5 sep 2012

Jöfnunarstyrkur

Sækir þú nám fjarri lögheimili og fjölskyldu?
Reglur um námsstyrki og leiðbeiningar um skráningu eru hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna www.lin.is
Umsóknarfrestur vegna skólaársins 2012-2013 er til 15. október n.k.
4 sep 2012

Busavígsla, nýnemaferð og busaball

Í síðastliðinni viku var tekið á móti nýnemum. Eftir að fjöldi nýnema og þar með húsnæði skólans hafði fengið óæskilegt lýsisbað á þriðjudegi voru nemendur sendir heim og eldri nemendur settir í að þrífa skólann. Á miðvikudegi vígðu svo eldri nemendur busana í sinn hóp og daginn eftir fóru nýnemar ásamt umsjónarkennurum og íþróttakennara saman í ferðalag. Farið var í Ósvör og að Núpi í Dýrafirði þar sem gist var eina nótt. Í Dýrafirði var gengið út á Arnarnes og til baka að Núpi. Seinna um daginn var gengið í garðinn Skrúð og hann skoðaður. Um kvöldið var kvöldvaka og stjórn NMÍ kom í heimsókn og sagði frá félagslífinu í skólanum. Daginn eftir fóru nemendur í ratleik að loknum morgunverði og síðan var heim á leið. Á laugardagskvöld var svo busaball haldið í skólanum en þar spilaði hljómsveitin xxxRottweiler, í klukkutíma og sex mínútur! Á ballinu var mikið fjör og mæting mjög góð. Myndir frá busavígslu og nýnemaferð eru komnar inn hér á síðuna og líka á facebook.
30 ágú 2012

Foreldrafundur

Fundur með foreldrum og forráðamönnum nýnema var haldinn þann 27. ágúst s.l. Á fundinum sem var mjög vel sóttur, fór skólameistari yfir mikilvægi samstarfs heimilis og skóla. Námsráðgjafara kynntu starfsemi sína og umsjónarkennarar nýnema kynntu sig. Aðstoðarskólameistari kynnti uppbyggingu náms við skólann og sýndi viðstöddum notkun á nemendaumsjónarkerfinu INNU og námsvefnum MOODLE. Fulltrúar úr nemendaráði komu einnig á fundinn, kynntu sig og sögðu frá félagslífinu við skólann. Að lokum komu frá VáVest þeir Hlynur Hafberg Snorrason og Helgi Kr. Sigmundsson. Þeir fjölluðu um skaðsemi maríjúana og annarra skyldra efni. Myndir frá fundinum eru hér til vinstri á síðunni.
28 ágú 2012

Skólasetning 2012

Skólinn var settur þann 27. ágúst s.l. að viðstöddum nemendum, starfsmönnum og gestum. Við upphaf athafnarinnar lék Þormóður Eiríksson á gítar, lagið Fly me to the moon eftir Bart Howard. Að því búnu flutti skólameistari skýrslu sína og aðstoðarskólameistari fór yfir ýmis hagnýt atriði vegna skólastarfsins næstu daga. Síðan ávarpaði skólameistari nemendur og að lokum stóðu allir viðstaddir upp og sungu saman Ísland ögrum skorið eftir Eggert Ólafsson við lag Sigvalda Kaldalóns. Myndir frá setningarathöfninni eru komnar inn á myndasíðuna hér til vinstri.
18 maí 2012

Brautskráning 2012

Laugardaginn 19. maí voru 35 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að vanda var útskriftarathöfnin haldin í Ísafjarðarkirkju að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru útskrifaðir tveir nemendur úr B-námi vélstjórnar og þrír úr A-námi vélstjórnar. Einn sjúkraliði lauk námi og fjórir nemendur af fjögurra ára starfsbraut. Alls voru brautskráðir 25 stúdentar af félagsfræða- og náttúrufræðibrautum. Að vanda sáu útskriftarnemar um tónlistarflutning í athöfninni auk Skólakórs MÍ undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Fjölmargar viðurkenningar voru auk þess veittar fyrir góðan námsárangur. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Sunna Karen Einarsdóttir en hún lauk prófi af náttúrufræðibraut á þremur árum með einkunnina 9,43. Næst hæstu einkunn hlaut Silja Rán Guðmundsdóttir stúdent af náttúrufræðibraut með meðaleinkunn 9,35.

16 maí 2012

Prófsýning

Prófsýning verður haldin föstudaginn 18. maí frá kl. 11 til 12.

1 maí 2012

Vorpróf hafin

Vorpróf hófust þann 30. apríl s.l. Prófin hefjast kl. 9. Nemendur eru hvattir til að mæta tímanlega og ganga úr skugga um það í hvaða stofu þeir eiga að þreyta próf. Nemendur geta nálgast vinnubækur og leiðarbækur úr mörgum námsgreinum hjá ritara. Ef nemendur eiga við prófkvíða að stríða er þeim bent á að hafa samband við námsráðgjafa. Ýmis úrræði eru í boði. Gangi ykkur vel.
24 apr 2012

Nokkrar myndir

Nú eru komnar hér inn á heimasíðuna nokkrar myndir frá viðburðum á Sólrisuhátíðinni í vetur. Fleiri myndir eru væntanlegar næstu daga.