17 jan 2019

Morfís - MÍ átti ræðumann kvöldsins en tapaði þrátt fyrir það.

Morfís lið MÍ keppti við MA í sextán liða úrslitum á Akureyri í gær. MA fór með sigur af hólmi í keppninni sem var spennandi og skemmtileg. Bæði liðin stóðu sig mjög vel og aðeins var 50 stiga munur á heildarstigafjölda liðanna, sem ekki telst mikið í Morfís keppnum. Pétur Ernir Svavarsson var valinn ræðumaður kvöldsins en auk hans skipuðu þau Ásrós Helga Guðmundsdóttir, Ína Guðrún Gísladóttir og Magni Jóhannes Þrastarson lið MÍ. Þjálfarar liðsins í ár voru þau Ingunn Rós Kristjánsdóttir og Hákon Ernir Hrafnsson. Liðinu og þjálfurum þess er þakkaður góður undirbúningur og frammistaða í keppninni.

15 jan 2019

Gettu betur - MÍ beið lægri hlut fyrir sterku liði FSU

Lið MÍ beið því miður lægri hlut fyrir sterku liði FSU en viðureignin í 2. umferð Gettu betur fór 26-17 fyrir FSU. Þeim Davíð Hjaltasyni, Einari Geir Jónssyni og Þuríði Kristínu Þorsteinsdóttur eru færðar kærar þakkir fyrir þá vinnu sem þau lögðu í undirbúninginn og fyrir flotta frammistöðu. 

14 jan 2019

MÍ mætir FSU í 2. umferð Gettu betur

Gettu betur lið skólans gerði sér lítið fyrir og sigraði MS í fyrstu umferð keppninnar sem fram fór á Rás 2 þann 7. janúar s.l. MÍ-ingum gekk mjög vel og náðu 24 stigum gegn 9 stigum MS. Næst mætir liðið Fjölbrautaskóla Suðurlands sem komst áfram í 2. umferð með því að sigra Menntaskólann á Egilsstöðum með 19 stigum gegn 16. Það er því æsispennandi viðureign framundan hjá okkar fólki í kvöld, en keppninni er sem fyrr segir útvarpað á Rás 2 og hefst kl. 19.30. Davíð Hjaltason, Einar Geir Einarsson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir skipa lið MÍ og er þeim óskað góðs gengis í keppninni!

4 jan 2019

Upphaf vorannar 2019

Menntaskólinn á Ísafirði óskar nemendum, starfsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs árs, með kærri þökk fyrir samstarfið á árinu 2018.

Skólastarf á vorönn hefst þann 7. janúar kl. 8.10 og kennt verður samkvæmt stundaskrá. Nemendur sem þurfa á töflubreytingum að halda geta sótt um þær í gegnum INNU. Opnað verður fyrir stundatöflur nemenda í INNU þann 4. janúar. Nemendur sem þurfa á töflubreytingum að halda geta sótt um þær í gegnum INNU. Heimavistin verður opin frá 6. janúar og nýir heimavistarbúar þurfa að hitta fjármálastjóra 7. janúar og skrifa undir samning. Mötuneyti skólans verður opið frá 7. janúar.

Með ósk um gott gengi og gott samstarf á vorönn 2019!

23 des 2018

Brautskráning nemenda 19. desember

Miðvikudaginn 19. desember voru 24 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Tveir nemendur útskrifuðust með framhaldsskólapróf af lista- og nýsköpunarbraut, tveir sjúkraliðar voru útskrifaðir, einn nemandi var útskrifaður með A-réttindi skipstjórnar og einn með B-réttindi skipstjórnar. Nítján nemendur útskrifuðust með stúdentspróf af bóknámsbrautum. Einn nemandanna lauk bæði sjúkraliðaprófi og stúdentsprófi. Þá fengu tveir fyrrum nemendur skólans afhent skírteini sín, en þeir voru að útskrifast frá Tækniskóla Íslands  Í athöfninni voru skírteini afhent og útskriftarnemar fluttu tónlistaratriði auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur og framfarir í námi. Skólinn óskar öllum útskriftarnemum góðs gengis í framtíðinni og þakkar þeim samstarf og samveru undanfarin ár.

19 des 2018

Brautskráning á haustönn

Miðvikudaginn 19. desember verða 24 nemendur brautskráðir frá skólanum. Þetta eru tveir nemendur af lista- og nýsköpunarbraut, tveir sjúkraliðar, einn nemandi af skipstjórnarbraut A og einn af skipstjórnarbraut B og 19 nemendur ljúka stúdentsprófi af ýmsum brautum. Einn nemendanna lýkur bæði sjúkraliðaprófi og stúdentsprófi. Þá munu tveir nemendur sem ljúka stúdentsprófi frá Tækniskóla Íslands taka þátt í athöfninni. Brautskráningarathöfnin mun fara fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 15. Í athöfninni munu útskriftarnemar flytja tónlistaratriði og verðlaun verða veitt fyrir góðan námsárangur. Allir eru velkomnir.

13 des 2018

Listsýning nemenda á fyrsta ári lista- og nýsköpunarbrautar

Nemendur á lista- og nýskpunarbraut sýndu verk sín sem þau hafa unnið í hönnunaráfanga og myndlistaráfanga á haustönn. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum voru verkefni margvísleg og sköpunargleði og hugmyndaauðgi í fyrirrúmi. Þarna mátti sjá teikningar og módel að einbýlishúsi, vörumerkjahönnu, leikmyndir, lampa, málverk, vídeóverk o.fl. Nemendum er óskað til hamingju með afraksturinn.

16 nóv 2018

Danskir málmiðnnemar í heimsókn

Síðustu þrjár vikur hafa dvalið hér fjórir málmiðnnemar frá EUC Lillebælt sem er stór verknámsskóli í Fredericia í Danmörku. Nemarnir fjórir, Dennis, Lasse, Morgen og Morgen Vigen, voru fyrstu tvo dagana hér í skólanum en héldu síðan til vinnu í fjórum ísfirskum málmiðnfyrirtækjum. Fyrirtækin fjögur voru Bílasmiðja SGB, Skaginn 3x, Vélsmiðja ÞM og Vélsmiðjan Þristur. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að taka á móti dönsku nemunum.

Samstarfið við EUC Lillebælt hefur staðið yfir frá árinu 2011 og hefur verið farsælt. Frá upphafi hefur Tryggvi Sigtryggsson, fyrrum málmiðnkennari skólans, haft umsjón með verkefninu. Á vorönn munu nemendur MÍ fara til sambærilegrar dvalar í Danmörku. Er verkefnið gott dæmi um vel heppnað samstarf milli skóla, fyrirtækja og landa sem stækkar svo um munar sjóndeildarhring þeirra sem að koma.

14 nóv 2018

Nýnemar í heimsókn í Safnahúsið

Í morgun fóru nýnemarnir okkar í heimsókn í Safnahúsið á Ísafirði. Þar tók Edda Bjôrg Kristmundsdóttir bæjarbókavôrður á móti hópunum og kynnti starfsemi bókasafnsins.

Kynningin á bókasafninu er hluti af þeirri fræðslu sem nemendur í náms- og starfsfræðslu fá innan og utan skólans með velvilja félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Fyrr í vetur hafa nemendur t.a.m. fengið kynningu á geð- og kynheilbrigði, umferðaröryggi og fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.  

Áfanginn náms- og starfsfræðsla er skylduáfangi sem allir nýnemar taka á haustin. Kennarar í áfanganum eru Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir og Stella Hjaltadóttir.

13 nóv 2018

Innritun stendur yfir

Nú stendur yfir innritun fyrir vorönn 2019, annars vegar í fjarnám og hins vegar í annað nám innan skólans.

Stefnt er að því að fara af stað með nýjan hóp í skipstjórnarnámi A ef næg þátttaka næst. Námið gefur réttindi til að gegna stöðu skipstjóra eða stýrimanns á skipum sem eru styttri en 24 metrar að skráningarlengd og stöðu undirstýrimanns á skipum að 45 metum að skráningarlengd í innanlandssiglingum.

Laus pláss eru á allar stúdentsbrautir skólans sem og á 2. ár eftirtaldra brauta; grunndeild málmiðna, lista- og nýsköpunarbraut, sjúkraliðabraut og vélstjórn A.

 

Frekari upplýsingar um nám við skólann gefa Hildur Halldórsdóttir aðstoðarskólameistari og Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri. Hægt er að sækja um bæði fjarnám og svo annað nám í skólanum hér:

 

Sækja um skólavist

 

Sækja um fjarnám