4 sep 2023

Stöðupróf í dönsku og spænsku í MS

Vekjum athygli á að Menntaskólinn við Sund býður nú upp á stöðupróf í dönsku og spænsku.

Prófin verða þriðjudaginn 26. september kl. 12:00.

Athugið að í stöðuprófi er gert ráð fyrir sérstakri færni í tungumálinu t.d. ef um er að ræða annað móðurmál viðkomandi eða búsetu erlendis. Skólinn byggir á viðmiðum evrópsku tungumálamöppunnar og kallar til fagaðila sem framkvæma munnlegt og skriflegt mat á nemendum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Menntaskólanum við Sund

4 sep 2023

Heimsókn í Safnahúsið

Nemendur í íslensku sem öðru máli fóru á dögunum í heimsókn í Safnahúsið. Sigmar safnvörður sýndi þeim bókasafnið þar sem m.a. er að finna sérstakar hillur með bókum á pólsku og tælensku. Pólska hillan er nokkuð vel útilátin en það má bæta hressilega við tælenska bókakostinn. Að því loknu leiddi Sigmar okkur upp á aðra hæð þar sem er að finna myndlistarsýninginguna "Paradise lost: Daniel Solander's legacy". Sýningin er á vegum sænska sendiráðsins til að minnast náttúrufræðingsins Daniel Solander sem kom m.a. í leiðangur til Íslands á 18. öld.

30 ágú 2023

Ert þú að fara að útskrifast?

Útskrift að hausti frá MÍ verður þann 20. desember n.k.

Þeir nemendur sem telja sig vera að fara að útskrifast eru hvattir til að hafa samband við Mörthu Kristínu áfanga- og fjarnámsstjóra og fara yfir málin.

 

21 ágú 2023

57 nýnemar hefja nám í MÍ

Í dag var nýnemadagur í MÍ en þá hófu 57 nýnemar nám við skólann. Á nýnemadeginum var farið yfir það helsta sem varðar skólastarfið, nemendur fóru í skoðunarferð um skólann og að lokum var þeim boðið í hádegismat í mötuneytinu.

Við í MÍ tökum fagnandi á móti þessum stóra hóp og hlökkum til að kynnast þeim.

17 ágú 2023

Stöðupróf í sænsku og norsku

Árlega býður Menntaskólinn við Hamrahlíð upp á stöðupróf í norsku og sænsku. Stöðuprófin eru einungis haldin í lok ágúst ár hvert og auglýst á heimasíðu skólans. ( breyttist 2023)

Stöðupróf í norsku og sænsku eru samin með hliðsjón af gildandi námskrá viðkomandi tungumála. Þess er gætt að haga uppbyggingu prófa með þeim hætti að þau sýni þekkingu, hæfni og leikni próftakans sem best og taka mið af lesskilningi, ritun, málfræði, orðaforða og stafsetningu. Athugið að munnlegi þátturinn er ekki prófaður.

Stöðuprófin eru fyrir einstaklinga sem hafa lokið yfirferð á námsefni á framhaldsskólastigi í norsku í Noregi eða sænsku í Svíþjóð.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Menntaskólans við Hamrahlíð

1 ágú 2023

Nýr aðstoðarskólameistari

 

Í dag, 1. ágúst, hóf Dóróthea Margrét Einarsdóttir störf sem aðstoðarskólameistari. Hún tekur við starfinu af Hildi Halldórsdóttur sem snýr nú aftur að líffræðikennslu við skólann.

Dóróthea Margrét útskrifaðist sem stúdent frá MÍ árið 2005. Hún er með BS- og MS-próf í efnafræði og diplómunám í kennslufræði og stærðfræðimenntun. Dóróthea Margrét hefur starfað við kennslu raungreina og stærðfræði við skólann frá árinu 2010. Samhliða kennslustörfum hefur hún sinnt ýmsum öðrum störfum innan skólans s.s. verkefnastjórn, sviðsstjórn raungreina, setu í sjálfsmatsnefnd, tæknihóp, gæðaráði, jafnréttisnefnd, launagreiningarteymi, starfshóp um innri úttektir og fleira.

Við bjóðum Dórótheu Margréti hjartanlega velkomna til starfa sem aðstoðarskólameistari og hlökkum til samstarfsins. 

22 jún 2023

Innritun nýnema lokið

Í dag lauk Menntamálastofnun við að innrita nýnema í framhaldsskóla. Alls voru 57 nýnemar innritaðir í MÍ. Nýnemar skiptast eftir brautum þannig:

Félagsvísindabraut 3
Grunnnám háriðngreina 4
Grunnnám málm- og véltæknigreina 13
Grunnnám rafiðngreina 3
Lista- og nýsköpunarbraut  6
Náttúruvísindabraut 10
Opin stúdentsbraut 18

 

Innritaðir nemendur eiga von á innritunarbréfi frá skólanum í pósti. Við bjóðum nýnema haustsins 2023 velkomna í MÍ og hlökkum til samstarfsins með þeim.

22 jún 2023

Lokun skrifstofu vegna sumarleyfa

Skrifstofa skólans verður lokuð vegna sumarleyfa frá 26. júní og opnar aftur 8. ágúst. Erindum sem þola ekki bið má vísa til skólameistara, Heiðrúnar Tryggvadóttur, í síma 8498815 eða heidrun@misa.is

5 jún 2023

Heimsókn frá Flensborg

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði kom í heimsókn á starfsdögum í lok maí.

Skemmtileg heimsókn sem fólst í gagnkvæmum kynningum á skólunum, vinnufundi um gervigreind og EKKÓ mál, sameiginlegum kvöldverði og skemmtun.

Þökkum Flensborgarfólki góð kynni og hlökkum til að heimsækja þau við tækifæri.

1 jún 2023

Starfsfólk kvatt

Í lok skólaárs verða oft á tíðum breytingar á starfsliði skólans.

Nú við lok vorannar var haldið kveðjukaffi fyrir þá starfsmenn sem kvöddu okkur, við þökkum samstarfsfólki okkar kærlega fyrir samfylgdina og samstarfið.

Eftirfarandi starfsmenn létu af störfum:

Auður stuðningsfulltrúi 
Jón Reynir skólameistari
Helga Björt sviðsstjóri starfsbrautar 
Helga Guðrún kennari í háriðngreinum
Ragnheiður Fossdal líffræðikennari

Megi ykkur vegna vel á nýjum vettvangi.
Kveðja,
Samstarfsfólk í MÍ