7 sep 2010

Nýnemaferð 2010

Hin árlega nýnemaferð var farin í Arnarfjörð og Dýrafjörð í byrjun september og tókst afar vel. Nýnemar og lífsleiknikennarar heimsóttu fæðingarstað Jóns Sigurðssonar að Hrafnseyri þar sem Valdimar Halldórsson staðarhaldari tók á móti þeim og fræddi þau um staðinn. Síðan var farið að Núpi í Dýrafirði þar sem Sæmundur Þorvaldsson á Læk leiddi nemendur og kennara um svæðið og sagði frá sögu og náttúru og Skrúður var heimsóttur. Um kvöldið héldu nemendur kvöldvöku og stjórn NMÍ mætti og kynnti starfsemi félagsins í vetur. Daginn eftir var farið í "Boot camp" og hafnarbolta og svo var haldið heimleiðis. Það var sérstaklega tekið til þess af þeim sem tóku á móti hópnum hvað nemendur voru háttvísir og prúðir í framkomu. Þess má geta að veðrið beinlínis lék við ferðalangana en 20 stiga hiti var á Núpi þessa daga. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni og fleiri myndir eru komnar inn á myndasíðuna.
10 ágú 2010

Upphaf haustannar 2010

Skrifstofa skólans er nú opin á ný að loknu sumarleyfi. Skólinn verður settur miðvikudaginn 25. ágúst kl. 09:00 á sal. Töflubreytingar verða gerðar 25. ágúst að lokinni skólasetningu. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 26. ágúst.
9 ágú 2010

Nám á haustönn 2010

Umsóknarfrestur um staðnám á komandi haustönn er liðinn. Þeir sem ekki náðu að sækja um en vilja skrá sig í skólann geta þó haft samband við skrifstofu skólans frá 10. ágúst í síma 450-4400 eða sent tölvupóst á áfangastjóra hreinn@misa.is Umsóknarfrestur í dreifnám og þeir áfangar sem verða í boði verða auglýstir síðar.
21 maí 2010

Brautskráning

Útskriftarathöfn Menntaskólans verður í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 22. maí kl. 13:00. Að þessu sinni verða 57 nemendur útskrifaðir. Allir vinir og velunnarar skólans eru velkomnir. Um kvöldið verður útskriftarfagnaður í Íþróttahúsinu á Torfnesi. Húsið verður opnað kl. 19:30 og borðhald hefst kl. 20:00.
2 maí 2010

Vorpróf

Vorpróf hefjast við skólann mánudaginn 3. maí. Prófin hefjast kl. 09:00 og nemendur eru minntir á að mæta stundvíslega og með þau gögn sem leyfilegt er að nota í prófinu. Nemendur eru hvattir til að kynna sér vel reglur um próf og próftökurétt sem hér fara á eftir.
 

REGLUR UM PRÓFTÖKU


1. grein

Ef nemandi er veikur í prófi skal hann tilkynna það til ritara áður en klukkustund er liðin af prófinu. Veikindin ber að staðfesta um leið og nemandi kemst til fullrar heilsu með því að útfylla þar til gert eyðublað sem fæst hjá ritara. Nemandi sem ekki skilar inn þessu eyðublaði hefur þar með fyrirgert rétti sínum til sjúkraprófs. Hafi nemandi sótt 95% kennslustunda á önn og fengið einkunnina 8,5 eða meira í námseinkun getur kennari farið þá leið í námsmati að nemandinn eigi þess kost að þreyta ekki lokapróf en sé það þó heimilt. Þetta gildir þó ekki um loka áfanga til stúdentsprófs.


2. grein

Nemendum ber að sitja hið minnsta eina klukkustund við verkefni sitt í hverju annarprófi. Komi nemandi meira en einni klukkustund of seint til prófs, hefur hann glatað rétti sínum til að þreyta prófið.


3. grein

Nemanda, sem fellur í einum áfanga eða fleirum, er heimilt að endurtaka próf í 6 námseiningum, séu einkunnir í þeim 3 eða hærri. Þetta ákvæði gildir þó ekki um íþróttaáfanga (ÍÞR).


4. grein

Nemandi sem verður uppvís að því að hafa rangt við í prófi telst fallinn á prófinu. Sé brotið alvaralegt á hann á hættu brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu prófi

21 apr 2010

Söngkeppni starfsbrautanna

Þann 26. mars sl. var söngkeppni starfsbrautanna haldin í Framhaldsskóla Vesturlands á Akranesi. Krakkarnir á starfsbraut MÍ skelltu sér á keppnina og fóru líka til Reykjavíkur áður en haldið var heim aftur. Þau voru sammála um að þetta hefði verið mjög skemmtileg ferð og hér er ferðasagan þeirra. Myndir úr ferðinni eru komnar inn á heimasíðunua. Á næsta ári verður haldin stuttmyndakeppni og hver veit nema krakkarnir okkar taki þátt í henni.
19 apr 2010

Ferð nemenda á Íslandsmót iðnnema

Dagana 17. - 19. mars sl. tóku nemendur í málm- og húsasmíði þátt í Íslandsmóti iðnnema í Reykjavík. Einnig var farið í heimsókn í skóla og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Alls fóru 15 nemendur í ferðina ásamt kennurum sínum þeim Tryggva Sigtryggssyni og Þresti Jóhannessyni. Þeir Andri Guðnýjarson og Bjarni Kristinn Guðjónsson  kepptu í húsasmíði og Daníel Snær Bergsson, Óskar Þórisson og Ólafur Njáll Jakobsson kepptu í suðu. Myndir og ítarlegri frásögn af ferðinni er að finna hér.
14 apr 2010

Útivist og heilsuefling - kynning á sal

Í fundartíma fimmtudaginn 15. apríl verður kynning á sal á hvatningarátaki til heilsueflingar sem íþróttasvið skólans stendur fyrir í samvinnu við ýmsa aðila utan skólans. Tilgangurinn er að fræða og hvetja nemendur og almenning til að kynna sér þær leiðir sem helst eru í boði á vegum þeirra félaga og samtaka sem þátt taka í kynningunni. Eftirtaldir aðilar taka þátt í kynningunni: Ferðafélag Íslands/Ferðafélag Ísfirðinga, Heilsuefling í Ísafjarðarbæ, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands - Almenningsíþróttasvið, Lýðheilsustöð, hreyfing, holt fæði, geðhjálp o.fl Ungmennafélag Íslands - Ganga.is - Fjölskyldan á fjallið.    
6 apr 2010

VAL - LOKAFRESTUR

Lokafrestur til að velja áfanga fyrir haustönn 2010 er til kl. 16:00 þriðjudaginn 13. apríl. Þeir nemendur sem ekki velja sér áfanga fyrir þann tíma eiga ekki vísa skólavist næsta haust. Umsjónarkennarar leiðbeina við valið en ef frekari aðstoðar er þörf skal leita til námsráðgjafa eða áfangastjóra.