! Menntaskólinn á Ísafirði er í áhugaverðum samstarfsverkefnum í heimabyggð til að sporna við brottfalli og bæta líðan nemenda. Annars vegar er það verkefni um skólahjúkrun í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en Rakel Ingvadóttir skólahjúkrunarfræðingur er með viðtalstíma í skólanum alla miðvikudaga frá kl. 10:30-12:00. Hins vegar er það samstarfsverkefni við Vesturafl og Starfsendurhæfingu Vestfjarða. Einn angi af því verkefni er heimanámsaðstoð sem verður í boði fyrir nemendur alla miðvikudaga frá kl. 15:15-16:15. Ýmislegt fleira er svo í farvatninu.
18 okt 2016

Styrktarhlaup NMÍ

Á morgun, miðvikudaginn 19.október, mun nemendafélag MÍ halda styrktarhlaup fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon. Hlaupið hefst við MÍ kl. 17:00 en skráning hefst kl. 16:30.

Þrjár göngu- og hlaupaleiðir eru í boði: 2,5 Km, 5 km og 10 km. Það kostar 500 krónur að taka þátt en öllum er velkomið að styrkja eins og hver vill. Endilega dragið með ykkur hlaupahópinn, fjölskyldu eða vinnufélaga - því fleiri því betra. Margt smátt gerir eitt stórt.

12 okt 2016

Skuggakosningar 2016

Skuggakosningar verða í skólanum á morgun, fimmtudaginn 13. október. Kjörfundur verður í stofu 10-11 og stendur frá kl. 9 til 16. Á kjörskrá eru allir nemendur í dagskóla sem fæddir eru 28. apríl 1995 og síðar. Kjósendur eru hvattir til að kynna sér framkvæmd skuggakosninga á síðunni egkys.is. Þar er einnig að finna upplýsingar um þá flokka sem munu bjóða fram lista í alþingiskosningunum þann 29. október n.k.
10 okt 2016

Lýðræðisvika í MÍ

Þessa dagana stendur yfir lýðræðisvika í flestum framhaldsskólum landsins. Kennarar eru hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni í tímum, hvetja nemendur til þess að svara spurningum kosningavitans og stuðla að  stjórnmálaumræðu í tímum. Lýðræðisvikan endar á skuggakosningum þann 13. október, en áður en nemendur ganga til atkvæðagreiðslu er mikilvægt að þeir taki upplýsta ákvörðun. Nánar er hægt að fræðast um lýðræðisvikuna og skuggakosningar á síðunni http://egkys.is
3 okt 2016

Vettvangsferð nema í B-námi vélstjórnar til Reykjavíkur

Nemendur í B námi vélstjórnar fóru á dögunum í vettvangsferð til Reykjavíkur og nágrennis í fylgd kennara síns Friðriks Hagalín Smárasonar. Lagt var af stað til Reykjavíkur snemma morguns þriðjudaginn 27. september og komið til Reykjavíkur eftir hádegi. Þá var haldið austur í Hellisheiðarvirkjun þar sem nemendur fengu langa og góða kynningu hjá Guðmundi Hagalín Guðmundssyni sem er forstöðumaður virkjanareksturs Orkuveitu Reykjavíkur. Daginn eftir var farið í heimsókn í Véltækniskólann fyrir hádegi og eftir hádegi var farið á Sjávarútvegssýninguna í Laugardalshöll. Fimmtudaginn 29. september var farið í heimsókn í Vélar og skip kl. 8 árdegis lagt af stað áleiðis heim um hádegið, eftir skemmtilega og fræðandi ferð. Nokkrar myndir úr ferðinni eru hér með og einnig á facebook síðu skólans.