8 apr 2014

Endurskoðað skóladagatal að loknu verkfalli

Skóladagatal vorannar 2014 hefur verið endurskoðað til að bæta nemendum upp kennsludaga sem féllu niður í verkfallinu í mars. Endurskoðað skóladagatal má sjá með því að smella hér. 
Þetta felur í sér að kennt verður þriðjudaginn 22. apríl, fimmtudaginn 24. apríl (sumardaginn fyrsta) og dagana 12. til 14. maí. Einnig bætist einn námsmatsdagur við þann 22. maí. Útskrfit verður laugardaginn 24. maí eins og gert hafði verið ráð fyrir.  Nánari upplýsingar um skipulag prófadaga (próftafla) verða birtar um leið og þær liggja fyrir.

Það er mikil vinna fyrir höndum hjá nemendum og kennurum næstu vikurnar og mikilvægt er að nemendur mæti vel í kennslustundir og sinni náminu af kappi það sem eftir lifir annar. 

8 apr 2014

Fundur á sal

Hringt verður á sal rétt fyrir kl. 10 í dag. Skólameistari hittir þá nemendur á fundi til að kynna þær breytingar sem gerðar hafa verið á skóladagatali það sem eftir er af vorönninni. Mikilvægt er að allir nemendur mæti á þennan fund.
5 apr 2014

Skóli hefst á mánudaginn

Nýr kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum við ríkið var undirritaður í gær. Verkfalli kennara og stjórnenda hefur því verið frestað og skóli hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 7. apríl.

16 mar 2014

Innritun fyrir haustönn

Nú stendur yfir forinnritun nemenda í 10. bekk (fæddir 1998 eða síðar). Innritunin hófst mánudaginn 3. mars og lýkur föstudaginn 11. apríl. Nemendur hafa fengið bréf frá Námsmatsstofnun með veflykli að innritunarvef og leiðbeiningum afhent í grunnskólunum. Foreldrar/forráðamenn nemenda hafa fengið sent bréf í pósti frá Námsmatsstofnun með upplýsingum um innritunina. Nemendur í 10. bekk eru eindregið hvattir til að taka þátt í forinnrituninni. Lokainnritun nemenda í 10. bekk verður 5. maí til 10. júní

Nemendur í 10. bekk hafa frest til sækja um nám í framhaldsskóla eða breyta umsóknum úr forinnritun til miðnættis þriðjudaginn 10. júní. Einkunnir þeirra verða sendar rafrænt frá grunnskólum til framhaldsskóla eftir skólaslit.

Rafrænni innritun á starfsbrautir lauk 28. febrúar síðastliðinn. Tímamörk almennrar innritunar sem auglýstar eru á Menntagátt, gilda þó fyrir þær umsóknir sem berast síðar. Stefnt er að afgreiðslu allra umsókna á starfsbrautir fyrir lok apríl.


Innritun eldri nemenda (fæddir 1997 eða fyrr) sem ekki eru nú í framhaldsskóla eða ætla að skipta um skóla hefst föstudaginn 4. apríl og lýkur laugardaginn 31. maí. Umsækjendur sækja um Íslykil á www.island.is og nota hann til að sækja um á www.menntagatt.is.


Nánari upplýsingar um innritun í framhaldsskóla má fá á menntagatt.is og hjá Námsmatsstofnun í síma 550 2400.
14 mar 2014

Málmsmíðanemar í Danaveldi

Þessa dagana eru fjórir nemendur úr grunndeild málmiðngreina staddir í skólaheimsókn í Danmörku. Heimsóknin er styrkt af Leonardo starfsmenntaáætluninni sem er hluti af menntaáætlun ESB. Nemendurnir munu dvelja í bænum Fredericia á Jótlandi næstu þrjár vikurnar við nám og störf. MÍ hefur í nokkur ár verið í samstarfi við skólann EUC Lillebælt. Nemendahópar frá skólanum hafa komið hingað í heimsókn undanfarnar haustannir og nú fengu nemendur MÍ tækifæri til að endurgjalda heimsóknirnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er vorið komið í Danmörku.
10 mar 2014

Sólrisuhátíð og gróskudagar

Nú er fertugustu Sólrisuhátíð MÍ lokið og hefðbundið skólastarf tekið við. Mikið var um að vera í skólanum alla vikuna og að vanda var kennslan brotin upp með gróskudögum frá miðvikudegi til föstudags. Þá daga gátu nemendur valið um allskyns smiðjur sem var stýrt af kennurum og einstaka nemendum. Fjölmiðlasmiðjan var í boði alla daga og nemendur í þeirri smiðju tóku ljósmyndir, settu saman fréttablað og tóku upp myndbönd af því sem var að gerast í skólanum þessa daga. Myndirnar má skoða hér á heimasíðu skólans og fréttablaðið má sjá með því að smella hér. Vinna við klippingu á myndefni sem tekið var upp stendur yfir en myndefnið mun verða birt hér á heimasíðunni þegar þeirri vinnu er lokið.
9 mar 2014

Kynningarmyndband

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að kynningarmyndbandi fyrir skólann undir stjórn Friðriks Hagalíns Smárasonar. Kynningarmyndbandið var frumsýn á stórri framhaldsskólakynningu sem haldin var í Kórnum í Kópavogi í tengslum við Íslandsmót iðn- og verkgreina dagana 6.-8. mars s.l. Myndbandið má skoða með því að smella hér.
28 feb 2014

Setning sólrisuhátíðar og frumsýning

Sólrisuhátiðin verður sett í dag 28. febrúar í 40. sinn. Hátíðin hefst kl 12 með skrúðgöngu og trommuslætti frá skólanum. Komið verður til baka 15-20 mínútum seinna og þá verður hátíðin formlega sett og boðið upp á kökur og djús í gryfjunni. Einnig verður sýnt stutt atriði úr sólrisuleikritinu Hairspray sem frumsýnt verður í Félagsheimilinu í Hnífsdal í kvöld kl. 20. Miðasalan er í fullum gangi og hægt er að panta miða í síma 450-5555 til klukkan 18:00. Eftir kl. eru miðapantanir í síma 7733751. Sýningar verða sem hér segir:

Föstudagurinn 28. febrúar kl 20- frumsýning

Sunnudagur 2. mars kl 15 og kl 20
Þriðjudagur 4. mars kl 20
Fimtudagur 6. mars kl 20

Verð:
12 ára og eldri : 3000 kr
6-11 ára : 2500
NMÍ: 2500
Öryrkjar og eldriborgarar: 2500
5 ára og yngri ókeypis.