10 des 2019

Vegna óveðurs í dag

Vegna ört versnandi veðurs fellur kennsla niður í skólanum í dag. Skrifstofa skólans er einnig lokuð. Vinsamlegast sendið fyrirspurnir ef einhverjar eru á netfangið misa@misa.is  

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur, í samráði við lögreglustjóra allra umdæma landsins, lýst yfir óvissustigi vegna óhagstæðrar veðurspár.

Auk þess mælist almannavarnarnefnd Ísafjarðarbæjar til þess að börn verði heima þriðjudaginn 10. desember. 

Eins hvetur lögreglan til þess að fólk sé ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Ef veðurspáin gengur eftir verður ekkert ferðaveður á þriðjudag, hvorki innanbæjar né utan.

9 des 2019

Viðbrögð við slæmri veðurspá

Til nemenda, forráðamanna og starfsfólks MÍ
 
Mjög slæm veðurspá er nú fyrir næstu tvo sólarhringa. Stjórnendur skólans munu ekki senda út tilkynningu um að skólahald falli niður vegna óveðurs eða ófærðar enda er það ekki í þeirra verkahring að meta slíkt. Mikilvægt er að nemendur og forráðamenn þeirra og starfsfólk skólans fylgist með veðurspá og viðvörun frá Veðurstofu Íslands og jafnframt að kanna færð á vegum hjá Vegagerðinni. Einnig er mikilvægt að fylgjast með tilkynningum frá lögreglu og almannavörnum á samfélagsmiðlum þegar óveður geisar. Ef nemendur treysta sér ekki í skólann vegna veðurs þá þurfa þeir að tilkynna það á skrifstofu skólans, eða forráðamenn þeirra, séu nemendur yngri en 18 ára. 
 
Skólameistari

 

6 des 2019

Jólavika í MÍ

Vikan hér í MÍ hefur borið þess merki að það styttist í jólin. Vikan hófst á jólapeysudegi, keppt hefur verið í piparkökuhúsaskreytingum og jólaspurningakeppni auk þess sem stjórn NMÍ bauð nemendum og starfsfólki upp á heitt kakó við komuna í skólann í gærmorgun. Í dag komu síðan leikskólabörn í heimsókn og dönsuðu með nemendum og starfsfólki í kringum jólatréð. Alla vikuna hefur farið fram samkeppni um best jólaskreytta borðið í Gryfjunni og verða úrslitin tilkynnt í kvöld en þá fagna nemendur og starfsfólk fullveldisdeginum í Félagsheimilinu í Bolungarvík.

27 nóv 2019

Skólamálaþing

Fimmtudaginn 28. nóvember verður haldið skólamálaþing í Menntaskólanum á Ísafirði. Þingið verður með þjóðfundarsniði þar sem nemendur og starfsmenn munu taka fyrir 3 málefni sem tengjast skólanum. Þingið hefst kl. 9:10 og lýkur með að boðið verður upp á góðar veitingar. Skólamálaþingið fer fram í Gryfjunni. 

26 nóv 2019

Þjónustusamningur við Snerpu undirritaður

Nýr þjónustusamningur um tölvu- og vefþjónustu fyrir skólann var undirritaður við Snerpu ehf í gær. Þeir Björn Davíðsson framkvæmdastjóri Snerpu og Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari skrifuðu undir samninginn og svo skemmtilega vildi til að það var einmitt á 25 ára afmælisdegi Snerpu, þann 25. nóvember. Við óskum Snerpu til hamingju með afmælið og þökkum samstarfið í gegnum árin, sem vonandi verður farsælt hér eftir sem hingað til.

15 nóv 2019

Frá Vísindadögum 2019

Vísindadagar 2019 voru haldnir 13. og 14. nóvember s.l. Í stað hefðbundinnar kennslu þess daga var fjölbreytt dagskrá í boði. Nemendur kynntu ýmis verkefni sem þeir hafa verið að fást við á önninn, fyrir samnemendum og starfsfólki skólans. Einnig komu góðir gestir í skólann frá rannsóknarsamfélagi Vestfjarða og kynntu rannsóknir og vísindastörf af ýmsum toga. Þátttaka nemenda var mjög góð og skemmtilegt og fræðandi var að fylgjast með kynningum nemenda sem og með kynningum frá rannsóknarsamfélaginu. Í lok Vísindadaga voru veitt verðlaun fyrir áhugaverðar kynningingar og vísindagetraun. Vísindadaganefnd sem skipuð var kennurunum Einari Þór, Júliu og Jóhanni fær kærar þakkir fyrir góðan undirbúning. Einnig er þátttakendum frá rannsóknarsamfélagi Vestfjarða þakkað kærlega fyrir sitt framlag og vonandi mun samstarf halda áfram við skólann á þessum vettvangi. Síðast en ekki síst fá allir nemendur skólans kærar þakkir fyrir góða og virka þátttöku í Vísindadögum.

12 nóv 2019

Vísindadagar

Á miðvikudaginn 13. og fimmtudaginn 14. nóvember eru Vísindadagar í MÍ en þá fellur hefðbundin kennsla niður og nemendur kynna margvísleg verkefni fyrir samnemendum sínum og starfsfólki. Að þessu sinni verða einnig fjölbreyttar kynningar frá rannsóknarsamfélagi Vestfjarða. Dagskráin hefst með setningu kl. 8.10 í Gryfju á morgun, miðvikudag og eins og sjá má hér er dagskráin metnaðarfull og margt áhugavert í boði. Ávextir verða í boði í löngu frímínútum og skúffukaka við lokaathöfn. Á lokaathöfn verða verðlaun veitt fyrir kynningar, en einnig fyrir vísindagetraun sem verður í gangi á meðan á kynningum stendur.

Góða skemmtun!

12 nóv 2019

Vísindadagar

Á miðvikudaginn 13. og fimmtudaginn 14. nóvember eru Vísindadagar í MÍ en þá fellur hefðbundin kennsla niður og nemendur kynna margvísleg verkefni fyrir samnemendum sínum og starfsfólki. Að þessu sinni verða einnig fjölbreyttar kynningar frá rannsóknarsamfélagi Vestfjarða. Dagskráin hefst með setningu kl. 8.10 í Gryfju á morgun, miðvikudag og eins og sjá má er dagskráin metnaðarfull og fjölbreytt. Ávextir verða í boði í löngu frímínútum og skúffukaka við lokaathöfn. Á lokaathöfn verða verðlaun veitt fyrir kynningar, en einnig fyrir vísindagetraun sem verður í gangi á meðan á kynningum stendur.

Góða skemmtun!

7 nóv 2019

Lotumat 2

Seinna lotumat haustannar 2019 er nú aðgengilegt á upplýsingavef framhaldsskóla, INNU, www.inna.is

Nemendur Menntaskólans á Ísafirði fá lotumat tvisvar á önn. Með matinu vill skólinn upplýsa bæði nemendur og foreldra/forráðamenn um stöðu og gengi nemenda í einstökum fögum. Lotumatið felst í því að kennari nemenda í hverri grein metur stöðu nemenda sinna. Eru nemendur metnir á grundvelli þess hversu vel þeir hafa sinnt náminu sem og ástundun og mætingu. Í matinu felast þannig ábendingar til nemenda og foreldra/forráðamanna um hvað vel er unnið og hvar nauðsynlegt er að gera betur.

 Lotumatinu er skipt í fjórar einkunnir sem gefnar eru í bókstöfum. Námsmatið er samræmt og eru gefnar einkunnir fyrir árangur í hverri grein:

 

Einkunn

Mat

A

Ágætt

Nám í afar góðum farvegi, nemandi hefur staðið sig vel bæði í verkefnum og á prófum.
G

Gott

Nám í góðum farvegi, nemandi hefur  staðið sig þokkalega bæði í verkefnum og á prófum.
S

Sæmilegt

Nemandi þarf að bæta námsvinnu.
O

Óviðunandi

Námsvinnu verulega ábótavant og stefnir í óefni.

 

Umsjónarkennarar nýnema ræða við alla sína umsjónarnemendur eftir lotumatið. Nemendur sem koma ekki vel út úr matinu eru kallaðir í viðtal við náms- og starfsráðgjafa.