3 nóv 2011

Skólafundur

Skólafundur verður haldinn á sal í fundartíma 3. nóvember.

Dagskrá skólafundar:
  • Skólameistari ræðir um skólastarfið almennt. Kynnir markmið og stefnu skólans ásamt sérstökum umbótum sem framkvæmdar hafa verið að undanförnu ásamt ýmsum öðrum sem eru í undirbúningi.
  • Stjórn nemendafélagsins kynnir það helsta sem framundan er hjá nemendafélaginu.
  • Félagsmálafulltrúi kynnir niðurstöður vinnuhópa um verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli.

Undir hverjum lið er gert ráð fyrir umræðum og mun Hildur aðstoðarskólameistari að stýra þeim og skipa fundarritara.

Á fundinum verður boðið upp á tvær tegundir af bústi frá Lúlú. 

26 okt 2011

VALDAGUR 27. OKTÓBER

Fimmtudaginn 27. október eiga nemendur að hitta umsjónarkennara sína í fundartíma og velja sér áfanga fyrir komandi vorönn. Nemendur velja í gegnum INNU og leiðbeiningar um það hvernig á að velja er að finna hér fyrir neðan. Mikilvægt er að nemendur fylgi framvindu sinna brauta. Leiðbeiningar fyrir verknám og bóknám og upplýsingar um það hvaða áfangar eru í boði eru hér fyrir neðan.

Leiðbeiningar um val í INNU
Framvinda verknáms
Framvinda bóknáms
Bóknámsáfangar í boði

24 okt 2011

Boost í mötuneyti

Eins og flestir vita er MÍ heilsueflandi framhaldsskóli. Á þessu skólaári einbeitum við okkur að næringunni. Í tilefni af því hefur verið ákveðið að bjóða nemendum og starfsfólki að kaupa boost í mötuneytinu. Í boði verða fjórar bragðtegundir og þarf að leggja inn pöntun daginn áður. Boostið er svo afhent kl. 10:00 í mötuneytinu. Nánari upplýsingar um verð, bragð og fyrirkomulag er að finna hér.

22 sep 2011

KAPPRÓÐUR

Hinn árlegi kappróður fór fram á Pollinum í dag í blíðskapar veðri. Keppt var á sjókayökum líkt og í fyrra, en þetta er í 11. sinn sem keppnin fer fram. Að þessu sinni mættu 9 lið til leiks og er það einu liði fleira en í fyrra. Úrslitin urðu þau að lið kennara sigraði á tímanum 4:56:46. Í öðru sæti var kvennalið skipað þeim Thelmu Rut Jóhannsdóttur, Lydíu Sigurðardóttur og Natalíu Sigurðardóttur. Lið stjórnar NMÍ var í þriðja sæti, rétt á undan liði dönsku gestanemndanna. Besta tíma náði Rúnar Helgi Haraldsson, 1:36:19 en næstbesta tímann átti Martha Þorsteinsdóttir, 1:38:45. Heildarúrslitin er að finna hér. Fleiri myndir eru komnar inn undir MYNDIR hér til vinstri á síðunni.
9 sep 2011

Bók í mannhafið

Við anddyri skólans er að finna kassa með ýmsum bókum sem  nemendum er frjálst að taka og lesa.

Það má skila bókinni aftur í kassann eða koma henni áfram á næsta mann.  Á næstu vikum munu bókakassar verða settir upp á fleiri stöðum innan skólans.


Hugmyndin er fengið frá Háskólanum á Akureyri sem í tilefni alþjóðadags læsis  ( 8. september) hefur komið bókakössum víðs vegar um Akureyri sem í eru bækur, sem fólk á öllum aldri getur tekið heim með sér.  Að lestri loknum er bókinni komið fyrir í sambærilegum bókakassa eða á stað sem er aðgengilegur öðrum.  Hver bók er merkt með límmiða þar sem á stendur Bók í mannhafið.

 

Þessa stórsniðugu hugmund má síðan rekja til fram taksins bookcrossing ( www.bookcrossing.com) þar sem m.a. er hægt að fylgjast með ferðalagi hverrar bókar um heiminn.

 

Bókavörður MÍ

 

 

 

 

8 sep 2011

Nýnemaferð 2011

Hin árvissa nýnemaferð var farin í Dýrafjörð og Arnarfjörð dagana 1. og 2. september s.l. Nýnemar og umsjónarkennarar byrjuðu ferðina á heimsókn í safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri í Arnarfirði, undir leiðsögn staðarhaldara Valdimars Halldórssonar. Síðan var ekið að Núpi í Dýrafirði þar sem gist var um nóttina. Nýnemar fengu fræðslu og leiðsögn um Núpsskóla og garðinn Skrúð. Haldin var kvöldvaka og stjórn NMÍ mætti til að kynna félagslíf skólans fyrir nýnemum. Daginn eftir var ratleikur og svo var haldið til baka um hádegisbilið. Meðfylgjandi myndir eru úr ferðinni og fleiri myndir eru á myndasíðunni hér til vinstri.
30 ágú 2011

Skólasetning

Skólinn var settur við hátíðlega athöfn þann 22. ágúst s.l. að viðstöddu fjölmenni. Skólameistari flutti skýrslu og ávarpaði nemendur. Freyja Rein Grétarsdóttir nýnemi lék á píanó, Bátssönginn eftir Felix Mendelsohn. Að vanda sungu allir viðstaddir saman Ísland ögrum skorið, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Eggerts Ólafssonar. Hulda Bragadóttir lék undir á píanó. Myndir af setningarathöfninni er að finna á myndasíðunni hér til vinstri.
18 ágú 2011

Stundatöflur opnar

Stundatöflur þeirra nemenda sem greitt hafa innritunar- og þjónustugjöld eru nú opnar í INNU. Nýnemar fá notenda- og lykilorð að lokinni skólasetningu.