3 mar 2011

Söngkeppni 2011

Föstudaginn 25. febrúar var söngkeppni MÍ haldi í Íþróttahúsinu á Torfnesi. Fjölmörg atriði kepptu um hylli dómnefndar og um það hvert þeirra yrði fyrir valinu sem fulltrúi MÍ á söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri í apríl. Niðurstaðan varð sú að Hermann Óskar Hermannsson varð í fyrsta sæti með lagið Situatation eftir Bigga Bix. Í öðru sæti varð Agnes Ósk Marzellíusardóttir en sönghópur skipaður þeim Ásgeiri Guðmundi Gíslasyni, Freysteini Nonna Mánasyni, Magnúsi Traustasyni, Ómari Hólm og Valtý Þórarinssyni varð í 3. sæti. Húsbandið lék undir í flestum lögum og stóð sig frábærlega en það skipuðu Andri Pétur Þrastarsson á gítar, Aron Elmar Karlsson á bassa, Freysteinn Nonni Mánason á trommur og Sunna Karen Einarsdóttir á hljómborð. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var umgjörð keppninnar hin glæsilegasta og má þakka það framkvæmdastjóra keppninnar Hermanni Siegle Hermannssyni og aðstoðarmönnum hans.Myndirnar tók Stephen Albert Björnsson og einnig myndirnar sem sjá má á myndasíðunni hér til vinstri á síðunni.
15 feb 2011

Miðannarmat

Hið árlega miðannarmat verður birt á INNU fimmtudaginn 17. febrúar. Umsjónartími vegna miðannarmats verður í fundartíma fimmtudaginn 24. febrúar.
10 feb 2011

Gettu betur

Lið MÍ beið lægri hlut fyrir firnasterku liði Kvennó í 16 liða úrslitum Gettu betur í gær. Kvennaskólinn fékk 26 stig en MÍ 10. Þau lið sem komust áfram í þessari umferð auk Kvennaskólans eru FSU og Borgarholtsskóli. Þrátt fyrir tapið finnst okkur strákarnir hafa staðið sig vel í undirbúningnum og keppninni og við hlökkum til að sjá þá mæta gallvaska til leiks næsta vetur.
8 feb 2011

Galíleósjónauki að gjöf

Á dögunum barst okkur í MÍ gjöf frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Jón Sigurðsson fulltrúi félagsins færði skólanum einkar glæsilegan Galíleósjónauki sem gerir okkur kleift að skoða himintunglin eins og Galíleó sá þau og jafnvel enn betur. Einnig fylgdi með heimildarmyndin Horft til himins og eintak af tímariti Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness frá ári stjörnufræðinnar 2009. Við sendum Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness okkar bestu þakkir fyrir gjöfina.


Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um sjónaukann eða hafa almennan áhuga á stjörnufræði geta skoðað stjörnufræðivefinn sem tengist verkefninu. En stjörnufræðivefurinn er íslenskur alfræðivefur um allt sem viðkemur stjörnufræði. Honum er ætlað að efla áhuga almennings á stjörnufræði og auðvelda aðgengi að efni um stjörnufræði á íslensku.

stjornuskodun.is

6 feb 2011

MÍ áfram í Gettu betur!

Fyrstu umferð Gettu betur lauk föstudagskvöldið 4. febrúar. Lið MÍ sem er skipað þeim Daníel Rafni Kristjánssyni, Gauta Geirssyni og Hallberg Brynjari Guðmundssyni bar þar sigurorð af liði Verkmenntaskólans á Akureyri. MÍ-ingar fengu 17 stig en lið VMA 9. Dregið hefur verið í 16 liða úrslit og mun lið MÍ mæta harðsnúnu liði Kvennaskólans í beinni útsendingu á Rás 2 miðvikudaginn 9. febrúar kl. 19:30. Áfram MÍ!

18 des 2010

Jólaútskrift

Laugardaginn 18. desember voru 7 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Nemendur fengu afhent prófskírteini og viðurkenningar og Kór MÍ söng undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Þau sem brautskráðust að þessu sinni voru Hilmar Örn Þorbjörnsson úr A-námi vélstjórnar, Ásrún Lárusdóttir og Kristín Úlfarsdóttir af sjúkraliðabraut, Erla Pálsdóttir og Sigríður Ágústa Finnbogadóttir af félagsfræðabraut og Erla Sighvatsdóttir og Snorri Karl Birgisson af náttúrufræðibraut. Þær Ásrún og Kristín fengu viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í hjúkrunargreinum og Erla Sighvatsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í náttúrufræðigreinum og á stúdentsprófi. Skólinn óskar þeim öllum  innilega til hamingju með áfangann sem og gæfu í framtíðinni.
8 des 2010

Saga MÍ til 2008


Bókartíðindi


Saga Menntaskólans á Ísafirði til 2008


Björn Teitsson

 

Í tilefni af 40 ára afmæli Menntaskólans á Ísafirði haustið 2010 var ákveðið að gefa út sögu hans. Björn Teitsson, sagnfræðingur, sem var skólameistari við skólann 1979-2001, samdi texta bókarinnar. Í bókinni er fjallað um aðdraganda að stofnun skólans og baráttu heimamanna fyrir menntaskóla. Ritið er vönduð skólaskýrsla, sett fram á aðgengilegan hátt eftir tímabilum. Umtöluð mál sem komið hafa upp innan skólans og eftirmál þeirra fá hér umfjöllun. Í rammagreinum eru rakin æviatriði allra skólameistara og ýmissa annarra. Með sama hætti er birt efni af léttara tagi úr skólalífinu. Bókina prýðir fjöldi mynda, m.a. ljósmyndir af árgöngum brautskráðra nemenda 1974-2008. Í viðauka eru skrár yfir nöfn kennara og þeirra nemenda skólans árin 1970-2008 sem gengust undir próf að loknu námi í einn vetur eða eftir atvikum eina námsönn og höfðu útskrifast vorið 2008. 

Menntaskólinn á Ísafirði 448 bls.

ISBN 978-9979-70-770-7

Leiðb. verð kr. 5990  

Bækurnar eru fáanlegar í verslunum Eymundson og Pennans.


Tilboð
Öllum nemendum sem útskrifast hafa frá MÍ og fyrrverandi starfsmönnum skólans gefst kostur á að fá bókin á kr. 4.900. Þeir sem hafa áhuga að fá Sögu MÍ á tilboðsverði geta haft samband við skrifstofu skólans í síma 450 4400 eða sent tölvupóst á misa@misa.is.


Jón Reynir Sigurvinsson
skólameistari
30 nóv 2010

Enska 403 - fréttablað

Nemendur í áfanganum ENS 403 hafa sett saman fréttablað um heimabæ sinn Bolungarvík. Í fréttablaðinu sem kallast The Lighthouse eða vitinn, er fjallað um ýmislegt sem Bolungarvík hefur upp á að bjóða. Blaðið er hægt að nálgast með því að smella hér.
22 nóv 2010

Valáfangar á vorönn

Eftirtaldir valáfangar verða í boði á vorönn ef næg þátttaka fæst:
BJM202 - Björgunarmaðurinn, í samstarfi við Slysavarnarskóla Íslands
DNS101- Dans
FJÖ102 - Fjölmiðlafræði, m.a. fyrir þá nemendur sem koma að vinnslu á skólablaði og Sólrisuútvarpi
ÍÞF102 - Íþróttafræði og þjálffræði
KÓR302 - Kór MÍ
Þeir sem vilja taka einhverja af þessum áföngum á vorönn eru vinsamlegast beðnir að skrá sig hjá ritara í síðasta lagi 26. nóvember.

12 okt 2010

VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna í heimsókn

Skólinn fékk á dögunum heimsókn frá VM félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Formaður félagsins Guðmundur Ragnarsson kom og ræddi félagsmál við nemendur og kennara í vélstjórnarnámi og grunndeild málmiðngreina.  Með honum í för voru Halldór A Guðmundsson og Vignir Eyþórsson frá mennta - og kjarasviði félagsins, Áslaug R Stefánsdóttir skrifstofu og fjármálastjóri og Guðmundur Sigurvinsson.  Þau komu ekki tómhent því þau færðu skólanum að gjöf 40 vinnusloppa auk veglegrar bókagjafar. VM eru færðar kærar þakkir fyrir þessar gjafir sem munu koma sér vel. Meðfylgjandi myndir voru teknar við þetta tækifæri og einnig eru nokkrar myndir á myndasíðunni.