20 nóv 2016

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur þann 16. nóvember síðstliðinn. Á deginum, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, var boðið upp á veglega dagskrá á sal, í umsjón nokkurra nemenda í í íslensku. Veg og vanda af umsjón dagskránnar hafði Emil Ingi Emilsson íslenskukennari. Flutt voru ljóð og textar sem fjölluðu á einn eða annan hátt um Vestfirði eða tengdust svæðinu. Einnig var flutt tónlist. Við þökkum þeim sem skipulögðu og tóku þátt í þessari dagskrá, kærlega fyrir skemmtunina.
8 nóv 2016

Innritun á vorönn 2017

Innritun á vortönn 2017 í Menntaskólann á Ísafirði stendur nú yfir. Í boði er nám á bóknámsbrautum til stúdentsprófs, samkvæmt eldri námskrá og nýrri. Einnig geta nemendur sótt um nám í einstaka verknámsgreinum en nánari upplýsingar um það veitir Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri, netfang: heidrun@misa.is; sími: 450-4400.

Nemendur sækja um skólavist í gegnum menntagatt.is og síðasti dagur innritunar er miðvikudagurinn 30. nóvember. Nemendur sem eru skráðir í dagskóla hafa þegar valið áfanga fyrir vorönn 2017 og þurfa ekki að skila inn umsókn í gegnum Menntagátt.
8 nóv 2016

Dagur gegn einelti

Áttundi nóvember er ár hvert helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Allt of mörgum líður illa vegna eineltis og staðreyndin er sú að einelti getur eyðilagt líf og tekið líf. Því miður þá þrífst einelti alls staðar þar sem það er látið afskiptalaust. Það er þjóðfélagsmein og það er samfélagsskylda okkar að stuðla að því að uppræta það. Ef við verðum vör við einelti, leggjum þá okkar framlag á vogarskálarnar, grípum inn í og gerum okkar besta til að beina málinu í réttan farveg. Eitt mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn einelti er að samþykkja ekki þöggun. Í MÍ á einelti ekki að líðast og hægt er að fræðast um viðbragðsáætun skólans ef grunur vaknar um einelti, með því að smella á Viðbrögð við einelti hér á heimasíðunni. Þar er einnig að finna rafrænt eyðublað þar sem hægt er að tilkynna einelti eða grun um einelti. 

Við hvetum alla til að undirrita sáttmála gegn einelti sem finna má á vefsíðu fagráðs eineltismála í grunnskólum  gegneinelti.is
7 nóv 2016

Nýnemaferð 2016

í lok ágúst fóru nýnemar í árvissa nýnemaferð í Dýrafjörð ásamt þremur starfsmönnum skólans. Farið var að Núpi í Dýrafirði þar sem hópurinn gisti. Síðan var ekið út að eyðibýlinu Arnarnes og farið í góðan göngutúr. Eftir hádegi fór hópurinn og skoðaði sig um í nágrenni Núps og farið var í Skrúð. Þá var farið í leiki á túninu við gamla héraðsskólann og um kvöldið var kvöldvaka þar sem nemendur höfðu sjálfir undirbúið ýmis atriði. Fulltrúar úr stjórn NMÍ komu þá í heimsókn og kynntu félagslíf skólans. Daginn eftir var farið í ratleik, áður en haldið var til baka til Ísafjarðar. Nokkrar myndir eru komnar inn hér á síðuna, en fleiri myndir má finna á facebook síðu skólans.
1 nóv 2016

Val fyrir vorönn 2017

Nemendur sem eiga eftir að velja áfanga fyrir vorönn, geta pantað tíma hjá náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóra og fengið aðstoð við valið. Athugið að ekkert val þýðir engin stundatafla á vorönn.
26 okt 2016

Valdagur 27. október

Á morgun, fimmtudaginn 27. október, er valdagur. Þá þurfa allir nemendur að velja áfanga fyrir vorönn 2017. Alla upplýsingar vegna valdagsins eru á heimasíðu skólans, sjá hér.

Nýnemar munu fá aðstoð við valið í náms- og starfsfræðslutimum. Aðrir nemendur geta leitað til náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóri í stofu 10-11 milli kl. 10:30-11:30 á morgun.

Vali þarf að vera lokið í síðasta lagi mánudaginn 31. október. Þeir nemendur sem ekki velja áfanga fyrir vorönn fá ekki greiðsluseðil og fá þá ekki heldur stundatöflu. Ef nemandi ætlar sér ekki að stunda nám á vorönn við MÍ er nauðsynlegt að láta áfangastjóra vita.

 

24 okt 2016

Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna 2016-2017

Forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanna fór fram þann 4. október 2016 og voru þátttakendur 245 á neðra stigi og 132 á efra stigi frá alls 24 skólum. Þrír nemendur frá MÍ tóku þátt í keppninni að þessu sinni. Þeir Dagur Benediktsson og Einar Óli Guðmundsson á efra stigi og Pétur Ernir Svavarsson á neðra stigi. Pétri Erni gekk ljómandi vel í keppninni en hann lenti í 15 sæti af 245 keppendum. Öllum keppendum er þakkað kærlega fyrir þátttökuna og Pétri Erni er óskað innilega til hamingju með árangurinn, sem fleytir honum áfram í síðari hluta keppninnar sem fer fram í mars á næsta ári. 
19 okt 2016

Styrkarhlaupi NMÍ frestað um viku vegna veðurs

Vegna slæmrar veðurspár hefur styrktarhlaupi NMÍ sem áformað var að halda í dag verið frestað um viku. Hlaupið verður miðvikudaginn 26. október.
18 okt 2016

Skólahjúkrun og heimanámsaðstoð

Skóli er svo margt! Menntaskólinn á Ísafirði er í áhugaverðum samstarfsverkefnum í heimabyggð til að sporna við brottfalli og bæta líðan nemenda. Annars vegar er það verkefni um skólahjúkrun í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en Rakel Ingvadóttir skólahjúkrunarfræðingur er með viðtalstíma í skólanum alla miðvikudaga frá kl. 10:30-12:00. Hins vegar er það samstarfsverkefni við Vesturafl og Starfsendurhæfingu Vestfjarða. Einn angi af því verkefni er heimanámsaðstoð sem verður í boði fyrir nemendur alla miðvikudaga frá kl. 15:15-16:15. Ýmislegt fleira er svo í farvatninu.
18 okt 2016

Styrktarhlaup NMÍ

Á morgun, miðvikudaginn 19.október, mun nemendafélag MÍ halda styrktarhlaup fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon. Hlaupið hefst við MÍ kl. 17:00 en skráning hefst kl. 16:30.

Þrjár göngu- og hlaupaleiðir eru í boði: 2,5 Km, 5 km og 10 km. Það kostar 500 krónur að taka þátt en öllum er velkomið að styrkja eins og hver vill. Endilega dragið með ykkur hlaupahópinn, fjölskyldu eða vinnufélaga - því fleiri því betra. Margt smátt gerir eitt stórt.