14 mar 2014

Málmsmíðanemar í Danaveldi

Þessa dagana eru fjórir nemendur úr grunndeild málmiðngreina staddir í skólaheimsókn í Danmörku. Heimsóknin er styrkt af Leonardo starfsmenntaáætluninni sem er hluti af menntaáætlun ESB. Nemendurnir munu dvelja í bænum Fredericia á Jótlandi næstu þrjár vikurnar við nám og störf. MÍ hefur í nokkur ár verið í samstarfi við skólann EUC Lillebælt. Nemendahópar frá skólanum hafa komið hingað í heimsókn undanfarnar haustannir og nú fengu nemendur MÍ tækifæri til að endurgjalda heimsóknirnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er vorið komið í Danmörku.
10 mar 2014

Sólrisuhátíð og gróskudagar

Nú er fertugustu Sólrisuhátíð MÍ lokið og hefðbundið skólastarf tekið við. Mikið var um að vera í skólanum alla vikuna og að vanda var kennslan brotin upp með gróskudögum frá miðvikudegi til föstudags. Þá daga gátu nemendur valið um allskyns smiðjur sem var stýrt af kennurum og einstaka nemendum. Fjölmiðlasmiðjan var í boði alla daga og nemendur í þeirri smiðju tóku ljósmyndir, settu saman fréttablað og tóku upp myndbönd af því sem var að gerast í skólanum þessa daga. Myndirnar má skoða hér á heimasíðu skólans og fréttablaðið má sjá með því að smella hér. Vinna við klippingu á myndefni sem tekið var upp stendur yfir en myndefnið mun verða birt hér á heimasíðunni þegar þeirri vinnu er lokið.
9 mar 2014

Kynningarmyndband

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að kynningarmyndbandi fyrir skólann undir stjórn Friðriks Hagalíns Smárasonar. Kynningarmyndbandið var frumsýn á stórri framhaldsskólakynningu sem haldin var í Kórnum í Kópavogi í tengslum við Íslandsmót iðn- og verkgreina dagana 6.-8. mars s.l. Myndbandið má skoða með því að smella hér.
28 feb 2014

Setning sólrisuhátíðar og frumsýning

Sólrisuhátiðin verður sett í dag 28. febrúar í 40. sinn. Hátíðin hefst kl 12 með skrúðgöngu og trommuslætti frá skólanum. Komið verður til baka 15-20 mínútum seinna og þá verður hátíðin formlega sett og boðið upp á kökur og djús í gryfjunni. Einnig verður sýnt stutt atriði úr sólrisuleikritinu Hairspray sem frumsýnt verður í Félagsheimilinu í Hnífsdal í kvöld kl. 20. Miðasalan er í fullum gangi og hægt er að panta miða í síma 450-5555 til klukkan 18:00. Eftir kl. eru miðapantanir í síma 7733751. Sýningar verða sem hér segir:

Föstudagurinn 28. febrúar kl 20- frumsýning

Sunnudagur 2. mars kl 15 og kl 20
Þriðjudagur 4. mars kl 20
Fimtudagur 6. mars kl 20

Verð:
12 ára og eldri : 3000 kr
6-11 ára : 2500
NMÍ: 2500
Öryrkjar og eldriborgarar: 2500
5 ára og yngri ókeypis.
17 feb 2014

Afsökunarbeiðni ræðuliðs MÍ

Stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði harma þau ósæmlegu og niðrandi orð sem liðsmenn ræðuliðs MÍ létu falla í aðraganda og í viðureign sinni við ræðulið MA á Akureyri föstudaginn 7. febrúar síðastliðinn. Á þessu máli hefur verið tekið enda framkoman skýrt brot á skólareglum og þeir sem áttu í hlut hafa þegar þurft að taka afleiðingum gjörða sinna. Hér á eftir fylgir afsökunarbeiðni frá ræðuliði MÍ, þjálfara, aðstoðarþjálfara og Málfinni Nemendafélags MÍ:

Vegna framgöngu okkar í Ræðuliði Menntaskólans á Ísafirði (RLMÍ), viljum við biðja alla hluteigandi, sérstaklega Eyrúnu Björgu Guðmundsdóttur, innilegrar afsökunar opinberlega á ósæmilegum orðum okkar í garð ræðuliðs MA. Ræðulið MÍ harmar þau ósæmilegu orð sem látin voru falla í samskiptum fyrir keppni sem og í sjálfri keppni liðanna. Aldrei var það ætlun liðsmanna að sýna neinum fyrirlitningu, hvað þá tala niður til kvenna.

Þau mistök sem gerð voru, eru á ábyrgð þeirra sem þau framkvæmdu. Viljum við liðsmenn RLMÍ taka það sérstaklega fram að hvergi var hvatt til, né viðurkennd af þjálfara sú ósæmilega hegðun sem átti sér stað bæði fyrir keppni sem og á keppninni sjálfri. Í aðdraganda keppninnar voru ósæmileg orð sögð við liðsmann MA án vitundar þjálfara, Ingvars Arnar Ákasonar, sem baðst afsökunar fyrir hönd liðs um leið og hann frétti af þeim. Í ræðu liðstjóra í keppninni sjálfri var ekkert sem þjálfari skrifaði eða kom nálægt, heldur beindi hann einmitt frekar athygli sinni að því að taka út ósæmilegt orðbragð í garð kvenna þegar hann heyrði ræðuna. Þjálfari telur sig hafa kveðið mjög sterkt á um að ósæmindin kæmu ekki fram í ræðunni og hann biðlaði til liðstjórans að lokum með orðunum: „lestu salinn“.

Liðstjóri RLMÍ vill taka það fram að hann harmar mjög framkomu sína gagnvart konum með orðfæri sínu í ræðu sinni og einnig að orð hans voru að hluta til misskilin og beindust þau ekki að liðsmanni ræðuliðs MA. Ógeðsleg orð sem áttu ekki að heyrast. Einnig vill liðstjórinn taka það fram að hann baðst afsökunar í eigin persónu fyrir sína hönd daginn eftir keppni þegar honum gafst færi til sem var á þeim tíma samþykkt af liðsmanninum sem um ræðir í liði andstæðinganna. Einn annar liðsmanna sem og þjálfari hafa beðist afsökunar eftir keppni fyrir hönd liðs í heild og allir aðilar hafa nú viðurkennt mistök sín. Liðstjórinn mun svo sjálfur senda út yfirlýsingu um sín mál.

Að því sögðu viljum við óska ræðuliði MA til hamingju með sanngjarnan sigur og velfarnaðar í komandi keppnum. Við munum læra af gjörðum okkar og stefnum framvegis á að keppa af vinsemd og með virðingu gagnvart keppendum eins og við höfum gert áður og leggjast ekki á það plan að tala illa um andstæðinga okkar né aðra. Við viljum að keppnin snúist um málefni en ekki manneskjur og vonum við að áherslur í framtíðinni munu færast aftur í þá átt, við munum í það minnsta taka þá stefnu í framtíðinni og snúa málafærslu okkar til betri vegar. Við viljum vera skólanum okkar og samfélagi til sóma og því verður þessi hegðun ekki liðin hér eftir. Afsakið öll!

 

Með vinsemd og virðingu við alla aðila,
Ræðulið Menntaskólans á Ísafirði

Björgúlfur Egill Pálsson
Davíð Sighvatsson
Ragnar Óli Sigurðsson
Ísak Emanúel Róbertsson

Ingvar Örn Ákason þjálfari
Þórir Karlsson aðstoðarmaður
Halldór Páll Hermannsson málfinnur NMÍ

4 feb 2014

Ómar Karvel valinn til að keppa á Special Olympics 2014

Íþrótta- og ólympíusamband fatlaðra hefur valið fulltrúa til þess að keppa á Special Olympics 2014. Í hópi þátttakenda er Ómar Karvel Guðmundsson nemandi á 2. ári í skólanum. Ómar Karvel er fulltrúi íþróttafélagsins Ívars og mun keppa í badminton. Leikarnir verða haldnir í borginni Antwerpen í Belgíu 13.-20 september næstkomandi. Nánar er greint frá þessu á heimasíðu íþróttafélagsins Ívars.
31 jan 2014

Sólarkaffi í boði þriðjubekkinga og MÍ

Í fundartíma fimmtudaginn 30. janúar  buðu nemendur á þriðja ári og skólinn upp á sólarkaffi. Skólameistari flutt stutt ávarp og nefndi að sólin hafi reyndar ekki sést ennþá þó liðnir væru 5 dagar frá því að hún fór að lyfta sér upp fyrir fjallsbrúnir í Engidal. Þá ræddi hann þá tungugsófa og sófaborð sem sett voru upp í sal bóknámshússins í byrjun vikunnar. Þessir sófar eru framlag skólans og Ísafjarðarbæjar til að bæta aðstöðu félagsmiðstöðvar 16+ sem nú er til húsa á neðri hæð bóknámshúss MÍ. Fögnuðu nemendur þessari bættu aðstöðu með lófataki. Nemendurnir Davíð Sighvatsson og Salóme Magnúsdóttir lásu nokkrar vísur um sólina eftir  Stephan G. Stephansson. Að því loknu bauð Salóme öllum að fá sér pönnukökur og ýmislegt annað góðgæti sem var á borðum. 

13 jan 2014

Gettu betur 2014

Gettu betur lið MÍ er að þessu sinni skipað þeim Davíð Sighvatssyni, Hrafnkeli Vernharðssyni og Þóri Karlssyni. Þeir félagar mættu liði Iðnskólans í Hafnarfirði í fyrstu viðureign og lyktaði keppninni með góðum sigri MÍ sem fengu 12 stig gegn 4 stigum IH. Liðinu er óskað góðs gengis í framhaldinu, en 2. umferð hefst 24. janúar.