5 nóv 2018

Vísindadagar 2018

Vísindadagar hafa verið fastur viðburður á dagskrá haustannar frá því 2014. Dagarnir hafa hingað til verið haldnir í lok annar, en nú verða þeir haldnir 6. og 7. nóvember. Á vísindadögum gefst nemendum tækifæri til að kynna verkefni sem þeir hafa unnið að á undanförnum vikum, fyrir samnemendum og starfsfólki skólans. Fjölbreytt verkefni hafa litið dagsins ljós á vísindadögum í gegnum tíðina og tilhökkunarefni að sjá hvernig til tekst að þessu sinni. Dagskráin stendur yfir frá kl. 8.10-14.05 á þriðjudegi en frá kl. 8.10-12.15 á miðvikudegi. Kennsla er með hefðbundnum hætti eftir hádegi miðvikudaginn 7. nóvember.

Dagskrá vísindadaga má finna hér

31 okt 2018

Laus störf í MÍ

Frá og með 1. janúar er laus staða kennara á lista og nýsköpunarbraut skólans. Óskað er eftir kennara sem getur kennt hugmyndir og nýsköpun, myndlist og margmiðlun og listir og menningu svo eitthvað sé nefnt. Nánari upplýsingar gefur skólameistari Jón Reynir Sigurvinsson í síma 450-4401 eða í tölvupósti jon@misa.is Einni má finna frekari upplýsingar inni á vefnum starfatorg.is  Umsóknarfrestur er til 19. nóvember.

30 okt 2018

Geðfræðsla fyrir nýnema

Á dögunum fengu allir nýnemar geðfræðslu á vegum Hugrúnar. Hugrún er félag stofnað af hópi háskólanema í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði, sem hefur það að markmiði að auka þekkingu ungs fólks á geðheilsu. Læknaneminn Sigrún Harpa Stefánsdóttir og sálfræðineminn og fyrrum MÍ-ingurinn Hreinn Þórir Jónsson fóru í alla þrjá nýnemahópana í náms- og starfsfræðslu og ræddu við nemendur um geðheilsu, geðsjúkdóma og úrræði sem standa þeim til boða.

 

Hugrún vill benda þér á síma bráðamóttöku geðsviðs 543-2050 eða í síma neyðarlínunnar 112. Einnig er ávallt einhver til staðar í hjálparsíma Rauða Krossins 1717, sem og í nafnlausu netspjalli á raudikrossinn.is.

Hugum að geðheilbrigði. Verum #Huguð.

29 okt 2018

Feministafélag Menntaskólans á Ísafirði stofnað

Á kvennafrídaginn, 24. október s.l., var haldinn stofnfundur Feministafélags Menntaskólans á Ísafirði. Um 20 manns mættu á fundinn og tóku 15 af þeim þátt í stjórnarkosningu og teljast þar með stofnmeðlimir félagsins. Í stjórn voru kosin þau Andri Fannar Sóleyjarson, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Eyþór Smári Sigurðsson Ringsted, Ína Guðrún Gísladóttir og Katla Vigdís Vernharðsdóttir. Var stjórnin kosin til eins árs. Á fundinum var samþykkt ályktun um að ennþá væri langt í land í jafnréttismálum innan veggja skólans og sett voru markmið sem stjórnin, ásamt félagsmeðlimum, munu vinna að í sameiningu. 

24 okt 2018

Stofnfundur Femínistafélags MÍ

Í kvöld kl. 18 verður stofnfundur Femínistafélags MÍ haldinn í Gryfjunni. Allir nemendur sem áhugasamir eru um stofnun félagsins eru hvattir til að mæta á fundinn. Það er vel við hæfi að stofna femíninstafélag í skólanum á þessum degi því 24. október eru 43 ár liðin frá Kvennafrídeginum 1975. Þá tóku þúsundir kvenna sér frí frá vinnu og heimilisstörfum og tóku þátt í fjöldafundi á Lækjartorgi í Reykjavík en sá viðburður vakti heimsathygli. Femíninstafélagi MÍ er óskað góðs gengis í komandi baráttu!

12 okt 2018

Afmælissöngur fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar

Þann 11. október varð Tónlistarskóli Ísafjarðar 70 ára. Af því tilefni komu nokkrir kennarar skólans og söngnemendur í heimsókn í fundartíma og tóku lagið með nemendum MÍ. Sunginn var Afmælissöngur eftir tónskáldið Jón Ásgeirsson en svo skemmtilega vill til að Jón varð einmitt 90 ára sama dag. Þá var sungið lagið "Á vængjum söngsins" sem er þýðing Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur við lag ABBA "Thank you for the music". Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu heimsókn og gott samstarf í gegnum árin. Einnig óskum við Tónlistarskólanum innilega til hamingju með afmælið og hlökkum til að njóta skemmtilegra viðburða á afmælisárinu. 

10 okt 2018

Kappróður 2018

Hinn árlegi kappróður MÍ var haldinn í blíðskaparveðri þann 10. október. Alls tóku átta lið þátt í keppninni að þessu sinni, en hvert lið er skipað sex ræðurum og einum stýrimanni. Mjótt var á munum á milli efstu liða en leikar fóru þannig að liðið bleikir fílar var í fyrsta sæti á tímanum 2:01.71. Í öðru sæti voru Georg og félagar á tímanum 02:04.40 en fast á hæla þeim kom Karlalið starfsmanna á tímanum 02:04.92. Að keppni lokinni grillaði stjórn nemendafélags MÍ ofan í mannskapinn. 

Við þökkum öllum liðunum kærlega fyrir þátttökuna og óskum sigurvegurunum innilega til hamingju. Heildarúrslit keppninnar má finna hér fyrir neðan.

Úrslit í kappróðri 2018

29 ágú 2018

Nýnemaferð 2018

Dagana 23.-24. ágúst fór fjölmennur hópur nýnema í náms- og samskiptaferð að Núpi í Dýrafirði ásamt 6 starfsmönnum skólans. Þegar komið var í Dýrafjörð var byrjað á góðri gönguferð út að eyðibýlinu Arnarnesi og síðan gengið að Núpi þar sem hádegisverður beið göngufólksins. Eftir hádegi var farið í göngu- og skoðunarferð í Skrúð, rúmlega aldargamlan skrúðgarð sem stofnaður var af sr. Sigtryggi Guðmundssyni skólastjóra Núpsskóla. Garðurinn var nýttur til kennslu í garðrækt og plöntufræði en einnig til að kenna nemendum að neyta grænmetis og garðjurta sér til heilsubótar. Síðan tók við frjáls tími fram að kvöldverði en að honum loknum var kvöldvaka í sal Núpsskóla. Nemendaráð skólans mætti á kvöldvökuna, tók þátt í leikjum og kynnti starf vetrarins. Daginn eftir var ratleikur fyrir hádegi, áður en haldið var til baka til Ísafjarðar. Ferðin gekk í alla staði vel og nemendur voru sér og skólanum til sóma.

28 ágú 2018

Starf á afreksíþróttasviðinu komið á fullt

Afreksíþróttasvið Menntaskólans hefur nú verið endurvakið. Afrekssvið var um tíma starfrækt við skólann undir stjórn Hermanns Níelssonar heitins íþróttakennara en hefur legið niðri í nokkur ár. Fyrst um sinn eru það íþróttafélögin Hörður, Skíðafélaga Ísfirðinga og blak-, knattspyrnu- og körfuboltadeildir Vestra sem eiga aðild að afreksíþróttasviði. Vonast er til að fleiri íþróttafélög bætist í hópinn á næstu misserum.

Afreksíþróttasviðið hentar vel nemendum sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi. Sviðið er þannig uppbyggt að á hverri önn taka nemendur 5 eininga áfanga sem samanstendur af íþróttaæfingum og bóklegri kennslu þar sem eitt ákveðið viðfangsefni er tekið fyrir. Á þessari önn er áherslan á næringarfræði. Íþróttaþjálfarar á vegum íþróttafélaganna sjá um þjálfun á íþróttaæfingum en Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir íþróttakennari sér um kennsluna í næringarfræði.

27 nemendur hafa nú skrifað undir samning um þátttöku á afreksíþróttasviðinu. Skuldbinda nemendur sig til að leggja hart að sér í námi og íþróttum auk þess að neyta ekki tóbaks, áfengis, árangursaukandi efna sem og annarra vímuefna. Mættu allir nemendurnir ásamt forráðamönnum á góðan fund hér í skólanum í gær og er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi verið í loftinu. Það er trú okkar hér í MÍ að afreksíþróttasviðið hafi mikið forvarnargildi og eigi eftir að auka tengingu milli nemenda í ólíkum íþróttagreinum sem og að stuðla að betri árangri nemenda, bæði í skóla og íþróttum.

22 ágú 2018

Nýnemaferð

Undanfarin ár hafa nýnemar í MÍ farið í nýnemaferð að Núpi í Dýrafirði. Ferðin er hugsuð sem náms- og samskiptaferð til að hrista nýnemahópinn saman. Á morgun halda nýnemar haustsins 2018 af stað í þessa skemmtilegu ferð. Nýnemahópurinn í ár er fjölmennur eða hátt í 70 nemendur og má reikna með líflegri og skemmtilegri ferð. Skoða má dagskrá ferðarinnar hér.