28 feb 2018

Sólrisuleikritið Konungur ljónanna

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði í samvinnu við Tónlistarskóla Ísafjarðar frumsýna á föstudaginn söngleikinn Konung ljónanna. Söngleikurinn er byggður á teiknimyndinni Lion King frá Disney og er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna, unga sem aldna. Leikstjóri sýningarinnar er Ingrid Jónsdóttir og hljómsveitarstjóri er Beata Joó. Sýnt er í Edinborgarhúsinu og fara miðapantanir fram í síma 450 5555.

Sýningar eru á eftirtöldum tímum:

Frumsýning  2. mars kl 20:00
2. sýning       3. mars kl 14:00
3. sýning       5. mars kl 20:00
4. sýning       6. mars kl 20:00
5. sýning       9. mars kl 20:00
6. sýning       10. mars kl 20:00
7. sýning       11. mars kl 16:00
8. sýning       11. mars kl 20:00

 

Verð:

12 ára og eldri: 3500kr.
6-11ára: 3000kr.
3-5ára: 1500kr.
NMÍ: 3000kr.
Öryrkjar og eldri borgarar: 3000kr.
Frítt fyrir börn yngri en 3 ára!

28 feb 2018

Dagskrá Sólrisu 2018

Sólrisunefnd hefur birt dagskrá Sólrisuvikunnar. Við hvetjum nemendur, forráðamenn og bæjarbúa alla til að taka þátt í viðburðum vikunnar.

28 feb 2018

Skráning í smiðjur á Gróskudögum

Nú fer að líða að Gróskudögunum þar sem hefðbundin kennsla er brotin upp og boðið verður upp á smiðjur í staðinn. Til að komast í smiðjur verða nemendur að skrá sig í þær. Það er gert í gegnum þennan skráningarhlekk.  Lýsingar á hverri smiðju má finna hér

Fyrir þá nemendur sem eru ekki vissir um hvernig skráningin virkar er hér stutt kynningarmyndband 

Varðandi mætingu þá fá nemendurmætingablað hjá ritara og fá síðan límmiða fyrir hverja smiðju sem mætt er í. Mæta þarf í þrjá stokka hvorn dag (athugið að sumar smiðjur eru lengri en einn stokkur).

 

 

21 feb 2018

Pálmar Ragnarsson með fyrirlestur

Í morgun fengum við skemmtilegan fyrirlesara í heimsókn en þá kom Pálmar Ragnarsson og var með fyrirlestur á sal. Fyrirlestur Pálmars fjallaði um ýmislegt, m.a. markmið og samskipti. Þar kom hann m.a. inn á mikilvægi góðra samskipta í skólum og hvað hver og einn nemandi skiptir miklu máli. Góður rómur var gerður að fyrirlestri Pálmars eða svo vitnað sé beint í einn nemanda þá var fyrirlesturinn "ógeðslega skemmtilegur". Við þökkum Pálmari kærlega fyrir komuna.

13 feb 2018

Vetrarfrí

Fimmtudaginn 15. og föstudaginn 16. febrúar er vetrarfrí í skólanum. Engin kennsla er þessa tvo daga. Skrifstofa skólans er lokuð báða vetrarfrísdagana.

6 feb 2018

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Í dag, 6. febrúar, er alþjóðlegi netöryggisdagurinn. Slagorð dagsins í ár er: Sköpum, tengjum og deilum virðingu: betra net byrjar hjá þér! Það er verkefni okkar allra að sameinast um að gera netið betra og við hvetjum nemendur til að hafa slagorð netöryggisdagsins í huga - alltaf þegar þeir eru á netinu.

SAFT, samfélag, fjölskylda og tækni heldur úti heimasíðu, www.saft.is, en á henni er að finna heilræði fyrir foreldra og leiðbeiningar um örugga netnotkun barna sem gott getur verið að kynna sér.

30 jan 2018

Aðstoð í stærðfræði

Næstu tvo fimmtudaga, 1. og 8. febrúar, munu þriðja árs nemar úr STÆR3TD05, undir leiðsögn Dórótheu Margrétar Einarsdóttur kennara, bjóða upp á sérstaka aðstoð í stærðfræði. Aðstoðin verður í boði í fundartímanum, kl. 10:30-11:30 í stofu 5, sömu stofu og heimanámsaðstoðin.

 

Allir nemendur sem eru í stærðfræði eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu og ef vel tekst til verður framhald á henni.

29 jan 2018

Nemandi MÍ í úrslit í líffræðikeppni

Nokkrir nemendur MÍ tóku á dögunum þátt í landskeppni framhaldsskólanna í líffræði 2018. Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson gerði sér lítið fyrir og lenti í 4.-5. sæti keppninnar. Hann er því kominn áfram í úrslitakeppnina og á möguleika á að tryggja sér sæti í íslenska ólympíuliðinu. Við óskum Kolbeini innilega til hamingju og þökkum öðrum nemendum kærlega fyrir þátttökuna. Einnig eru Ragnheiði Fossdal líffræðikennara í MÍ færðar kærar þakkir fyrir að hvetja nemendur til þátttöku og styðja þá í undirbúningi.

25 jan 2018

Sólarkomu fagnað

Í morgun fögnuðu nemendur og starfsmenn því að nú fer sólin að sjást aftur í byggð. Útskriftarferðafarar buðu af því tilefni upp á sólarkaffi og má segja að borðin hafi svignað undan kræsingum þar sem pönnukökur voru þó í fyrirrúmi. Hefðin fyrir sólarkaffi, í tilefni af sólarkomu í byggð, er yfir 100 ára gömul hér á Ísafirði og nokkuð löng hefð er fyrir sólarkaffi innan skólans.

 

 

24 jan 2018

Mikið af íþróttafólki í MÍ

Margir nemendur MÍ leggja stund á hinar ýmsu íþróttir. Um helgina fór fram kjör á íþróttamanni ársins og efnilegasta íþróttamanni Ísafjarðarbæjar. Báðir koma þeir úr röðum nemenda MÍ. Albert Jónsson skíðagöngumaður úr SFÍ var kjörinn íþróttamaður ársins og Þórður Gunnar Hafþórsson knattspyrnumaður úr Vestra kjörinn efnilegasti íþróttamaðurinn.

Fleiri nemendur voru tilnefndir af sínum félögum sem bestu eða efnilegustu íþróttamenn í sinni íþróttagrein. Auður Líf Benediktsdóttir var tilnefnd sem íþróttamaður ársins af Blakdeild Vestra, Birkir Eydal var tilnefndur sem efnilegasti íþróttamaðurinn af Knattspyrnudeild Harðar og sömuleiðis var Hafsteinn Már Sigurðsson tilnefndur sem efnilegasti íþróttamaðurinn af Blakdeild Vestra. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með útnefningarnar. Frábær árangur sem vonandi verður framhald á.