Fréttir
Laugardaginn 19. maí voru 35 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að vanda var útskriftarathöfnin haldin í Ísafjarðarkirkju að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru útskrifaðir tveir nemendur úr B-námi vélstjórnar og þrír úr A-námi vélstjórnar. Einn sjúkraliði lauk námi og fjórir nemendur af fjögurra ára starfsbraut. Alls voru brautskráðir 25 stúdentar af félagsfræða- og náttúrufræðibrautum. Að vanda sáu útskriftarnemar um tónlistarflutning í athöfninni auk Skólakórs MÍ undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Fjölmargar viðurkenningar voru auk þess veittar fyrir góðan námsárangur. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Sunna Karen Einarsdóttir en hún lauk prófi af náttúrufræðibraut á þremur árum með einkunnina 9,43. Næst hæstu einkunn hlaut Silja Rán Guðmundsdóttir stúdent af náttúrufræðibraut með meðaleinkunn 9,35.
Þá er skólastarf hafið að nýju eftir páskaleyfi. Nemendum og starfsfólki er óskað góðs gengis á lokaspretti vorannarinnar.