22 feb 2024

Sólrisuvika og gróskudagar

Framundan er ein skemmtilegasta vika skólaársins, sjálf Sólrisuvikan. Að fagna komu sólarinnar með sólrisuhátíð hefur verið fastur liður í skólahaldinu síðan árið 1974. Sólrisunefnd nemendafélagsins skipuleggur dagskrá með fjölbreyttum viðburðum í frímínútum, hádegi og á kvöldin. Þá verður óhefðbundin kennsla tvo daga í vikunni en slíkir gróskudagar eru orðnir órjúfanlegur hluti af sólrisuvikunni. Á gróskudögum velja nemendur sér smiðjur í stað hefðbundinna kennslustunda, má þar nefna dæmi eins og brauðtertugerð, kleinubakstur, boccia, útivist, dans, spinning, smíði og hugleiðslu en alls eru rúmlega 40 ólíkar smiðjur í boði í ár.

Sólrisuhátíðin verður sett með skrúðgöngu í hádeginu mánudaginn 26. febrúar og stendur alla vikuna. Leikfélag MÍ mun svo frumsýna Dýrin í Hálsaskógi viku síðar eða föstudaginn 8. mars. Við vonum að sem flest geti notið þess sem boðið verður upp á og hafi gaman af með sól í hjarta.

Nemendur geta valið sér smiðjur á gróskudögum hér:

 Skráning í gróskusmiðjur

 

22 feb 2024

MÍ keppir í Gettu Betur í kvöld

Í kvöld keppir lið skólans í 8 liða úrslitum Gettu Betur. Mótherjinn að þessu sinni er lið Verslunarskóla Íslands og verður viðureignin í beinni útsendingu á RÚV kl. 20:05. Er þetta í þriðja sinn í sögunni sem lið frá MÍ nær svo langt í keppninni. Liðið í ár skipa Daði Hrafn Þorvarðarson, Mariann Raehni, Saga Líf Ágústsdóttir og Signý Stefánsdóttir. Þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson. Í morgun fór rúta frá MÍ til Reykjavíkur með rúmlega 40 nemendur sem munu styðja lið MÍ í sjónvarpssal. Við óskum keppendunum góðs gengis í kvöld.

15 feb 2024

MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2023

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í dag viðurkenningu í Stofnun ársins 2023 en skólinn varð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana (40-89 starfsmenn). Skólinn hlýtur þar með sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Er þetta í annað skiptið sem skólinn hlýtur viðurkenningu í Stofnun ársins en skólinn var í fyrra hástökkvari ársins og var þá sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best árið 2022.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

„Við erum mjög stolt af þessum árangri. Hér er ákaflega góður starfsmannahópur og starfsandinn góður. Það er gott að fá samanburðinn við aðrar ríkisstofnanir og sjá að við stöndum okkur vel í þeim samanburði. Við tókum stórt stökk í fyrra og ánægjulegt að við höldum áfram að bæta okkur. Á sama tíma er þessi góði árangur hvatning til að gera enn betur því mannauðurinn er okkar stærsta auðlind“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Hér má sjá niðurstöður allra stofnana sem tóku þátt í könnuninni.

 

14 feb 2024

Vetrarfrí 15. - 19. febrúar

Vetrarfrí er í skólanum 15. - 19. febrúar og því engin kennsla.

Hlökkum til að fá ykkur til baka endurnærð þriðjudaginn 20. febrúar.

13 feb 2024

Laus störf við kennslu næsta vetur

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir þrjár lausar stöður í kennslu. Um er að ræða kennslu í húsasmíði, kennslu í rafiðngreinum og kennslu í vélstjórnargreinum á A- og B-stigi. Leitað er að einstaklingum sem hafa áhuga á fjölbreyttri kennslu í stað- og dreifnámi, eru færir í samskiptum og falla vel að aðstæðum og þörfum skólans. 

Nánari upplýsingar um störfin og umsóknaeyðublöð má finna á www.starfatorg.is  og á eftirfarandi tenglum: 

Kennari í húsasmíði

Kennari í rafiðngreinum

Kennari í vélstjórnargreinum á A- og B-stigi

 

Umsóknarfrestur er til 29. febrúar, nánari upplýsingar veita Heiðrún skólameistari á heidrun@misa.is og Dóróthea aðstoðarskólameistari á dorothea@misa.is

6 feb 2024

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Í dag, 6. febrúar, er alþjóðlegi netöryggisdagurinn (e. Safer Internet Day). Dagurinn er haldinn árlega víða um heim til að vekja athygli á öryggi barna og ungmenna á netinu og hvetja til góðra samskipta. Á heimasíðu SAFT (www.saft.is) er að finna margskonar fróðleik og námsefni fyrir börn og ungmenni um örugga netnotkun. Þar er einnig að finna heilræði og leiðbeiningar fyrir fyrir foreldra. 

5 feb 2024

Jöfnunarstyrkur - umsóknarfrestur til 15. febrúar

Athygli er vakin á að umsóknarfrestur um jöfnunarstyrk vegna vorannar 2024 er til 15.febrúar næstkomandi. Jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem búa og stunda nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni. 

Jöfnunarstyrkur skiptist í dvalarstyrk og akstursstyrk:

  1. Akstursstyrkur er ætlaður þeim nemendum sem keyra daglega í skólann frá lögheimili sínu. Lögheimili má þó ekki vera í nágrenni skóla, sjá töflu um skilgreiningar á nágrenni skóla hér fyrir ofan. Akstursstyrkur er einnig fyrir þá nemendur sem búa ekki í foreldrahúsum en geta ekki sýnt fram á leigugreiðslur.

  2. Dvalarstyrkur er fyrir þá nemendur sem flytja a.m.k. 30km frá lögheimili sínu og fjölskyldu til þess að geta stundað nám sitt, það er, þeir nemendur sem eru á heimavist og/eða greiða leigu.

Eingöngu er hægt að sækja um jöfnunarstyrkinn með rafrænum skilríkjum á heimasíðunni www.menntasjodur.is Fyrir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á menntasjodur@menntasjodur.is.

31 jan 2024

Stöðupróf í rússnesku

Stöðupróf verður haldið í rússnesku í Menntaskólanum við Sund föstudaginn 9. febrúar kl. 14-16. Próftökugjald er 15.000 kr. og er óendurkræft. Nemendur geta fengið allt að 20 einingar metnar í tungumálinu.

Próftakar þurfa að millifæra prófgjaldið í síðasta lagi fyrir kl. 12:00 þriðjudaginn 6. febrúar og mæta með kvittun fyrir greiðslu og skilríki í prófið.

Nánari upplýsingar eru hér á heimasíðu MS

Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri veitir nánari upplýsingar og aðstoð varðandi skráningu í prófið, martha@misa.is

19 jan 2024

MÍ komið áfram í sjónvarpshluta Gettu betur

Nú rétt í þessu lauk viðureign MÍ og Framhaldsskólans á Laugum í 2. umferð Gettu betur. MÍ vann viðureignina 18-7. Það þýðir að MÍ er kominn áfram í næstu umferð sem fer fram í sjónvarpi. Er það í 3. skipti sem skólinn nær svo langt að keppa í sjónvarpi. Til hamingju Daði Hrafn, Mariann, Saga Líf, Signý og þjálfararnir Einar Geir og Jón Karl.

19 jan 2024

MÍ keppir í Gettu betur í kvöld

Í kvöld keppir lið skólans í 2. umferð Gettu betur. Mótherjar að þessu sinni er Framhaldsskólinn á Laugum. Keppnin fer fram á RÁS 2 kl. 19:23. Áfram MÍ!