17 nóv 2012

Söngkeppni framhaldsskólanna

Undankeppni MÍ fyrir söngkeppni framhaldsskólanna var haldin í gærkvöldi þrátt fyrir hríðarbyl og ófærð. Keppnin tókst í alla staði vel og umgerðin var að vanda glæsileg, en mikill undirbúningur liggur þar að baki. Fólk lét veður og færð þó ekki aftra sér og mæting var furðu góð. Kynnir kvöldsins var Arnar Guðmundsson fyrrum nemandi skólans en hann slapp vestur rétt áður en leiðin lokaðist vegna veðurs. Hljómsveit hússins skipuðu þau Benjamín Bent Árnason, Kristín Harpa Jónsdóttir, Mateusz Samson og Þormóður Eiríksson. Hljómsveitin lék undir í flestum atriðum en auk þess kom fjöldi annarra hljóðfæraleikara við sögu. Sigurvegari að þessu sinni var Magnús Traustason en hann flutti Hjálmalagið "Leiðin okkar allra". Með Magnúsi á sviðinu í bakröddum voru þeir Jóhann Gunnar Guðbjartsson, Finnbogi Dagur Sigurðsson, Birgir Knútur Birgisson og Davíð Sighvatsson. Þeir verða fulltrúar MÍ í lokakeppninni sem haldin verður í apríl á næsta ári. Gangi ykkur vel strákar!
8 nóv 2012

Heimsókn frá Háskólasetri Vestfjarða

Í fundartíma í dag verður kynning á vegum meistaranema í haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetri Vestfjarða. Kynningin verður í stofu 17 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
7 nóv 2012

Baráttudagur gegn einelti

Þann 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti að frumkvæði verkefnisstjórnar um aðgerðir gegn einelti. Þetta er í annað sinn sem þessi dagur er helgaður baráttu gegn einelti hér á landi. Þjóðin er hvött til að standa saman gegn einelti í samfélagin ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Í Menntaskólanum á Ísafirði vekjum við sérstaka athygli á þessum degi og þess má geta að mánudaginn 5. nóvember fengum við góðan gest í skólann til að fræða nemendur og starfsfólk um forvarnir gegn einelti og viðbrögð við því. Þetta var Kolbrún Baldursdóttir sem nýlega sendi frá sér bókina "Ekki meir" sem er handbók um þessi efni. Kolbrún hefur farið víða og kynnt efni bókarinnar og var heimsókn hennar til okkar mjög gagnleg. Á síðunni www.gegneinelti.is er hægt að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti og nú þegar hafa 7441 skrifað undir. Stöndum saman gegn einelti!
2 nóv 2012

Síðasti valdagur

Í dag er síðasti dagurinn sem nemendur í skólanum hafa til að skrá sig í áfanga fyrir komandi vorönn. Námsráðgjafar og áfangastjóri aðstoða við valið til kl. 15 í dag.
24 okt 2012

Val fyrir komandi vorönn

Opnað hefur verið fyrir val fyrir næstu önn. Í fundartíma á morgun fimmtudag eiga nemendur sem eru yngri en 18 ára að hitta umsjónarkennara sína og velja sér áfanga fyrir komandi vorönn. Eldri nemendur geta leitað til námsráðgjafa og áfangastjóra ef þeir þurfa aðstoð við valið. Nemendur velja í gegnum INNU og leiðbeiningar um það hvernig á að velja er að finna hér fyrir neðan. Mikilvægt er að nemendur fylgi framvindu sinna brauta. Leiðbeiningar fyrir verknám og bóknám og upplýsingar um það hvaða áfangar eru í boði eru hér fyrir neðan.

Leiðbeiningar um val í INNU


Framvinda verknáms og áfangar í boði

Framvinda bóknáms

Áfangar í boði í bóknámi
10 okt 2012

Heimsókn frá Frakklandi

Nú stendur yfir heimsókn frá samstarfsskóla MÍ í bænum Les Sables-d´Olonne á vesturströnd Frakklands. Skólinn heitir Lycée Sainte Marie du Port og er þetta í fimmta sinn sem við fáum nemendur og kennara frá skólanum til viku dvalar hjá okkur. Gestirnir dvelja flestir heima hjá nemendum í MÍ og stefnt er að því að nemendur frá okkur fari til Frakklands á komandi vorönn. Eins og áður er það Hrafnhildur Hafberg frönskukennari sem hefur veg og vanda af móttöku Frakkanna en dagskrá þeirra er þéttskipuð þessa daga sem þeir dveljast á Ísafirði.
8 okt 2012

Sjálfsmatsskýrsla 2011-2012

Sjálfsmatsskýrsla fyrir skólaárið 2011-2012 er komin út og hefur verið vistuð á vef skólans. Með því að smella hér er hægt að skoða skýrsluna.
27 sep 2012

Metabolic kynning á föstudag

Á morgun föstudaginn 28. spetember, ætlar Laufey Dögg Garðarsdóttir að vera með kynningu á Metabolic í íþróttatímunum kl. 9:05 og 10:25. Nemendur sem eiga að vera í íþróttum þessa tíma koma með íþróttaföt og taka þátt í tímanum. Aðrir nemendur sem hefðu áhuga á að kynna sér þessa hreyfingu geta komið yfir í íþróttahús ef þeir hafa tök á því og fylgst með. Sjá nánar um Metabolic á metabolic.is.

Jónas L, íþróttakennari

25 sep 2012

Úrsögn úr áföngum

Þeir nemendur sem vilja segja sig úr áföngum á haustönn þurfa að gera það í síðasta lagi 28. september. Nemendur sem hætta í áfanga eftir það fá skráð fall í áfanganum. Ganga þarf frá úrsögnum hjá námsráðgjöfum eða áfangastjóra.

20 sep 2012

Lotumat 1

Fyrstu námslotu haustannar fer senn að ljúka. Mat fyrir lotuna verður birt í INNU þann 27. september n.k.