26 ágú 2014

Nýnemaferð

Hin árlega nýnemaferð að Núpi í Dýrafirði verður farin dagana 28. og 29. ágúst n.k. Dagskrá ferðarinnar má sjá með því að smella hér. Nemendur þurfa að greiða kostnað við fæði og gistingu, kr. 7000 og hægt er að greiða hjá ritara fram að brottför.
25 ágú 2014

Skipstjórnarnám A - kynningarfundur í upphafi annar

Kynningarfundur fyrir nemendur í skipstjórnarnámi A verður haldinn í skólanum föstudaginn 29. ágúst. Fundurinn verður haldinn í fyrirlestrarsal skólans og hefst kl. 10. Á fundinum verður skipulag haustannar kynnt og námsfyrirkomulag. Nemendur fá aðgang að tölvukerfi skólans og námsvefnum Moodle en kennsla mun að miklu leyti fara fram í gegnum hann. Mikilvægt er að allir nemendur sem hyggjast stunda skipstjórnarnámið næstu þrjár annir mæti á fundinn.
25 ágú 2014

Fundur með forráðamönnum nýnema

Kynningarfundur fyrir forráðamenn nýnema verður haldinn mánudaginn 25. september kl. 18 í fyrirlestrarsal skólans. Meðal efnis á fundinum er samvinna skóla og forráðamanna, kynning á námsvefnum Moodle og nemendaumsjónarvefnum INNU, þjónusta námsráðgjafa o.fl.
21 ágú 2014

Skólasetning

Menntaskólinn á Ísafirði verður settur í 45. sinn föstudaginn 22. ágúst. Setningin hefst kl. 9 á sal skólans og að henni lokinni hefjast töflubreytingar. Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu mánudaginn 25. ágúst. Fundur með forráðamönnum nýnema verður haldinn á mánudaginn kl. 18 í fyrirlestrasal skólans.
12 ágú 2014

Upphaf haustannar

Skrifstofa skólans er nú opin á ný eftir sumarleyfi.  Námsráðgjafar koma til starfa þann 18. ágúst og skólinn verður settur þann 22. ágúst kl. 9. Nýnemar og nemendur yngri en 18 ára hitta umsjónarkennara að lokinni skólasetningu og fá stundaskrár afhentar. Eldri nemendur fá stundaskrár afhentar á skrifstofu. Að því búnu hefjast töflubreytingar hjá námsráðgjöfum. Kennsla hefst mánudaginn 25. ágúst samkvæmt stundaskrá.
28 maí 2014

Skipstjórnarnám A stigs

Í samstafi við Skipstjórnarskóla Tækniskólans og Fræðslumiðstöð Vestfjarða mun Menntaskólinn á Ísafirði hefja kennslu í haust á skipstjórnarbraut til A stigs (skip < 24 m skráningarlengd).

 

Markhópur eru starfandi sjómennn eldri en 18 ára, með eða án smáskiparéttinda.

Rafræn innritun var til 5. júní en áhugasamir geta sent umsóknir á aðstoðarskólameistara á netfangið  hildur@misa.is.

Innritunargjald er kr. 14.500 en kennslugjalld er kr. 7.500 fyrir hverja einingu. Þeir sem fá einingar metnar í raunfærnimati fá endurgreitt sem nemur metnum einingum. Samtals er áætlað að kenna 13 einingar á komandi haustönn.

Nánari upplýsingasr veitir Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari í síma 896 4636.

26 maí 2014

Brautskráning 2014

Þann 24. maí s.l. voru 53 nemendur brautskráðir frá skólanum í Ísafjarðarkirkju að viðstöddu fjölemnni. Sjö nemendur luku A-námi vélstjórnar og einn nemandi lauk B-námi vélstjórnar. Sjö nemendur luku námi í húsasmiði og einn nemandi lauk námi í vélvirkjun. Af félagsfræða- og náttúrufræðibrautum brauskráðust 38 stúdentar. Einnig kvaddi skólann ítalski skiptineminn Matteo Ducoli sem dvalið hefur á Ísafirði í tæpt ár. Útskriftarnemendur sáu um tónlistarflutning við athöfnina. Sunna Sturludóttir söng Draumalandið eftir Sigfús Einarsson og með henni lék Ísabella Ósk Másdóttir á píanó. Hermann Ási Falsson lék Æfingu í c-moll op. 25 nr. 12 eftir Chopin og þau Davíð Sighvatsson og Hanna Lára Jóhannsdóttir léku fjórhent á píanó, Refadans eftir L. Weiner. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi að þessu sinni hlaut Rakel Ástrós Heiðarsdóttir, stúdent af náttúrufræðibraut. Hún hlaut meðaleinkunnina 9,66 sem er næsthæsta einkunn sem gefin hefur verið við skólann. Fjölmargar viðurkenningar fyrir góðan árangur og framfarir í námi voru veittar og dux scholae ávarpaði viðstadda. Einnig fluttu fulltrúar afmælisárganga ávörp og færðu skólanum gjafir. Þá ávarpaði skólameistari útskriftarnema og sleit að því búnu skólanum. Viðstaddir risu úr sætum og sungu hinn alþjóðlega stúdentasöng, Gaudeamus igitur við undirleik Huldu Bragadóttur.
19 maí 2014

Prófsýning og brautskráning

Prófsýning verður föstudaginn 23. maí kl. 11.30-12.30. Laugardaginn 24. maí verður brautskráningarathöfn í Ísafjarðarkirkju og hefst athöfnin kl. 13. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
2 maí 2014

Útskriftarnemar kveðja skólann

Úskriftarnemar tóku daginn snemma og vöktu bæjarbúa með lúðraþyt og trommuslætti í morgun.Síðan mættu nemendurnir í skólann þar sem Cloaca var tilbúin heit úr ljósritunarvélinni. Að aflokinni þrautabraut bauð nýkjörið nemendaráð þeim og öðrum nemendum upp á grillaðar pulsur. Að lokum voru nemendur fluttir burt frá skólanum með tilþrifum. Fleiri myndir eru á komnar inn hér á síðuna. 
2 maí 2014

Myndlistarsýning Maríu Rutar

Um páskana hélt María Rut Kristjánsdóttir nemandi skólans einkasýningu á verkum sínum í Edinborgarhúsinu. Sýningin var hluti af listahátíðinni List án landamæra og bar yfirskriftina Myndverk Maríu Rutar. María Rut hefur unnið með teikningu og tónlist þar sem hún teiknar við hinar ýmsu tegundir tónlistar og gestum sýningarinnar gafst tækifæri á að hlusta á þá tónlist sem María Rut hefur hlustað á meðan hún vinnur að verkunum. Verk Maríu Rutar verða til sýnis í skólanum í Gallerí Gangi frá og með mánudeginum 5. maí og til 16. maí.