28 feb 2014

Setning sólrisuhátíðar og frumsýning

Sólrisuhátiðin verður sett í dag 28. febrúar í 40. sinn. Hátíðin hefst kl 12 með skrúðgöngu og trommuslætti frá skólanum. Komið verður til baka 15-20 mínútum seinna og þá verður hátíðin formlega sett og boðið upp á kökur og djús í gryfjunni. Einnig verður sýnt stutt atriði úr sólrisuleikritinu Hairspray sem frumsýnt verður í Félagsheimilinu í Hnífsdal í kvöld kl. 20. Miðasalan er í fullum gangi og hægt er að panta miða í síma 450-5555 til klukkan 18:00. Eftir kl. eru miðapantanir í síma 7733751. Sýningar verða sem hér segir:

Föstudagurinn 28. febrúar kl 20- frumsýning

Sunnudagur 2. mars kl 15 og kl 20
Þriðjudagur 4. mars kl 20
Fimtudagur 6. mars kl 20

Verð:
12 ára og eldri : 3000 kr
6-11 ára : 2500
NMÍ: 2500
Öryrkjar og eldriborgarar: 2500
5 ára og yngri ókeypis.
17 feb 2014

Afsökunarbeiðni ræðuliðs MÍ

Stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði harma þau ósæmlegu og niðrandi orð sem liðsmenn ræðuliðs MÍ létu falla í aðraganda og í viðureign sinni við ræðulið MA á Akureyri föstudaginn 7. febrúar síðastliðinn. Á þessu máli hefur verið tekið enda framkoman skýrt brot á skólareglum og þeir sem áttu í hlut hafa þegar þurft að taka afleiðingum gjörða sinna. Hér á eftir fylgir afsökunarbeiðni frá ræðuliði MÍ, þjálfara, aðstoðarþjálfara og Málfinni Nemendafélags MÍ:

Vegna framgöngu okkar í Ræðuliði Menntaskólans á Ísafirði (RLMÍ), viljum við biðja alla hluteigandi, sérstaklega Eyrúnu Björgu Guðmundsdóttur, innilegrar afsökunar opinberlega á ósæmilegum orðum okkar í garð ræðuliðs MA. Ræðulið MÍ harmar þau ósæmilegu orð sem látin voru falla í samskiptum fyrir keppni sem og í sjálfri keppni liðanna. Aldrei var það ætlun liðsmanna að sýna neinum fyrirlitningu, hvað þá tala niður til kvenna.

Þau mistök sem gerð voru, eru á ábyrgð þeirra sem þau framkvæmdu. Viljum við liðsmenn RLMÍ taka það sérstaklega fram að hvergi var hvatt til, né viðurkennd af þjálfara sú ósæmilega hegðun sem átti sér stað bæði fyrir keppni sem og á keppninni sjálfri. Í aðdraganda keppninnar voru ósæmileg orð sögð við liðsmann MA án vitundar þjálfara, Ingvars Arnar Ákasonar, sem baðst afsökunar fyrir hönd liðs um leið og hann frétti af þeim. Í ræðu liðstjóra í keppninni sjálfri var ekkert sem þjálfari skrifaði eða kom nálægt, heldur beindi hann einmitt frekar athygli sinni að því að taka út ósæmilegt orðbragð í garð kvenna þegar hann heyrði ræðuna. Þjálfari telur sig hafa kveðið mjög sterkt á um að ósæmindin kæmu ekki fram í ræðunni og hann biðlaði til liðstjórans að lokum með orðunum: „lestu salinn“.

Liðstjóri RLMÍ vill taka það fram að hann harmar mjög framkomu sína gagnvart konum með orðfæri sínu í ræðu sinni og einnig að orð hans voru að hluta til misskilin og beindust þau ekki að liðsmanni ræðuliðs MA. Ógeðsleg orð sem áttu ekki að heyrast. Einnig vill liðstjórinn taka það fram að hann baðst afsökunar í eigin persónu fyrir sína hönd daginn eftir keppni þegar honum gafst færi til sem var á þeim tíma samþykkt af liðsmanninum sem um ræðir í liði andstæðinganna. Einn annar liðsmanna sem og þjálfari hafa beðist afsökunar eftir keppni fyrir hönd liðs í heild og allir aðilar hafa nú viðurkennt mistök sín. Liðstjórinn mun svo sjálfur senda út yfirlýsingu um sín mál.

Að því sögðu viljum við óska ræðuliði MA til hamingju með sanngjarnan sigur og velfarnaðar í komandi keppnum. Við munum læra af gjörðum okkar og stefnum framvegis á að keppa af vinsemd og með virðingu gagnvart keppendum eins og við höfum gert áður og leggjast ekki á það plan að tala illa um andstæðinga okkar né aðra. Við viljum að keppnin snúist um málefni en ekki manneskjur og vonum við að áherslur í framtíðinni munu færast aftur í þá átt, við munum í það minnsta taka þá stefnu í framtíðinni og snúa málafærslu okkar til betri vegar. Við viljum vera skólanum okkar og samfélagi til sóma og því verður þessi hegðun ekki liðin hér eftir. Afsakið öll!

 

Með vinsemd og virðingu við alla aðila,
Ræðulið Menntaskólans á Ísafirði

Björgúlfur Egill Pálsson
Davíð Sighvatsson
Ragnar Óli Sigurðsson
Ísak Emanúel Róbertsson

Ingvar Örn Ákason þjálfari
Þórir Karlsson aðstoðarmaður
Halldór Páll Hermannsson málfinnur NMÍ

4 feb 2014

Ómar Karvel valinn til að keppa á Special Olympics 2014

Íþrótta- og ólympíusamband fatlaðra hefur valið fulltrúa til þess að keppa á Special Olympics 2014. Í hópi þátttakenda er Ómar Karvel Guðmundsson nemandi á 2. ári í skólanum. Ómar Karvel er fulltrúi íþróttafélagsins Ívars og mun keppa í badminton. Leikarnir verða haldnir í borginni Antwerpen í Belgíu 13.-20 september næstkomandi. Nánar er greint frá þessu á heimasíðu íþróttafélagsins Ívars.
31 jan 2014

Sólarkaffi í boði þriðjubekkinga og MÍ

Í fundartíma fimmtudaginn 30. janúar  buðu nemendur á þriðja ári og skólinn upp á sólarkaffi. Skólameistari flutt stutt ávarp og nefndi að sólin hafi reyndar ekki sést ennþá þó liðnir væru 5 dagar frá því að hún fór að lyfta sér upp fyrir fjallsbrúnir í Engidal. Þá ræddi hann þá tungugsófa og sófaborð sem sett voru upp í sal bóknámshússins í byrjun vikunnar. Þessir sófar eru framlag skólans og Ísafjarðarbæjar til að bæta aðstöðu félagsmiðstöðvar 16+ sem nú er til húsa á neðri hæð bóknámshúss MÍ. Fögnuðu nemendur þessari bættu aðstöðu með lófataki. Nemendurnir Davíð Sighvatsson og Salóme Magnúsdóttir lásu nokkrar vísur um sólina eftir  Stephan G. Stephansson. Að því loknu bauð Salóme öllum að fá sér pönnukökur og ýmislegt annað góðgæti sem var á borðum. 

13 jan 2014

Gettu betur 2014

Gettu betur lið MÍ er að þessu sinni skipað þeim Davíð Sighvatssyni, Hrafnkeli Vernharðssyni og Þóri Karlssyni. Þeir félagar mættu liði Iðnskólans í Hafnarfirði í fyrstu viðureign og lyktaði keppninni með góðum sigri MÍ sem fengu 12 stig gegn 4 stigum IH. Liðinu er óskað góðs gengis í framhaldinu, en 2. umferð hefst 24. janúar.
7 jan 2014

Ávarp skólameistar á sal 6. janúar 2014

Ágætu nemendur og starfsmenn skólans.

Gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir gott samstarf á liðnu ári. Vonandi komið þið til starfa úthvíld og hlaðin orku eftir jólafríið– tilbúin til að takast á við nýja áfanga og ný verkefni.

Það hefur ekki viðrað vel frá jólum og mæting sýnir að greinilegt er  að nemendur eru ennþá veðurtepptir eða jafnvel ennþá sofandi eftir viðsnúning á sólarhringnum. Eins og tilkynnt hefur verið áður þá munu skólastjórnendur ekki aflýsa skólahaldi vegna veðurs enda afar erfitt að setja einhver mörk um það við hvaða aðstæður það skuli gerast. Það gildir því sama regla um þennan vinnustað eins og aðra umhverfis okkur að það eru almannavarnir, lögregla og Vegagerðin sem gefa út tilkynningar um  færð á vegum. Þið nemendur hafið góðan aðgang að slíkum upplýsingum. Slæm veður og ófærð á þó ekki að koma í veg fyrir að þið getið stundað ykkar nám, þökk sé námsvefnum Moodle.

Um þessi áramót verða ekki miklar breytingar á starfsliði skólans. Nokkrir stundakennarar sem voru við kennslu á haustönn munu nú hætta. Jóna Símonía Bjarnadóttir sem kenndi sagnfræði, Jónas Þór Birgisson sem kenndi efnafræði, Sólrún Geirsdóttir sem kenndi þýsku og  Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir sem kenndi líkamsbeitingu. Vil ég þakka þeim fyrir vel unnin störf. Albertína Elíasdóttir starfsmaður Guðmundarstofu eins og stafræna smiðjan heitir mun kenna einum hópi í FabLab og býð ég hana velkomna til starfa.

Leiklistarhópur MÍ hefur ákveðið að sýna söngleikinn Chicago eftir John Kander og Fred Egg. Verður frumsýning við upphaf Sólrisuhátíðar eins og venjan er. Gengið hefur verið frá ráðningu leikstjóra sem er Pétur Einarsson, landsþekktur leikari. Danshöfundur verður eiginkona Péturs,  Birgitte Heide. Eins og þið hafið vafalaust öll tekið eftir þá komu þau hjónin í lok nóvemer og dvöldu hér í viku. Á þeim tíma voru leikarar valdir í hlutverk.   Pétur og Birgitte komu í gær og æfingar munu hefjast strax  seinnipartinn í dag. Ég býð þau hjónin velkomin til starfa hingað.

Þann 13. desember s.l. afhenti Orkubú Vestfjarða  skólanum rafbíl að gjöf. Þessi gjöf mun koma sér vel í kennslu í rafmagnsfræði og reyndar öðrum greinum. Rafbíllinn mun einnig vekja athygli ykkar nemenda á kosti rafbílsins. Reyndar er þetta farartæki skráð  sem fjórhjól og kemur sú skráning til af þunga og hraðatakmörkunum. Komnar  hafa fram hugmyndir um að fá nemendur til að skreyta rafbílinn með merki skólans og slagorðum. Rafbíllinn verður hafður hér til sýnis fyrir ykkur nemendur þegar lokið hefur verið við að merkja hann og lagfæra.  Húsvörður skólans mun svo nota þennan rafbíl til sendiferða fyrir skólann og um leið vekja athygli á starfssemi skólans. Orkubúi Vestfjarða eru færðar kærar þakkir fyrir þessa veglegu gjöf.

Fundartíminn sem var hafður eftir hádegi á miðvikudögum hefur nú verið færður á sinn gamla stað á fimmtudögum. Fundartíminn á fimmtudögum á sér tveggja ártuga sögu og á hann að þjóna þeim tilgangi að gefa nemenum og starfsmönnum ráðrúm til að hittast til að spjalla saman eða mæta á fundi eða aðra skiplagða dagskrá.  

Ágætu nemendur!  Öll viljum við ná betri árangri í okkar lífi. Sá árangur kemur ekki af sjálfu sér. Víðsýni, virðing og metnaður voru þau gildi sem starfsmenn og nemendur skólans voru sammála um að skiptu miklu máli til að árangur næðist. Til að ná árangri þarf að leggja á sig mikla vinnu og skipuleggja tíma sinn vel. Það eru fjölmörg önnur atriði sem geta hjálpað fólki til að ná árangri. Eflaust hafa mörg ykkar sett sér áramótaheit. Áramótaheit eru í raun áætlun eða stefnumótun: Að setja sér markmið. Góður nætursvefn, 7-8 átta tímar og gott mataræði er til dæmis kjörin leið til að bæta líf sitt og til að auka mögleika á að ná settu marki. Ég hvet ykkur ágætu nemendur til að gefa ykkur tíma til nærast vel áður en þið komið í skólann t.d. að taka góðan skammt af lýsi og borða eitt epli eða annan ávöxt. Það tekur ekki nema örfáar mínútur. Þá er einnig ástæða til að minna ykkur á þann fjölbreytta og holla hádegisverð sem býðst í mötuneyti skólans. Af einhverjum ástæðum eru margir nemendur sem virðast ekki nýta sér þetta kostaboð. Þröngur fjárhagur kann að vera ástæðan í einhverjum tilfellum en þó læðist að manni sá grunur að einhverjir velji frekar að versla í skólasjoppunni og fái sér t.d. einn súkkulaðisnúð og gosdrykk frekar en að fara í mötuneytið og fá sér fjölbreytt grænmeti, súpu og aðra rétti sem auglýstir eru á heimasíðu skólans.

Það er vissulega rétt að kennarar geta haft mikil áhrif á námsárangur ykkar. Hins vegar skiptir ekki miklu máli hvað kennarinn gerir, ef ekki er vilji og áhugi fyrir hendi hjá ykkur sjálfum. Hér skiptir máli að nýta tíman vel og undirbúa sig fyrir hverja kennslustund. Miklu máli skiptir að vera virkur þátttakandi í náminu og vinna verkefni í kennslustundum og skila þeim á réttum tíma. Nú eru nánast allir áfangar með svo kölluðu leiðsagnarmati. Þetta þýðir að vinnuálagi er dreift jafnt yfir önnina og uppgjör fer fram við lotumat þrisvar á önn. Með þessu getið þið betur séð hvernig ykkur farnast í náminu og hvort námsárangur sé ásættanlegur. Mikilvægt er að vinnuálagið á ykkur nemendur góðir sé jafnt yfir önnina og þið skipuleggið námið vel en þannig verður bestur árangur tryggður.

Kennurum er mjög annt um velferð ykkar hér eins og öllum starfsmönnum skólans. Við erum hér fyrir ykkur til þjónustu reiðubúin. Okkar markmið er að þið fáið sem mest út úr veru ykkar hér. Það er hins vegar að miklu leyti undir ykkur komið hvernig ykkur farnast og hvaða árangri þið náið. Verið vel undirbúin fyrir kennslustundir og auðveldið þannig kennurum að leiðbeina ykkur og aðstoða við það sem ykkur reynist erfitt. Góð mæting í kennslustundir ásamt ástundun eru þeir þættir sem sýna besta fylgni við góðan námsárangur. Allt of margir nemendur eru með mætingu sem telja verður óásættanlega. Slík mæting til vinnu yrði aldrei liðin. Atvinnurekendur spyrja gjarnan um þenna þátt þegar þeir ráða fólk til starfa og telja að þar með hafi þeir upplýsingar um árangur í starfi.

Takið tillit til hvers annars og gefið gott næði til náms. Námsvefurinn Moodle og notkun fartölvu í kennslustundum ætti að auðvelda ykkur námið. Þó er það svo að í mörgum tilfellum fara nemendur ekki eftir tilmælum kennarans og handan við einn músarsmell er margt sem freistar og dregur athygli frá verkefnum líðandi stundar. Þá draga snjallsímar til sín athygli nemenda. Í kennslustund eigið þið að vera upptekin, utan þjónustusvæðis farsíma og snjallsíma. Þið eigið að vera upptekin við verkefni eða að hlusta á mikilvægar upplýsingar frá kennara eða lesa ykkur til í námsgögnum. Af þessari einföldu ástæðu eigið þið ekki að nota upplýsingatæknitól til annars en að aðstoða ykkur við námið.  Þið eigið að fara eftir fyrirmælum kennarans en hann er verkstjórinn í kennslustundum. Meirhluti nemenda fer eftir þessum fyrirmælum. Minnihluti nemenda virðir hins vegar ekki þessi tilmæli, nema kannski um stund. Sífelld afskifti kennara af misnotkun fartölvu og síma dregur athygli allra frá námi og dregur úr gæðum starfsins. Tíminn er dýrmætur, stelið honum ekki frá öðrum að óþörfu.

Að loknu ávarpi mínu fá nemendur yngri en 18 ára afhentar stundatöflur hjá umsjónarkennurum en eldri nemendur sækja sínar stundatöflur til ritara. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá á morgun. Námsáætlanir verða líklega komnar inn á Moodle fyrir alla áfanga í dag og hvet ég ykkur ágætu nemendur að kynna ykkur þessi gögn vel. Einnig skulu þið aðgæta vel hvort allir áfangar séu inni á ykkar stundatöflum sem þið ætlið eða verðið að taka. Strax á eftir mun aðstoðarskólameistari og náms- og starfsráðgjafar vera til viðtals um breytingar á stundatöflum. Þeir nemendur sem þurfa að fara í töflubreytingar eiga að fara straks um kl. 9.30 til ritara og fá númer.

Megi þetta ár sem er nú rétt hafið færa ykkur gleði og farsæld í starfi og leik.

 

Jón Reynir Sigurvinsson

skólameistari

7 jan 2014

Ávarp skólameistara á sal 6. janúar 2014

Ágætu nemendur og starfsmenn skólans.

Gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir gott samstarf á liðnu ári. Vonandi komið þið til starfa úthvíld og hlaðin orku eftir jólafríið– tilbúin til að takast á við nýja áfanga og ný verkefni.

Meira

2 jan 2014

Upphaf vorannar

Skólastarf hefst að nýju eftir jólaleyfi, mánudaginn 6. janúar. Nemendur mæta á sal kl. 9 þann dag og að loknu ávarpi skólameistara fá þeir afhentar stundatöflur hjá umsjónarkennurum (nemendur yngri en 18 ára) eða ritara (eldri nemendur). Stundatöflur opna í INNU á morgun föstudaginn 3. janúar, hafi innritunar- og þjónustugjöld verið greidd. Töflubreytingar hefjast kl. 10, hjá námsráðgjöfum og áfangastjóra. Með ósk um gleðilegt ár og árangursríka samvinnu á önninni.

20 des 2013

Brautskráning

Í dag, 20. desember kl. 13 verður útskriftarathöfn í Ísafjarðarkirkju. Þá verða sjö nemendur brautskráðir frá skólanum, einn sjúkraliði og sex stúdentar, tveir af náttúrufræðibraut og fjórir af félagsfræðabraut. Einnig munu 20 nemendur sem lokið hafa viðbótarnámi í vélgæslu hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samvinnu við MÍ, fá afhent skírteíni sín. Við athöfnina mun Skólakórinn syngja nokkur lög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur og við undirleik Péturs Ernis Svavarssonar. Allir velunnarar skólans eru velkomnir.