14 nóv 2014

Söngkeppni NMÍ

Söngkeppni NMÍ fór fram í íþróttahúsinu á Torfnesi í gær að viðstöddu fjölmenni. Alls tóku 9 atriði þátt í keppninni að þessu sinni og voru lögin að vanda flest flutt við undirleik Húsbandsins, en það skipuðu þau Pétur Óli Þorvaldsson, Þormóður Eiríksson, Kristín Harpa Jónsdóttir og Valgeir Skorri Vernharðsson. Svo fór að Salóme Katrín Magnúsdóttir stóð uppi sem siguvegari en hún flutti lagið Sprawl II með hljómsveitinni Arcade Fire. Í öðru sæti var hljómsveitin Rythmatik en þeir fluttu frumsamda lagið Tiny knots. Í þriðja sæti var svo Anna Þuríður Sigurðardóttir með lagið Crazy með Gnarls Barkley. Kynnir var Pétur Magg og í dómnefnd sátu Benedikt Sigurðsson, Dagný Hermannsdóttir og Sveinbjörn Hjálmarsson.
11 nóv 2014

Umsókn um skólavist á vorönn

Nú stendur yfir innritun nemenda í skólann fyrir vorönn 2015. Innritunin fer fram í gegnum Menntagátt. Nemendur sem þess óska geta pantað tíma hjá námsráðgjafa og fengið ráðgjöf vegna innritunar og vals á áföngum. Innritun fyrir vorönn lýkur þann 30. nóvember.
27 okt 2014

Undirritun samnings um fab-lab í Guðmundarsmiðju

Menntaskólinn undirritaði í dag nýjan samning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp, um rekstur fab-lab smiðju í skólanum. Rekstur fab-lab smiðjunnar hófst formlega í byrjun árs 2013 og hlaut smiðjan þá nafnið Guðmundarsmiðja til minningar um Guðmund Þór Kristjánsson vélstjórnarkennara sem var frumkvöðull að stofnun fab-lab smiðju við skólann. Menntaskólinn leggur eins og áður til húsnæði og tæki í Guðmundarsmiðju en aðrir aðilar að samningi sameinast um annan rekstur. Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins.
22 okt 2014

Valdagur 23. október

Allir nemendur sem ætla að stunda nám í Mí á vorönn 2015 þurfa að velja sér áfanga fyrir önnina. Fimmtudaginn 23. október verður opnað fyrir rafrænt val í INNU. Nemendur yngri en 18 ára eiga að hitta umsjónarkennara sína í fundartímanum og fá aðstoð við valið. Nemendur 18 ára og eldri geta pantað sér tíma hjá námsráðgjafa ef þeir þurfa aðstoð. Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar um það hvernig velja á í gegnum INNU. Einnig eru upplýsingar um þá áfanga sem verða í boði á vorönn og um framvindu náms á brautum skólans. Gangi ykkur vel með valið!

Leiðbeiningar um val í INNU

Framvinda verknámsbrauta

Framvinda bóknámsbrauta

Áfangar í boði á vorönn 2015
7 okt 2014

Afgreiðslu- og símatími á skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin milli kl. 08:00 og 16:00 frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudögum er skrifstofan opin á milli kl. 08:00 og 15:00. Síminn er opinn frá kl. 10:30 - 15:00 alla virka daga, utan þess tíma er hægt að hringja í beina síma sem tilgreindir eru hér að neðan. Veikindi skal tilkynna á netfangið misa@misa.is en önnur erindi má einnig senda á þetta netfang. Undir hlekknum starfsfólk hér til vinstri eru upplýsingar um netföng starfsmanna. 


Beinir símar: 
Skólameistari 450-4401 eða 896-4636
Aðstoðarskólameistari 450-4402
Fjármálastjóri 450-4404 
Húsvörður 864-6577

18 sep 2014

Ást gegn hatri - fyrirlestur á sal

Selma Björk Hermannsdóttir verður með fyrirlestur fyrir alla nemendur skólans á sal í fundartímanum í dag. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina Ást gegn hatri en það er verkefni sem hefur það að markmiði að vinna gegn einelti. Að verkefninu standa félagasamtökin Erindi - samtök um samskipti og skólamál.
10 sep 2014

Hjólum í skólann

Átakið "Hjólum í skólann" er hafið í annað sinn. Dagana 10.-16. september eru nemendur og starfsfólk hvött til þess að hjóla í skólann eða að nýta sér annan virkan ferðamáta. Undir það getur fallið að ganga, hlaupa, fara á línuskautum/hjólabretti, jafnvel almenningssamgöngur, en þá er skráð sú vegalengd sem þarf að ganga til og frá stoppistöð. Nánar er hægt að lesa um átakið á heimasíðunni hjolumiskolann.is 

Í fyrra sigraði Mí keppnina í sínum flokki svo við eigum titil að verja, áfram MÍ!

4 sep 2014

Nýnemaferðin 2014

Hin árlega nýnemaferð var farin að Núpi í Dýrafirði dagana 28.-29. ágúst s.l. Ferðin hófst með gönguferð út að eyðibýlinu Arnarnesi. Síðan var farið í skoðunarferð í Skrúð og að því loknu voru skemmtilegir hópeflingarleikir á túninu við Núpsskóla. Um kvöldið skemmtu nemendur og kennarar sér saman á kvöldvöku. Þangað kom einnig stjórn nemendafélagsins og kynnti félagslíf vetrarins fyrir nýnemum. Morguninn eftir var farið í ýmsa leiki utandyra áður en haldið var heim á leið um hádegisbilið. Veðrið lék við nemendur og kennara eins og svo oft áður og sjá má á myndunum sem eru komnar hér inn á heimasíðuna. Fleiri myndir eru einnig komnar inn á Facebook síðu skólans.
28 ágú 2014

Árekstrar í töflu og fjarnám

Frestur til að skrá sig í áfanga í fjarnámi rennur út föstudaginn 29. ágúst kl. 15. Er hér átt við áfanga í Fjarmenntaskólanum og einnig umsóknir um það sem áður kallaðist að vera P-nemandi.