9 jún 2017

Innritun nýnema lýkur í dag

Í dag, föstudaginn 9. júní, er síðasti innritunardagur fyrir nýnema. Væntanlegir nýnemar sækja um inngöngu í framhaldsskóla á heimasíðu Menntagáttar, www.menntagatt.is. Á heimasíðunni er einnig að finna ýmsar upplýsingar sem tengjast innritun í framhaldsskóla. 
29 maí 2017

Skólaslit og brautskráning 2017

Laugardaginn 27. maí s.l. var skólanum slitið við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju, að viðstöddu fjölmenni. Alls voru brautskráðir 52 nemendur. Átta nemendur luku A-námi vélstjórnar og sjö nemendur luku B-námi. Einn sjúkraliði var brautskráður og fimm stálsmiðir. Þá voru brautskráðir 32 stúdentar. Þar af luku 10 nemendur stúdentsprófi af félagsfræðabraut og tveir af félagsvísindabraut. Einn lauk stúdentsprófi af opinni stúdentsprófsbraut og 16 af náttúrufræðibraut. Tveir nemendur luku viðbótarnámi til stúdentsprófs og einn nemandi lauk prófi af starfsbraut. Hæsta meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Svanhildur Sævarsdóttir stúdent af félagsfræðabraut, með meðaleinkunn 9,49. Fast á hæla henni kom semi-dúxinn Dóróthea Magnúsdóttir stúdent af náttúrufræðibraut, með meðaleinkunn 9,40. Að vanda ávörpuðu fulltrúar afmælisárganga samkomuna og að þessu sinni var einnig flutt kveðja frá Bryndísi Schram, sem útskrifaði 40 ára stúdentana á sínum tíma, vorið 1977. Glæsilegur tónlistarflutningur nýstúdenta setti svip sinn á athöfnina og fjölmörg verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur og ástundun. Gefendum verðlauna og viðurkenninga eru færðar kærar þakkir fyrir hlýhug í garð skólans. 

26 maí 2017

Brautskráning 2017

Laugardaginn 27. maí verður 52 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Átta nemendur ljúka réttindum A náms vélstjórnar og sjö nemendur ljúka réttindum B-náms. Einnig verða brautskráðir fimm stálsmiðir og einn sjúkraliði og alls munu 32 nemendur ljúka stúdentsprófi af bóknámsbrautum, starfsbraut og með viðbótarnámi við verknámsbraut. Útskriftarathöfnin hefst kl. 13 í Ísafjarðarkirkjuog eru allir velkomnir.
19 maí 2017

Sýning nemenda á lista- og nýsköpunarbraut

Nemendur á lista- og nýsköpunarbraut héldu sýningu á verkum sínum í anddyri Edinborgarhússins kl. 17 í gær. Þar kynntu nemendur verk sem þeir hafa unnið á vorönn í myndlistaráfanga og margmiðlunaráfanga. Verk nemendanna voru fjölbreytt og áhugaverð og lýstu mikilli sköpunargleiði. Kennsla hófst á brautinni síðastliðið haust og það er von okkar í MÍ að þessi góða viðbót við námsframboð skólans sé komin til að vera. Þeim Ástu Þórisdóttur, Björgu Sveinbjörnsdóttur og Gunnari Jónssyni sem sinnt hafa kennslu á brautinni í vetur, eru færðar kærar þakkir fyrir að standa vel við bakið á nemendum sínum. Einnig fyrir að leysa vinnu sína frábærlega vel af hendi þrátt fyrir að aðstaða og umgjörð brautarinnar sé enn að slíta barnsskónum.
19 maí 2017

Kaffisamsæti útskriftarnema og dimission

Að venju kvöddu útskriftarnemar kennara og skólann á hefðbundinn hátt í byrjun maí. Kennurum og öðrum starfsmönnum var boðið upp á kræsingar á kennarastofunni fimmtudaginn 4. maí  þar sem borð svignuðu undan girnilegum réttum. Föstudaginn 5. maí tóku útskriftarnemar daginn snemma og fóru um allan bæ í búningum til að fagna því að nú hyllti undir lok skólagöngu þeirra í MÍ. Margir bæjarbúar hafa án efa vaknað við fagnaðarlætin. Útskriftarefnin mættu í morgunmat heima hjá skólameistara og komu svo fylktu liði í skólann þar sem nemendur 3. bekkjar stýrðu kveðjuathöfn. Við þökkum þessum nemendum samstarf og samveru á undanförnum árum og óskum þeim alls hins besta í nýjum verkefnum.
19 maí 2017

Skólaalmanak 2017-2018

Skólaalmanak 2017-2018 var samþykkt á síðasta fundi skólaráðs. Nú er skólaárið 180 kennslu- og námsmatsdagar skv. reglugerð nr. 260/2017.
17 maí 2017

Sjúkraliðanám og sjúkraliðabrú í boði í haust

Menntaskólinn á Ísafirði, sem aðildarskóli að Fjarmenntaskólanum, býður upp á nám á sjúkraliðabraut. Námið er í umsjón Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra, Verkmenntaskóla Austurlands, Menntaskólans á Ísafirði og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.

Meira

16 maí 2017

Hugljúf Ólafsdóttir matráður kvödd

Í dag lauk Hugljúf Ólafsdóttir matráður farsælu starfi sínu við MÍ. Hugljúf hóf störf við skólann haustið 1997 og hefur því starfað við skólann í hartnær 20 ár. Á þessu árum hafa ófáir nemendur og starfmenn notið ljúffengra og fjölbreyttra veitinga sem hún hefur framreitt. Við þökkum Hugljúfu gott samstarf og gefandi samveru öll þessi ár og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.
15 maí 2017

Vorsýning nemenda á lista- og nýsköpunarbraut

Vorsýning nema á Lista- og Nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði, verður haldin á ganginum í Edinborgarhúsinu næstkomandi fimmtudag kl. 17:00, á sýningunni má sjá afrakstur nemanda úr margmiðlun- og listaáföngum annarinnar. 

Meira

15 maí 2017

Innritun í fjarnám á haustönn er hafin

Fjarnám er góður valkostur fyrir þá sem ekki geta stundað nám á hefðbundinn hátt. Nauðsynlegt er að hafa aðgang að tölvu því námið fer að mestu fram í gegnum námsumhverfið MOODLE og í tölvusamskiptum við kennara.  Kennsla í fjarnámi á haustönn hefst 18. ágúst.

Verðskrá:
Skráningargjald kr. 6.000
Hver áfangi kr. 12.000 en heildargjald verður aldrei hærra en kr. 30.000

 

Nánari upplýsingar um fjarnám má finna hér og með því að senda tölvupóst á Heiðrúnu Tryggvadóttur áfanga- og gæðastjóra MÍ, heidrun@misa.is Skráning fer fram hér.