17 nóv 2008

Menntamálaráðherra kynnir nýja menntastefnu á Ísafirði

Þessa dagana er menntamálaráðherra á ferð um landið að kynna nýja menntastefnu og ný lög um þrjú skólastig og menntun kennara. Næsti fundur verður haldinn í Menntaskólanum á Ísafirði miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20. Á fundinum mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kynna nýja menntastefnu og Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, kynnir nýja menntalöggjöf nánar. Að erindum loknum verða pallborðsumræður með málshefjendum ásamt Guðna Olgeirssyni og Sölva Sveinssyni, sérfræðingum í menntamálaráðuneyti. Fundarstjóri verður Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundurinn er öllum opinn og vill menntamálaráðuneytið hvetja skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál til að mæta og ræða nýja menntalöggjöf sem býður upp á mörg og spennandi tækifæri fyrir íslenskt skólakerfi.

17 nóv 2008

Umsjónartími vegna prófa

Í fundartíma fimmtudaginn 21. nóvember eiga nemendur að hitta umsjónarkennara sína í umsjónarstofum. Farið verður yfir ýmis mikilvæg atriði er varða haustannarprófin sem eru framundan. Sérstaklega er mikilvægt að nemendur kanni stöðu sína vegna mætinga og hvort þeir hafa próftökurétt.
29 okt 2008

VAL VORANNAR

Nemendur bóknámsbrauta og sjúkraliðanemar eru minntir á að velja sér áfanga fyrir vorönn 2009. Hér eru leiðbeiningar með rafrænu vali í INNU.
13 okt 2008

Heimsókn frá Frakklandi

Nemendur frá samstarfsskóla okkar Lycée Sainte Marie du Port í Sable d´Olonne eru í heimsókn þessa vikuna. Þau komu á föstudaginn og verða hér fram á fimmtudag. Um helgina fóru þau m.a. á Hrafnseyri, í Dýrafjörð og á Flateyri og Suðureyri. Þau munu einnig heimsækja Bolungarvík o.fl á meðan á dvölinni stendur. Við vonum að þau njóti dvalarinnar en nemendur úr MÍ munu endurgjalda þeim heimsóknina í mars á næsta ári.
10 okt 2008

Gettu betur í vetur

Það voru þau Hallberg Brynjar Guðmundsson, Halldór Smárason og Þorgerður Þorleifsdóttir sem sigruðu í spurningakeppninni Gettu betur í vetur. Þau lögðu lið Ásgeir Guðmundar Gíslasonar, Hjalta Más Magnússonar og Stefáns Pálssonar í spennandi úrslitaviðureign. Áhugi og árangur keppenda hefur verið mikill í kringum keppnina og er tilvonandi þátttakendum í Gettu betur keppni framhaldsskólanna óskað góðs gengis.
10 okt 2008

Frá Heimili og skóla

Landsamtökin Heimili og skóli hafa sent skólanum skilaboð til birtingar á heimasíðunni. Skilaboðin er hægt að nálgast hérna.
10 okt 2008

Reglur um dreifnámið

Nemendum er bent á að kynna sér vel eftirfarandi reglur um dreifnám:
Greiða skal innritunar- og kennslugjald við upphaf annar.
Dreifnám í MÍ er lotunám. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 6 lotum á hverri önn. Samkvæmt 6 lotu skipulagi er lagt inn efni annan hvern þriðjudag.

 

Meira

9 okt 2008

Kappróður á Pollinum

Hinn árlegi kappróður Menntaskólans á Ísafirði fór fram 9. október og er þetta í áttunda sinn sem keppnin er haldin. Fimm lið tóku þátt í keppninni að þessu sinni en veðrið var ekki eins hagstætt og í fyrri róðrarkeppnum. Að þessu sinni tókst kennurum að fara með sigur af hólmi í karlaflokki en hinar óreyndu "Ungmeyjar" komu öllum á óvart og sigruðu "Stellurnar" í hörkuspennandi keppni. Fleiri myndir úr kappróðrinum eru á myndasíðunni.
9 okt 2008

Vélstjórnarnemar á Sjávarútvegssýningunnni

Nemendur á 3. stigi vélstjórnar fóru á dögunum í námsferð suður á land ásamt Guðmundi Þór Kristjánssyni kennara sínum. Þeir skoðuðu Íslensku sjávarútvegssýninguna og fóru í skoðunarferð í Hellisheiðarvirkjun. Nemendur voru afar ánægðir með ferðina en styrkir frá ýmsum vestfirskum fyrirtækjum gerðu hana mögulega. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni og nokkrar í viðbót eru komnar inn á myndasíðuna hér til hægri.
29 sep 2008

Góðir gestir

Þann 29 september sl. komu fulltrúar frá Vestfjarðadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga færandi hendi í skólann. Þær færðu sjúkraliðabraut skólans blóðþrýstingsmæli til minningar um Pálínu Elíasdóttur fyrrum nemanda á sjúkraliðabrautinni og í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri en hún hefði orðið fertug þennan dag.Pálína lauk sjúkraliðanámi frá MÍ og einnig stúdentsprófi. Hún stundaði fjarnám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri þegar hún lést. Hún var í hópi fjarnámsnema sem sóttu tíma gegnum fjarfundarbúnað í MÍ og höfðu einnig vinnuaðstöðu á heimavist skólans. Stjórnendur skólans færa Vestfjarðadeildinni kærar þakkir fyrir gjöfina.