3 jan 2013

Upphaf vorannar

Vorönn 2013 hefst föstudaginn 4. janúar kl. 9 með ávarpi skólameistara á sal. Að því búnu hitta nemendur umsjónarkennara sína og fá afhentar stundatöflur og bókalista. Síðan taka við töflubreytingar fyrir þá nemendur sem þurfa á þeim að halda. Bókalistar eru nú þegar aðgengilegir í INNU fyrir þá nemendur sem greitt hafa þjónustugjöld vorannar. Stundatöflur verða opnaðar í fyrramálið.
4 des 2012

Samstarf við meistaranema í HSVEST

Á önninni sem nú er senn liðin hefur verið tekið upp á þeirri nýjung að nemendur í áfanganum ENS503  bjóða meistaranámsnemum hjá Háskólasetri Vestfjarða í heimsókn til sín og kynna fyrir þeim Vestfirðina í máli og myndum. Kynningarnar fara fram á ensku og eru hluti af sjálfstæðu rannsóknarverkefni sem nemendurnir hafa unnið að undanfarið. Háskólanemarnir hafa einnig komið í heimsókn í skólann og sagt frá sínum verkefnum. Að sögn Kristjáns Viggóssonar kennara í ensku hefur verkefnið hagnýtt gildi, bæði fyrir nemendur MÍ sem æfast í tungumálinu og einnig fyrir meistaranemana sem þannig fá fræðslu um nærumhverfið. Verkefnið sé þannig nokkurskonar tilraun til að byggja brú milli samfélagsins og háskolasetursins og efla samskiptin á milli þessara skólastiga.
 

20 nóv 2012

Námsstyrkur í boði

Skólinn auglýsir eftir umsækjendum um námsstyrk úr sjóði Elínar Þorláksdóttur og Benediktss Bjarnasonar. Í ráði er að úthluta nú í vetur allt að fjórum styrkjum að upphæð kr. 75.000. Skriflegum umsóknum skal skila til skrifstofu skólans eða skólameistara eigi síðar en föstudaginn 30. nóvember 2012. Nánari upplýsingar um námsstyrkinn má sjá hér.
20 nóv 2012

Námsmat - námskeið með Ingvari Sigurgeirssyni

Í síðustu viku kom Ingvar Sigurgeirsson, fyrrum prófessor við HÍ í heimsókn í skólann og var með námskeið fyrir kennara skólans um námsmat. Menntaskólinn á Ísafirði hefur í tengslum við nýju framhaldsskólalögin lagt áherslu á að breyta kennsluháttum og námsmati og er á stefnuskrá skólans að taka upp leiðsagnarmat í sem flestum áföngum. Markmið með leiðsagnarmati er að nemendur fái leiðsögn um hvernig þeir geti bætt sig og þeir fái endurgjöf sem sýnir þeim hvar þeir eru staddir í náminu.

Eftir að hafa hlýtt á kennara segja frá tilraunum sínum til bættra kennsluhátta og breytts námsmats gaf Ingvar út þá yfirlýsingu að Menntaskólinn á Ísfirði teldist nú meðal þróunaskóla á framhaldsskólastigi um leiðsagnarmat. Eftir námskeiðið sem féll í góðan jarðveg hjá kennurum er stefnt að enn frekari á þróun þessara mála á næstu starfsdögum skólans.

17 nóv 2012

Söngkeppni framhaldsskólanna

Undankeppni MÍ fyrir söngkeppni framhaldsskólanna var haldin í gærkvöldi þrátt fyrir hríðarbyl og ófærð. Keppnin tókst í alla staði vel og umgerðin var að vanda glæsileg, en mikill undirbúningur liggur þar að baki. Fólk lét veður og færð þó ekki aftra sér og mæting var furðu góð. Kynnir kvöldsins var Arnar Guðmundsson fyrrum nemandi skólans en hann slapp vestur rétt áður en leiðin lokaðist vegna veðurs. Hljómsveit hússins skipuðu þau Benjamín Bent Árnason, Kristín Harpa Jónsdóttir, Mateusz Samson og Þormóður Eiríksson. Hljómsveitin lék undir í flestum atriðum en auk þess kom fjöldi annarra hljóðfæraleikara við sögu. Sigurvegari að þessu sinni var Magnús Traustason en hann flutti Hjálmalagið "Leiðin okkar allra". Með Magnúsi á sviðinu í bakröddum voru þeir Jóhann Gunnar Guðbjartsson, Finnbogi Dagur Sigurðsson, Birgir Knútur Birgisson og Davíð Sighvatsson. Þeir verða fulltrúar MÍ í lokakeppninni sem haldin verður í apríl á næsta ári. Gangi ykkur vel strákar!
8 nóv 2012

Heimsókn frá Háskólasetri Vestfjarða

Í fundartíma í dag verður kynning á vegum meistaranema í haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetri Vestfjarða. Kynningin verður í stofu 17 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
7 nóv 2012

Baráttudagur gegn einelti

Þann 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti að frumkvæði verkefnisstjórnar um aðgerðir gegn einelti. Þetta er í annað sinn sem þessi dagur er helgaður baráttu gegn einelti hér á landi. Þjóðin er hvött til að standa saman gegn einelti í samfélagin ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Í Menntaskólanum á Ísafirði vekjum við sérstaka athygli á þessum degi og þess má geta að mánudaginn 5. nóvember fengum við góðan gest í skólann til að fræða nemendur og starfsfólk um forvarnir gegn einelti og viðbrögð við því. Þetta var Kolbrún Baldursdóttir sem nýlega sendi frá sér bókina "Ekki meir" sem er handbók um þessi efni. Kolbrún hefur farið víða og kynnt efni bókarinnar og var heimsókn hennar til okkar mjög gagnleg. Á síðunni www.gegneinelti.is er hægt að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti og nú þegar hafa 7441 skrifað undir. Stöndum saman gegn einelti!
2 nóv 2012

Síðasti valdagur

Í dag er síðasti dagurinn sem nemendur í skólanum hafa til að skrá sig í áfanga fyrir komandi vorönn. Námsráðgjafar og áfangastjóri aðstoða við valið til kl. 15 í dag.