8 mar 2017

Sólrisuvika og Gróskudagar

Sólrisuvikan er nú í fullum gangi. Sýningar á leikriti ganga fyrir fullu húsi, Útvarp MÍflugan sendir út á tíðninni fm101 og margvísleg önnur dagskrá er í boði. Þá standa yfir Gróskudagar í skólanum þar sem nemendur taka þátt í ýmsum smiðjum, fróðlegum og skemmtilegum. Á meðfylgjandi myndum má sjá brot af þeim fjölbreyttu smiðjum sem í boði eru.
6 mar 2017

Forinnritun 10. bekkinga

Dagana 4. mars - 10. apríl fer fram forinnritun 10. bekkinga á síðunni www.menntagatt.is. Allir 10. bekkingar á Íslandi eiga að hafa fengið upplýsingar um forinntritun afhentar í sínum grunnskólum. Foreldrar og forráðamenn eiga sömuleiðis að hafa fengið sendar upplýsingar heim um innritunina. Lokainnritun 10. bekkinga fer síðan fram 4. maí - 10. júní. Allar upplýsingar um nám í boði við Menntaskólann á Ísafirði sem og inntökuskilyrði má finna hér.
2 mar 2017

Sólrisuvikan að hefjast

Sólrisuvikan hefst á morgun, föstudaginn 3. mars,  með skrúðgöngu frá MÍ í Edinborgarhúsið. Um kvöldið verður síðan Sólrisuleikritið frumsýnt, leikritið Vælukjói sem er gert út frá myndinni Cry baby eftir John Waters. Uppselt er á frumsýningu en næstu sýningar eru á laugardaginn, tvær á sunnudaginn og síðan mánudag og þriðjudag. Miðapantanir eru í síma 450 5555.
28 feb 2017

Gróskudagar á Sólrisu

Í Sólrisuviku verða að þessu sinni tveir Gróskudagar, þriðjudaginn 7. og miðvikudaginn 8. mars. Þessa daga er hefðbundin kennsla brotin upp og nemendur geta skráð sig í alls konar skemmtilegar og fróðlegar smiðjur. Hver nemandi þarf að skrá sig í þrjár smiðjur hvorn dag til að fá mætingu skráða þessa daga. Skráning er hér á hlekknum 

http://www.signupgenius.com/go/30E0A4FA9A92BA1F85-grskudagar3

N
ánari upplýsingar um smiðjur má nálgast með því að smella hér.

17 feb 2017

MÍ vann ML í MORFÍS

Í gærkvöldi fór fram MORFÍS keppni í Gryfjunni. Lið MÍ ðið lagði þá lið Menntaskólans á Laugarvatni í æsispennandi ræðukeppni. Ingunn Rós Kristjánsdóttir liðsmaður MÍ var valin ræðumaður kvöldsins. Með sigrinum er MÍ komið í undanúrslit sem fara fram í mars. Skólinn hefur þrisvar sinnum áður komist í undanúrslit en það var árin 1986, 2008 og 2009. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem Sólrún Geirsdóttir tók.
14 feb 2017

Hvað er #kvennastarf?

Tækniskólinn og Samtök iðnaðarins hafa, í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu, hrundið af stað herferð sem ber nafnið #kvennastarf

Algengt er að talað sé um „hefðbundin kvennastörf“  Með #kvennastarf er ætlunin að brjóta niður úreltar hugmyndir og benda ungu kynslóðinni á að fyrir bæði kynin eru allar leiðir færar í námi og starfi.

Tilgangurinn er m.a. að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum. Í nútímasamfélaginu á Íslandi telja margir að jafnrétti kynjanna ríki á flestum sviðum. En er raunin sú?

Myndir – myndbönd – heimasíða

Herferðin hófst á birtingu ljósmynda, sem prýða nú mörg strætisvagnaskýli á höfuðborgarsvæðinu. Myndirnar sýna stelpur sem eru nemendur í viðkomandi iðngrein og er ætlað að varpa ljósi á glæsilegar fyrirmyndir sem stunda nám eða vinna við þessi störf.

Gefin verða út myndbönd um nám og störf kvenna í nokkrum faggreinum. Myndböndin segja sögu kvenkyns frumkvöðla í karllægum iðngreinum og sögur kvenna sem eru nemendur í dag eða vinna við greinina.

Vefurinn kvennastarf.is er kominn í loftið og þar má finna gagnlegar upplýsingar um málefnið og skemmtilega nálgun í gegnum samfélagsmiðla. Á vefsíðunni er t.d. að finna ótrúlegar tölfræðiupplýsingar sem sýna óútskýranlegan kynjahalla í nokkrum starfsgreinum.  

Allir, bæði fólk í verk- og iðngreinum og í öðrum starfsstéttum, eru hvattir til að taka þátt og virkja hashtaggið #kvennastarf með því að setja myndir úr námi og starfi eða öðru sem tengist málefninu, inn á samfélagsmiðla á borð við Twitter, Instagram og Facebook. Ekkert starf er ekki kvennastarf. Konur geta starfað við það sem þeim sýnist og það sama gildir um karlmenn

Tilgangur og markmið

Átakinu #kvennastarf er ætlað að vera stelpum og ungu fólki hvatning til að skoða alla möguleika í vali á námi og framtíðarstarfi og horfa opnum augum á hvar áhugasvið þeirra liggur. Allir eiga að geta starfað við það sem þá langar til.

Iðn- og verkmenntaskólar stefna á fjölgun fagmenntaðs fólks og markmið þeirra er að 20% grunnskólanema velji iðn-, tækni- og verkmenntun árið 2025 og að lágmarki 30% árið 2030.

Með #kvennastarf er ætlunin að sýna fram á að kynjahallinn sem er í iðn- og verkgreinum er óþarfur. Ef ungt fólk af báðum kynjum sér tækifæri í starfsmenntun, verður auðveldara að fjölga nemendum í þessum greinum og fleira fagmenntað fólk verður til í íslensku atvinnulífi.

 

Fagráð herferðar:

Sá breiði hópur skóla og samtaka sem stendur að baki #kvennastarf hefur skipað sérstakt fagráð sem í sitja: 

  • Jón B. Stefánsson – skólameistari Tækniskólans
  • Ársæll Guðmundsson – skólameistari Borgarholtsskóla, BHS
  • Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir – skólameistari Fjölbrautaskóla Breiðholts, FB                       

 

Talsmenn #kvennastarf:

Ólafur Sveinn Jóhannesson – s: 665 1155
Ágústa Sveinsdóttir – s: 699 2264

14 feb 2017

Árshátíð NMÍ

Árshátíð NMÍ var haldið í Edinborgarhúsinu laugardaginn 11. febrúar. Glæsileg þrírétta máltíð var borin fram og veislustjóri var Lalli töframaður sem sá um að kitla hláturtaugar viðstaddra svo um munaði. Góð mæting var á árshátíðina og nemendur mættu í sínu fínasta pússi eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Að veislunni lokinni tók svo við dansleikur fram á nótt.
14 feb 2017

MÍ mætir ML í 8 liða úrslitum Morfís

Á fimmtudaginn mætir MORFÍS lið MÍ Laugvetningum í átta liða úrslitum MORFÍS. MÍ keppir heima að þessu sinni og keppnin fer fram í Gryfjunni og hefst kl. 20. Keppendur MÍ hafa staðið í ströngu undanfarna daga við undirbúning og ræðuskrif. Við hvetjum nemendur, starfsfólk skólans og bæjarbúa til að mæta á keppnina og hvetja MÍ-inga áfram.
8 feb 2017

Keppni MÍ lokið í Gettu betur.

MÍ lauk keppni í Gettu betur í gær þegar firnasterkt lið FG lagði lið MÍ en lokatölur voru 21-35 fyrir FG. Okkar krakkar lögðu á sig mikla vinnu við æfingar og stóðu sig vel í keppninni þetta árið þrátt fyrir tapið í gær. Það gengur bara betur á næsta ári.
7 feb 2017

Önnur umferð Gettu betur í kvöld

Í kvöld mætir Gettu betur lið MÍ þau Ína Guðrún, Kolbeinn og Veturliði, Fjölbrautarskólanum í Garðabæ í annarri umferð Gettu betur 2017. Viðureigninni verður útvarpað á Rás2 og hefst hún klukkan 20. Það lið sem ber sigur úr býtum mun komast áfram í 8 liða úrslit í sjónvarpi í lok mánaðarins. Við óskum Ínu Guðrúnu, Kolbeini og Veturliða góðs gengis í kvöld. Áfram MÍ!