10 okt 2018

Kappróður 2018

Hinn árlegi kappróður MÍ var haldinn í blíðskaparveðri þann 10. október. Alls tóku átta lið þátt í keppninni að þessu sinni, en hvert lið er skipað sex ræðurum og einum stýrimanni. Mjótt var á munum á milli efstu liða en leikar fóru þannig að liðið bleikir fílar var í fyrsta sæti á tímanum 2:01.71. Í öðru sæti voru Georg og félagar á tímanum 02:04.40 en fast á hæla þeim kom Karlalið starfsmanna á tímanum 02:04.92. Að keppni lokinni grillaði stjórn nemendafélags MÍ ofan í mannskapinn. 

Við þökkum öllum liðunum kærlega fyrir þátttökuna og óskum sigurvegurunum innilega til hamingju. Heildarúrslit keppninnar má finna hér fyrir neðan.

Úrslit í kappróðri 2018

29 ágú 2018

Nýnemaferð 2018

Dagana 23.-24. ágúst fór fjölmennur hópur nýnema í náms- og samskiptaferð að Núpi í Dýrafirði ásamt 6 starfsmönnum skólans. Þegar komið var í Dýrafjörð var byrjað á góðri gönguferð út að eyðibýlinu Arnarnesi og síðan gengið að Núpi þar sem hádegisverður beið göngufólksins. Eftir hádegi var farið í göngu- og skoðunarferð í Skrúð, rúmlega aldargamlan skrúðgarð sem stofnaður var af sr. Sigtryggi Guðmundssyni skólastjóra Núpsskóla. Garðurinn var nýttur til kennslu í garðrækt og plöntufræði en einnig til að kenna nemendum að neyta grænmetis og garðjurta sér til heilsubótar. Síðan tók við frjáls tími fram að kvöldverði en að honum loknum var kvöldvaka í sal Núpsskóla. Nemendaráð skólans mætti á kvöldvökuna, tók þátt í leikjum og kynnti starf vetrarins. Daginn eftir var ratleikur fyrir hádegi, áður en haldið var til baka til Ísafjarðar. Ferðin gekk í alla staði vel og nemendur voru sér og skólanum til sóma.

28 ágú 2018

Starf á afreksíþróttasviðinu komið á fullt

Afreksíþróttasvið Menntaskólans hefur nú verið endurvakið. Afrekssvið var um tíma starfrækt við skólann undir stjórn Hermanns Níelssonar heitins íþróttakennara en hefur legið niðri í nokkur ár. Fyrst um sinn eru það íþróttafélögin Hörður, Skíðafélaga Ísfirðinga og blak-, knattspyrnu- og körfuboltadeildir Vestra sem eiga aðild að afreksíþróttasviði. Vonast er til að fleiri íþróttafélög bætist í hópinn á næstu misserum.

Afreksíþróttasviðið hentar vel nemendum sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi. Sviðið er þannig uppbyggt að á hverri önn taka nemendur 5 eininga áfanga sem samanstendur af íþróttaæfingum og bóklegri kennslu þar sem eitt ákveðið viðfangsefni er tekið fyrir. Á þessari önn er áherslan á næringarfræði. Íþróttaþjálfarar á vegum íþróttafélaganna sjá um þjálfun á íþróttaæfingum en Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir íþróttakennari sér um kennsluna í næringarfræði.

27 nemendur hafa nú skrifað undir samning um þátttöku á afreksíþróttasviðinu. Skuldbinda nemendur sig til að leggja hart að sér í námi og íþróttum auk þess að neyta ekki tóbaks, áfengis, árangursaukandi efna sem og annarra vímuefna. Mættu allir nemendurnir ásamt forráðamönnum á góðan fund hér í skólanum í gær og er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi verið í loftinu. Það er trú okkar hér í MÍ að afreksíþróttasviðið hafi mikið forvarnargildi og eigi eftir að auka tengingu milli nemenda í ólíkum íþróttagreinum sem og að stuðla að betri árangri nemenda, bæði í skóla og íþróttum.

22 ágú 2018

Nýnemaferð

Undanfarin ár hafa nýnemar í MÍ farið í nýnemaferð að Núpi í Dýrafirði. Ferðin er hugsuð sem náms- og samskiptaferð til að hrista nýnemahópinn saman. Á morgun halda nýnemar haustsins 2018 af stað í þessa skemmtilegu ferð. Nýnemahópurinn í ár er fjölmennur eða hátt í 70 nemendur og má reikna með líflegri og skemmtilegri ferð. Skoða má dagskrá ferðarinnar hér.

14 ágú 2018

Upphaf haustannar 2018

Starf haustannar 2018 er nú um það bil að hefjst. Skrifstofa skólans er nú opin frá kl. 8-16 mánudaga til fimmtudag og frá kl. 8-15 á föstudögum. 

Nýnemar munu mæta á nýnemakynningu miðvikudaginn 15. ágúst þar sem þeir hitta náms- og starfsráðgjafa ásamt stjórnendum skólans og fá upplýsingar um mikilvæg atriði við upphaf skólagöngu sinnar í MÍ.

Opnað hefur verið fyrir stundatöflur í INNU og nemendur sem þess óska geta fengið útprentað eintak á skrifstofu skólans frá og með mánudeginum 20. ágúst. Kennsla hefst þann sama dag kl. 8.10. Þá mæta nemendur samkvæmt hraðstundatöflu sem ætti að vera lokið um kl. 11. Töflubreytingar fara að þessu sinni fram í gegnum INNU. Nemendur aðrir en nýnemar hafa þegar fengið sendan póst þar sem ferlið við töflubreytingarnar er útskýrt. Námsgagnalisti er aðgengilegur í INNU en hann má einnig finna hér.

Mötuneyti skólans verður opið frá og með 20. ágúst. Hægt verður að kaupa annarkort í mötuneytið hjá ritara.

15 jún 2018

Afreksíþróttasvið endurvakið

Í haust verður endurvakið afreksíþróttasvið við Menntaskólann á Ísafirði. Á afrekssviði er boðið upp á sérsniðið nám sem hentar vel fyrir nemendur sem æfa mikið og vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi.

Nemendur á afreksíþróttasviði geta stundað nám á hvaða bóknámsbraut skólans sem er (félagsvísinda-, náttúruvísinda- og opinni stúdentsbraut). Einnig er hægt að stunda nám á sviðinu samhliða öðru námi við skólann í samráði við áfangastjóra. Nemandi sem útskrifast af sviðinu útskrifast með stúdentspróf/iðn- og starfsnámspróf auk útskriftar af afrekssviði.

 

Afreksíþróttasviðið er þannig upp sett að nemendur taka alls 30 einingar á sviðinu og er miðað við einn áfanga, 5 einingar, á önn. Hver áfangi skiptist þrennt:

1. Bókleg fræðsla 1 klst á viku

       S.s. næring, íþróttasálfræði, markmiðssetning, afrekshugsun …

2. Æfingar í íþróttagrein 2 klst á viku

       Æft er undir leiðsögn þjálfara í hverri íþróttagrein

3. Styrktarþjálfun

       Æft er undir leiðsögn íþróttakennara í samvinnu við sjúkraþjálfara

 

Ákveðnar kröfur eru gerðar til nemenda á afreksíþróttasviði:

  • Nemendur á afreksíþróttasviði þurfa að hafa stundað sína íþrótt í a.mk. 3 ár og vera virkir iðkendur í íþróttafélagi.
  • Nemendur þurfa að uppfylla viðmið um eðlilega námsframvindu (a.m.k. 25 einingar á önn).
  • Nemendur á afreksíþróttasviði mega ekki neyta tóbaks (sígarettur, rafsígarettur, munn- og neftóbak), áfengis- eða annarra vímuefna.
  • Skólasókn þarf að vera a.m.k. 95% en íþróttaleyfi eru gefin vegna æfinga- og keppnisferða.
  • Allir nemendur sem samþykktir verða á afreksíþróttasviðið þurfa að skrifa undir samning, ásamt forráðamönnum. Samningurinn felur í sér ofangreind atriði.
  • Ef nemandi uppfyllir ekki markmið um námsframvindu, námsárangur í afreksáfanganum eða skólasókn fær nemandi skriflega viðvörun og fund með íþróttakennara. Bæti nemandi ekki ráð sitt fyrirgerir hann rétti sínum til áframhaldandi náms á afreksíþróttasviði.

 

Efnisgjald á brautinni er 15.000 kr. á önn. Inni í því er æfingafatnaður, íþróttabúnaður o.fl. Gjaldið er innheimt með greiðsluseðli í heimabanka við upphaf hverrar annar.

 

Allir sem vilja fara á brautina þurfa að skila inn umsókn um afrekssviðið. Sótt er um hér.

 

Umsóknarfresturinn er stuttur eða til 21. júní n.k.

15 jún 2018

Laus störf í MÍ

 

Engin störf eru laus við skólann eins og er. 

11 jún 2018

5 luku sveinsprófi í húsasmíði

Á dögunum fór fram sveinspróf í húsasmíði í smíðastofum MÍ. Sveinsprófið skiptist í 2 klst skriflegt og 20 klst verklegt próf. 5 nýútskrifaðir húsasmíðanemendur þreyttu prófið og náðu þeir allir. Óskum við þeim Jóni Ólafi Gunnarssyni, Leifi Blöndal, Magnúsi Ellert Steinþórssyni, Vali Richter og Vilmari Ben Hallgrímssyni innilega til hamingju með sveinsréttindin sín. Kennarar þeirra hér í MÍ eru Fannar Þór Þorfinnsson og Þröstur Jóhannesson. Yfirsetumaður í sveinsprófinu var Rúnar Eyjólfsson.

28 maí 2018

79 nemendur brautskráðir frá MÍ

Laugardaginn 26. maí voru 79 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Brautskráðir voru 6 vélstjórar með A-réttindi, 1 nemendi af lista- og nýsköpunarbraut, 4 með skipstjórnarpróf A, 1 með skipstjórnarpróf B, 2 sjúkraliðar, 7 húsasmiðir og 62 stúdentar sem brautskráðust eftir tveimur ólíkum námskrám.

Með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi voru þær Erna Kristín Elíasdóttir og Telma Ólafsdóttir.

24 maí 2018

Brautskráning 26. maí

Laugardaginn 26. maí verða 79 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Brautskráðir verða 6 vélstjórar með A-réttindi, 1 af lista- og nýsköpunarbraut, 4 með skipstjórnarpróf A, 1 með skipstjórnarpróf B, 2 sjúkraliðar, 7 húsasmíðir og 62 stúdentar. Athöfnin fer fram frá Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00. 

Við vekjum athygli á að streymt verður frá útskriftinni og verður hægt að horfa hér.