Fréttir

30 jan 2018

Aðstoð í stærðfræði

Næstu tvo fimmtudaga, 1. og 8. febrúar, munu þriðja árs nemar úr STÆR3TD05, undir leiðsögn Dórótheu Margrétar Einarsdóttur kennara, bjóða upp á sérstaka aðstoð í stærðfræði. Aðstoðin verður í boði í fundartímanum, kl. 10:30-11:30 í stofu 5, sömu stofu og heimanámsaðstoðin.

 

Allir nemendur sem eru í stærðfræði eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu og ef vel tekst til verður framhald á henni.

29 jan 2018

Nemandi MÍ í úrslit í líffræðikeppni

Nokkrir nemendur MÍ tóku á dögunum þátt í landskeppni framhaldsskólanna í líffræði 2018. Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson gerði sér lítið fyrir og lenti í 4.-5. sæti keppninnar. Hann er því kominn áfram í úrslitakeppnina og á möguleika á að tryggja sér sæti í íslenska ólympíuliðinu. Við óskum Kolbeini innilega til hamingju og þökkum öðrum nemendum kærlega fyrir þátttökuna. Einnig eru Ragnheiði Fossdal líffræðikennara í MÍ færðar kærar þakkir fyrir að hvetja nemendur til þátttöku og styðja þá í undirbúningi.

25 jan 2018

Sólarkomu fagnað

Í morgun fögnuðu nemendur og starfsmenn því að nú fer sólin að sjást aftur í byggð. Útskriftarferðafarar buðu af því tilefni upp á sólarkaffi og má segja að borðin hafi svignað undan kræsingum þar sem pönnukökur voru þó í fyrirrúmi. Hefðin fyrir sólarkaffi, í tilefni af sólarkomu í byggð, er yfir 100 ára gömul hér á Ísafirði og nokkuð löng hefð er fyrir sólarkaffi innan skólans.

 

 

24 jan 2018

Mikið af íþróttafólki í MÍ

Margir nemendur MÍ leggja stund á hinar ýmsu íþróttir. Um helgina fór fram kjör á íþróttamanni ársins og efnilegasta íþróttamanni Ísafjarðarbæjar. Báðir koma þeir úr röðum nemenda MÍ. Albert Jónsson skíðagöngumaður úr SFÍ var kjörinn íþróttamaður ársins og Þórður Gunnar Hafþórsson knattspyrnumaður úr Vestra kjörinn efnilegasti íþróttamaðurinn.

Fleiri nemendur voru tilnefndir af sínum félögum sem bestu eða efnilegustu íþróttamenn í sinni íþróttagrein. Auður Líf Benediktsdóttir var tilnefnd sem íþróttamaður ársins af Blakdeild Vestra, Birkir Eydal var tilnefndur sem efnilegasti íþróttamaðurinn af Knattspyrnudeild Harðar og sömuleiðis var Hafsteinn Már Sigurðsson tilnefndur sem efnilegasti íþróttamaðurinn af Blakdeild Vestra. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með útnefningarnar. Frábær árangur sem vonandi verður framhald á.

24 jan 2018

Sólarkaffi

Á morgun, fimmtudaginn 25. janúar, verður boðið upp á sólarkaffi í skólanum. Um kaffið sjá útskriftarferðarfarar. 25. janúar er hinn eiginlegi sólardagur Ísfirðinga en sólardagur er miðaður við þann dag er sól sleikir Sólgötu við Eyrartún (ef veður leyfir) eftir langa vetursetu handan fjalla. Á Ísafirði hvefur sólin á bak við fjöll seint í nóvember og birtist aftur í lok janúar. Í meira en 100 ár hafa Ísfirðingar fagnað komu sólar með því að drekka sólarkaffi og gæða sér á pönnukökum (upplýsingar fengnar af vef Landspóstins). Nokkuð löng hefð er fyrir sólarkaffinu innan skólans.

15 jan 2018

MÍ keppir í Gettu betur

Í kvöld, 15. janúar, keppir MÍ í annarri umferð Gettu betur - spurningakeppni framhaldsskólanna. Keppnin fram fram kl. 21:00 á Rás 2 og koma andstæðingar MÍ að þessu sinni frá Menntaskólanum á Akureyri. Lið MÍ skipa Emil Uni Elvarsson, Sonja Katrín Snorradóttir og Veturliði Snær Gylfason. Varamaður er Sigríður Erla Magnúsdóttir. Um utanumhald liðsins sér Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson málfinnur skólans. Við óskum keppendum okkar góðs gengis í kvöld. Áfram MÍ!

21 des 2017

Útskrift og jólafrí

Í dag útskrifuðust 7 nemendur frá skólanum. Tveir nemendur útskrifuðust með B-réttindi skipstjórnar, 1 nemandi með B-réttindi vélstjórnar, 1 sjúkraliði og 3 stúdentar. Skólinn færir útskriftarefnum og fjölskyldum þeirra hamingjuóskir í tilefni dagsins. Útskriftin markaði lok haustannar en skólastarf hefst að nýju 4. janúar 2018. Skrifstofa skólans opnar aftur eftir jólafrí þann 3. janúar. Menntaskólinn á Ísafirði óskar starfsfólki sínu, nemendum, fjölskyldum þeirra og öllum velunnurum skólans gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

7 des 2017

Námsmatsdagar

Í dag, 7. desember, var síðasti kennsludagur haustannar og við taka námsmatsdagar til 15. desember. Misjafnt er í áföngum hvernig viðveru á námsmatsdögum er háttað með tilliti til verkefnaskila, hlutaprófa og fleira. Eru nemendur beðnir um að kynna sér fyrirkomulag námsmatsdaganna vel.

Opnað verður fyrir einkunnir í INNU föstudaginn 15. desember n.k. Kennarar hafa tíma til mánudagsins 18. desember kl. 16:00 að skila einkunnum. Eru nemendur beðnir um að sýna biðlund þangað til ef einkunnir eru ekki komnar inn í INNU þann 15. desember.

Skólastarf vorannar hefst fimmtudaginn 4. janúar 2018.

28 nóv 2017

Vísindadagar á miðvikudag og fimmtudag

Á morgun og fimmtudag, 29.-30. nóvember fara fram Vísindadagar en það eru óhefðbundnir skóladagar með þátttöku nemenda. Á Vísindadögum sýna nemendur hver öðrum og gestum þekkingarnám sitt. Allir nemendur eru vísindamenn en þeir eru mislangt komnir í öguðum vinnubrögðum við að afla sér þekkingar og svara knýjandi spurningum, t.d. með því að raða saman þekkingu á hugvitsamlegan hátt. Mikilvægur þáttur í sköpun nýrrar þekkingar er að deila henni hvert með öðru. Þessir dagar eru fyrir nemendur og þá þekkingu sem þeir vilja setja saman til að gera okkur öll vísari.

Meira