7 mar 2012

Söngleikurinn Grease

Föstudaginn 2. mars frumsýndi leikfélag MÍ söngleikinn Grease í Félagsheimilinu í Hnífsdal undir leikstjórn Halldóru Rósu Björnsdóttur, leikara og leikstjóra. Það stefnir í metaðsókn á söngleikinn á þessari 38. Sólrisuhátíð MÍ.  Leikarar eru 33 og að auki er 6 manna hljómsveit . Það sem einkenndi sýninguna var krafturinn, gleðin og æskufjörið og virkilega góðar söngraddir.  Strákarnir allir sýndu frábæran leik, bæði með söng og dansi sem var á köflum með miklum tilþrifum og kraftmikill. Magnús Traustson var virkilega góður í hlutverki Danny enda með mikla sönghæfileika. Þá voru stúlkurnar ekki síðri og sýndi Sunna Karen enn einu sinni mikla leik- og sönghæfileika í hlutverki englastelpunnar Sandy. Þá vakti frábær leikur Helgu Þuríðar Hlynsdóttur í hlutverki Rizzo athygli. Það sem einkenndi sýninguna var hve allir sem fram komu skiluðu sínum hlutverkum vel.


Að baki  liggur mikil vinna allra aðstandenda sýningarinnar. Tréiðndeildin sá um að smíða palla og tröppur. Háriðndeildin sá um förðun. Á sviðinu er raunveruleg bifreið sem nemendur í málmið og vélstjórn sáu um að útbúa þannig að auðvelt væri að færa hann til og sjá til þess að hann bryti ekki leikfjalirnar. Hljóðkerfi skólans kom sér vel og eins og áður sá Hermann Siegle um tæknihliðina ásamt fjölmörgum aðstoðarmönnum. Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði hefur einnig jafnan notið velvildar og aðstoðar fjölmargra aðila utan skólans sem innan.


Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þessum aðilum sem og öllum þeim sem styrkt hafa sýninguna með einum eða öðrum hætti. Nemendahópnum sjálfum og leikstjóra óska ég til hamingju með stórglæsilega sýningu.

 

Jón Reynir Sigurvinsson

skólameistari

1 mar 2012

GRÓSKUDAGAR

Þann 7.-9. mars verða Gróskudagar í skólanum. Nemendur taka þá þátt í smiðjum að eigin vali og er fjölbreytt úrval af smiðjum í boði að þessu sinni. Það er búið að opna fyrir val í smiðjur og er nemendur hvattir til að velja sem fyrst. Athugið að takmarkaður fjöldi nemenda kemst að í sumar smiðjur - fyrstur velur, fyrstur fær! Hver nemandi þarf að velja að lágmarki 6 smiðjur en athugið þó að smiðjurnar standa mislengi. Smellið hér til að velja ykkur smiðjur.

8 feb 2012

Heilsuefling í mötuneyti

Menntaskólinn á Ísafirði er heilsueflandi framhaldsskóli

Í vetur er áherslan lögð á næringu og þar skipar mötuneyti skólans að sjálfsögðu stóran sess.  Fjölbreyttur matseðill er í mötuneytinu alla virka daga en hann er hægt að skoða hér á síðunni.  Ýmsar nýjungar hafa litið dagsins ljós:

 

  • Við bjóðum upp á  ókeypis hafragraut í mötuneyti skólans kl. 7:50-9:10
  • Hægt er að kaupa boost í mötuneytinu sem þarf að panta og greiða daginn áður eða í síðasta lagi kl. 8 samdægurs. Fólk skilur eftir merkt plastmál þegar pöntun er gerð.  Boostið er afhent í mötuneyti kl. 10 á morgnana. Hægt er að kaupa 10 skammta 2500 kr.  Einnig er hægt að kaupa stakan skammt á 300 kr
  • Sallatbar í hádeginu alla virka daga
  • Vatnsbrunnur á neðri hæð fyrir nemendur
Velkomin í mötuneyti MÍ!

 

27 jan 2012

MÍ hefur lokið keppni í Gettu betur

Gettu betur lið MÍ mætti liði Fjölbrautarskólans í Garðabæ í 2. umferð kepnninnar. Leikar fóru þannig að FG hafði sigur en lokatölur keppninnar voru 23-8. MÍ-ingar komust því ekki í sjónvarpið að þessu sinni en það gengur vonandi betur næst.
12 jan 2012

MÍ komst áfram í Morfís!

Lið MÍ sigraði andstæðingan sína úr FB í annari umferð Morfís í kvöld. Keppnin fór fram í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og var mjög spennandi. Úrslitin urðu þau að MÍ sigraði með 9 stiga mun og einn dómari af þremur dæmdi MÍ til sigurs. Ræðumaður kvöldsins kom frá FB. Stuðningsmannalið MÍ stóð sig einnig með eindæmum vel, frábær frammistaða hjá krökkunum eftir margra klukkutíma rútuferð til Reykjavíkur! Við óskum þeim Berglindi, Tómasi, Ísak og Gauta til hamingju með sigurinn.
12 jan 2012

MÍ áfram í Gettu betur!

Lið MÍ sigraði andstæðinga sína úr VMA í fyrstu umferð Gettu betur í kvöld. Lokatölur voru 8-4 MÍ-ingum í vil. Við óskum þeim Þorgeiri, Hallberg og Daníel til hamingju með sigurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim gera ennþá betur í næstu umferð.

11 jan 2012

Morfís og Gettu betur

Það er mikið um að vera hjá nemendum MÍ um þessar mundir. Morfís og Gettu betur lið skólans munu bæði keppa í höfuðborginni fimmtudaginn 12. janúar. Fjölmennt stuðningsmannalið úr röðum nemenda fer með í ferðinna og til að styðja við bakið á liðunum. Við óskum þeim góðrar ferðar og keppendum góðs gengis.
21 des 2011

Jólaútskrift 2011

Laugardaginn 17. desember voru 14 nemendur brautskráðir frá skólanum. Tveir útskrifuðust sem vélaverðir smáskipa og þrír sem sjúkraliðar. Úr A námi vélstjórnar útskrifaðist einn nemandi og einnig útskrifaðist einn vélvirki. Sjö luku stúdentsprófi, sex af félagsfræðibraut og einn sjúkraliði lauk viðbótarnámi til stúdentsprófs. Kór MÍ undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur flutti tónlist við athöfnina og nemendum voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Skólinn þakkar útskriftarnemum samstarf og samveru á undanförnum árum og óskar þeim alls hins besta í framtíðinnni.