5 ágú 2009

Upphaf haustannar 2009

Skrifstofa skólans er nú opin á ný að loknu sumarleyfi. Skólinn verður settur föstudaginn 21. ágúst kl. 09:00 á sal. Töflubreytingar verða gerðar 21. ágúst að lokinni skólasetningu. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 24. ágúst.
16 jún 2009

Nám á haustönn 2009

Umsóknarfrestur um staðnám á komandi haustönn er liðinn. Þeir sem ekki náðu að sækja um en vilja skrá sig í skólann geta þó haft samband við skrifstofu skólans frá 5. ágúst í síma 450-4400 eða sent tölvupóst á áfangastjóra fridgerd@misa.is Umsóknarfrestur í dreifnám og þeir áfangar sem verða í boði verða auglýstir síðar.
4 jún 2009

Innritun 2009

Umsóknarfrestur um nám í dagskóla á haustönn 2009 er til miðnættis fimmtudaginn 11. júní. Innritunin fer fram á netinu. Rafrænt umsóknareyðublað ásamt upplýsingum um innritunina er að finna á menntagatt.is/innritun. Þar eru einnig upplýsingar um nám í framhaldsskólum og námsframboð.


Nemendur sem ljúka 10. bekk 2009
Nemendur í 10. bekk grunnskóla hafa fengið afhent bréf í grunnskólunum með leiðbeiningum og veflykli sem opnar þeim aðgang að innrituninni. Forráðamenn þeirra eiga einnig að hafa fengið bréf frá ráðuneytinu með upplýsingum um innritunina. Þessi bréf eru aðgengileg á menntagatt.is/innritun, þar er einnig hægt að fá upplýsingar um hver veflykillinn er og fá hann sendan á umbeðið netfang.


Aðrir umsækjendur um nám í dagskóla
Umsækjendur geta sótt veflykil og fengið nánari upplýsingar á menntagatt.is/innritun og í síma 545-9500. Nemendum sem koma erlendis frá er bent á að setja sig í samband við þá skóla sem þeir hafa áhuga á að sækja um.

ATH. Nemendur skólans sem þegar hafa valið sér áfanga fyrir haustönn eiga ekki að sækja um skólavist í gegnum Menntagátt.

25 maí 2009

Skólaslit 2009

Menntaskólanum á Ísafirði var slitið í 39 sinn við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 23. maí sl. Útskrifaðir voru 63 nemendur. Átta vélaverðir smáskipa, 4 luku A námi vélstjórnar og 4 luku 2. stigi vélstjórnar og 3 luku B námi vélstjórnar. Einnig var útskrifaður 1 húsasmiður og 1 sjúkraliði, 2 stálsmiðir og 3 nemendur af starfsbraut. Alls brautskráðust 35 stúdentar. Einn meistari í dúklögn og veggfóðrun var brautskráður og einn meistari í bifreiðasmíði. Útskriftarnemarnir Margrét Theódórsdóttir, Fjóla Aðalsteinsdóttir, Halldór Smárason og Smári Alfreðsson léku á hljóðfæri, fulltrúar afmælisárganga fluttu ávörp og verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur. Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Halldór Smárason stúdent af náttúrufræðbraut. Hann hlaut 1. ágætiseinkunn 8.82.

 

19 maí 2009

Kaffisamsæti útskriftarnema

Útskriftarnemar kvöddu kennara og starfsfólk skólans með veglegu kaffisamsæti við lok kennslu í vor. Löng hefð er fyrir þessari kveðjustund og er hlaðborðið alltaf jafnglæsilegt og nemendur og starfsfólk gerðu kræsingunum góð skil. Fleiri myndir eru á myndasíðunni.
6 maí 2009

Umsókn um skólavist haustið 2009

Umsókn um skólavist í Menntaskólanum á Ísafirði haustið 2009 fer fram í gegnum www.menntagatt.is Umsóknarfrestur er til 11. júní 2009.
4 maí 2009

Vorpróf eru hafin

Nú eru próf vorannar hafin en þau standa til 15. maí. Sjúkra- og endurtektarpróf eru 18. og 19. maí. Próftaflan er aðgengileg hér á heimasíðunni og einstaklingspróftöflur er að finna í INNU. Nemendur eru minntir á að mæta stundvíslega í próf og hafa aðeins með sér leyfð hjálpargögn. Með ósk um gott gengi í prófunum.

Prófstjóri
18 apr 2009

Daði og Halldór í 2. sæti

Þeir félagar Daði Már Guðmundarson og Halldór Smárason lentu í 2. sæti í Söngkeppni framhaldsskólanna. Flutningur þeirra á laginu Kósýkvöld tókst mjög vel og féll auðsjáanlega í kramið hjá dómnefnd og áheyrendum. Ásamt þeim Daða og Halldóri tóku Smári Alfreðsson og Baldur Sigurlaugsson þátt í flutningnum en þeir léku á blásturshljóðfæri. Þeim er öllum óskað til hamingju með þennan frábæra árangur sem er sá besti sem keppendur frá MÍ hafa náð en framlag skólans lenti í 3. sæti árið 2002. Til gamans má geta þess að hljómborðs- leikari hljómsveitarinnar Bermuda sem sá um undirleik á keppninni er Ingvar Alfreðsson eldri bróðir Smára og fyrrum nemandi skólans.
17 apr 2009

Söngkeppni framhaldsskólanna

Daði Már Guðmundarson og Halldór Smárason keppa fyrir hönd Menntaskólans á Ísafirði í söngkeppni framhaldskólanna sem fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri á laugardaginn. Daði og Halldór munu syngja lagið „Kósýkvöld" eftir Baggalút. Þeim félögum er óskað góðs gengið í keppninni sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2.
2 apr 2009

Heimsókn frá Svendborg Gymnasium

Þessa dagana eru góðir gestir hér í skólanum. Þetta eru 28 nemendur frá Svendborg Gymnasium ásamt kennurum sínum. Skóla þennan sem er í borginni Svendborg á Fjóni heimsóttu starfsmenn MÍ s.l. vor og upp úr því spratt samstarf sem nú skilar sér í þessari heimsókn. Dönsku nemendurnir eru virkir þátttakendur í tímum hjá okkur og taka m.a. að sér kennslu og kynningar á ýmsu efni. Í fundartíma 2. apríl verða Danirnir með kynningu á skólanum sínum og heimabænum Svendborg á sal.